image
17.04.2020

Blöndulína 3 - Drög að tillögu að matsáætlun í kynningu

Uppbygging nýrrar kynslóðar byggðalínu er hafin og er fyrsti áfanginn í þeirri uppbyggingu þrjár nýjar 220 kV háspennulínur á Norður- og Austurlandi. Þær eru Kröflulína 3 frá Kröfluvirkjun í Fljótsdalsstöð, en framkvæmdir við lagningu hennar eru þegar hafnar. Hólasandslína 3 er síðan fyrirhuguð frá Hólasandi til Akureyrar og er umhverfismati á þeirri leið lokið og gert er ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á þessu ári. Þriðja línan er svo Blöndulína 3, og mun hún tengja Akureyri við Blönduvirkjun. Lega línunnar er fyrirhuguð um fimm sveitarfélög Húnavatnshrepp, Sveitarfélagið Skagafjörð, Akrahrepp, Hörgársveit og Akureyrarbæ. Umhverfismat framkvæmdarinnar er hafið og liggja fyrir drög að tillögu að matsáætlun.

Fyrir liggur eldra umhverfismat á línuleiðinni en með tilliti til breyttra áherslan í umhverfismati, m.a. kröfu um nánari umfjöllun um valkosti framkvæmda verður unnið nýtt umhverfismat fyrir línuna.

Samráð og samtal við samfélagið

Í ferlinu er lögð áhersla á að eiga samtal við hagsmunaaðila og hefur m.a. verið stofnað verkefnaráð Blöndulínu 3 þar sem í sitja fulltrúar frá sveitarfélögum, náttúruverndarsamtökum, atvinnuþróunarfélögum, fræðasamfélaginu og fleirum. Haldnir hafa verið tveir fundir frá stofnun ráðsins þann 6. nóvember sl. og einnig hafa verið haldni fimm opnir fundir í vetur fyrir íbúa og landeigendur á svæðinu

Í gegnum samráð og samtal, rannsóknir og greiningar verður farið í gegnum mat á umhverfisáhrifum og við fáum betri mynd á hvert verkefnið er, hvað er hægt að gera og m.a. hvar og hvernig línuleiðinni verður háttað.
Drög að tillögu að matsáætlun eru nú tilbúin til kynningar og er hægt að senda inn athugasemdir og ábendingar til 27. apríl n.k..

Í drögum að tillögu að matsáætlun sem er fyrsta skref í ferli mats á umhverfisáhrifum framkvæmda kemur m.a. fram lýsing á framkvæmdinni, hvernig fyrirhugað er að meta umhverfisáhrif hennar, þeir valkostir kynntir sem áætlað er að taka til mats og rökstuðningur fyrir því vali. Unnið hefur verið með verkefnaráði, landeigendum og íbúum á svæðinu í greiningu á hugsanlegum valkostum og má m.a. sjá afrakstur þeirrar vinnu í þeim drögum sem nú er til kynningar. Á heimsíðu Landsnets er sérstakt svæði helgað framkvæmdinni Blanda – Akureyri, og má nálgast það frá tenglinum „Framkvæmdir“ á heimasíðunni., Þar má finna allt um fundi verkefnaráðs Blöndulínu 3, sem og fundi með landeigendum og íbúum, samantektir funda, kynningar frá fundum og samantekt vinnu frá vinnustofum vegna greininga á valkostum.

Við hvetjum íbúa á svæðinu sem aðra sem áhuga hafa að taka þátt í samráðinu, senda inn ábendingar þegar það er í boði s.s. eins og nú við drög að tillögu að matsáætlun, mæta á opna fundi sem haldnir eru reglulega og taka þátt í samtali og samráði með okkur, það skiptir máli fyrir samfélagið að sem best sátt náist um uppbyggingu línunnar sem er ætlað að vera hluti að nýrri kynslóð byggðarlínu sem fleytir okkur inn í framtíðina.

Elín Sigríður Óladóttir
Samráðfsulltrúi


Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?