image
28.04.2020

Engin stór vandamál, bara verkefni

„Það má í raun segja að við þurftum bara nokkra klukkutíma til að koma öllu okkar fólki, sem þurfti að fara í heimavinnu, af stað án vandræða og án öryggisfrávika“ segir Jón Elías Þráinsson UT öryggisstjórinn okkar en við náðum einum rafrænum kaffibolla með honum í morgun og smá spjalli um upplýsingaöryggismálin.

Við hjá Landsneti leggjum mikla áherslu á upplýsingaöryggi í daglegum rekstri, sama hvort við erum heima eða að heiman. Við störfum í umhverfi þar sem kröfur eru að sífellt að aukast og tæknin að breytast. Við þurfum að vera tilbúin til að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir hverju sinni. Áskorun eins og að vera með stærstan hluta okkar fólks heima eins og raunin hefur verið síðustu sjö vikurnar.

„Við vorum í raun í allt annarri stöðu en mörg fyrirtæki sem ég hef heyrt af, bæði hér heima og erlendis. Við áttum ferla og reglur  sem við gátum leitað í og vorum byrjuð að fartölvuvæða stærstan hluta starfsfólks okkar og hugbúnaðurinn sem þurfti til var til staðar“ segir Jón Elías en bendir á að kannski hafi stærsta vandamálið, ef vandamál mætti kalla, væri að sumir voru ekki vanir fjarfundafyrirkomulaginu og áttu í vanda með heyrnatól og annað slíkt. 

„Við höfum sem betur fer sloppið við stór vandamál þessar vikurnar, við erum með góðar varnir sem hafa gripið það sem upp hefur komið og það er gaman að segja frá því að eitt kerfið sem við höfum  fór á hliðina daginn sem við fórum heim af því að það þekkti ekki þessa hegðun eða staðsetningar sem voru að berast. En það fór allt vel, við þurftum bara að „segja“ kerfinu frá því og síðan þá hefur þetta gengið vel“ segir  hann glaður yfir að vandamálin séu ekki stærri en raun ber vitni. 

Spurður að því hver helsta áskorunin í deginum sé segir hann það bæði að halda fókus í öllum fjarfundunum og öryggislega séð eru það allir þessir óprúttnu aðilar sem fara af stað í ástandi eins og þessu.

„Við sjáum og heyrum af fjölda vefveiða eða „fishing“ pósta sem hefur fjölgað og mörg fyrirtæki hafa orðið vör við mikla fjölgun slíkra pósta. Við höfum ekki séð þetta hjá okkur  í mjög miklu mæli en ég var á fundi með kollegum mínum í gær og þar er þetta mikið vandamál. Fyrir mig sjálfan er áskorunin sú að fara út eftir langan dag og hreinsa hugann og góð leið til þess er að hjóla. Ég tók hjólið í gegn um helgina og hjólaði um allt höfuðborgarsvæðið í þessu dásamlega veðri sem okkur var boðið upp. Frábær leið til að losa hugann við UT öryggið en að sjálfssögðu fylgi ég öllum öryggisstuðlum á hjólinu, hvort sem það er hjálmur eða fjarlægðir“ segir Jón Elías og sagði fulla ástæðu til þar sem fjöldi fólks var á öllu göngu- og hjólastígum.

Hvað sé framundan segir Jón Elías að vonandi styttist í að allt komist í eðlilegan farveg, hann fylgist vel með þróuninni bæði hér heima og erlendis og segir mikilvægt að við förum varlega svo að við fáum ekki seinni bylgju faraldurs í haust og með þeim orðum var kaffið orðið kalt og næsti fundur að hefjast í rafheimum. 

 

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?