image
28.05.2020

Raforkuverð vegna flutningstapa

Raforkuverð vegna flutningstapa verður 3.786 kr/MWst fyrir þriðja ársfjórðung 2020.

Nýverið voru opnuð tilboð í raforku sem áætlað er að muni tapast á þriðja ársfjórðungi, en Landsnet býður fjórum sinnum á ári út alla þá orku sem tapast í flutningskerfinu.

Flutningstöp er sú raforka sem tapast vegna viðnáms í raflínum og spennum í raforkuflutningskerfinu. Um 2% þeirrar raforku sem mötuð er inn á kerfið tapast á leið til notenda. Sú raforka samsvarar um 400 GWst/ári sem jafngildir framleiðslu Kröflustöðvar eða raforkunotkun um 1.500 rafmagnsbíla á einu ári. Samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 ber Landsneti að útvega rafmagn í stað þess sem tapast í kerfinu.

Boðnar voru út tvenns konar vörur. Annars vegar er um að ræða grunntöp með fullum nýtingartíma og hins vegar eru það viðbótartöp með 41% nýtingartíma og sveigjanleika sem nemur magn aukningu eða – minnkun um +/- 30%. Alls voru um 88 GWst af raforku boðin út en það er sú raforka sem áætlað er að tapist í flutningskerfinu á næsta ársfjórðungi. Á sama tímabili 2019 voru boðin út 93 GWst. Raun flutningstöp þess tímabils voru um 81 GWst en flutningur til dreifiveitna og stórnotenda reyndist minni en áætlað var.

Meðalverð þessa útboðs lækkar um 3,9% miðað við sama tíma í fyrra en 12% frá síðasta ársfjórðungi. Raforkuverð vegna flutningstapa á þriðja ársfjórðungi 2020 verður 3.786 kr/MWst. Gjald vegna flutningstapa fyrir sama tímabil verður 75,38 kr. á MWst og lækkar úr 99,85 kr. á MWst, eða um 24,5% milli ársfjórðunga og um 5% frá sama tímabili í fyrra.

Að þessu sinni var samið  við þrjá raforkusala, Íslenska orkumiðlun, HS Orku og Orku náttúrunnar á grundvelli þeirra tilboða sem bárust og er heildarkostnaður um 332 millj. kr. Til að geta tekið þátt í rafrænum útboðum á raforku vegna flutningstapa þurfa raforkusölufyrirtæki að gera rammasamning við Landsnet. Rammasamningur skyldar þó ekki fyrirtæki til þess að taka þátt í útboðunum, enda er það val hvers sölufyrirtækis hverju sinni. Í dag eru 5 raforkusalar með rammasamning við Landsnet: HS Orka, Íslensk orkumiðlun, Landsvirkjun, Orka náttúrunnar og Orkusalan.

Öll tilboð sem bárust vegna útboðsins eru birt á www.landsnet.is og þar er hægt að skoða nánar dreifingu tilboða og bera saman við tilboð fyrri útboða.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?