image
01.07.2020

Landsnet leggur línur – í jörð

Rafvædd framtíð er kjarninn í framtíðarsýn okkar hjá ​Landsneti. Nútímasamfélög treysta á áreiðanlega afhendingu raforku. Flutningskerfi Landsnets er þannig lykil innviður íslensks samfélags og þarf að vera bæði áreiðanlegt og traust. Á sama tíma þarf flutningskerfið að vera byggt upp með nútímalegum hætti og um það þarf að ríkja eins breið sátt og mögulegt er. Þær leiðir sem farnar verða þurfa í senn að taka tillit til þarfa samfélagsins á hverjum tíma ásamt því að sýna ábyrgð í umgengni við náttúruna.

Í dag rekum við háspennulínur sem eru um 3360 km að lengd, þar af eru 261 km í jörðu. Í ár eru óvenju mörg jarðstrengjaverkefni í gangi hjá okkur sem gaman er að vekja aðeins athygli á.

Sum þessara verkefna hafa verið í bígerð undanfarin ár en var flýtt og eru nú hluti af inniviðauppbyggingu stjórnvalda í kjölfar óveðursins sem var í desember 2019. 

Ber þar kannski fyrst að nefna Sauðárkrókslínu 2 og Neskaupstaðarlínu 2 sem tvöfalda tengingar þessara staða við flutningskerfið. Það er engum blöðum um það að fletta að þessar nýju línur, sem eru að öllu leyti í jörðu, munu bæta afhendingaröryggi raforku gríðarlega. Neskaupstaðarlínan er að hluta til lögð í sérstakan stokk í Norðfjarðargöngunum sem gert var ráð fyrir við hönnun þeirra.

Á höfuðborgarsvæðinu verða Rauðavatnslína 1 og Korpulína 1 lagðar í jörð. Nú er Rauðavatnslínan að hálfu leyti í jörðu en lagður verður nýr jarðstrengur alla leið frá Geithálsi að aðveitustöð A12 við Rauðavatn. Byggð hefur þróast á þann hátt að hún er komin upp að Korpulínunni, auk þess sem línan stendur í vegi fyrir fyrirhuguðum kirkjugarði.

Á Akranesi er hafin lagning Akraneslínu 2, milli Akraness og Brennimels. Sú lína er 66 kV og verður í jörð að öllu leyti. Strengurinn verður lagður í tveimur áföngum, tæpir 4 km við Akranes í ár og síðari áfanginn sem er um 16 km verður lagður árið 2022.

Í Fljótsdal er verið að vinna við strenglögn sem mun tengja Kröflulínu 3 inn í tengivirkið. Þar er um að ræða 220 kV jarðstreng og er það flutningsmesti jarðstrengur sem lagður hefur verið hérlendis.

Auk þessara verkefna, sem talin eru upp hér, er nú unnið að undirbúningi strenglagnar í væntanlegri Hólasandslínu 3. Áformað er að leggja þar 10 km langan 220 kV jarðstreng út frá tengivirkinu á Rangárvöllum á Akureyri. Landsnet hefur boðið út byggingu brúar yfir Glerá, sem mun verða strengja- og útivistarbrú, auk þess sem ídráttarrör fyrir strenginn hafa verið lögð í Eyjafjarðará.

Undirbúningur er á lokastigum vegna lagningar Lækjartúnslínu 2, milli nýs tengivirkis við Lækjartún í Ásahreppi og Hellu. Sú lína verður að öllu leyti í jarðstreng, 132 kV en verður rekin á 66 kV þar til flutningsþörf kallar á spennuhækkun. Fyrirhugað er að framkvæmdir hefjist í lok árs.

Við hjá Landsneti fylgjum stefnunni sem stjórnvöld hafa markað um lagningu jarðstrengja í flutningskerfinu. Landsnet kappkostar að leggja línur á lægri spennustigum (66 kV og 132 kV) í jörðu, þar sem kerfisaðstæður leyfa slíkt. Að jafnaði er meira svigrúm til jarðstrengslagna á lægri spennustigum en það er því miður svo að raftæknilegar aðstæður sums staðar á landinu leyfa afar takmarkaðar jarðstrengslagnir, jafnvel á 66 kV spennu. Á þetta hefur Landsnet margoft bent og að skoða þurfi aðstæður og greina hvert tilfelli fyrir sig. Jarðstrengir í flutningskerfinu eru nefnilega takmörkuð auðlind.

Magni Þór Pálsson
Verkefnastjóri rannsókna 

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?