image
14.10.2020

Varaaflið, súrdeigsbrauð og baráttan um lyklaborðið #LandsnetslífiðátímumCovid

„Mér líður bara nokkuð vel og verkefnin mín eru á áætlun. Það hefur verið mikið að gera og það hefur ekki truflað mig mikið að vera að vinna heima en heimavinnunni fylgja auðvitað bæði kostir og gallar“ segir Víðir Már Atlason verkefnastjóri á framkvæmdarsviðinu okkar.

Í kaffibollaspjalli morgunsins var hugmyndin að ræða eitt af þeim spennandi verkefnum sem hann hefur verið að vinna að undanfarið í heimavinnunni - m.a. kaup og uppsetningu á varaafli.

„Vinnan við þetta verkefni hefur gengið vel, þetta er flott samstarfsverkefni sem bæði stjórnstöð og þróunar- og tæknisviðið okkar tóku þátt í sem og Rarik og HS veitur. Fyrir mig var innkaupaferlið með öðrum hætti en við höfum verið að gera hingað til og var það áskorun. En niðurstaðan góð og þetta ,samningskaup í stað opins útboðs, er leið sem við munum væntanlega nýta í fleiri verkefnum. Staðan í dag er þannig að vélarnar eru á leið í prófanir í þessari viku og fara síðan í skip og við reiknum með þeim hingað í byrjun nóvember“ segir Víðir.

Vélarnar koma hingað frá Frakklandi og um leið við fórum að tala um Frakkland snérist spjallið um mat og við ákváðum að varaaflið fengi bara sinn eigin pistil í kjölfarið.

Víðir er að byrja fjórðu vikuna þar sem hann hefur verið meira og minna heima að vinna og segir að vinnudagurinn hefjist um leið og strákurinn hans röltir í skólann. Hann segir Daginn byrja í raun fyrr en áður og vinnudagurinn almennt séð lengri og hættan sé að menn gleymi að standa upp og anda og taka jógað sem skiptir hann máli.

„Þegar það er mikið að gera, ef það er álagspunktur, þá er hættan að skilin á milli vinnu og einkalífs hverfi, það skiptir miklu máli að vera meðvitaður um það svo maður lendi ekki í vandræðum, kulnun. Kosturinn er að maður er nær fjölskyldunni og sér hana meira en áður og það er jákvæði punkturinn við þetta allt saman. Ég hef haft það markmið að reyna að taka jógað með örbylgjupizzunni en ég hef ekki alltaf náð því – því miður“ segir Víðir en hann er full hógvær þegar hann talar um örbylgjupizzur því hann er með súrdeigsmömmu og bakar brauð og pizzubotna og segir það góða núvitund í þessari stöðu fyrir utan hvað þetta smakkast ótrúlega vel.

Ein af rútínum dagsins eru rafrænir fundir með teyminu á sviðinu hans en hann hefur þó stundum misst af þeim – en reynir þá að slá á þráðinn og heyra í þeim ef eitthvað er en það stjórnast aðeins af því hvar hann er í verkefnunum. Stundum sé líka barátta um lyklaborðið við teymið heima sem saman stendur af hundum og köttum sem halda að þeir eigi lyklaborðið. Hvort baráttan við lyklaborðið séu kostur eða galli má svo deila um en fram undan hjá Víði er dagur fullur af framkvæmdaverkum og vonandi jógastund í hádeginu.

Myndin er af kettinum Dorrit, sem er æðsti stjórnandi fjórfætlinga heimilisins og sú sem á í mestum deilum um eignarhald tölvunnar.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?