image
19.10.2020

„Dagarnir eru oft allskonar en við gerum auðvitað okkar besta…“ #landsnetslífiðátímumCovid

Sagði Birkir Heimisson sérfræðingur okkar í stafrænni þróun raforkuflutningskerfisins þegar hann var spurður um lífið í heimavinnunni en þennan morguninn var konan hans, Hafdís, í sóttkví, annað barnið á leikskólanum, hitt heima með hitavellu og nóg að gera í vinnunni. ​

„Þetta er náttúrulega púsl að vinna heima við þessar aðstæður en einhvern veginn hefst þetta allt saman. Það er heilmikið að gera í vinnunni og við höfum verið að finna nýjar leiðir til að láta verkefnin okkar ganga upp. Við erum ekki í auðveldri stöðu til dæmis þegar kemur að prófunum á stafrænum stjórnbúnaði, en til dæmis tókst okkur um daginn að gera fjarprófanir á stjórnbúnaði (svokölluðum róunarbúnaði) á einni af stærstu vatnsaflsvél landsins. Þar var sko hugsa út fyrir boxið þar sem slíkt hafði aldrei verið gert áður.“

Það er svo sannarlega hugsað í lausnum og eftir að hafa reynt hátt í tvö ár að finna tíma fyrir erlendan framleiðanda búnaðar, erlenda ráðgjafa og hér heima fyrir okkur hjá Landsneti og í þessu tilfelli Landsvirkjun, til að fara í prófanir upp í Búrfelli II. Þá má segja að Covid tíminn hafi hjálpað til og ákveðið var að láta reyna á prófun í rafheimum.

„Við höfum verið í vandræðum að ná öllum saman m.a. þeim tíma sem hentaði rekstrinum, vatnsbúskapnum og ferðalögum erlendra aðila en í ljósi Covid og rafrænna funda var ákveðið að prufa að taka prófunina rafrænt og gekk það ótrúlega vel og við munum örugglega gera meira af því héðan í frá.“

Birkir er líka þessa dagana að taka þátt í stórri breskri rafrænni ráðstefnu og segir það skrýtið að finna ekki strauma og sjá andlit þegar maður er að tala.

„Eins og auðvitað allir sem eru í þessari stöðu þekkja þá er það mjög sérstakt að halda fyrirlestur á þessum tímum og geta í raun ekki séð á fólki hvernig það upplifir það sem maður er að segja. Þessu fylgja líka kostir og það má fá hellings lærdóm út úr þessu og í framtíðinni verður þetta örugglega allt í bland því það kemur fátt í staðinn fyrir mannleg samskipti.“

Teymið hans Birkis á þróunar- og tæknisviði gerir eitt og annað til að halda samskiptunum gangandi; opnar og lokar deginum saman á netinu og tekur þannig púlsinn bæði á verkefnum og líðan.  Og talandi um líðan og hvað fólk gerir til að halda geðheilsunni á þessum tímum þá virðist sem  næstum allir hjá Landsneti séu komnir í súrdeigið, amk til að reyna að bæta upp missinn af mötuneytinu í hádeginu.

Birkir fer út að hjóla því hann er svo heppinn að vera nýbúinn að eignast gott fjallahjól og notar tækifæri þegar það gefst til að fara út að hjóla og nýtir þá auðvitað á línuvegina í kringum höfuðborgarsvæðið.

Og já, Birkir er einn af súrdeigsbökurunum og var einmitt að skella í eitt brauð þegar við heyrðum í honum. 

„Ég eins og allir hinir er kominn í súrdeigið“ segir hann hlægjandi og segir kannski meira í gríni en alvöru að deigið sé hið nýja gæludýr því það þurfi að hugsa eins um það.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?