image
23.03.2021

Holtavörðuheiðarlína 1 – hluti af nýrri kynslóð byggðalínu

Byggðalína er samheiti yfir 132 kV raflínur sem liggja frá Brennimel í Hvalfirði um Vestur- og Norðurland, Austur- og Suðausturland og enda í Sigöldu að Fjallabaki.

Hún er að mestu leyti byggð með tréstaurum og var fyrsti hluti hennar, Rangárvallalína 1 á milli Akureyrar og Varmahlíðar tekin í notkun árið 1972. Hringnum var svo lokað með Sigöldulínu 4 árið 1984, 10 árum eftir að hringvegur um landið var opnaður með tilkomu brúar yfir Skeiðará.  Með byggðalínunni náðist sá merki áfangi að landið var orðið hringtengt sem hafði mikil áhrif á afhendingaröryggi rafmagns á landsvísu og auðveldaði aðgengi að raforku sem hefur án efa átt stóran þátt í að bæta lífskjör fólks um landið allt á síðustu áratugum. 

Samfélagsþróun og tæknibreytingar kalla á aukna raforkunotkun
En ekkert er eilíft. Á næsta ári mun elsti hluti byggðalínunnar ná þeim merka áfanga að verða 50 ára, sem einmitt er áætlaður líftími raflína á Íslandi. Á þessum tæpu 50 árum sem hún hefur þjónað landsmönnum hefur raforkunotkun landsmanna aukist mikið. Landsmönnum hefur fjölgað, atvinnustarfsemi hefur byggst upp og stórum og meðalstórum raforkunotendum hefur fjölgað.  Samfélagsþróun og tæknibreytingar sem orðið hafa síðustu áratugi kalla einnig á aukna raforkunotkun og meiri kröfur eru gerðar um afhendingaröryggi raforku. Þetta hefur valdið því að flöskuhálsar hafa myndast í raforkukerfinu með þeim afleiðingum að ekki er mögulegt að bæta við raforkunotkun á landinu sem neinu nemur og stendur það eðlilegri atvinnu- og byggðaþróun fyrir þrifum. 
Sé horft til framtíðar mun ný byggðalína gera okkur í stakk búin til að taka orkuskipti alla leið. Markmið um kolefnishlutlaust Ísland kallar á áreiðanlegt raforkukerfi með nægilega flutningsgetu til að mögulegt sé að skipta alveg út jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda endurnýjanlega orkugjafa. Þróun  á markaði með raforku og aðferðir til orkuöflunar, kalla einnig á að kerfið sé í stakk búið til að taka við auknum sveiflum í flutningi á milli svæða og landshluta eftir því hvernig vindar blása. Því er mikilvægt að fullnægjandi tengingar séu til staðar. 

Úr trémöstrum í stál

Nýrri kynslóð byggðalínu er ætlað það hlutverk að bæta úr þessum vanköntum. Hún verður rekin á hærra spennustigi eða 220 kV og byggð úr stálröramöstrum sem þola betur óveður og ísingu og mun því auka afhendingaröryggi. Möstrin verða með sama lagi og trémöstur gömlu byggðalínunnar en stærri og eins færri, þar sem lengra haf verður á milli mastra. Hærra spennustig gerir það að verkum að hægt verður að flytja meiri raforku á milli landshluta, sem hafa mun jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu auk þess sem hægt verður að nýta betur núverandi orkuframleiðslumannvirki og vatnasvæði en mögulegt er í dag. Þetta tengist einmitt stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, en eitt af forgangsverkefnum ríkisstjórnarinnar er að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð með því að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu. 

Holtavörðuheiðarlína
Fyrsti hluti nýrrar kynslóðar byggðalínu mun liggja frá Hvalfirði og austur á land. Þessum hluta verður skipt upp í alls fimm línuframkvæmdir ásamt byggingum nokkurra tengivirkja. Línurnar munu allar verða sambærilegar að gerð og flutningsgetu og tengivirkin verða yfirbyggð og af fullkomnustu gerð sem völ er á.  Þegar eru hafnar framkvæmdir við Kröflulínu 3 og Hólasandslínu 3 sem tengja Fljótsdalshérað og Akureyri með viðkomu í Kröflu. Í framhaldi er ætlunin að halda áfram að Blönduvirkjun með byggingu Blöndulínu 3. Eins er fyrirhugað að hefja framkvæmdir við Holtavörðuheiðarlínu 1 frá Hvalfirði og að nýju tengivirki á Holtavörðuheiði. Lokakaflinn verður svo að tengja saman Holtavörðuheiði og Blöndu og er þá komin samfelld tenging á milli SV hornsins og Austurlands. Jákvæðra áhrifa nýju byggðalínunnar mun einnig gæta annars staðar á landinu og mun hún bæði létta á núverandi byggðalínu sunnan jökla sem og auðvelda flutning raforku inn á Vestfjarðarkerfið.
Holtavörðuheiðarlína 1 mun liggja frá Klafastöðum í Hvalfirði að nýju tengivirki á Holtavörðuheiði. Lega línunnar hefur ekki verið sett niður en núverandi byggðalínur liggja um Hvalfjarðarsveit, Skorradalshrepp, Borgarbyggð og Húnaþing vestra. Hafin er undirbúningur fyrir mat á umhverfisáhrifum þar sem unnin verður lýsing á framkvæmdinni, hvernig fyrirhugað er að meta umhverfisáhrif hennar og kynntir verða valkostir sem áætlað er að taka til mats og rökstuðningur fyrir því vali. Unnið verður með verkefnaráði og íbúum á svæðinu í greiningu á hugsanlegum valkostum um línuleið.  Upphaf framkvæmda við línuna er á framkvæmdaráætlun Landsnets í lok árs 2023.

Nánar má fræðast um nýja kynslóð byggðalínu og Holtavörðuheiðarlínu 1 í kerfisáætlun Landsnets á landsnet.is
  
Gnýr Guðmundsson
Yfirmaður greininga og áætlana í raforkukerfinu

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?