image
23.03.2021

Í áskorunum ársins fólust tækifæri

Ársskýrsla fyrir árið 2020 er komin út, ár framkvæmda, óveðurs og heimavinnu.

Af mörgu er að taka þegar horft er til baka til ársins 2020, árs sem í umræðunni hefur oft verið vísað til sem fordæmalauss ári. Það má með sanni segja að þetta hafi verið óvenjulegt ár í sögu okkar hjá Landsneti, þar sem starfsemin var meira og minna á hættu- eða neyðarstigi.

Árið hófst með óveðrum sem höfðu gríðarleg áhrif á flutningskerfið og reyndi mikið á starfsemina, sem enn var á neyðarstigi eftir óveðrið í desember árið áður. Flutningskerfið var laskað og við tók uppbygging á innviðum og verkefnum sem voru sett í forgang af stjórnvöldum í kjölfar óveðranna.

Þetta var framkvæmdaár, það mesta í sögu fyrirtækisins og unnið var í öllum landshlutum að styrkingu og uppbyggingu á fjölbreyttum verkefnum. Ný kynslóð byggðalínu var reist á Norðausturlandi, jarðstrengir lagðir víðs vegar um landið og loftlínur teknar niður á höfuðborgarsvæðinu. Unnið var að spennuhækkun á Austurlandi og vinna og undirbúningur vegna yfirbyggðra tengivirkja fór af stað. Fyrstu stafrænu tengivirkin voru tekin í rekstur á árinu og var mikil vinna lögð í að innleiða nýja tækni þar sem reynt hefur á hugvit og útsjónarsemi starfsmanna. Sú vinna mun skila sér í hagkvæmari rekstri, auknu öryggi og að lokum í samkeppnishæfari gjaldskrá. Öll þessi verkefni gengu vonum framar í umhverfi sem markað var af heimsfaraldrinum.

Örugg afhending raforku er mikilvægasta viðfangsefnið okkar og því fylgir mikil ábyrgð. Í ljósi þess var strax gripið til viðeigandi aðgerða þegar kom að því að hefta útbreiðslu COVID-19 veirunnar, bæði til að koma í veg fyrir smit innan okkar hóps og til að koma í veg fyrir að þjónusta okkar raskaðist. Stór hluti af okkar starfsfólki vann meira og minna í heimavinnu á árinu en netreksturinn og stjórnstöð unnu undir ströngum sóttvörnum. Umhverfi eins og þessu fylgdu áskoranir og starfsmannahópurinn tókst á við kringumstæðurnar af fumleysi og sveigjanleika. Í slíkri stöðu ríður á að ferlar séu skilvirkir, skýrir og öruggir.

Fjárhagsleg staða fyrirtækisins var góð en óhjákvæmilega hefur ástand á heimsvísu tímabundin áhrif á framleiðslu stórnotenda hér á landi. Áfram var unnið að að því að þróa viðskiptaumhverfið okkar með breytingu á netmála, gjaldskrá og þróun á heildsölumarkaði raforku. Orkustefna fyrir Ísland var kynnt á árinu. Áherslur hennar eru í takti við þá stefnu sem Landsnet hefur sett sér, t.a.m. hvað varðar áfallaþolna innviði, jafnt aðgengi að orku um allt land, bætta orkunýtingu og snjalltækni. Eins er kveðið á um samkeppnishæfan og virkan orkumarkað og undirbúningur að því verkefni hélt áfram á árinu.

Hjá Landsneti starfar öflugur samhentur hópur karla og kvenna sem leggja sitt af mörkum til að halda ljósunum á landinu logandi, tækjunum gangandi og orkunni flæðandi um land allt. Fyrir það erum við þakklát – við eigum samband sem ekki rofnar.

Að baki er eftirminnilegt ár – ár sem hefur skilað okkur dýrmætri reynslu sem mun nýtast í rafmögnuðum verkefnum og tækifærum framtíðarinnar.


Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri og Sigrún Björk Jakobsdóttir stjórnarformaður

Ársskýrsla 2020

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?