Samantekt yfir verkefni á framkvæmdaáætlun

Í þessum kafla má finna yfirlit yfir þau framkvæmdaverk sem eru á þriggja ára framkvæmdaáætlun Landsnets. Kaflinn byrjar á yfirliti yfir stöðu verkefna og því næst er hverju einstöku verkefni á framkvæmdaáætlun lýst í stuttu máli. Tilgangur kaflans er að lesendur geti á fljótlegan hátt glöggvað sig á þeim verkefnum sem eru á framkvæmdaáætlun og umfangi þeirra í grófum dráttum. Nánari lýsing á einstökum verkefnum má svo finna í kafla 3, þar sem ítarlega er gerð grein fyrir umfangi, útfærslum, legu og lýsingu á helsta rafbúnaði ásamt því sem valkostagreiningu nýrra verkefna eru gerð skil.

Staða verkefna á framkvæmdaáætlun

Umfang verkefna á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar er eins og því er lýst í framlögðum aðalvalkosti verkefnisins. Verði umtalsverðar breytingar á umfangi verkefnis frá þeim tíma er kerfisáætlun er afgreidd eru breytingar á umfangi kynntar í næstu útgáfu kerfisáætlunar og verkefnið þannig lagt til afgreiðslu að nýju eða þá að breyting á umfangi er lögð fyrir Orkustofnun til sér afgreiðslu. Ef sú staða kemur upp að ný verkefni koma til vegna sérstakra ástæðna í kerfinu eða vegna nýrrar notkunar og þau er ekki að finna á framkvæmdaáætlun er mögulegt að sækja um sérstaka afgreiðslu vegna framkvæmdarinnar skv. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 6. gr. laga nr. 26/2015.

Framkvæmdir hefjast 2020 2021 2022 2023
Hólasandslína 3 Kerfisáætlun 2018-2027
Lækjartún – nýtt tengivirki Kerfisáætlun 2019-2028
Lækjartúnslína 2 Kerfisáætlun 2019-2028
Korpulína 1 – endurnýjun línu Kerfisáætlun 2018-2027
Rauðavatnslína 1 - endurnýjun línu Kerfisáætlun 2019-2028
Akraneslína 2 Kerfisáætlun 2019-2028
Vopnafjarðarðalína 1 - endurbætur á línu Kerfisáætlun 2018-2027
Húsavík – ný tenging Kerfisáætlun 2015-2024
Suðurnesjalína 2 Kerfisáætlun 2018-2027
Hrútatunga - endurnýjun tengivirkis Nýtt á áætlun
Njarðvíkurheiði - nýtt tengivirki Nýtt á áætlun
Fitjar - endurbætur á tengivirki Nýtt á áætlun
Vegamót - endurnýjun tengivirkis Kerfisáætlun 2019-2028
Ísafjarðardjúp–nýr afhendingarstaður Kerfisáætlun 2019-2028
Lyklafell – tengivirki Kerfisáætlun 2018-2027
Lyklafellslína 1 Kerfisáætlun 2018-2027
Straumsvík nýr teinatengisrofi Kerfisáætlun 2018-2027
Korpa - endurnýjun tengivirkis Nýtt á áætlun
Klafastaðir - nýtt tengivirki Nýtt á áætlun
Suðurfirðir Vestfjarða - styrkingar Nýtt á áætlun
Rangárvellir - endurnýjun 66 kV spenna Nýtt á áætlun
Dalvíkurlína 2 Nýtt á áætlun
Breiðidalur - endurnýjun tengivirkis Nýtt á áætlun
Rimakotslína 2 (Hella - Rimakot) Nýtt á áætlun
Blöndulína 3 Nýtt á áætlun
Hvalfjörður - Hrútafjörður Nýtt á áætlun
Tafla 2-1 : Yfirlit verkefna á Framkvæmdaáætlun

Tafla 2-1 sýnir yfirlit yfir stöðu verkefna sem eru á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar Landsnets 2020-2029. Samþykkt verkefni voru annað hvort á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar 2015-2024, 2018-2027, 2019-2028. Önnur verkefni eru ný á framkvæmdaáætlun og hafa ekki hlotið samþykki Orkustofnunar ennþá. Auk þeirra verkefna sem talin eru upp í töflunni eru tvö verkefni sem áætlað er að byrja framkvæmdir við á því tímabili sem áætlunin nær yfir. Það eru verkefni sem snúa að styrkingum á Kópaskerslínu og endurnýjun á tengivirkinu við Sigöldu. Ástæða þess að lýsingu á þeim verkefnum er ekki að finna í þessari framkvæmdaáætlun er sú að skilgreiningu verkefnana er ólokið og aðalvalkostur liggur ekki fyrir. Verkefnin munu verða sett inn á áætlunina í næstu útgáfu kerfisáætlunar og er það ekki talið munu tefja fyrir framkvæmdum, sem áætlað er að hefjist á árinu 2023.

Framkvæmdir á yfirstandandi ári

Hér fer á eftir stutt lýsing á þeim verkefnum sem ætlunin er að hefja framkvæmdir við á yfirstandandi ári, 2020

Hólasandslína 3

Fyrirhuguð er bygging nýrrar 220 kV háspennulínu í meginflutningskerfinu á Norðurlandi. Línan, sem mun hljóta nafnið Hólasandslína 3, verður að hluta loftlína og að hluta lögð sem jarðstrengur og mun hún liggja á milli Akureyrar og Hólasands. Einnig inniheldur framkvæmdin byggingu á nýju 220 kV tengivirki á Hólasandi, ásamt byggingu á nýju 220 kV tengivirki á Akureyri sem mun tengjast núverandi 132 kV virki. Tengivirkið á Rangárvöllum mun innihalda 220/132 kV aflspenni og spólu til útjöfnunar á launafli frá jarðstrengshluta línunnar.
Þegar línan verður komin í rekstur mun afhendingaröryggi á Eyjafjarðarsvæðinu aukast til muna þar sem við bætist ný og öflug tenging inn á svæðið sem einnig mun gefa möguleika á aukinni notkun innlendra endurnýjanlegra orkugjafa á svæðinu. Framkvæmdin skipar einnig drjúgan sess í uppbyggingu meginflutningskerfisins í heild, en Hólasandslína 3 er mikilvægur hlekkur í styrkingu tengsla sterkari hluta kerfisins á suðvesturhorninu við veikari hluta þess á Norðausturlandi.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við lagningu línunnar hefjist árið 2020 og að þeim ljúki í lok árs 2021.

Lækjartún – nýtt tengivirki

Verkefnið snýr að byggingu nýs tengivirkis, sem mun bera heitið Lækjartún sem tengist 220 kV Búrfellslínu 2 (BU2) um 220/132 (66) kV aflspenni inn á 66 kV kerfið á Suðurlandi um jarðstrengi/línur að Hellu og Selfossi. Meginmarkmið verkefnisins eru að auka flutningsgetu inn á svæðisbundna flutningskerfið á Suðurlandi, auka áreiðanleika afhendingar á Suðurlandi og auka nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa með því að auðvelda orkuskipti á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í lok árs 2020 og að þeim ljúki í byrjun ársins 2022.

Lækjartúnslína 2

Verkefnið snýst um lagningu 132 kV raflínu, sem hlotið hefur nafnið Lækjartúnslína 2, í svæðisbundna flutningskerfinu á Suðurlandi. Línan mun styrkja möguleika flutningskerfisins á Suðurlandi til að afhenda aukna orku og bæta afhendingaröryggi. Lækjartúnslína 2 mun liggja á milli Hellu og Lækjartúns.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í lok árs 2020 og að þeim ljúki í byrjun ársins 2022.

Korpulína 1 – endurnýjun línu

Verkefnið snýr að strenglagningu línu í meginflutningskerfinu á höfuðborgarsvæðinu, en Reykjavíkurborg hefur óskað eftir því að Landsnet kanni möguleikann á því að setja Korpulínu 1 í jarðstreng þar sem byggðin hefur þróast á þann veg að hún er komin alveg upp að línunni.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist 2020 og að þeim ljúki sama ár.

Rauðavatnslína 1 – endurnýjun línu

Verkefnið er hluti af endurnýjunaráætlun Landsnets en hluti Rauðavatnslínu 1 er 65 ára gamall og því kominn tími á endurnýjun þess hluta. Aðalvalkostur snýr að lagningu 132 kV jarðstrengs milli Geitháls og A12 og niðurrifi núverandi loftlínu. Meginmarkmið verkefnisins er að tryggja áreiðanleika afhendingar raforku á höfuðborgarsvæðinu og minnka líkur á myndun flöskuhálsa.
Áætlað er að framkvæmdir hefjist 2020 og að þeim ljúki sama ár.

Akraneslína 2

Verkefnið snýst um fyrri áfanga endurnýjunar á tvítengingu Akraness, sem er lagning á Vatnshamralínu 2 í jarðstreng á um 4 km löngum kafla sem liggur um iðnaðarsvæði Akurnesinga. Verkefnið er hluti af endurnýjunaráætlun Landsnets, en hlutverk endurnýjunaráætlunar er að hámarka afhendingaröryggi í flutningskerfinu, tryggja samfellu í endurnýjun núverandi eigna í flutningskerfinu og lágmarka þannig uppsafnaðan vanda vegna endurnýjunarþarfar. Meginmarkmið verkefnisins er að viðhalda afhendingaröryggi á Akranesi.
Áætlað er að framkvæmdir hefjist 2020 og ljúki seinni hluta sama árs.

Framkvæmdir 2021

Suðurnesjalína 2

Verkefnið snýr að byggingu 220 kV flutningslínu á milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja. Um er að ræða aðra tengingu Suðurnesja við meginflutningskerfið en núverandi tenging er um Suðurnesjalínu 1 sem er 132 kV loftlína á milli Hamraness í Hafnarfirði og Fitja í Reykjanesbæ. Ekki er um N-1 afhendingaröryggi að ræða á Suðurnesjum þrátt fyrir að næg vinnslugeta sé á svæðinu, en vegna eðlis virkjana er eyjarekstur á Suðurnesjum illmögulegur. Því er nauðsynlegt að koma á annarri tengingu Suðurnesja við meginflutningskerfið á Suðvesturhorninu í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi á svæðinu.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í byrjun árs 2021, eða í lok árs 2020 og að þeim ljúki seinni hluta ársins 2022.

Húsavík – ný tenging

Verkefnið snýr að uppsetningu á nýjum afhendingarstað fyrir raforku á Húsavík. Núverandi tenging Húsavíkur frá Laxá, Húsavíkurlína 1, er með allra elstu flutningslínum í kerfinu og hefur um nokkurn tíma staðið fyrir dyrum að endurnýja tenginguna við bæinn. Lausnin sem stendur til að framkvæma er að tengja bæjarfélagið frá nýjum afhendingarstað á iðnaðarsvæðinu á Bakka.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist og ljúki á árinu 2021.

Vopnafjarðarlína 1 - endurbætur á línu

Verkefnið snýr að endurbótum á Vopnafjarðarlínu 1 sem er hluti af svæðisbundna flutningskerfinu á Austurlandi. Verkefnið gengur út á að breyta línunni, sem er 66 kV háspennulína, er liggur frá tengivirkinu við Lagarfoss að tengivirki rétt við Vopnafjarðarbæ, í þeim tilgangi að auka afhendingaröryggi á Vopnafirði og einnig til að minnka slysahættu við rekstur og viðhald línunnar. Línan er tréstauralína og er heildarlengd rúmlega 58 km. Hún liggur meðfram Lagarfljóti og Jökulsá Brú í Hróarstungu í átt til sjávar. Línan þverar Hellisheiði eystri, fer niður Skinnugil og upp Búrið, sem er afar torfarið og hættulegt á veturna.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist árinu 2021 og að þeim ljúki á sama ári.

Reykjanesvirkjun – stækkun tengivirkis

Undirbúningur er hafinn að stækkun Reykjanesvirkjunar, en fyrirhugað er að taka 30 MW lágþrýstivél í rekstur um áramótin 2021/2022. HS Orka hefur óskað eftir tengisamningi við Landsnet vegna þessarar stækkunar og er samningur í vinnslu.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist seinni hluta árs 2021 og að þeim ljúki seinni hluta ársins 2022.

Hrútatunga – endurnýjun tengivirkis

Verkefnið felst í byggingu nýs tengivirkis í Hrútatungu með fimm yfirbyggðum rofareitum ásamt teinatengi og þétti og tengingu núverandi lína og spennis við tengivirkið ásamt niðurrifi á eldra tengivirki.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á þriðja ársfjórðungi 2021 og að þeim ljúki í byrjun árs 2023.

Njarðvíkurheiði – nýtt tengivirki

Verkefnið snýr að byggingu nýs tengivirkis, sem mun bera heitið Njarðvíkurheiði (NJA í KKS-1 kóða). Í virkinu verður 220 kV gaseinangraður (GIS) rofabúnaður með fjórum rofareitum ásamt möguleika á að stækka um tvo reiti. Í virkinu verða einnig tveir 220/132 kV aflspennar. Fjórir 132 kV GIS rofareitir verða í tengivirkinu og mögulegt að stækka 132 kV rofabúnaðinn. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að auka afhendingaröryggið á Reykjanesi og flutningsgetuna inná svæðið.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist mitt árið 2021 og að þeim ljúki seinni hluta ársins 2022.

Fitjar – endurbætur á tengivirki

Verkefnið felst í uppsetningu á fimm nýjum 132 kV rofareitum á Fitjum ásamt því að leggja nýjan 132 kV jarðstreng milli Fitja og Njarðvíkurheiði.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í lok árs 2021 og að þeim ljúki í byrjun árs 2023.

Framkvæmdir 2022

Vegamót – endurnýjun tengivirkis

Verkefnið snýr að endurnýjun á tengivirki í svæðisbundna flutningskerfinu á Snæfellsnesi. Tengivirkið á Vegamótum er mikilvægur tengipunktur, þar sem kemur saman eina tenging Snæfellsness við meginflutningskerfið. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að tryggja áreiðanleika raforkuafhendingar á Snæfellsnesi.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist fyrri hluta ársins 2022 og að þeim seinni hluta ársins 2023.

Ísafjarðardjúp – nýr afhendingarstaður

Verkefnið snýr að uppsetningu á nýjum afhendingarstað í meginflutningskerfinu við Ísafjarðardjúp. Afhendingarstaðurinn verður tengdur við núverandi meginflutningskerfi í Kollafirði inn á Mjólkárlínu 1, þar sem byggt verður nýtt tengivirki. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að auka afhendingaröryggi flutningskerfisins á Vestfjörðum.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2022 og að þeim ljúki árið 2024. Tímasetning verkefnisins er þó með fyrirvara um framkvæmdir við Hvalárvirkjun.

Lyklafell – tengivirki

Verkefnið snýr að byggingu nýs tengivirkis í meginflutningskerfinu í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Fyrirhugað tengivirki verður staðsett við Lyklafell í landi Mosfellsbæjar og er framtíðarhlutverk þess að létta af tengivirkinu Geithálsi en þar hefur megintengipunktur höfuðborgarsvæðisins verið staðsettur um áratugaskeið. Hið nýja tengivirki verður byggt sem 220 kV tengivirki og mun það innihalda sex rofareiti.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2022 og að þeim ljúki á fyrrihluta árs 2024.

Lyklafellslína 1

Verkefnið snýr að byggingu nýrrar háspennulínu í meginflutningskerfinu. Línan sem er 220 kV loftlína mun liggja frá nýju tengivirki við Lyklafell og að tengivirkinu í Hamranesi. Tilgangur með byggingu línunnar er að tryggja möguleika á niðurrifi Hamraneslína 1 og 2 og Ísallína 1 og 2. Til þess að þetta verði kerfislega mögulegt þarf að reisa nýja línu frá Lyklafelli og að Hamranesi.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á síðari hluta árs 2022 og að þeim ljúki á fyrrihluta árs 2024.

Straumsvík nýr teinatengisrofi

Verkefnið snýst um uppsetningu á rofa í aðveitustöð álversins í Straumsvík. Verkefnið tengist byggingu Lyklafellslínu 1, sem er ætlað að leysa af hólmi tvær línur, Hamraneslínur 1 og 2, sem liggja nú frá Geithálsi í Hamranes. Til þess að svo megi verða þarf tenging að vera til staðar milli teina í álverinu í Straumsvík svo aflflutningur geti orðið í gegnum spennustöð álversins inn í Hamranes og öfugt. Landsnet mun því setja upp rofabúnað fyrir tengingu á milli teinanna. Þessi tenging er nauðsynleg til að viðhalda áreiðanleika kerfisins eftir að Lyklafellslína 1 hefur tekið við hlutverki Hamraneslína 1 og 2.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta árs 2022 og að þeim ljúki í byrjun árs 2023. Verkefnið er fljótt í framkvæmd og er tímasett til að vera lokið tímanlega fyrir spennusetningu Lyklafellslínu 1.

Klafastaðir – nýtt tengivirki

Verkefnið felst í að draga úr vægi núverandi tengivirkis á Brennimel og færa 220 kv hluta virkisins að Klafastöðum. Á KlafastöðumÞar stendur nú launaflsvirki fyrirtækisins og var það hugsað sem framtíðar staður tengivirkis á svæðinu. Markmið framkvæmdarinnar eru að tryggja öryggi afhendingar og auka áreiðanleika stærsta afhendingarstaðar Landsnets ásamt endurnýjun á eldra virki.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á seinni hluta ársins 2022 og að þeim ljúki á fyrri hluta árs 2024.

Korpa – endurnýjun tengivirkis

Framkvæmdin felst í byggingu nýs tengivirkis í Korpu og tengingu núverandi lína og spenna við tengivirkið ásamt niðurrifi á eldra tengivirki. Meginmarkmið verkefnisins er að tryggja afhendingaröryggi í Reykjavík og nágrenni.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á mitt ár 2022 og að þeim ljúki á síðari hluta ársins 2023.

Suðurfirðir Vestfjarða – styrkingar

Til að auka afhendingaröryggi á sunnanverðum Vestfjörðum stendur til að styrkja flutningskerfið þar. Það verður gert með því að auka möskvun á svæðinu með innbyrðis tengingum á milli Breiðadals, Mjólkár og Keldeyrar. Þessi framkvæmd snýr að tengingu Mjólkár og Keldeyrar. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að tryggja áreiðanleika raforkuafhendingar á sunnanverðum Vestfjörðum.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta árs 2022 og að þeim í lok árs 2023.

Rangárvellir – endurnýjun aflspenna

Verkefnið snýst um endurnýjun á 132/66 kV spennum á Rangárvöllum á Akureyri. En tryggja þarf nægilega afhendingargetu inn á 66 kV raforkukerfið á Akureyri í kjölfar spennusetningar Hólasandslínu og niðurrif á Laxárlínu 1 í kjölfarið. Það verður gert með því að auka spennaafl frá 132 kV kerfinu niður á 66 kV kerfið. Þannig verður tiltæk afhendingargeta aukinn og afhendingaröryggi fyrir sveitarfélögin í Eyjafirði tryggt.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist mitt ár 2022 og að þeim ljúki sama ár.

Framkvæmdir 2023

Dalvíkurlína 2

Verkefnið snýr að lagningu nýs 66 kV jarðstrengs á milli Dalvíkur og Akureyrar. Það er hluti af endurnýjunaráætlun Landsnets, en ákveðið var að flýta verkefninu í kjölfar truflana af völdum óveðurs veturinn 2019-2020.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist vorið 2023 og að þeim ljúki seinni hluta ársins 2024.

Breiðadalur – endurnýjun tengivirkis

Verkefnið er hluti af endurnýjunaráætlun Landsnets, en ástand virkisins er bágborið og er farið að vera ógnun við afhendingaröryggi á Vestjörðum. Meginmarkmið framkvæmdarinnar er að tryggja áreiðanleika raforkuafhendingar á norðanverðum Vestfjörðum.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á fyrri hluta ársins 2023 og að þeim ljúki í lok árs 2023.

Blöndulína 3

Verkefnið snýst um lagningu 220 kV línu á milli Rangárvalla og Blöndu, auk byggingu nýrra tengivirkja við Blöndustöð, og í Skagafirði. Einnig er áætlað að leggja 132 kV jarðstreng frá nýju tengivirki í Skagafirði til Varmahlíðar. Í kjölfar verkefnisins stendur svo til að fjarlægja Rangárvallalínu 1. Uppruni verkefnisins er langtímaáætlun kerfisáætlunar, en Blöndulína 3 er mikilvægur hluti af nýrri kynslóð byggðalínu, sem ætlað er að tryggja afhendingaröryggi á landinu og auka afhendingargetu á afhendingarstöðum Landsnets.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á fyrra hluta árs 2023 og að þeim ljúki í lok árs 2024.

Rimakotslína 2 (Hella – Rimakot)

Verkefnið snýr að lagningu nýs 132 kV jarðstrengs, um 34 km sem mun bera heitið Rimakotslína 2. Jarðstrengurinn mun liggja frá tengivirkinu á Hellu að tengivirki í Rimakoti og er hugsaður sem hluti þess að styrkja tvítengingu Vestmannaeyja við Suðurlandskerfið. Meginmarkmið verkefnisins er að viðhalda afhendingaröryggi á Rimakoti og Vestmannaeyjum, og tryggja að flutningskerfið standi ekki í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu á svæðinu.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á fyrra hluta árs 2023 og að þeim ljúki seinni hluta ársins 2024.

Hvalfjörður – Hrútafjörður – ný tenging

Verkefnið snýr að lagningu nýrrar 220 kV loftlínu, um 91 km og hefur hlotið vinnuheitið Hrútafjarðarlína. Línan mun liggja frá tengivirkinu á Klafastöðum að nýju tengivirki á Holtavörðuheiði. Verkefnið er mikilvægur hluti af nýrri kynslóð byggðalínu en meginmarkmið með byggingu henndar er að auka afhendingaröryggi og afhendingargetu á landinu og tryggja að flutningskerfið standi ekki í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu og eðlilegri þróun byggða á landinu.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í lok árs 2023 og að þeim ljúki seinni hluta ársins 2025.