Áhrif áætlaðra fjárfestinga á flutningskostnað

Það fór væntanlega ekki fram hjá mörgum að síðasti vetur reyndi mikið á flutningskerfi landsins, sem og aðra grunninnviði. Í ljós komu veikleikar sem urðu til þess að rafmagnsleysi varð á stórum hluta landsins. Viðbrögð stjórnvalda við þessum atburðum voru auknar kröfur um fjárfestingar í grunninnviðum til að styrkja þessi grunnkerfi þjóðarinnar þannig að þau standi betur af sér þá árun sem svona veður er. Að auki bættist við heimsfaraldur með tilheyrandi lokun landsins og efnahagssamdrætti. Styrking flutningskerfisins er einnig hluti af viðbrögðum stjórnvalda við þeim samdrætti. Það hefur því verið mótuð afgerandi stefna um uppbyggingu flutningskerfisins.

Landsnet setur nú fram einungis einn uppbyggingarvalkost þar sem breytingar á flutningskostnaði eru metnar út frá fjórum mismunandi orkunotkunarsviðmyndum sem gefnar eru út af orkuspárnefnd orkustofnunnar.

Staða flutningsgjaldskrár og áhrif uppbyggingar flutningskerfisins

Flutningsgjaldskrá Landsnets er í grunninn byggð á samspili fluttrar raforku, rekstrarkostnaðar, afskrifta og arðsemi eignastofns. Það flækir hins vegar oft myndina að þessir þættir og aðrir sem skipta máli eru síbreytilegir og utan áhrifa fyrirtækisins. Flutningsgjaldskráin er því í raun byggð á kvikum grunni og mun óhjákvæmilega sveiflast í kringum meðaltal til lengri tíma.

Í þeim útreikningum sem fylgja er ekki gert ráð fyrir breytingum á ytri aðstæðum. Þá er gert ráð fyrir því í þessari áætlun að flutt raforka fylgi þeim sviðsmyndum sem Raforkuhópur orkuspárnefndar hefur skilgreint, en niðurstöður þessara útreikninga lýsa hvorki markmiðum né stefnu Landsnets í flutningsgjaldskrármálum. Tilgangurinn með þessum útreikningum er að sýna samspil þeirra þátta sem hafa áhrif á mögulega þróun flutningskostnaðar.

Áhrif framkvæmda næstu 10 ára á flutningsgjaldskrá

Til þess að meta áhrif fjárfestinga á flutningsgjaldskrá vegna raforkuflutninga þarf í grunninn að huga að tveimur þáttum. Annars vegar hvernig áætlað er að orkuflutningur muni koma til með að þróast og hins vegar tekjumörkum Landsnets. Tekjumörk eru þær heildartekjur sem félaginu er heimilt að innheimta af viðskiptavinum sínum. Tekjumörkum er skipt í tvennt, annars vegar leyfðar tekjur af dreifiveitum og hins vegar af stórnotendum. Samkvæmt raforkulögum setur Orkustofnun Landsneti tekjumörk sem byggjast á eftirfarandi: sögulegum rekstrarkostnaði, afskriftum ásamt arðsemi eignastofns og veltufjármuna.

Framlag eignastofnsins til tekjumarka er ráðandi þáttur í útreikningum þeirra en rekja má u.þ.b. 80% tekjumarka stórnotenda og 70% tekjumarka dreifiveitna til eignastofnsins. Í heildina er vægi eignastofns í tekjumörkum um 75%. Hann hefur hann því afgerandi áhrif á tekjustofn félagsins og þar með á flutningsgjaldskrá.
Tímaáætlun helstu línuframkvæmda í meginflutningskerfinu er eftirfarandi:

5-1.png

Mynd 5-1: Tímalína línuframkvæmda

Tafla 5-1 sýnir fjárfestingarkostnað á 10 ára tímabili, en samtals nemur áætluð heildarfjárfesting rúmum 90 milljörðum króna. Til samanburðar hafa fjárfestingar í flutningskerfinu undanfarin 10 ár numið að jafnaði um 3,4 milljörðum króna á ári og undanfarin fimm ár hafa fjárfestingar að jafnaði verið 4,7 milljarðar króna á ári. Stór verkefni sem áttu að vera komin til framkvæmda hafa frestast sem lækkar tölu undanfarinna ára og hækkar sömuleiðis fyrirséðan fjárfestingakostnað.


T 5-1.png

Tafla 5-1 : Heildarmagn fjárfestinga

Tafla 5-1 sýnir hvernig fjárfestingar næstu 10 ára samsettar. Um fimmtung þeirra má rekja beint til fjárfestinga í svæðisbundnu kerfunum á meðan 80% fjárfestinga eru í meginflutningskerfinu. Fjárfestingum í meginflutningskerfinu er skipt upp á milli eignastofns stórnotenda og dreifiveitna þar sem um 28% fjárfestinga í meginflutningskerfinu falla undir eignastofn dreifiveitna og um 72% tilheyra eignastofni stórnotenda. Fjárfestingar í svæðisbundna kerfinu falla að öllu leiti undir eignastofn dreifiveitna og munu því samtals tæpur helmingur áætlaðra fjárfestinga næstu 10 ára tilheyra eignastofni dreifiveitna. Þegar haft er í huga að eignastofninn er ráðandi þáttur í tekjumarka og gjaldskrárútreikningum og sömuleiðis að orkuflutningur til dreifiveitna er undir 20% af heildarflutningi má búast til að gjaldskrá dreifiveitna verði undir þrýstingi þegar fjárfestingar eru áætlaðar þetta miklar.

Mynd 5-2 sýnir mögulega þróun flutningskostnaðar til dreifiveitna. Frá árinu 2008 hafa fjárfestingar í flutningskerfinu snúið mikið að dreifiveitum. Viðbætur við eignastofn dreifiveitna hafa numið um 55% milli áranna 2009 og 2019. Á þessu tímabili hefur orkunotkun dreifiveitna einungis aukist um 10%. Þessi áhersla á fjárfestingar í kerfishluta dreifiveitna ásamt tiltölulega lítilli notkunaraukningu hafa átt sinn þátt í að þrýsta flutningsgjaldskrá dreifiveitna upp á við á undanförnu. Eins og sést gera þær allar ráð fyrir gjaldskrárhækkunum á næstu 3-5 árum en að gjaldskrá muni ná stöðugleika og lækkunarfasi hefjast á ný að þessu uppbyggingartímabili loknu. Við lok þessa tímabils mun ný kynslóð byggðalínu opna fyrir alls kyns mögulega atvinnustarfsemi um land allt.


5-2.png

Mynd 5-2: Möguleg gjaldskrárþróun dreifiveitna

Þegar litið er á hvernig flutningskostnaður til stórnotenda gæti þróast er myndin önnur. Sjá má miklar raunlækkanir á undanförnum árum og gjaldskrá stórnotenda er því í sögulegu lágmarki. Komandi uppbyggingartímabil mun leiða af sér tímabundna hækkun á næstu 4-5 árum en fyrirséð er að gjaldskráin muni lækka aftur frá árinu 2027. Fyrirséð er að gjaldskrá muni fara tímabundið yfir sett langtímamarkmið Landsnets frá árinu 2016 en í lok spátímabilsins er lækkunarfasi hafinn í öllum sviðsmyndum. Þó er rétt að hafa í huga að samanburður til lengri tíma leiðir í ljós að gjaldskrá stórnotenda mun haldast lægri út spátímabilið en hún var að jafnaði áður en gjaldskrármarkmið var sett árið 2016, óháð því hvaða sviðsmynd raungerist. Raungerist sviðsmynd um aukna stórnotkun mun gjaldskrá stórnotenda fara undir viðmið í lok uppbyggingartímabilsins árið 2029.


5-3.png

Mynd 5-3: Möguleg gjaldskrárþróun stórnotenda

 

Samantekt á áhrifum framkvæmda á flutningskostnað

Áhrif sviðsmynda fyrir raforkunotkun eru veruleg á mögulega gjaldskrárþróun. Í stefnu stjórnvalda er lögð mikil áhersla á styrkingar svæðisbundnu kerfanna. Undanfarin ár hefur því mikið verið lagt í styrkingar á þeim og sú áhersla mun halda áfram í náinni framtíð. Fyrirséð er að markmið Landsnets um að hækka ekki flutningskostnað til lengri tíma mun að öllum líkindum ekki standast og flutningskostnaður til dreifiveitna mun hækka. Á móti kemur að afhendingaröryggi og afhendingargeta mun aukast. Hafa þarf jafnframt í huga að þættir utan áhrifa Landsnets geta breytt þessum niðurstöðum.

Í dag er flutningskostnaður stórnotenda í sögulegu lágmarki sé miðað við fast verðlag. Það kemur að hluta til vegna þess að Landsnet ákvað að lækka tímabundið gjaldskrá á stórnotendur til að endurgreiða umframtekjur fyrri ára. Fyrir liggur að sú lækkun muni ganga til baka 1. ágúst 2020. Ef litið er til næstu tíu ára má sjá að forsendur um raforkunotkun ráða miklu um hvernig gjaldskráin mun þróast en þó er niðurstaðan í öllum sviðsmyndum að flutningskostnaður næsta áratuginn verði lægri en hann var 2015. Sé horft til þeirra sviðmynda þar sem aukning er í orkuflutningi til stórnotenda er ekki gert ráð fyrir miklum breytingum til lengri tíma litið.

Eins og fram kemur í þessum niðurstöðum er væntanleg þróun flutningskostnaðar háð breytilegum þáttum sem geta haft veruleg áhrif á flutningskostnað. Breytilegir þættir valda óvissu en geta Landsnets til að bregðast við og draga úr uppbyggingarhraða eða hætta við framkvæmdir minnkar hættu á of miklum flutningsgjaldskrárhækkunum ef raforkunotkun eykst hægar en gert er ráð fyrir. Samspil þessara þátta getur leitt til mjög breytilegra niðurstaðna, bæði til lækkunar flutningskostnaðar og hækkunar.