Flutningsgeta og afhendingaröryggi flutningskerfisins

Í kaflanum er farið yfir þær kröfur sem gerðar eru til flutningskerfis raforku. Gerð er grein fyrir núverandi stöðu kerfisins og núverandi flöskuhálsar útskýrðir. Fjallað er um flutningsgetu á milli landsvæða og munurinn á flutningsgetu 132 kV og 220 kV flutningskerfa útskýrður. Að lokum er þörfin fyrir nægjanlega flutningsgetu á milli landsvæða útskýrð og farið yfir hvernig búist er við að slík þörf muni þróast næstu áratugi.

Flutningskerfi raforku á Íslandi

Flutningskerfi Landsnets samanstendur af flutningslínum og tengivirkjum sem þjóna þeim tilgangi að tengja vinnslu raforku við notendur, hvort sem um ræðir dreifiveitur eða stórnotendur. Landsnet á og rekur flutningslínur á 66 kV spennu og hærri, ásamt nokkrum einstökum línum á 33 kV spennu sem þjóna svæðisbundnum kerfum. Hæsta rekstrarspenna flutningslína er 220 kV en nokkrar af þeim eru byggðar fyrir 400 kV spennu og því hægt að hækka rekstrarspennuna til að auka flutningsgetu ef þörf krefur. Heildarlengd flutningslína Landsnets er 3.360 km, sem er rétt rúmlega vegalengdin frá Reykjavík til Rómar, þar af eru 261 km í jörðu eða sjó. Lengd línukerfa eftir spennu er eftirfarandi: 220 kV línur eru 919 km, 132 kV línur eru 1.336 km, 66 kV línur eru 1.047 km og 33 kV línur eru 58 km.

Tiltæk afhendingargeta í flutningskerfinu

2-1.png

Mynd 2-1 :Tiltæk afhendingargeta í meginflutningskerfinu

Á Mynd 2-1 má sjá mat á því afli sem hægt er að flytja til viðbótar við það álag sem verður á þeim tímapunkti sem álag er mest á kerfið í heild árið 2019 skv. Raforkuspá. Utan höfuðborgarsvæðisins er svigrúmið afar lítið og víðast hvar er engu forgangsálagi hægt að bæta við. Það sem vekur athygli er að staðan innan höfuðborgarsvæðisins er farin að versna og er víðast hvar eingöngu hægt að bæta við um 0-10 MW af forgangsálagi. Ástæðan fyrir þessu er sú að þær 220 kV línur sem liggja til höfuðborgarsvæðisins eru afar misjafnar í flutningsgetu vegna leiðaragerðar og hönnunar þeirra. Þær sem lægsta flutningsgetu hafa eru að verða fulllestaðar þegar álag er mikið í Reykjavík og nágrenni.
Staðan á landsbyggðinni er svipuð og hefur áður verið. Svigrúm, upp á 10 til 30 MW, sem var til staðar á vesturhluta byggðalínu, hefur nú verið nýtt við Laxárvatn. Á norðausturhluta landsins er svo hægt að bæta við allt að 30 MW þar sem Þeistareykjavirkjun annar álagi svæðisbundið og nettó útflutningur er frá nýju 220 kV kerfi út frá Kröflu. Annars staðar á landinu er ekki svigrúm til aukningar nema komi til styrkinga flutningskerfisins og/eða byggingar nýrra virkjana.

Markmið um afhendingaröryggi

Samkvæmt raforkulögum skulu markmið um afhendingaröryggi skilgreind fyrir tímabil kerfisáætlunarinnar og koma skal fram hvernig þeim verði náð með fullnægjandi hætti. Meta skal afhendingaröryggi eftir þremur stuðlum sem tilgreindir eru í reglugerð 1048/2004 [2] um gæði raforku og afhendingaröryggi.
Stuðlarnir eru eftirfarandi:

  • Stuðull um rofið álag (SRA)
  • Stuðull um meðallengd skerðingar, straumleysismínútur (SMS)
  • Kerfismínútur (KM)

Landsnet hefur sett sér markmið varðandi þessa þrjá stuðla og eru þau eftirfarandi:

T 2-1.png

Tafla 2-1: Markmið um afhendingaröryggi

Markmiðin eru sett fram fyrir raforkuflutningskerfið sem heild. Til þess að uppfylla þessi markmið eru settir fram valkostir um styrkingar á flutningskerfinu sem eiga að tryggja það að markmiðum þessum sé náð á því tímabili sem áætlunin nær yfir. Greiningar á valkostum styrkinga í langtímaáætlun og framkvæmdaáætlun taka mið af því, að hver einstakur valkostur og hver einstök framkvæmd stuðli að því að heildarmarkmiðum um afhendingaröryggi verði náð. Árlega er gefin út frammistöðuskýrsla sem inniheldur samantekt upplýsinga úr flutningskerfinu fyrir nýliðið ár. Þar er meðal annars farið yfir truflanir, skerðingar og annað sem snýr að frammistöðu flutningskerfisins ásamt því hvernig markmið um afhendingaröryggi voru uppfyllt á liðnu ári. Frammistöðuskýrslu ársins 2019 má finna á vef Landsnets [11].

Flöskuhálsar og tengingar á milli svæða

Flutningskerfið á Íslandi er mikið lestað og er afhendingaröryggi víða á landinu stefnt í hættu af þeim sökum. Þunglestun kerfisins leiðir af sér aukna hættu á truflunum, t.d. sökum óstöðugleika (aflsveiflna), yfirálags og/eða spennuvandamála. Til þess að tryggja afhendingaröryggi við stjórnun kerfisins hafa verið skilgreind flutningssnið í meginflutningskerfinu sem segja til um hámarksaflflutning milli svæða og landshluta.

Alls eru skilgreind fimm snið í meginflutningskerfinu og flutningsmörk þeirra tilgreind. Flutningsmörkin í sniðum eru stefnuháð, eins og sjá má á Mynd 2-2. Flutningssniðin eru háð uppsetningu kerfisins hverju sinni og hafa styrkingar á meginflutningskerfinu, sem leiða af sér aukna möskvun kerfisins þau áhrif að sniðin breytast og ekki víst að núverandi snið verði til staðar. Því eru þau snið sem fjallað er um hér miðuð við að engar styrkingar eigi sér stað í meginflutningskerfinu. Flutningstakmarkanir um þessi snið eru það sem átt er við þegar talað er um flöskuhálsa í flutningskerfinu.

Megintilgangur með skilgreiningu sniðanna er að fylgjast með því að aflflutningur um sniðið verði ekki það mikill að einföld truflun valdi óstöðugleika í kerfinu, eða kerfishruni. Flutningur innan þessara svokölluðu stöðugleikamarka sniðanna tryggir að kerfisreksturinn haldist stöðugur við einfalda truflun og ekki þurfi að skerða raforku til notenda. Flutningstakmarkanir í gegnum snið miðast oftast við flutningsgetu þeirrar línu sem minnsta flutningsgetu hefur af þeim línum sem sniðið sker.

Sveiflur í vatnsbúskap uppistöðulóna milli ára geta haft áhrif á afhendingu raforku þar sem flutningssnið geta takmarkað möguleika á að flytja raforku milli landshluta. Um árabil hafa flutningstakmarkanir og óstöðugleiki verið vandamál í rekstri byggðalínunnar og hafa skerðingar á orkuafhendingu aukist ár frá ári.

2-2.png
Mynd 2-2: Skilgreind flutningssnið í meginflutningskerfinu 2020

Snið I

Sker Hrauneyjafosslínu 1 og Sigöldulínu 3. Hrauneyjafosslína 1 liggur frá Hrauneyjafossstöð að Sultartangastöð og Sigöldulína 3 liggur frá Sigöldustöð að Búrfellsstöð. Um þessar línur fer mestöll orkuvinnsla frá Sigöldustöð, Vatnsfellsstöð, Hrauneyjafossstöð og Búðarhálsstöð. Aflflæði til vesturs um sniðið takmarkast af endabúnaði Hrauneyjafosslínu 1 og eru efri mörk þess 475 MW. Hitaflutningsmörk beggja flutningslína eru tæp 600 MW og er því mögulegt að hækka sniðmörkin með uppfærslu á endabúnaði.

Snið II

Sker Kröflulínu 2 og Sigöldulínu 4. Kröflulína 2 liggur frá Kröflustöð að Fljótsdalsstöð og Sigöldulína 4 liggur frá Sigöldustöð að tengivirkinu á Prestbakka. Aflflæði til austurs um snið II takmarkast bæði af endabúnaði Kröflulínu 2 og 220/132 kV aflspennis í Sigöldustöð og eru núverandi stöðugleikamörk 100 MW. Með aukinni orkuvinnslu á Norðausturlandi, t.d. á Þeistareykjum, eykst pressan á snið II töluvert en að sama skapi minnkar pressan á snið IV, þar sem þessi vinnsla er staðsett innan sniðs IV.

Snið IIIb

Sker Blöndulínu 1 og Fljótsdalslínu 2. Blöndulína 1 liggur frá Laxárvatni að Blöndustöð og Fljótsdalslína 2 frá Fljótsdalsstöð að Hryggstekk. Snið IIIb takmarkar aflflutning í vesturátt frá Blöndu og til suðurs frá Fljótsdal, þ.e. öfugt miðað við snið II og snið IV. Núverandi stöðugleikamörk eru 130 MW og takmarkar það flutning frá Fljótsdalsstöð, Kröflu- og Þeistareykjastöð ásamt Blöndustöð eftir byggðalínunni til vesturs.

Snið IV

Sker Blöndulínu 2 og Sigöldulínu 4. Blöndulína 2 liggur frá Blöndustöð að Varmahlíð og Sigöldulína 4 liggur frá Sigöldustöð að tengivirkinu á Prestbakka. Um árabil hafa flutningstakmarkanir og óstöðugleiki verið mikið vandamál í rekstri byggðalínunnar, þá helst vegna flutnings til austurs um snið IV. Skerðingar á orkuafhendingu verða tíðari með hverju árinu. Helsta ástæða þess er aukið álag á Norðausturlandi og rafvæðing fiskimjölsverksmiðja á Austurlandi. Nú er svo komið að ástandið hamlar atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni, s.s. rafvæðingu fiskiðjuvera og virkni raforkumarkaðar. Stöðugleikamörk sniðs IV eru 100 MW.

Snið VI

Sker Sultartangalínu 1, Sultartangalínu 3 og Brennimelslínu 1. Sultartangalínur 1 og 3 liggja frá Þjórsársvæðinu að tengivirkinu á Brennimel og Brennimelslína 1 liggur frá tengivirkinu á Geithálsi að tengivirkinu á Brennimel. Snið VI takmarkar aflflutning til vesturs að Brennimel, en þar eru stórnotendur eins og Norðurál og Elkem. Brennimelslína 1 og Sultartangalína 1 takmarka aflflutning að Brennimel þar sem flutningsgeta þeirra er töluvert minni en flutningsgeta Sultartangalínu 3. Í truflanatilfellum, þegar Sultartangalína 3 leysir út, þurfa Sultartangalína 1 og Brennimelslína 1 að geta flutt aflið í gegnum snið VI og eru stöðugleikamörk því 650 MW, sem er samanlögð flutningsgeta Sultartangalínu 1 og Brennimelslínu 1.
Kerfisvarnir eru staðsettar víðsvegar í flutningskerfinu og er hlutverk þeirra að mæla aflflæði eftir flutningslínum og koma í veg fyrir yfirlestun á flutningslínum, aflsveiflur og undirtíðni á afhendingarstöðum Landsnets. Aflflæði eftir byggðalínunni hefur aukist með auknu álagi á Norðurlandi, Norðausturlandi og Austurlandi. Til að mögulegt sé að minnka aflflæðið á byggðalínunni, og þar með aflflæði í gegnum sniðin, þarf að auka framleiðslu inn á kerfið innan þessara tilteknu sniða.

Núverandi og framtíðarflutningsgeta til afhendingarstaða

Flutningsgeta einstakra lína í núverandi byggðalínu er á bilinu 100 MVA til 150 MVA, sem segir til um það afl sem línan getur flutt án þess að ofhitna (hitaflutningsmörk). Það þýðir þó ekki að hægt sé að lesta einstaka línur upp að því marki í venjubundnum rekstri, þar sem ávallt verður að vera tiltæk næg flutningsgeta til að geta tekið við því afli sem flyst lína á milli í bilanatilfellum eða vegna reglubundins viðhalds.
Til að gefa hugmynd um flutningsgetu einstakra lína í byggðalínunni, sem er hringtengd, er best að horfa á áðurnefnd flutningssnið. Í byggðalínunni má finna þrjú flutningssnið, snið II, snið IIIB og snið IV og er þeim lýst hér á undan. Flutningssniðin eru skilgreind sem flæði um tvær flutningslínur inn á tiltekið landsvæði. Ef önnur línanna sem mynda sniðið bilar, eða er tekin út vegna viðhalds þá færist allt það afl sem flæðir um sniðið yfir á hina línuna á einu augnabliki og því verður ávallt að vera til staðar næg flutningsgeta á þeirri línu til að taka við því afli. Ef flutningsgetan er ekki til staðar, þá yfirlestast línan og varnarbúnaður hennar getur leyst út með tilheyrandi hættu á víðtæku rafmagnsleysi og/eða spennuflökti með tilheyrandi tjóni. Flutningsmörk um þessi þrjú snið eru að hámarki 100 til 130 MW eins og fram kemur að ofan. Það þýðir að hámarksflæði um hvora línu sem mynda hvert snið er að jafnaði 50 til 65 MW.

Mismunandi spennustig

Meginflutningskerfi Landsnets er rekið á tveimur spennustigum í dag, 132 kV og 220 kV. Að bæta við nýjum flutningslínum í meginflutningskerfið til framtíðar er umfangsmikil og dýr framkvæmd og því er æskilegt að sú uppbygging sem fram fer á kerfinu sé á þeim spennustigum sem fyrir eru í kerfinu. Í grunninn er kerfið byggt upp fyrir þessi spennustig og fælist í því margvíslegt óhagræði ef bæta ætti við öðru („nýju“) spennustigi og reka kerfi á mörgum spennustigum, m.a. m.t.t. viðhalds og varahlutahalds.
Samkvæmt kerfisgreiningum Landsnets, sem taka mið af sviðsmyndum um raforkunotkun fram til ársins 2050, er flutningsgeta 132 kV byggðalínu ófullnægjandi fyrir næstu kynslóð byggðalínunnar. Auk ófullnægjandi flutningsgetu núverandi byggðalínu veldur veikleiki hennar óstöðugleika sem kemur fram í aflsveiflum milli landsvæða. Þetta gerist einkum ef byggðalínuhringurinn rofnar. Aflsveiflur þessar valda um leið spennusveiflum sem geta og hafa valdið tjóni á raftækjum notenda, einkum á landsbyggðinni. Heildarmarkmið með endurnýjun byggðalínunnar er að bæta flutningsgetu til þess að geta tekist á við aukna flutningsþörf í kerfinu, ásamt því að bæta stöðugleika raforkukerfisins næstu 50 árin hið minnsta. Að auki mun sveigjanleiki í kerfinu, m.t.t. staðsetningar orkuvinnslu annars vegar og orkunotkunar hins vegar, aukast verulega. Þessi sveigjanleiki mun auka hagkvæmni í kerfinu og bæta nýtingu orkuauðlinda. Það er því talið nauðsynlegt að ný kynslóð byggðalínu sé afkastameiri en hægt er að ná fram, með hagkvæmum hætti, á 132 kV spennustigi og er þá 220 kV næsta spennustig sem notast er við hér á landi.

Flutningsgeta 220 kV lína

Flutningsgeta 220 kV lína er breytileg eftir hönnunarþáttum eins og vali á leiðurum, hæð mastra og fjarlægð milli þeirra. Viðmið Landsnets er að byggja nýjar línur í meginflutningskerfinu sem geta flutt allt að 550 MVA af afli. Ekki er hægt að segja beint til um hver flutningsgeta hringtengdra lína með 550 MVA hitaflutningsmörk er í MW, þar sem horfa þarf til kerfisins í heild. Ef meta þarf flutningsgetu einstakra lína í hringtengdu kerfi þarf því að horfa til heildarsamsetningar kerfisins, flöskuhálsa og þeirra flutningssniða sem skilgreind eru vegna þeirra. Hver ný lína sem bætist við kerfið hefur áhrif á flöskuhálsana og því munu snið í framtíðarkerfi líta öðruvísi út en þau gera í dag. Eins mun niðurrif, eða breytt notkun, eldri lína hafa áhrif á sniðin. Sé hins vegar tekið mið af hitaflutningsmörkum núverandi lína í byggðalínuhringnum og hámarksflæði um núverandi snið mætti áætla að hægt yrði að flytja um og yfir 200 MW um stakar línur á hringnum að jafnaði, án þess að ógna stöðugleika og afhendingaröryggi kerfisins.
Við ákvörðun um 550 MVA flutningsgetu fyrir nýja 220 kV byggðalínu er ekki eingöngu horft til krafna um aukna flutningsgetu milli svæða, getu kerfisins til að bregðast við bilanatilvikum eða möguleika til að taka línur úr rekstri vegna viðhalds. Ákvörðun um val á slíkri flutningsgetu byggir einnig á eðli hringtengds kerfis til að minnka viðnám tenginga milli landsvæða (minni straumur flæðir um 220 kV línu en 132 kV línu fyrir sama aflflutning) til að stuðla að bættum stöðugleika og spennugæðum. Einnig hefur minni straumur fyrir sama aflflutning áhrif til lækkunar á flutningstöp í leiðara. Niðurstöður kerfisgreininga sem unnar hafa verið í aðdraganda kerfisáætlunar og taka mið af mögulegri langtímaþróun meginflutningskerfisins leiða í ljós að dæmigerður leiðari í línu með 550 MVA hitaflutningsmörk uppfyllir markmið raforkulaga um öryggi, skilvirkni, hagkvæmni, gæði raforku og áreiðanleika afhendingar fyrir metnar sviðsmyndir.
Flutningsgeta nýs 220 kV byggðalínukerfis mun anna vaxandi flutningsþörf allra næstu áratuga. Flutningsþörfin mun aukast jafnt og þétt í takt við fjölgun íbúa á landinu og þann vöxt í atvinnulífi sem fylgir fjölgun íbúa. Nýting á flutningsgetu nýrrar byggðalínu mun aukast í samræmi við þennan vöxt líkt og raunin var með núverandi byggðalínu sem byggð var á árunum 1972-1984 og er nú fulllestuð.

Þróun flutningsþarfar á milli landsvæða

Erfitt er að spá fyrir um það hvernig flutningsþörf á milli landsvæða muni þróast í framtíðinni. Flutningsþörfin ræðst m.a. af þróun orkunotkunar og staðsetningu hennar ásamt uppbyggingu orkuframleiðslueininga og staðsetningu þeirra. Einnig hafa þættir eins og uppbygging flutningskerfis áhrif, þar sem að til staðar í kerfinu þarf að vera sveigjanleiki til að geta sinnt eðlilegu viðhaldi á flutningsmannvirkjum og kerfið þarf líka að vera í stakk búið að bregðast við truflunum. Einnig mun framtíðar hlutfall vindorku í heildarorkuvinnslugetu landsins hafa stór áhrif á það hvernig þörfin mun þróast. Vindorka hefur verið talsvert í umræðunni síðustu misseri og hefur áhugi á uppsetningu vindorkuvera til raforkuvinnslu hér á landi farið ört vaxandi. Svæðin sem hafa verið til skoðunar til vindorkuvinnslu eru víða um landið sem endurspeglar þörf fyrir flutningskerfi raforku sem hefur fullnægjandi sveigjanleika til að sinna breytilegu orkuflæði á milli landssvæða.
Til að kortleggja mögulega þróun raforkuflutninga á milli landsvæða næstu áratugina hafa verið framkvæmdar kerfisgreiningar sem ná yfir flæði á milli tengipunkta á byggðalínuhringnum. Um svokallaða N-1 greiningu er að ræða, sem fer þannig fram að stillt er upp mismunandi álagstilfellum í kerfislíkani og svo eru krítískar flutningseiningar teknar úr rekstri, líkt og um truflun sé að ræða, og hámarksflæði á milli tengipunkta skráð.
Á notkunarhliðinni var stuðst við þróun raforkunotkunar eins og henni er lýst í Raforkuspá og Sviðsmyndum um raforkunotkun frá raforkuhópi Orkuspárnefndar. Á framleiðsluhliðinni var notast við nokkrar ólíkar sviðsmyndir um staðsetningu framleiðslueininga. Meðal annars var stillt upp þremur mismunandi sviðsmyndum um vindorkuframleiðslu ásamt sviðsmynd um aukningu á jarðhitavinnslu á Norðurlandi. Einnig var skilgreint grunntilfelli, þar sem hefðbundinni orkuvinnslu var dreift um landið, m.a. með hliðsjóna af Rammaáætlun.

Vinnslusviðsmyndir í kerfisgreiningu voru eftirfarandi:

i)  400 MW vindlundir á Vesturlandi

ii)  200 MW vindlundir á Vesturlandi og 200 MW vindlundir á Suðurlandi

iii)  100 MW vindlundir á Norðurlandi, Suðurlandi, Vesturlandi og Austurlandi, samtals 400 MW

iv)  200 MW umframaukning í jarðhitavinnslu á Norðurlandi (í stað vatnsafls á Suðurlandi)

Útfærslur i-iii gera ráð fyrir 400 MW af vindafli inn á kerfið. Útfærsla iv gerði ráð fyrir hefðbundnari þróun en var ætlað að sýna breytingu á flutningsþörf ef meiri þungi yrði í þróun jarðhitavinnslu á Norðurlandi umfram vatnsafl á Suðurlandi. Ljóst er að einhvers staðar þarf að draga úr annarri vinnslu á móti vindorkuvinnslunni í i-iii. Fyrir hverja og eina þessara þriggja uppsetninga voru skoðuð tvö mismunandi tilfelli þar sem dregið er úr annarri vinnslu á móti. Atriði a og b að neðan eiga þó ekki við um útfærslu iv.

a)  Dregið úr um 400 MW á Suðurlandi

b)  Dregið úr um 200 MW á Suðurlandi og 200 MW á Austurlandi

Sá fyrirvari var hafður á að ekki er vitað hvort og hvernig raforkumarkaður verður lagaður að innkomu stærra hlutfalls vindorkuframleiðslu. Var því gert ráð fyrir tilfellum sem teljast tæknilega skynsamlegir og út frá líklegu hagræði.
Nánari lýsingu á greiningunni má finna í Kerfisáætlun Landsnets fyrir tímabilið 2019-2028 á heimasíðu Landsnets [4].

Vænt flæði á milli landsvæða skv. niðurstöðu kerfisgreininga

Niðurstöður greininga eru teknar saman í eitt graf. Notast er við fjórar vinnslusviðsmyndir eins og þeim er lýst hér að ofan og í kerfisáætlun 2019-2028
2-3.png

Mynd 2-3 : Hámarksflutningur um meginflutningskerfi – allar niðurstöður

Mynd 2-3 sýnir niðurstöður allra greininga á flutningsþörf á milli tengipunkta á byggðalínuhringnum. Á myndinni má sjá hvernig flutningsþörfin á austari hluta byggðalínunnar hækkar þegar 200 MW vinnsla er færð frá Suðurlandi yfir á Norðausturland. Af greiningunum mátti að jafnaði sjá mikla flutningsþörf á tengingunni milli Blöndu og Brennimels, jafnvel í grunntilfellinu þar sem ekki er búið að bæta við vindorkuvinnslunni á Vesturlandi umfram grunnforsendur Grænnar framtíðar. Flutningsþörf á þessari tengingu endurspeglar flutningsþörf samtengingar milli Norðurlands og Suðurlands, tengingu sem nú er hluti af 10 ára áætlun Landsnets. Ef bætt yrði við tengingu yfir hálendið myndi það létta á flutningsþörfinni eftir vesturvængnum (BRE-BLA), sérstaklega í grunntilfellinu. Ef mikilli vinnslu yrði bætt við á Vesturlandi eins og vindorkuútfærslurnar gera ráð fyrir yrði styrking vesturvængsins mun betri tæknileg lausn en tenging yfir hálendið ein og sér. Hafa þarf í huga að umfang flutningsþarfar um vesturvæng byggðalínunnar er umfram flutningsgetu þeirra 220 kV lína sem almennt eru lagðar til í kerfisáætlun (550 MVA) og því gæti þurft að grípa til öflugri 220 kV línulagna um vesturvæng ef þróun verður skv. þeim vinnsluútfærslum.

Til að leggja mat á það hvernig hálendislína muni hafa áhrif á flæði milli landsvæða voru kerfisgreiningar framkvæmdar með hálendislínu uppsetta í kerfislíkani. Niðurstöðurnar hermana með hálendistengingu uppsetta má sjá á mynd 2-4.


2-4.png

Mynd 2-4: Flutningsþörf eftir línuleiðum valkosta að teknu tilliti til hálendistengingar (HLL: Hálendislína)

Sjá má að flutningsþörfin eins og hún kemur fram á mynd 2-4 er jafnari en á mynd 2-3. Ennþá er mikil þörf fyrir styrkingu milli Brennimels og Blöndu (BRE-BLA) í vinnslutilfelli i) þar sem mikil vindorkuframleiðsla er á Vesturlandi. Greiningar sýndu að sú styrking er beinlínis nauðsynleg ef þróun vindorkuvinnslu á því svæði verður slík að umfangi. Einnig má sjá að þessi aukning um 400 MW í vindafli á Vesturlandi flæðir öll um tenginguna BRE-BLA suður, þ.e. aflflæði um aðrar tengingar verður í flestum tilfellum lægra en grunntilfelli. Sjá má í tilfellum ii) og iii) að tengingin milli Blöndu og Rangárvalla (BLA-RAN) ber mesta álagið og hálendistengingin skiptir mestu máli í vinnslutilfelli iii) með jafnt dregið úr í vatnsafli á Suður- og Austurlandi. Í vinnslutilfelli iv) þar sem breyting frá grunntilfelli er að nýjar jarðhitavirkjanir koma til á Norðausturlandi í stað vatnsafls á Suðurlandi, flytur hálendistenging um tvöfalt meira en tengingin milli BRE-BLA.

Í ofangreindri umfjöllun má sjá glögglega að breytileiki í þróun vinnslu frá þeim forsendum sem gefnar eru í greiningum kerfisáætlunar hefur afar mikil áhrif á þróun flutningsþarfar eftir hverri línuleið byggðalínu. Við þetta bætist svo óvissan í álagsþróun, þ.e. hvaða sviðsmynd er réttust. Þetta sýnir vel að byggja þarf upp sveigjanlegt kerfi til þess að styðja við þá þróun sem verða vill í orkuvinnslu og atvinnuuppbyggingu. Því er mikilvægt að byggja ekki nýja flöskuhálsa með því að hanna línur með takmarkandi flutningsgetu.

Í ljósi niðurstaðna greiningarinnar í þessum kafla og að undangengnu opnu umsagnarferli var ákveðið að endurskoða forgangsröðun framkvæmda við styrkingu meginflutningskerfisins. Landsnet telur að niðurstöðurnar sýni nokkuð óyggjandi að þörf fari fyrir vaxandi flutning um vesturvæng byggðalínu á næstu árum. Samfelld tengingu á milli SV-lands og Austurlands er því komin á 10 ára áætlun Landsnets um þróun meginflutningskerfisins, í því augnamiði að bregðast við vaxandi flutningsþörf í þessum hluta kerfisins, ásamt því að tryggja afhendingaröryggi á landinu öllu.