Kerfisáætlun Landsnets 2020-2029

Kerfisáætlun Landsnets skiptist í þrjá meginhluta, langtímaáætlun um þróun meginflutningskerfisins, framkvæmdaáætlun Landsnets og umhverfisskýrslu. Megintilgangur kerfisáætlunar er að kynna fyrir hagaðilum framtíðaráform fyrirtækisins um uppbyggingu flutningskerfisins. Að auki eru í framkvæmdahluta áætlunarinnar lögð fram til afgreiðslu Orkustofnunar þau framkvæmdaverkefni næstu þriggja ára sem ekki hafa hlotið afgreiðslu áður.
Kerfisáætlunin er þannig uppbyggð að í langtímaáætluninni má finna umfjöllun um núverandi flutningskerfi, þar sem farið er yfir þætti eins og flutningsgetu og afhendingaröryggi, ásamt þeim kröfum sem gerðar eru til kerfisins. Þar er einnig að finna 10 ára áætlun Landsnet um uppbyggingu í meginflutningskerfinu og er þar gerð grein fyrir helstu verkefnum í meginflutningskerfinu sem fyrirhuguð eru á gildistíma áætlunarinnar og áætluð áhrif þeirra á flutningsgetu kerfisins. Farið er vandlega yfir þau áhrif sem fyrirhugaðar framkvæmdir munu hafa á gjaldskrá fyrirtækisins og hvernig mögulegar gjaldskrársviðsmyndir gætu litið út. Langtímaáætlunin inniheldur einnig kafla sem snýr að langtímaþróun meginflutningskerfisins með 30 ára sjóndeildarhring í takt við sjóndeildarhring Raforkuspár. Þar eru til umfjöllunar þeir valkostir sem lagðir eru fram til frekari þróunar meginflutningskerfisins umfram 10 ára áætlun. Farið er yfir greiningu á öllum valkostum og þeir metnir út frá þeim markmiðum sem getið er um í raforkulögum og umhverfisáhrif þeirra metin. Farið eru yfir möguleika til jarðstrengslagna í meginflutningskerfinu og gerð grein fyrir þeim tæknilegu annmörkum sem þar gilda. Helstu niðurstöðum mats á þjóðhagslegum ávinningi þess að byggja upp öruggt flutningskerfi raforku eru gerð skil í langtímaáætlun, en nákvæmari útlistun á matinu má finna í skýrslu á heimasíðu Landsnets.
Í framkvæmdahluta áætlunarinnar má finna umfjöllun um verkefni sem fyrirhugað er að byrja framkvæmdir við næstu þrjú árin, ásamt þeim verkefnum sem framkvæmdir munu hefjast við á árinu. Umfjöllun um einstök verkefni í framkvæmdaáætlun inniheldur lýsingu á umfangi verkefna og ýtarlega valkostagreiningu fyrir öll ný verkefni. Valkostagreiningin tekur mið af markmiðum raforkulaga og stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og lagningu raflína, auk þess sem gerð er grein fyrir umhverfisáhrifum allra valkosta. Fyrir öll ný verkefni er lagður fram sá valkostur sem best uppfyllir áðurnefnd markmið og samræmist stefnunni.
Í umhverfisskýrslu er gerð grein fyrir áhrifaþáttum kerfisáætlunar. Hámarkslengdir jarðstrengja í nýjum línum í meginflutningskerfinu eru tilgreindar og umhverfisáhrif framkvæmda á 10 ára áætlun metin sem og valkosta um frekari þróun meginflutningskerfis. Við matið er horft til umhverfisþáttanna landslags og ásýndar, jarðminja, vatnafars, lífríkis, menningarminja, loftslags og atvinnuuppbyggingar, annarrar en ferðaþjónustu ásamt landnotkun, heilsu og ferðaþjónustu sem atvinnugreinar. Einnig eru umhverfisáhrif verkefna á framkvæmdaáætlun metin í umhverfisskýrslu.

Breytingar frá síðustu áætlun

Stærsta breytingin sem hefur orðið á kerfisáætlun frá síðustu útgáfu snýr að 10 ára áætlun um uppbyggingu meginflutningskerfisins. Núna er áætlað að samfelldri 220 kV tengingu verði komið á, sem mun ná frá Hvalfirði, norður í land og inn á Austurlandskerfið, en slíkt hefur ekki verið á 10 ára áætlun áður. Einnig hefur orðið breyting á kaflanum um langtímaþróun flutningskerfisins, sem inniheldur núna tvær meginleiðir að frekari þróun flutningskerfisins. Annars vegar að koma á annarri tengingu á milli landshluta um hálendið, ýmist með riðstraums eða jafnstraumstengingu, og hins vegar að tengja saman kerfin suður fyrir jökla.

Gildistími kerfisáætlunar

Kerfisáætlun þessi gildir fyrir tímabilið frá 2020 til ársins 2029. Í þeim hluta áætlunarinnar sem fjallar um langtímaþróun meginflutningskerfisins er gert grein fyrir 10 ára áætlun Landsnets um uppbyggingu meginflutningskerfisins. Að auki er fjallað um langtímaþróun meginflutningskerfisins fram yfir 10 ár og þá með 30 ára sjóndeildarhring. Í þeim hluta er valkostagreiningu um frekari þróun lýst. Sá hluti áætlunarinnar sem inniheldur framkvæmdaáætlun gildir fyrir árin 2021 til 2023 auk þess sem fjallað er um verkefni sem munu hefjast við á yfirstandandi ári, 2020.

Sviðsmyndir um raforkunotkun

Grunnurinn að sviðsmyndunum er Raforkuspá 2019-2050 [3]. Raforkuspáin myndar eina af fjórum sviðsmyndum og eru hinar þrjár afbrigði við Raforkuspána.

Mynd 1-1 : Grafísk túlkun á sviðsmyndum um raforkunotkun

Í sviðsmyndinni Hægar framfarir er gert ráð fyrir minni hagvexti en í Raforkuspá auk þess sem stuðst er við forsendur sem leiða til minni áherslu á umhverfismál og orkuskipti. Þessi mynd sýnir hægari vöxt almennrar raforkunotkunar en í Raforkuspá eða að meðaltali 0,7% árlegan vöxt en í Raforkuspá er hann um 1,% að meðaltali á ári. Notkunin eykst um 33% og verður um 5.200 GWh árið 2050 en í Raforkuspá er aukningin rúm 70% og notkun um 6.700 GWh. Heildarorkuþörf kerfisins er áætluð um 22.170 GWh skv. þessari sviðsmynd eða um 1.500 GWh lægri en fyrir grunnsviðsmynd Raforkuspár árið 2050.
Í sviðsmyndinni Græn framtíð er gert ráð fyrir meiri hagvexti en í Raforkuspá og aukinni áherslu á umhverfismál. Má t.d. nefna að orkuskipti ganga hraðar fyrir sig í sviðsmyndinni en í Raforkuspá og er árlegur vöxtur almennrar raforkunotkunar í þessari mynd um 2,2%. Notkunin rúmlega tvöfaldast hér til loka spátímabilsins og verður um 8.350 GWh á ári. Heildarorkuþörf kerfisins er áætluð um 25.400 GWh eða um 1.700 GWh hærri en fyrir grunnsviðsmynd Raforkuspár árið 2050.
Í sviðsmyndinni Aukin stórnotkun er byggt á forsendum Raforkuspár en gert er ráð fyrir aukinni stórnotkun raforku. Til að setja fram dæmi um mögulega þróun stórnotkunar er horft á tímabilið frá 2008 til 2020 og notast við mat á aukningunni á því tímabili sem svarar til 33 MW aukningar á ári. Samkvæmt þessari forsendu verður aflþörf stórnotenda orðin rúmlega 2.900 MW árið 2050 og orkuþörf almenna markaðarins og stórnotkunar um 32.500 GWh. Það gerir heildarorkuþörf kerfisins 8.800 GWh hærri en fyrir grunnsviðsmynd Raforkuspár árið 2050.