Langtímaáætlun um þróun meginflutningskerfis

Samkvæmt raforkulögum 9. gr. a. skal í kerfisáætlun m.a. felast langtímaáætlun sem sýnir þá þætti í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu tíu árum og tímaáætlun þeirra. Þessum hluta af kerfisáætlun er ætlað að uppfylla þetta ákvæði og snýr hann að meginflutningskerfinu og þróun þess. Í kaflanum er farið yfir væntanlega þróun raforkunotkunar á Íslandi til næstu áratuga og aðrar forsendur sem metnar hafa verið. Í síðustu kerfisáætlunum hefur valkostagreining farið fram og út frá þeim greiningum hefur áætlun um þróun meginflutningskerfisins verið mótuð til næstu 10 ára. Farið er yfir þessa áætlun og mat á stöðu kerfisins að 10 árum liðnum nái þessi áætlun fram að ganga. Í öðrum hluta þessa kafla verður næsta skref valkostagreiningar um þróun meginflutningskerfisins kynnt. Stillt verður upp valkostum um áframhald þróunar meginflutningskerfisins að 10 árum liðnum. Í þeim greiningum verður gengið út frá grunnástandi eins og það verður nái 10 ára áætlunin að raungerast. Framlagðir valkostir eru settir upp í kerfislíkan Landsnets, ásamt forsendum um framtíðarnotkun kerfisins, og niðurstöður kerfisrannsókna síðan notaðar við að meta og bera saman valkosti með hliðsjón af þeim markmiðum sem getið er um í raforkulögum. Á svipaðan hátt eru hagkvæmnisþættir mismunandi valkosta bornir saman, bæði á grundvelli þjóðhagslegrar hagkvæmni og eins hver væntanleg áhrif uppbyggingar á flutningsgjaldskrá yrðu. Bæði fyrir 10 ára áætlun og valkosti um áframhaldandi þróun verður farið ítarlega yfir hagræna þætti og umhverfismatið má finna í meðfylgjandi umhverfisskýrslu.

Framtíðarstaða raforkumála á Íslandi

Hagsmunaráð Landsnets kom saman í nóvember 2019 og tókust á við það verkefni að reyna að sjá fyrir sér mögulega framtíðarsýn orkumála á Íslandi árið 2030. Unnið var með kjarnaspurninguna „Á hvaða hátt er staða raforkumála á Íslandi gjörbreytt árið 2030?“ Á vinnustofu voru skilgreind 14 atriði sem fulltrúar í Hagsmunaráði höfðu komið sér saman um að myndu skipta mestu máli á komandi árum til að gerbreyta stöðu raforkumála á Íslandi árið 2030. Fyrir hvert og eitt atriði voru mikilvægi og núverandi staða eða frammistaða metin.

Atriðin sem voru skilgreind voru eftirfarandi:

 1. Það hefur tekist að byggja raforkukerfið í samræmi við þarfir
 2. Sátt náðist um skipulag orkumála í gegnum orkustefnu
 3. Orkuskiptum í samgöngum úr jarðefnaeldsneyti er lokið
 4. Bætt orkunýtni
 5. Jafnt aðgengi sé að hagkvæmu þriggja fasa rafmagni um landið
 6. Raforkuverð hefur verið jafnað um land allt
 7. Aukin viðnámsgeta kerfisins vegna óvissu í alþjóðaumhverfi sem hefur ófyrirséð áhrif á Ísland
 8. Fjölbreyttari notkun meðal stórnotenda
 9. Aukin notkun jarðstrengja þar sem því er við komið
 10. Raforkuframleiðslan er orðin fjölbreyttari
 11. Alþjóðleg samkeppnisstaða íslenskrar raforkuframleiðslu hefur styrkst
 12. Mengunarbótaregla innleidd í framleiðslu
 13. Bitcoin gröftur er úr sögunni
 14. Aukið flækjustig í orkukerfinu vegna vaxandi fjölda smárra orkuframleiðanda

Út frá þessu lista voru atriðum forgangsraðað og þeim fjórum sem talin voru hafa hæsta forgang af fulltrúum Hagsmunaráðsins og þau greind nánar. Greiningarramminn sem notaður var kallast PESTLE og er þannig uppsettur að þátttakendur í greiningunni eru látnir greina ógnanir og tækifæri sem þeirra málefni stendur frammi fyrir eða getur nýtt sér út frá fimm sjónarhornum. Sjónarhornin fimm eru stjórnmálalegir þættir sem geta haft áhrif á framvindu málefnisins, efnahagslegir þættir, samfélags og menningarlegir þættir, tæknilegir þættir, lagalegir þættir og umhverfislegir þættir.

Meðfylgjandi er lýsing á þeim fjórum atriðum sem talin voru hæst í forgangi ásamt niðurstöðu PESTLE greiningarinnar.

1. Það hefur tekist að byggja raforkukerfið í samræmi við þarfir

Raforka er hryggurinn í íslenskum hversdegi. Dagleg verkefni okkar byrja jafnan og enda með notkun rafmagns. Þá gildir einu hvort það er heima, í vinnu eða í félagslífi og áhugamálum. Það er góð hugarleikfimi að leita eftir og einangra þau verkefni sem krefjast ekki rafmagns en skapa á sama tíma verðmæti eða þróun í samfélaginu. Það hefur tekist að byggja upp raforkukerfið í samræmi við þarfir. Rafmagn er orka Íslands. Rafmagn er hreyfiaflið á bak við dagleg verkefni og verðmætasköpun. Það gerist ekkert án rafmagns. Það er því ótrúleg gæfa að hafa aðgengi að endurnýjanlegum orkuauðlindum sem hægt er að virkja með lágmarks eða afturkræfum áhrifum á náttúruna. Breytingar á næstu 10 árum geta átt sér ólíkan uppruna, eins og greiningar fulltrúa í Hagsmunaráði sýna. Efnahagslegar breytingar geta innihaldið bæði þrengingar og vöxt. En hvort sem gerist, þá þarf svæðisbundinn aðgangur að öruggu rafmagni liggja fyrir. Fyrir utan hina augljósu heildrænu uppbyggingu þá er ekki síður mikilvægt að leggja áherslu á smáar svæðisbundnar framkvæmdir, þannig að svæði verði ekki eins viðkvæm fyrir stóra kerfinu. Með traustu raforkukerfi þá geta atvinnusvæði um allt land nýtt möguleika, tækifæri og nauðsyn til vaxtar eða sjálfsbjargar.

Forgangur

Sviðsmyndin var valin hæst í forgangi með tuttugu forgangsstig. Í mati á mikilvægi fékk sviðsmyndin fullt hús stiga þegar þátttakendur mátu mikilvægi þess að sviðsmyndin yrði að raunveruleika árið 2030. Þátttakendur á fundinum töldu frammistöðuna slaka og nauðsynlegt sé að gera betur. Þegar borið er saman mikilvægi þessarar sviðsmyndar, þá þarf greinilega að gera betur, þar sem mikilvægi sviðsmyndarinnar um raforkuframleiðslu í samræmi við þarfir kom ótvírætt fram í mati þátttakenda. Miðað við það að verkefnið er fremst í forgangi en núverandi frammistaða er metin slök, þá er virkilega mikilvægt að spýta í lófana og greina hvað þarf að gera til að efla frammistöðuna.

Niðurstaða PESTLE greiningar

Stjórnmál Jöfnun atkvæðisréttar landið eitt kjördæmi. Það þarf að taka tillit til þarfa íbúa á landsbyggðinni. Einkavæðing orkufyrirtækja gæti leitt til afskiptaleysis af veikasta hluta markaðarins. Tenging við Evrópu vegna þrýstings tilskipana sem leiði til minni áherslu á öryggi í byggðum og meiri á millilandatengingu en aukið erlent fjármagn gæti leitt til styrkingar.
Efnahagsmál Orkunotendur draga saman seglin þrátt fyrir nægt orkuframboð. Getur leitt til minnkandi tekna og frestun framkvæmda en getur einnig leitt til aukinnar fjölbreytni og nýjum notendum á markaði. Almennur samdráttur í þjóðfélaginu, getur þýtt seinkun úrbóta en einnig tækifæri til áherslu á smáar svæðisbundnar framkvæmdir og smærri orkuframleiðendum. Veiking krónu
Samfélag og menning Minnkandi skilningur á þörf fyrir jöfnun aðstöðu fyrir íbúa landsins (t.d. orkuverð, eldsneytisverð, orkuöryggi, ofl Getur leitt til þess að minni fjármunir verði til framkvæmda á dreifbýlli svæðum.
Tæknin Engir punktar.
Lagaumhverfi Engir punktar.
Náttúran Engir punktar.

2. Orkuskiptum í samgöngum úr jarðefnaeldsneyti er lokið

Árið 2018 kostuðu Íslendingar til 115 milljörðum króna til innflutnings á eldsneyti og smurolíum. Hversu margar af þessum hundraðogfimmtánþúsund milljónum fara til samgagna og hvernig myndu þær þúsundir milljóna nýtast öðruvísi ef orkuskipti í samgöngum eru farsæl og frágengin? Orkuskiptum í samgöngum úr jarðefnaeldsneyti er lokið. Viðhorf til jarðefnaeldsneytis og áhrif bruna þess á loftslag jarðarinnar hvetja til skiptanna og jarðvegur breytinganna hefur verið undirbúinn. Ef orkuskiptum í samgöngum á að vera lokið árið 2030 þá er mikilvægt að hvatar og hindranir séu hannaðir til að flýta fyrir. Þar eru lög og reglugerðir áhrifaríkustu tækin sem geta falið í sér skattabreytingar og bönn sem heimili og atvinnulíf geta fært sér í nyt. Bættur hagur heimila og atvinnurekstrar er öflugur hvati. Á Íslandi getum við notað innlendan orkugjafa, sparað gjaldeyri, byggt upp þekkingu á nýrri tegund innviða. Á Íslandi getum við skapað störf við uppbyggingu nýrra innviða og styrkt ímynd Íslands. Ísland er græn eyja þar sem fólk kann að lifa í samlyndi við náttúruna. Fólk á eyju sem er sjálfbær um framleiðslu endurnýjanlegrar orku, til verðmætasköpunar og lífsgæða, finnur hugsanlega síður fyrir sveiflum á heimsmarkaðsverði jarðefnaeldsneytis þannig að atvinnulíf og daglegt fjölskyldulíf verður síður útsett fyrir áföllum í virðiskeðju jarðefnaeldsneytis.

Atriðið skoraði níu forgangsstig í forgangsröðun Hagsmunaráðs og mikilvægi þess að orkuskiptum sé lokið árið 2030 var talið mjög mikilvægt og fékk fullt hús stiga frá þátttakendum og sviðsmyndin hefur því ótvírætt mikilvægi í hugum þátttakenda.

Núverandi staða sviðsmyndarinnar um orkuskipti er talin vera heldur góð og þátttakendur mátu stöðu orkuskipta þannig að þau séu á réttri leið til að verða að raunveruleika árið 2030, þannig að jarðefnaeldsneyti sé ekki í notkun í samgöngum.

Niðurstaða PESTLE greiningar

Stjórnmál Breyting á niðurfellingum á vsk. breytingar á hvatakerfi. Allar breytingar á hvatakerfi geta aukið eða dregið úr kraftinum. Bönn eða takmarkanir á mengandi orkugjafa sem getur leitt til hraðari þróunar en á sama tíma þá kann það að vera kostnaðarsamt að byggja upp Innviðina.
Efnahagsmál Innlendur orkugjafi en skortur á innviðum sem eru fjárfrekir en sparnaður á gjaldeyri kemur í móti. Almennt efnahagsástand og kaupmáttur getur hægt á innleiðingu vistvænna bíla en gott ástand með skýrum hvötum getur flýtt fyrir. Verð á eldsneyti og skilyrði í heiminum sem kalla á skýra hvata, sérstaklega ef eldsneytisverð hækkar lítið.
Samfélag og menning Kynslóðaskipti yngra fólk hefur minni fjárráð er kannski opnara fyrir breytingunni Minnkandi atvinnuþátttaka og fjórða iðnbyltingin sem hægir á innleiðingu vegna stöðnunar í afkomu heimilanna, ásamt því sem bílaflotinn eldist.
Tæknin Tækniþróun vistvænna farartækja mögulega verður tækniþróun ekki nægilega ör eða framboð ekki nægjanlegt. Að sama skapi getur samspil verðs og drægni vistvænna ökutækja flýtt innleiðingu.
Lagaumhverfi Alþjóðleg löggjöf hefur áhrif á íslenska lagasetningu hún getur valdið tefjandi deildum og ósætti í samfélaginu sem hægir á breytingum en í henni geta líka falist tækifæri til aukins hraða.
Náttúran Loftslagsbreytingar hvetja alla til þess að draga úr losun. Þurrð á orkugjöfum getur hraðað breytingum. Hráefni í battery (kóbalt) hefur áhrif á verð, ekki síst ef hráefnið fer að takmarkast en á sama tíma felast tækifæri í því að finna aðrar lausnir.

3. Sátt náðist um skipulag orkumála í gegnum orkustefnu

Orkustefna er til leiðbeiningar fyrir stjórnvöld á hverjum tíma við ákvarðanatöku um beislun og miðlun orku til verðmætasköpunar og notkunar í atvinnulífi og fjölskyldulífi. Lagarammi um nýtingu orkuauðlinda þarf að vera í samræmi við þá hugmynd að eyju sem Íslendingar vilja byggja. Það felast lífsgæði í aðgengi að öruggri orku, hvort sem er í daglegum störfum eða á ögurstundu. Það felast lífsgæði og hugarró í vitundinni um fjölbreyttar undirstöður verðmætasköpunar í atvinnuháttum þjóðarinnar. Það felast lífsgæði í því að byggja eyju sem sér íbúum auðveldlega fyrir orku sem drífur áfram og veitir hryggjarstykkið í verðmætasköpun atvinnulífsins. Sátt náðist um skipulag orkumála í gegnum orkustefnu. Væntingar um lífsgæði og verðmætasköpun virðast vera í lykilhlutverki þegar rætt er um sátt um skipulag raforkumála. En ef væntingar eru ekki skýrar eða ekki hefur tekist að tengja væntingar við skilning á nauðsynlegum innviðum til að standa undir þeim væntingum, þá er ólíklegt að sátt verði til. Engu skiptir hverju skuli tjaldað til í orkustefnu eða öðrum stefnum ef væntingar til lífs og afkomu á Íslandi eru ekki þekktar. Hverju er þá stefnt að í orkustefnu ef þær væntingar eru ekki þekktar? Hvernig getur fólk orðið sátt um eitthvað sem hefur ekki verið skilgreint og ekki búið að mynda nauðsynleg hugrenningatengsl milli nauðsynlegra innviða og væntinga til lífsskilyrða? Svörin við þessum spurningum leiða fram skilgreiningu á æskilegri notkun raforku. Er raforkunotkun á Íslandi í dag í samræmi við skilning fólks á „æskilegri notkun“? Hver eru lífsgæðin á Íslandi í dag þegar helstu þekktu mælivarðar eru spurðir? Orkustefna þarf að leiða fram ramma um ákvarðanir um skipulag orkumála þannig skammtímahugsun, arðgreiðslur, gjaldtaka eða skattlagning takmarki ekki sveigjanleika kerfisins til uppbyggingar og nýsköpunar. Stefna stjórnvalda í umhverfismálum verður að endurspeglast í orkustefnu þannig að orðspor Íslands einkennist af virðingu fyrir náttúrulífi, mannlífi og efnahagslífi sem saman mynda sterka heild sjálfbærni. Í hverju felst sátt um skipulag orkumála?

Sviðsmyndin um sátt um stöðu orkumála á grunni orkustefnunnar skoraði níu forgangsstig í vinnustofu Hagsmunaráðs og hlaut fullt hús stiga þegar þátttakendur voru beðnir að meta mikilvægi hennar og að hún yrði orðin að veruleika árið 2030. Frammistaðan er ekki nægilega góð, samkvæmt mati þátttakenda á fundinum. Sátt á grunni orkustefnu er því ekki langt komin og miðað við það, þá er nauðsynlegt að gera betur. Mikilvægi og frammistaða fara hér ekki saman, það er verk að vinna til að loka þessu bili. Sé sviðsmyndin svo mikilvæg sem fundurinn kemst að niðurstöðu um, þá þarf að tilgreina og framkvæma þau verkefni sem loka þessu bili milli mikilvægis og núverandi frammistöðu.

Niðurstaða PESTLE greiningar

Stjórnmál Skilgreining á æskilegri notkun raforku getur leitt til sóunar og eyðileggingar á hagkvæmni en gæti líka þýtt að meiri orka fer í málefni sem eru þóknanleg. Sátt næst í orkumálum sem leiðir til betri fókuss í fjárfestingum en það getur tafist ef fjármagn skortir. Stefna stjórnvalda ekki í þágu umhverfismála sem veldur landinu orðsporsskaða.
Efnahagsmál Gjaldtaka og skattlagning geta hamlað eðlilegri þróun og uppbyggingu en geta að sama skapi skilað hagnaði til eigenda. Efnahagshrun getur leitt til skammtímahugsunar sem ógnar langtíma uppbyggingu. Arðgreiðslur orkufyrirtækja þar sem peningar eru teknir út úr geiranum en gæti leitt til samfélagslegrar sáttar.
Samfélag og menning Skipulagsstefna skýr sem leiði til betri fókuss og hnitmiðari fjárfestingu en hún standi ekki í vegi fyrir nýsköpun.
Tæknin Fjórða iðnbyltingin getur falið í sér hátt flækjustig, verið orkufrek og leitt af sér of marga framleiðendur. Á sama tíma gæti framleiðsla orðið fjölbreyttari og þróun rafhlaða birtir áður óséðar sviðsmyndir. Þá gæti hún leitt til þess að flutningskerfi þurfi ekki að vera jafn afkastamikið.
Lagaumhverfi Orkupakki 4 innleiddur getur leitt til hækkandi orkuverðs og aukinnar neytendaverndar.
Náttúran Öfgar í veðurfari halda áfram að aukast og því þarf meiri fjármuni til að byggja upp kerfi, sem leiðir þá til aukins hraða í uppbyggingu. Náttúruvá vegna jarðhræringa getur lagt heitavatnskerfi í hættu. Rafbílavæðing gerist hraðar en uppbygging innviða, sem leiði til þess að fólk letjist og missi áhugann.

4. Fjölbreyttari notkun meðal stórnotenda

Raforkukaupendur sem nota ákveðið magn af raforku yfir ákveðinn tíma, teljast til stórnotenda og þeir nota um 80% af raforkuframleiðslu á Íslandi. Aukin fjölbreytni í þeim hópi notenda sem teljast til stórnotenda er væntanlega eftirsótt vegna þess að þannig dreifist áhættan í atvinnulífinu, þannig að sveiflur eða skammtímaáhrif séu síður eins fyrir alla notendur, samtímis. Þær auðlindir sem stórnotendur þurfa eru orka, land, samgöngu og flutningainnviðir fyrir aðföng og fyrir sölu og markaðssetningu á framleiðsluvöru. Fjölbreyttari notkun meðal stórnotenda. Á Íslandi eru þessi skilyrði fyrir hendi en trúlega þarf að skoða hentugleika þeirra í samhengi við markaði og samkeppnishæfni fyrirtækja á alþjóðamarkaði sem geta starfað á forsendum íslenskrar orku, lögum, innviðum, eyjar með öllum kostum og göllum sem því fylgir. Í greiningu frá fulltrúum Hagsmunaráðs kemur fram ný verkefni verði að falla að skilyrðum um sterka sjálfbærni umhverfis, efnahags og samfélags. Á tímum hagvaxtar ætti að vera greiðara aðgengi að fjármagni til nýsköpunar í orkufrekum iðnaði. Hin hliðin á þeirri krónu er stuðningur ríkis og sveitarfélaga við ný verkefni með áherslu á nýsköpun á samdráttar eða erfiðleikatímabilum. Skammtímasjónarmið eða einstrengingsleg stefna ráðandi stjórnmálaflokks ógna möguleikum til aukinnar fjölbreytni ef lausna er leitað á þröngu sviði eða leitað í einföldustu lausnirnar sem virka vel til skamms tíma, en síður til lengri. Fjölbreyttari notkun meðal stórnotenda getur falið í sér tækifæri til aukinna atvinnumöguleika á landsbyggðinni, þar sem hentugleiki til verðmætasköpunar veltur á fleiri þáttum en þeim sem þéttbýlið á Suðvesturlandi býður uppá. Það eru tækifæri og möguleikar til tæknivæddrar matvælaframleiðslu með lágmarks umhverfisspori, byggð á umbreytingu orku í fæðu.

Viðfangsefnið hlaut sex forgangsstig og þykir töluvert mikilvægt að mati þátttakenda og sem fyrr væri rétt að spyrja hvað Landsnet geti, eigi eða megi taka sér fyrir hendur til að fjölbreyttari notkun verði að veruleika meðal stórnotenda. Núverandi frammistaða er talin hvorki góð né slæm og spurning hvernig þátttakendur vilji túlka það „afstöðuleysi“ sitt. Er núverandi staða, sem hvorki né, er ásættanleg þá þarf ekkert að aðhafast. En ef Hagsmunaráð telur að frammistaðan þurfi að vera merkilegri en hvorki né, þá þarf að skilgreina það hvernig Landsnet geti farið að, við að auka fjölbreytnina.

Niðurstaða PESTLE greiningar

Stjórnmál Stefna þess flokks sem er við stjórn er ógn ef hún er einstrengisleg og aukið atvinnuleysi getur hjálpað til við að koma „slæmum“ kostum í gegn. Landsbyggðapólitíkin getur leitt af sér betri atvinnumöguleika á landsbyggðinni en neikvæðra umhverfisáhrifa á sama tíma. Umhverfispólitík sé einstrengisleg og fá verkefni komist í gegnum nálaraugað og Ísland tapi umhverfisvænum stórnotenda tækifærum sem hafa ekki neikvæð umhverfisáhrif.
Efnahagsmál Góður hagvöxtur með greiðara aðgengi að fjármagni til nýsköpunar í orkufrekum iðnaði en til hans ríki neikvætt viðhorf. Samdráttur leiði til erfiðleika við fjármögnun verkefna en þá gætu ríki og sveitarfélög reynst mikilvæg með því að liðka fyrir nýsköpunarverkefnum.
Samfélag og menning Engir punktar.
Tæknin Engir punktar.
Lagaumhverfi Engir punktar
Náttúran Engir punktar

Þróun meginflutningskerfisins næstu 10 árin

Valkostagreiningin hefur snúið að heildarendurnýjun meginflutningskerfisins á því tímabili sem sviðsmyndir um raforkunotkun 2019–2050 ná yfir. Skv. 9. gr. a raforkulaga nr. 65/2003 og reglugerð 870/2016 um kerfisáætlun skal langtímaáætlun kerfisáætlunar sýna þá þætti í meginflutningskerfinu sem fyrirhugað er að byggja upp eða uppfæra á næstu 10 árum og tímaáætlun þeirra. Vísað er í fyrri kerfisáætlanir vegna valkostagreiningar til næstu 10 ára og verða hér útlistaðar þær framkvæmdir sem fyrirhugað er að ráðast í á þessu tímabili skv. valkostagreiningum. Í grófum dráttum er sú leið sem valin hefur verið til næstu 10 ára sá valkostur sem nefndur var B.2 ásamt nýrri 220 kV tengivirkisbyggingu á Hryggstekk en sú framkvæmd er talin mikilvæg til þess að hægt sé að létta á sniði IIIb á skemmri tíma en tekur að tengja saman Blöndu og Brennimel (Hvalfjörð).

Styrkingar til næstu 10 ára

Niðurstaða valkostagreiningar í langtímaáætlun kerfisáætlunar 2019-2028, sem snýr að þróun meginflutningskerfisins, er sú að þær línulagnir sem sameiginlegar eru öllum valkostum og kynntar eru í kafla 0 verði fullkláraðar á því tímabili sem áætlunin nær yfir, auk þess að styrkjaflutningsleiðina á milli Hvalfjarðar og Hrútafjarðar og á milli Hrútafjarðar og Blöndum með byggingu nýrra 220 kV lína. Tengingunni frá Hvalfirði í Hrútafjörð var bætt við 10 ára áætlun eftir opið umsagnarferli kerfisáætlunar 2019-2028 þar sem Landsneti varð ljóst að mikill áhugi er til staðar fyrir beislun vindorku á Vestfjörðum.

Þær línur sem um ræðir eru á Norðurlandi; Kröflulína 3 á milli Kröflu og Fljótsdals, Hólasandslína 3 á milli Akureyrar og Kröflu og Blöndulína 3 á milli Blöndu og Akureyrar. Á suðvesturhorninu þarf að byggja Lyklafellslínu 1 og Suðurnesjalínu 2. Einnig er fyrirsjáanlegt að auka þurfi flutningsgetu á milli höfuðborgarsvæðis og Vesturlands, annað hvort með uppfærslu á Brennimelslínu 1 eða með byggingu nýrrar línu þar á milli. Það sama gildir um tengingu á milli Hellisheiðar og höfuðborgarsvæðis en kerfisrannsóknir sýna að þar muni fljótlega myndast flöskuháls í fæðingu höfuðborgarinnar. Ekki er ákveðið hvernig staðið verði að þeirri styrkingu en einhverjir möguleikar eru í stöðunni, m.a. uppfærsla á núverandi línum eða með lagningu nýrrar línu. Samhliða þessum verkefnum er áætlað að byggja nýja 220 kV línu á milli Hvalfjarðar og Hrútafjarðar og á milli Hrútafjarðar og Blöndu auk þess að fjárfesta bæði í svæðisbundnu kerfunum og endurnýjun núverandi flutningsmannvirkja. Að auki er fyrirhugað að framlengja 220 kV styrkingar á byggðalínu á Hryggstekk en það er hægt með því að reisa nýtt 220 kV tengivirki við Hryggstekk og tengja í aðra af Fljótsdalslínum 3 eða 4 sem fer þar skammt hjá.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir í meginflutningskerfinu til 10 ára feli í sér nýbyggingu 220 kV lína við hlið eldri 132 kV lína sem verða reknar áfram uns þær hafa lokið líftíma sínum. Teknar verða ákvarðanir um hverja línu fyrir sig í lok rekstrarlegs líftíma hvort þær verði endurbyggðar eða aflagðar.

Áætluð aflgeta afhendingarstaða eftir 10 ár

Framkvæmdar hafa verið kerfisrannsóknir í þeim tilgangi að leggja mat á aflgetu afhendingarstaða í 10 ára tímabils eftir að lokið hefur verið við þær framkvæmdir sem taldar eru upp hér að ofan. Miðað er við Raforkuspá og horft til stöðunnar eins og hún verður í lok árs 2029 skv. spánni og er niðurstaðan eftirfarandi:

4-1.png

Mynd 4-1: Tiltæk afhengindargeta í lok tímabils áætlunarinnar

Mynd 4-1 sýnir áætlaða tiltæka afhendingargetu afhendingarstaða í meginflutningskerfinu árið 2029. Mat á áhrifum á markmið raforkulaga m.v. núverandi ástand má sjá á Mynd 4 2.


4-2.png

Mynd 4-2: Mat á áhrifum 10 ára áætlunar á markmið raforkulaga

Munurinn á mati á 10 ára framkvæmdaáætlun nú og valkosts B.2 í síðustu kerfisáætlun að útkoman er betri fyrir áreiðanleika afhendingar þar sem viðbót tengivirkis á Hryggstekk hefur talsverð áhrif á flöskuhálsa í kerfinu. Með framkvæmdinni er hinu svokallaða sniði IIIb að mestu leyti aflétt sem skýrir betra mat á markmiði um áreiðanleika afhendingar.

Samanburður við fjögur atriði sem voru talin hæst í forgangi

Ef áætluð staða raforkukerfisins eftir framgang verkefna á 10 ára áætlun er borin saman við þau fjögur atriði sem voru talin hæst í forgangi hjá Hagsmunaráði Landsnets, kemur í ljós að kerfið verður vel í stakk búið til að styðja við þá framtíðarsýn sem þar kemur fram. Aukin tiltæk afhendingargeta um allt land, ásamt bættu afhendingaröryggi (Mynd 4-1 og Mynd 4-6) og stöðugra kerfi mun styðja við 1. atriði í framtíðarsýninni sem snýr að því að byggja upp raforkukerfið í samræmi við þarfir. Það sama gildir um atriði 2, „Orkuskipti í samgöngum úr jarðefnaeldsneyti er lokið“ en hægt er að fullyrða að ef 10 ára áætlun nær fram að ganga, mun flutningskerfið sem slíkt styðja við orkuskipti í samgöngum, án þess að flöskuhálsar verði vandamál. Hvað varðar 3. atriðið um að sátt hafi náðst um skipulag orkumála í gegnum orkustefnu, er samanburður við kerfisáætlun erfiður, þar sem Orkustefnan hefur ekki enn verið birt. Það er þó von Landsnets að eðlilegri uppbyggingu flutningskerfisins verði gert hátt undir höfði í orkustefnunni og að hún muni styðja við þær áætlanir sem hér eru kynntar. 4. atriðið snýr svo að fjölbreyttari notkun á meðal stórnotenda. Landsnet telur að áform um uppbyggingu meginflutningskerfisins næstu 10 árin, ásamt öðrum framkvæmdum séu vel til þess fallinn að styðja við fjölbreytta notkun kerfisins, sem kemur jafnt almenningi, og atvinnulífi til góða hvort sem um ræðir minni eða stærri notendur.

Áframhaldandi þróun flutningskerfisins

Þessi kafli fjallar um framtíðarþróun meginflutningskerfisins næstu áratugina. Fjallað er um þá valkosti sem snúa að því hvernig mögulegt er að meginflutningskerfi raforku geti þróast umfram þá þróun á kerfinu sem nú hefur verið sett á 10 ára áætlun Landsnets.

Fyrir þessa framtíðaruppbyggingu flutningskerfisins er horft til tveggja meginvalkosta. Þeir eru annars vegar svokölluð byggðalínuleið og hins vegar hálendisleið. Báðar þessar leiðir eru skoðaðar í mismunandi útfærslum á svipaðan hátt og gert hefur verið í fyrri kerfisáætlunum.

Eins og áður hefur komið fram hafa valkostir til næstu 10 ára verið greindir og út frá þeirri greiningu hefur verið lögð fram röð framkvæmda næstu 10 ára til styrkingar meginflutningskerfisins. Þessar framkvæmdir má sjá myndrænt á Mynd 4-1

Þessar framkvæmdir samanstanda í megindráttum af svokölluðum valkosti B.2 og vísað er til fyrri kerfisáætlunar [4] til nánari glöggvunar.

Forsendur

Sem grunnforsendur kerfisrannsókna sem tæknilegt mat á valkostum byggir á er notast við sviðsmyndir um raforkunotkun 2019–2050 frá Raforkuhópi orkuspárnefndar eins og fram kom í kafla 1.3. Sviðsmyndirnar eru alls fjórar og ná yfir orku- og aflþörf á tímabilinu fram til ársins 2050.

T 4-1.png

Tafla 4-1: Orkunotkun og hámarksafl eftir sviðsmyndum

Tafla 4-1 sýnir árlega orkunotkun í GWh ásamt hámarksálagi á kerfið á árinu 2050 eftir mismunandi sviðsmyndum frá Raforkuhópi orkuspárnefndar. Til samanburðar er birt orkunotkun og hámarksálag eins og það var á árinu 2018.

Sviðsmyndir Raforkuhóps orkuspárnefndar ná yfir raforkunotkun til ársins 2050. Sviðsmyndirnar staðsetja hvorki raforkunotkunina né þá orkuvinnslu sem þarf til að anna mismunandi þróun. Landsnet brást við þessu með því að dreifa almennri notkun í takt við íbúafjölda. Stórnotkun (í sviðsmyndinni Aukin stórnotkun) var fyrst og fremst dreift á þekkt iðnaðarsvæði þar sem núverandi stórnotendur eru staðsettir og hafa því sterkustu tengingarnar nú þegar. Þau iðnaðarsvæði sem um ræðir eru Helguvík á Suðurnesjum, Grundartangi á Vesturlandi, Bakki á Norðurlandi eystra og iðnaðarsvæðið á Reyðarfirði. Einnig var álaginu dreift í takt við fólksfjölda á höfuðborgarsvæðið, Suðurland, Vestfirði og Norðurland vestra þar sem eðlilegt er að í sviðsmynd sem lýsir aukinni stórnotkun sé gert ráð fyrir iðnaðaruppbyggingu annars staðar en á stærstu iðnaðarsvæðunum.

Varðandi orkuvinnslu þá var notast að hluta við þekkta orkuvinnslukosti úr nýtingarflokki rammaáætlunar ásamt því að notast var við óskilgreinda vinnslu þar sem upp á vantaði.

Stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku

Þann 11. júní 2018 var samþykkt á Alþingi þingsályktun nr. 26/148. um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Stefnan er ítarlegri en stefna stjórnvalda um lagningu raflína, nr. 11/144 , en breytir þó ekki viðmiðum og meginreglum varðandi lagningu raflína.
Stefnan er í þremur liðum, þar sem fyrsti liðurinn, A-liður snýr að almennum atriðum er varða uppbyggingu flutningskerfis raforku. B-liður fjallar um rannsóknir og greiningar á jarðstrengjum í flutningskerfinu, en C-liður snýr að viðmiðum og meginreglum varðandi lagningu raflína.

Almenn atriði er varða uppbyggingu flutningskerfis raforku

Fyrir öll verkefni sem eru á framkvæmdaáætlun er lagt mat á það hvernig einstaka framkvæmdir og/eða valkostir samræmast almennum atriðum í stefnu stjórnvalda og stefnu um línutegund skv. stefnu um lagningu raflína.

Það sem snertir valkostagreiningu í langtímaáætlun með beinum hætti er hins vegar töluliður 4 í A-lið stefnunnar sem snýr að línulögnum yfir hálendið, en þar segir að „ekki verði ráðist í línulagnir yfir hálendið“. Mat á samræmi allra valkosta á langtímaáætlun við stefnuna má finna í umhverfisskýrslu í töflu 14.1.

Rannsóknir og greiningar

B-liður stefnunnar snýr að rannsóknum og greiningum á jarðstrengsmöguleikum. Samkvæmt henni skulu sérfróðir aðilar gera óháðar og sjálfstæðar rannsóknir á áhrifum mismunandi tæknilegra lausna við lagningu raflína. Jafnframt skuli fari fram óháð greining á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að aukið hlutfall flutningskerfis raforku verði lagt í jörð, m.t.t. áhrifa á raforkuverð, afhendingaröryggis, hagkvæmni, byggðaþróunar, tæknilegra lausna og umhverfiskostnaðar.

Skýrsla um framangreind rannsóknarefni hefur verið lögð fram og er nánar fjallað um efni hennar í kafla 4.8.

Viðmið og meginreglur varðandi lagningu raflína

Í C-lið stefnunnar er kveðið á um að þingsályktunin skuli tekin til endurskoðunar á haustþingi 2019 og verði þá kveðið nánar á um viðmið og meginreglur varðandi lagningu raflína, til lengri tíma, m.a. með áherslu á að hve miklu leyti nýta skuli jarðstrengi með hagkvæmum hætti í flutningskerfi raforku.

Þar til framangreindri endurskoðun er lokið skulu gilda þau viðmið og þær meginreglur varðandi lagningu raflína sem fram koma í þingsályktun nr. 11/144 um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína, líkt og gert er í þessari kerfisáætlun.

Valkostir um styrkingu meginflutningskerfisins

Valkostagreining um styrkingar meginflutningskerfisins snýr að þessu sinni að þeim styrkingum sem ráðast þarf í eftir að 10 ára framkvæmdaramma hefur verið hrundið í framkvæmd. Í þessu sambandi verða greindir þrír meginvalkostir sem endurspegla valkosti fyrri valkostagreiningar. Lagðir eru fram tveir framkvæmdakostir, frekari styrkingar yfir hálendið og meðfram núverandi byggðalínu eftir suðurhluta hennar. Í þriðja lagi verður lagður fram og greindur sá valkostur að láta staðar numið í styrkingu meginflutningskerfisins á landsbyggðinni. Ástæðan fyrir þessari breytingu á forsendum valkostagreiningar er sú að Landsnet telur að með niðurstöðum síðustu valkostagreiningar hafi verið sýnt fram á að sá kostur að tengja ekki saman landshluta sé hvorki hagkvæmur né tæknilega ákjósanlegur.

Í hálendisvalkostum er fjallað um útfærslur sem snúa að jafnstraumstengingu yfir hálendið og hálendislínu með 50 km löngum jarðstrengskafla en um þá er fjallað sem valkosti hvorn um sig. Í valkostum sem fela í sér endurbyggingu er horft til þess að byggja nýjar línur við hlið þeirra gömlu og fjarlægja gömlu línurnar. Með þessu verklagi fást betri kerfislægir eiginleikar en við núverandi kerfi og minni umhverfisáhrif en við tvöfaldar línulagnir.

Ekki er gerður greinarmunur í tæknilegu mati á valkostum á því hvort línur eru lagðar sem loftlínur eða jarðstrengir. Valkostagreiningin snýr fyrst og fremst að tengingu svæða með bættri flutningsgetu. Við mat á valkostum í kerfislíkönum eru línuleiðir settar inn sem loftlínur og hermdar sem slíkar. Nánari útfærslur lína, s.s. endanlegt leiðarval, val á mastragerðum og val á milli loftlína og jarðstrengja, fara fram í framkvæmdamati viðkomandi verkefnis. Þó skal hafa hugfast að ekki er hægt að heimfæra niðurstöðurnar á styrkingar sem að öllu leyti koma í formi jarðstrengja þar sem strangar tæknilegar takmarkanir eru á þeim lengdum sem hægt er að leggja í jörð og takmarkar nýting jarðstrengja mögulega nýtingu annars staðar. Um þetta verður nánar fjallað í kafla 4.8 varðandi þá valkosti sem hér eru til umfjöllunar auk mögulegar jarðstrengslengdir í þeim framkvæmdum sem áætlaðar eru til næstu 10 ára

Yfirlit yfir valkosti

Alls eru lagðir fram fjórir valkostir í langtímaáætlun:

T 4-2.png

Tafla 4 2 : Valkostir til skoðunar í kerfisáætlun 2019-2028

Mat á valkostum

Valkostir eru metnir m.t.t. til ólíkra sviðsmynda og bornir saman á grundvelli markmiða sem getið er í 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Þau eru:

 • Hagkvæmni
 • Öryggi
 • Skilvirkni
 • Áreiðanleiki afhendingar
 • Gæði raforku
 • Jafnframt skal horfa til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku

Við mat á því hvernig valkostir uppfylla markmið raforkulaga er notast við nýja aðferðafræði sem skilgreind var í vinnslu kerfisáætlunar 2019-2028. Aðferðarfræðin byggir í grunninn á:

 • Viðmiðum fyrir grunnástand viðkomandi matsþáttar (t.d. stöðugleiki, N-1 eða kerfisstyrkur).
 • Viðmiðum fyrir einkenni áhrifa vegna framkvæmdarinnar á viðkomandi matsþátt.

Grunnástand einstakra matsþátta er metið á fimm þrepa skala. Við matið er horft til þess ástands sem er ríkjandi á áhrifasvæði framkvæmdarinnar m.t.t. viðkomandi matsþáttar. Í sumum tilfellum þarf að horfa á grunnástandið í víðu samhengi, t.d. þegar kemur að stöðugleika, en í öðrum tilfellum er mögulegt að leggja þröngt mat á grunnástand viðkomandi matsþáttar.

Annar hluti matsins snýr að áhrifum framkvæmdarinnar eða valkostsins og snýr að áhrifum á viðkomandi matsþátt á fimm þrepa skala. Við matið er horft til beinna og óbeinna áhrifa framkvæmdarinnar á viðkomandi matsþátt. Þar sem horft er til fleiri en eins matsþáttar við mat á uppfyllingu markmiðs er heildargildi áhrifa metið með hliðsjón af öllum matsþáttum.

Við mat á því hversu mikil áhrif framkvæmdin gæti haft í för með sér er vegin saman greining á grunnástandi og helstu einkennum áhrifa sem hlotist geta af framkvæmdinni á viðkomandi matsþátt (markmið). Niðurstöður greiningarinnar eru lagðar inn í vægiseinkunnagraf sem er það sama og notað er við umhverfismat kerfisáætlunarinnar.

Vægismat

Viðmiðin fyrir hvorn ás eru nokkur og er hvert þeirra kvarðað á skalanum lítið til mikið. Niðurstaða matsins, þ.e. vægiseinkunn fyrir áhrif á hvern matsþátt, er svo heildarsamantekt af þessum undirliggjandi viðmiðum. Sú samantekt byggir á mati sérfræðinga. Hún er ekki meðaltal heldur er lagt mat á innbyrðis vægi þessara viðmiða á hvorum ás fyrir sig.

Við framsetningu matsins eru útfylltar töflur sem sýna annars vegar grunnástand matsþátta fyrir viðkomandi markmið á 5 þrepa skala og hins vegar áhrif viðkomandi framkvæmdar eða valkosts.

T 4-3.png

Tafla 4-3 : Skráningartafla fyrir mat á matsþáttum

Tafla 4-3 sýnir skráningartöflu fyrir mati á grunnástandi og áhrifum framkvæmdar og/eða valkosts. Matið er fimm þrepa, en einungis eru skilgreind 3 þrep fyrir hvern matsþátt. Þrep 2 og 4 eru hugsuð fyrir gildi sem lenda á milli fyrirfram skilgreindra þrepa og er það þá útskýrt með texta á viðeigandi hátt.

Á grundvelli samspils grunnástands og einkenna áhrifa fæst mat á vægi áhrifanna, svokallaðra vægiseinkunna, með því að finna næsta skurðpunkt grunnástands og einkenna áhrifanna.


4-3.png

Mynd 4-3 : Dæmi um framsetningu mats

Mynd 4-3 sýnir dæmi um framsetningu vægismats. Viðmið fyrir grunnástand og áhrif eru breytileg eftir matsþáttum. Þar sem áhrif framkvæmda á markmið raforkulaga eru í fæstum tilfellum neikvæð hefur grafið verið aðlagað þannig að einungis eru sýnd lítil eða jákvæð áhrif.

Fyrir markmið raforkulaga hafa verið skilgreindir eftirfarandi matsþættir:


T 4-4.png

Tafla 4-4 : Skilgreindir matsþættir fyrir markmið

* Matsþáttur einungis notaður fyrir valkosti á langtímaáætlun

** Matsþáttur einungis notaður fyrir verkefni á framkvæmdaáætlun

Tafla 4-4 sýnir yfirlit yfir hvaða matsþættir hafa verið skilgreindir fyrir uppfyllingu markmiða raforkulaga. Nánari upplýsingar um aðferðafræðina og mat á grunnástandi matsþátta og áhrifum framkvæmda má finna í skýrslu á heimasíðu Landsnets .

Matsþættir sem skilgreina hvert og eitt markmið eru misvel mælanlegir og í sumum tilfellum þarf að grípa til huglægari nálgunar til þess að meta þá. Sem dæmi má nefna að matsþátturinn „Tvítenging afhendingarstaðar“ er afar skýrt mælanlegur en aftur á móti er matsþáttur eins og „Áreiðanleikastuðlar“ ekki jafn vel mælanlegur. Þess vegna hefur verið ákveðið að gefa matsþáttunum vægi, þ.a. mælanlegri matsþættir hafi aukið vægi á móti þess sem huglægu mati hefur verið gefið minna vægi. Í töflunni að neðan má sjá vægi einstakra matsþátta


T 4-5.png

Tafla 4-5 : Mælikvarðar sem notaðir eru til að meta valkosti í langtímaáætlun ásamt vægi

Nýr mælikvarði fyrir hagkvæmni

Í ár er hefur verið bætt við nýjum mælikvarða fyrir hagkvæmni, hlutfallslegri afhendingargetu. Mælikvarðinn er niðurstaða samstarfsverkefnis Landsnets og ráðgjafafyrirtækisins Frontier-Economics þar sem ráðist var í greiningar á sögulegum gögnum um afhendingu raforku og launatekjum almennings árin 1992-2016. Niðurstaða greininganna er að fylgni er milli þess að hafa nægan aðgang að afhendingargetu umfram hámarksnotkun og launahækkana almennings.

Við greininguna kom í ljós að hlutfallsleg afhendingargeta á Íslandi hefur farið lækkandi jafnt og þétt allt tímabilið frá 1992-2016 fer hlutfallsleg afhendingargeta lækkandi. Staðan árið 2016 var þannig að einungis tvö sveitarfélög höfðu meiri hlutfallslega afhendingargetu en árið 2016, Grundarfjörður og Húnavatnshreppur. Ljóst er að með tilkomu gagnavers ETIX við Blönduós hefur hlutfallsleg afhendingargeta lækkað á Blönduósi frá árinu 2016. Þessi staða er önnur birtingarmynd ljósamyndanna sem sýna tiltæka afhendingargetu á afhendingarstöðum Landsnets, sjá t.d. Mynd 4-1.

4-4.png

Mynd 4-4: Hlutfallsleg afhendingargeta 1992 og 2016

Greiningin leiddi enn fremur í ljós að þegar þessi þróun var sett í samhengi við launaþróun almennings kom í ljós að laun almennings í þeim sveitarfélög sem bjuggu við takmarkaða afhendingargetu á tímabilinu uxu hægar en laun þar sem afhendingargetan var mikil. Eins og sjá má á Mynd 4-5 er munurinn milli þess að hafa hlutfallslega afhendingargetu minna en 100% yfir hámarksafhendingu og þess að hafa hlutfallslega afhendingargetu milli 100% og 200% 0,6% á ári. Hins vegar er munurinn á árlegum launahækkununum minni þegar hlutfallsleg afhendingargeta fer yfir 200% yfir hámarksafl. Það bendir því til þess að einhvers konar mettun sé náð í kring um 200%.


4-5.png

Mynd 4-5: Hækkun launa og hlutfallsleg afhendingargeta

Mælikvarðinn er því settur inn í hagkvæmnimat framkvæmda. Ítarlegri upplýsingar um greininguna má finna í skýrslu á heimasíðu Landsnets.

Mat Hagsmunaráðs Landsnets á valkostum

Í þeim tilgangi að leggja mat á mismunandi valkosti við áframhaldandi uppbyggingu kerfisins hefur til viðbótar við mat á því hvernig valkostir uppfylla markmið raforkulaga, verið framkvæmd svokölluð SVÓT greining á báðum meginvalkostum sem kynntir eru hér að ofan ásamt þeim valkosti að gera ekki neitt þ.e. að framkvæma eingöngu þau verkefni sem eru á 10 ára áætlun og láta þar staðar numið. Greiningin var framkvæmd af Hagsmunaráði Landsnets og fór hún fram í vinnustofum þann 12. nóvember 2019 og þann 30. janúar 2020.

SVÓT greining gengur út á það að reyna að kortleggja styrkleika, veikleika, ógnanir og eða tækifæri sem mismunandi lausnir bjóða upp á. Við greininguna var horft til þess hverjir væru núverandi styrkleikar í íslensku umhverfi sem valið leið getur byggt á þannig að vel takist til við uppbyggingu. Á sama hátt var reynt að leggja mat á það hverjir séu núverandi veikleikar í íslensku umhverfi sem geta virkað hamlandi á þessa leið við uppbygginguna. Einnig hvaða ógnanir séu til staðar í íslensku eða alþjóðlegu umhverfi, utan okkar áhrifasviðs, sem geta haft alvarlegar afleiðingar á farsælan árangur af því að velja viðkomandi valkost. Að lokum var svo reynt að leggja mat á það hvaða tækifæri gætu skapast á Íslandi ef viðkomandi valkostur yrði fyrir valinu.

Valkostagreining

Í köflunum hér að framan hafa sviðsmyndum Raforkuhóps orkuspárnefndar verið gerð skil og er tæknilegt mat á valkostum kerfisáætlunar framkvæmt fyrir árið 2050 þar sem líftími nýrra mannvirkja valkostanna nær töluvert umfram það ár. Í valkostagreiningunni eru skoðaðir tvær meginleiðir til uppbyggingar meginflutningskerfisins, önnur byggir á tengingu yfir miðhálendið og hin á styrkingum meðfram núverandi byggðalínu líkt og valkostir fyrri kerfisáætlana gerðu ráð fyrir. Þetta verður borið saman við þriðja kostinn sem felur ekki í sér frekari styrkingar á meginflutningskerfinu eftir tímabil þessarar langtímaáætlunar fram til 2050.

Í áhrifamati valkosta eru matstöflur sýndar fyrir hvert markmið. Fjallað er um niðurstöður mats fyrir A-valkosti eftir undirkafla allra slíkra kosta þar sem fjallað er um valkostina með innbyrðis samanburði í kafla 4.7.4. A-, B- og C-valkostir eru loks bornir saman og niðurstöður valkostagreiningar dregnar saman í kafla 4.7.11.

Almennar forsendur

Vinnsla og álag miðast við gögn úr Raforkuspá 2019 og Sviðsmyndum um raforkunotkun 2019-2050. Tekinn er dagur með mestu heildarinnmötun í kerfið árið 2050. Við kerfishermanir er litið framhjá staðbundnum takmörkunum sem koma til vegna endabúnaðar (t.d. straumspenna) sem hægt er að skipta út með litlum tilkostnaði og fyrirhöfn. Hitaflutningsmörk eru notuð fyrir loftlínur og jarðstrengi.

Mat á grunnástandi

Í fyrri kerfisáætlunum hefur verið lagt mat á svokallaðan núllkost sem er sá kostur sem felst í því að engar styrkingar verði framkvæmdar á meginflutningskerfinu á gildistíma áætlunarinnar. Skv. þeirri matsaðferð sem nú hefur verið innleidd mun núllkosturinn verða endurspeglaður með mati á grunnástandi valkostanna. Grunnástand valkostagreiningarinnar að þessu sinni er ástandið að 10 árum liðnum þegar þær framkvæmdir sem útlistaðar eru í kafla 4.2 hafa náð fram að ganga. Vænta má að niðurstaða mats á því grunnástandi sé betri en grunnástand síðustu greiningar og því verða áhrif valkosta minni en áður. Á móti kemur þó að álag á kerfið mun aukast á tímabilinu 2029 til 2050 sem kemur til með að auka þörf á valkostunum og auka áhrif þeirra. Athuga ber að mismunandi sviðsmyndir hafa misjafnt grunnástand ólíkt valkostagreiningu síðustu kerfisáætlunar.

Matið á grunnástandi tekur mið af áhrifamati valkosts B.2 í síðustu langtímaáætlun auk annarra þátta sem gætu haft áhrif á tiltekna mælikvarða.

Öryggi

Grunnástand öryggis hefur verið metið fyrir alla matsþætti sem ná yfir öryggi.

T 4-6.png

Tafla 4-6 : Mat á grunnástandi matsþátta fyrir öryggi

Tafla 4-6 sýnir niðurstöðu mats á grunnástandi allra matsþátta sem ná yfir öryggi. Eins og sjá má á Mynd 4-6 má sjá að allir afhendingarstaðir í meginflutningskerfinu, að undanskildum Vestfjörðum, eru komnir með grænt merki sem táknar að afhendingarstaður annar álagi í N-1 truflanatilvikum. Virkjanasvæði á Suðurlandi og Austurlandi verða tengd saman með 220 kV línum um lengstu mögulegu leið og má reikna með að Stöðugleika verði enn ábótavant en þó verður búið að batna lítið eitt vegna samtengingar landssvæða. Töluverð flutningsgeta verður komin á milli landssvæða sem eykur getu kerfisins til þess að bregðast við frávikum í rekstri vegna Náttúruvár.


4-6.png

Mynd 4-6: Öryggi afhendingarstaða miðað við 10 ára áætlun

Áreiðanleiki afhendingar

Grunnástand áreiðanleika afhendingar hefur verið metið fyrir alla matsþætti sem ná yfir áreiðanleika afhendingar.

T 4-7.png

Tafla 4-7 : Mat á grunnástandi matsþátta fyrir áreiðanleika afhendingar

Tafla 4-7 sýnir niðurstöðu mats á grunnástandi allra matsþátta sem ná yfir áreiðanleika afhendingar. Eins og sést á töflunni er grunnástand Flöskuhálsa með miðlungs gildi. Komin verður á tenging milli landshluta og reiknað með því að búið verður að leysa úr helstu flutningstakmörkunum á byggðalínu, þ.e. sniði II, sniði IIIb og sniði IV. Útlit er fyrir að enn verða nokkrar svæðisbundnar takmarkanir til staðar. Grunnástand fyrir matsþáttinn Ótiltæki er metið yfir meðallagi þar sem helstu flutningsleiðir í meginflutningskerfinu verða orðnar tvöfaldar og því aðeins um ótiltæki flutningsleiða að ræða þegar tvær leiðir rofna. Línur suður fyrir Vatnajökul verða þó enn einfaldar og sú leið sem reikna má með mestu ótiltæki í samtengingum landsvæða auk þess sem flutningsleiðir til Vestfjarða verða áfram með sama móti og nú er. Grunnástand fyrir áreiðanleikastuðla er metið yfir meðallagi fyrir sviðsmyndirnar Hægar framfarir, Raforkuspá og Græna framtíð þar sem markmið fyrir stuðlana hafa síðustu ár verið að nást að hluta eða öllu leyti. Sá árangur er þó að töluverðu leyti háður ytri aðstæðum eins og veðri. Það er metið svo að með því mikla álagi sem fylgir sviðsmyndinni Aukin stórnotkun að árangurinn verði ekki eins góður og því metinn í meðallagi.

Gæði raforku

Grunnástand öryggis hefur verið metið fyrir alla matsþætti sem ná yfir áreiðanleika afhendingar.

T 4-8.png

Tafla 4-8 : Mat á grunnástandi matsþátta fyrir gæði raforku

Tafla 4-8 sýnir niðurstöðu mats á grunnástandi allra matsþátta sem ná yfir gæði raforku. Eins og sést á töflunni er grunnástand Kerfisstyrks metið miðlungs til miðlungs lágt. Meginflutningskerfið á landsbyggðinni er afar víða mjög veikt í dag og aðgerðir næstu 10 ára munu hækka það eitthvað í öllum sviðsmyndum. Þessi matsþáttur er ekki eingöngu háður styrkingaraðgerðum Landsnets heldur einnig álagshækkun og þá helst nýrri vinnslu sem kemur inn með auknu álagi. Mikið er unnið með því að jafna styrk kerfisins sem á móti myndi bæta stöðugleika kerfisins og þar með öryggi þess. Grunnástand vegna Aflsveiflna er metið í meðallagi fyrir allar sviðsmyndir og er ástæða þess að samtenging verður komin á milli landsvæða og þar með helstu vinnslumassa kerfisins á 220 kV spennu. Þessi samtenging er þó eins löng og hún getur verið og því ekki loku fyrir það skotið að aflsveiflutilvik verði enn nokkuð algeng en þó öðru móti en er í dag. Miklu hefur verið kostað til til að koma á öflugu vöktunarkerfi á aflsveiflur á ýmsum tíðnibilum og uppsetningu svokallaðs róunarbúnaðar í aflstöðvum sem, eins og nafnið gefur til kynna, hefur það hlutverk að „róa“ aflsveiflur í kerfinu. Stýring flutningskerfisins snýst að töluverðu leyti um að bregðast við kerfisaðstæðum sem myndað geta aflsveiflur og er reiknað með að rekstur og stillingar þessa kerfis þróist til hins betra þegar fram líða stundir. Grunnástand fyrir matsþáttinn Spennusveiflur/spennuþrep er ekki metið fyrir valkosti í heild. Þessi matsþáttur á eingöngu við stakar framkvæmdir í framkvæmdaáætlun enda er honum ætlað að varpa á ljósi á staðbundin áhrif af nýjum búnaði. Fyrir Afhendingarspennu/vikmörk er grunnástandið metið miðlungshátt fyrir allar sviðsmyndir. Það er vegna þess að spenna á afhendingarstöðum í meginflutningskerfinu verður víðast hvar mun betur í stakk búið að bregðast við útleysingum á línum og öðrum einingum. Í reglugerð er miðað við 10% vikmörk afhendingarspennu og við prófanir í kerfishermi voru flest þekkt tilvik spennufrávika úr sögunni m.v. 10 ára áætlun. Þó má ætla að þessi tilvik geti verið fleiri eftir því sem hlutfall lengri jarðstrengslagna í styrkingum verður hærra en það er háð töluverðri óvissu á þessu stigi. Miðað er við að styrkingar séu í formi loftlína í samræmi við stefnu stjórnvalda.

Skilvirkni

Grunnástand hefur verið metið fyrir alla matsþætti sem ná yfir skilvirkni.

T 4-9.png

Tafla 4-9 : Mat á grunnástandi matsþátta fyrir skilvirkni

Tafla 4-9 sýnir niðurstöðu mats á grunnástandi allra matsþátta sem ná yfir skilvirkni. Eins og sést á töflunni er grunnástand Flutningstapa almennt metið í meðallagi en þó lágt fyrir Aukna stórnotkun. Ástæða þess er að yfir athugunartímabilið, sem nær frá 2029 til ársins 2050, haldast hlutfallsleg töp innan ásættanlegra marka en þegar álag er orðið eins hátt og það er í stærstu sviðsmyndinni eru töpin orðin mjög há á nýjan leik sem er vísbending um þörf fyrir frekari styrkingar. Grunnástand fyrir Nýtingu virkjana er metið yfir meðallagi fyrir Hægar framfarir og Raforkuspá en í meðallagi fyrir Græna framtíð og Aukna stórnotkun. Eftir því sem rýmd í kerfinu er meiri þeim mun meira er hægt að mata inn á kerfið af orku. Þessi matsþáttur fær þó hærra gildi þar sem hægt er að nota orku nálægt innmötun án þess að takmarkanir kerfisins hafi mikil áhrif.

Hagkvæmni

Grunnástand hefur verið metið fyrir alla matsþætti sem ná yfir hagkvæmni.

T 4-10.png

Tafla 4-10 : Mat á grunnástandi matsþátta fyrir hagkvæmni

Í samanburði við núverandi ástand er hlutfallsleg afhendingargeta metin í meðallagi fyrir árið 2029 þar sem talsvert margir afhendingarstaðir verða þá komnir með þetta hlutfall yfir 200%. Það þýðir að þar sé hægt að bæta við álagi sem nemur tvöföldu toppálagi almennrar raforkunotkunar sem er viðmiðið fyrir hátt gildi í þessum nýja mælikvarða. Endurgreiðslutími er metinn í meðallagi fyrir allar sviðsmyndir þar sem eftirstöðvar endurgreiðslutíma vegna framkvæmda næstu 10 ára verða á þeim tímapunkti 27 ár sem er í meðallagi skv. skilgreiningu mælikvarðans.

Valkostir með hálendistengingu – H

Lagðir eru fram tveir valkostir með hálendistengingu sem fela í sér mismunandi tæknilega útfærslu tengingarinnar yfir hálendið. Annar gerir ráð fyrir loftlínu á stærstum hluta leiðarinnar auk 50 km jarðstrengskafla og hinn gerir ráð fyrir jafnstraumstengingu (DC) alla leiðina, um 200 km.

4-7.png

Mynd 4 7 : H valkostir

Valkostur H.1 – Hálendislína með 50 km jarðstreng

Valkostur H.1 gerir ráð fyrir að stóru virkjanirnar sem tengdar eru byggðalínunni verði tengdar saman með sterkum, tvöföldum tengingum, jafnframt því sem þær yrðu tengdar við stærsta framleiðslukjarnann á Suðurlandi með línu yfir hálendið, stystu mögulegu leið. Þessi kostur skilar mikilli stöðugleikaaukningu ásamt töluverðri getu til að flytja afl milli landshluta með stuttum línum, samanborið við byggðalínuhring. Þessi útfærsla felur líka í sér að ekki er verið að flytja aflið í gegnum álagsþunga staði, sem gæti mögulega falið í sér aukna þörf fyrir stýrt launafl til spennustýringar. Valkostur H.1 gerir ráð fyrir hámarkslengd jarðstrengs sem er 50 km af leiðinni yfir hálendið.

Markmið raforkulaga

Framkvæmt hefur verið mat á því hvernig valkosturinn uppfyllir markmið raforkulaga. Töflur með niðurstöðu matsins má finna í kafla 7.

Niðurstaða mats á uppfyllingu markmiða

Öll fimm markmið eru teiknuð inn á sama graf. Staðsetning punkta er ákvörðuð eftir skurðpunkti grunnástands og áhrifa valkostsins á viðkomandi markmið.

4-8.png
Mynd 4-8: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost H.1 og sviðsmyndina Hægar framfarir
4-9.png
Mynd 4-9: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost H.1 og sviðsmyndina Raforkuspá
4-10.png
Mynd 4-10: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost H.1 og sviðsmyndina Græn framtíð
4-11.png
Mynd 4-11 : Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost H.1 og sviðsmyndina Aukin stórnotkun

Mynd 4-8 til 4-11 sýna hvernig valkostur H.1 uppfyllir markmið raforkulaga. Tæknilegt valkostamat fyrir valkost H.1 byggir á því að útfærsla jarðstrengshluta hálendistengingar verði með þeim hætti að ekki skapist kerfisleg vandamál af launaflsframleiðslu jarðstrengsins. Hámarkslengd jarðstrengsins, 50 km, er ein af þeim ráðstöfunum sem tryggir að svo verði ásamt nauðsynlegri útjöfnun á launafli.

Valkostur H.2 – Jafnstraumstenging yfir hálendið

Valkostur H.2 er önnur útfærsla af valkosti H.1 þar sem hálendislína yrði lögð sem jafnstraumstenging. Á þann hátt er tæknilega mögulegt að leggja línuna sem jarðstreng alla leið, frá virkjunarsvæðinu á Þjórsár-/Tungnaársvæðinu og að nýju tengivirki á Norðurlandi.

Markmið raforkulaga

Framkvæmt hefur verið mat á því hvernig valkosturinn uppfyllir markmið raforkulaga. Töflur með niðurstöðu matsins má finna í kafla 7.

Niðurstaða mats á uppfyllingu markmiða

Öll fimm markmið eru teiknuð inn á sama graf. Staðsetning punkta er ákvörðuð eftir skurðpunkti grunnástands og áhrifa valkostsins á viðkomandi markmið.

4-12.png
Mynd 4-12: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost H.2 og sviðsmyndina Hægar framfarir
4-13.png
Mynd 4-13: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost H.2 og sviðsmyndina Raforkuspá
4-14.png
Mynd 4-14: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost H.2 og sviðsmyndina Græn framtíð
4-15.png

Mynd 4-15 : Mat á marmiðum raforkulaga fyrir valkost H.2 og sviðsmyndina Aukin stórnotkun

Mynd 4-12 til 4-15 sýna hvernig valkostur H.2 uppfyllir markmið raforkulaga. Ef horft er á samanburð valkosta H.1 og H.2 má sjá að áhrifin eru jákvæðari á öryggi fyrir H.2. Ástæðan fyrir auknu öryggi er sú að endastöðvar DC-tengingar geta bætt stöðugleika verulega, jafnvel umfram þau jákvæðu stöðugleikaáhrif sem AC-hálendistenging myndi hafa í för með sér. Sjá má að hagkvæmni fær lakari útkomu fyrir H.2 sökum mjög hás fjárfestingarkostnaðar við DC-tenginguna. Fyrir önnur markmið er matið áþekkt með báðum valkostum.

Samantekt á mati H-valkosta

Eins og sjá má hafa valkostir með hálendistengingu allir heilt yfir jákvæð áhrif á markmið um öryggi, áreiðanleika afhendingar, gæði raforku og hagkvæmni en óverulega jákvæða skilvirkni. Fyrir sviðsmyndina Hægar framfarir lendir hagkvæmni utan svæði jákvæðra áhrifa sem þýðir í raun að valkosturinn er ekki æskilegur fyrir þá sviðsmynd. Þegar litið er til álagsþyngri sviðsmynda þá er dugir hið aukna álag til að lækka endurgreiðslutíma framkvæmdanna. Skilvirkni fellur utan jákvæðra áhrifa fyrir flestar sviðmyndirnar og stafar það einkum af því að grunnástand er ágætt og áhrif valkostanna á flutningstöp og nýtingu virkjana eru frekar lítil, þ.e. valkostirnir bæta litlu við þegar horft er til þessara þátta. Mest eru áhrif á valkostanna á öryggi og telja áhrif þeirra á stöðugleika þar mest. Grunnástand stöðugleika er metið lágt til miðlungslágt og áhrifin í meðallagi til há fyrir valkost með jafnstraumstengingu yfir hálendið. Endastöðvar jafnstraumstengingar bjóða upp á mikla möguleika í stöðugleikastýringu þar sem hvor endastöð fyrir sig er í raun stórt launaflsvirki, jafnvel þegar strengtengingin sjálf væri úr rekstri. Bæting á áreiðanleika afhendingar er á mörkum þess að vera jákvæð og óveruleg fyrir sviðsmyndir Hægar framfarir og Raforkuspá þar sem grunnástand er gott og áhrif til þess að gera lítil þegar ekki er um meira álag að ræða en sviðsmyndirnar reikna með. Áhrif valkostanna á markmið um gæði raforku eru í öllum tilfellum jákvæð.

Niðurstaða SVÓT greiningar H-valkosta

Helstu styrkleikar við hálendisleiðina eru að um er að ræða styðstu leiðina á milli megin orkuöflunarsvæða landsins. Einnig er talið að um lítið óafturkræfu á umhverfi sé að ræða. Tengingin er talin auka afhendingaröryggi á Norður- og Austurlandi. Með tengingunni næst fram öflug tenging á milli Norður- og Austurlands við virkjanasvæðið við Þjórsá- og Tungnaá, sem auka mun nýtingarmöguleika virkjana og vatnasvæða auk þess sem það mun auka afhendingaröryggi enn frekar. Hægt verður að nýta tæknilegar lausnir til að vinna gegn umhverfisáhrifum og ef farin verður sú leið að leggja jafnstraumsstreng yfir hálendið mun það auka möguleika til stýringar á kerfinu sem talið er að muni auka nýtingu annara orkumannvirkja.

Helstu veikleikar við að fara þessa leið er að hún mun liggja yfir miðhálendisþjóðgarð sem nú er í umræðunni. Hún mun valda raski á óspilltu víðerni. Einnig er talið að aðgengi að línustæðum og veðurfar á hálendinu sé veikleiki á línuleiðinni. Annar veikleiki er að um kostnaðarsama leið er að ræða og þá sérstaklega ef farin er sú leið að leggja jafnstraumstengingu. Einn veikleiki sem tilgreindur var, er að línuleiðin tengist ekki byggðalögum og mun því ekki beint auka aðgengi almennings að auknum raforkuflutningi. Að lokum má nefna að skipulagsmál og hagsmunir sveitafélaga og landeiganda voru nefnd sem veikleikar.

Helstu ógnanir sem snúa að tengingu yfir hálendið eru taldar vera andstaða fólks og þrýstihópa við raski á ósnortnu víðerni. Einnig er talið að eldgos og aðrar jarðhræringar geti ógnað þessari leið. Langur málsferðartími er talin geta ógnað framkvæmdinni og búast má við mikilli umræðu m.a. vegna togstreitu um aukið aðgengi að hálendinu. Nefnt var að aðgengi að línunni gæti orðið erfitt vegna erfiðra veðurskilyrða sem myndi koma niður á viðgerðum og viðhaldi. Ef leggja ætti alla línuna í jörðu, þá þarf að notast við jafnstraumstækni sem er mjög kostnaðarsöm leið.

Helstu tækifæri við hálendistengingu eru talin vera möguleikar á uppbyggingu atvinnugreina á landsbyggðinni og aukið afhendingaröryggi í ákveðnum landshlutum. Skammhlaupsafl verður hærra, sem þýðir sterkara og stöðugra kerfi. Einnig er tenging virkjanasvæðisins á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu við virkjanir á Norður- og Austurlandi talin hafa mjög jákvæð áhrif ef náttúruhamfarir herja á virkjanir á fyrrnefnda svæðinu.

Valkostur með hringtengingu – B

 

4-16.png

Mynd 4-16 : Valkostur B

Valkostur B – 220 kV hring lokað

Valkostur B snýr að því að klára 220 kV hringtengingu með því að leggja línu frá Fljótsdal í Sigöldu, alls um 370 km leið. Gert er ráð fyrir því að línan yrði endurbyggingu núverandi 132 kV lína sem liggja þessa leið en þá yrði ný lína byggð og hinar gömlu rifnar í framhaldinu að mestu leyti. Þar sem eldri línur verða fjarlægðar sem hluti af framkvæmdinni þarf að byggja ný tengivirki á þeim stöðvum sem liggja á leiðinni, þ.e. Hólum, Hnappavöllum og Prestbakka.

Markmið raforkulaga

Framkvæmt hefur verið mat á því hvernig valkosturinn uppfyllir markmið raforkulaga. Töflur með niðurstöðu matsins má finna í kafla 7.

Niðurstaða mats á uppfyllingu markmiða

Öll fimm markmið eru teiknuð inn á sama graf. Staðsetning punkta er ákvörðuð eftir skurðpunkti grunnástands og áhrifa valkostsins á viðkomandi markmið.

4-17.png
Mynd 4-17: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost B og sviðsmyndina Hægar framfarir
4-18.png
Mynd 4-18: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost B og sviðsmyndina Raforkuspá
4-19.png
Mynd 4-19: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost B og sviðsmyndina Græn framtíð
4-20.png

Mynd 4-20 : Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost B og sviðsmyndina aukin stórnotkun

Samantekt á mati B-valkosts

Mynd 4-17 til 4-20 sýna hvernig valkostur B uppfyllir raforkulög m.v. allar fjórar sviðsmyndir. Valkosturinn er lægri útkomu í hagkvæmni fyrir sviðsmynd Hægar framfarir en fyrir aðrar sviðsmyndir, þ.m.t. Raforkuspá er valkosturinn metinn hagkvæmari. Skilvirkni er óverulega jákvæð fyrir allar sviðsmyndir og stafar það fyrst og fremst af því að lítil bæting felst í valkostinum á nýtingu virkjana og flutningstöp samanborið við grunnástandið. Áhrif á tæknilegu markmiðin öryggi, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku eru metin jákvæð fyrir allar sviðsmyndir og sést að meira gagn er af valkostinum eftir því sem meira álag er í sviðsmyndinni sem um ræðir. Sjá má að niðurstaða mats á B-valkosti er að mörgu leyti mjög áþekkt niðurstöðum fyrir H-valkosti

Niðurstaða SVÓT greiningar Hagsmunaráðs fyrir Byggðalínuleið

Helstu styrkleikar þessarar leiðar eru taldir vera að auðveldara mun verða að taka einstaka hluta leiðarinnar úr rekstri til viðhalds og framkvæmda vegna hringtengingar. Einnig mun afhendingaröryggi aukast mikið á öllum hringnum og sveigjanleiki á raforkumarkaði aukast. Þetta mun einnig hafa í för með sér að kerfið á Suðausturlandi mun styrkjast talsvert mikið frá því sem nú er og Austurland mun hafa öfluga tengingu úr báðum áttum.

Helstu veikleikar eru taldir snúa að kostnaði vegna langrar línuleiðar suður fyrir Vatnajökul. Einnig mun áhætta aukast að sama skapi. Þessi langa leið mun einnig leiða til þess hás framkvæmdakostnaðar sem getur haft óæskileg áhrif á flutningsgjaldskrár til hækkunar. Sökum legu lína sunnan jökuls og um Fjallabak er hætta á að ekki náist sátt um þessa leið.

Helstu ógnir við leiðina eru að mikið er af friðlýstum svæðum á þessari leið og náttúruperlur sem ekki er sátt um að raska. Þetta er lengsta línuleiðin af þeim sem eru til skoðunar og þess vegna dýr framkvæmd. Ekki er um mikla raforkunotkun að ræða á því svæði sem suðurtengingin liggur um, eftirspurn er lítil, og því er þetta kostnaðarsöm leið miðað við staðbundna nýtingarmöguleika. Leiðin liggur um land sem er í nýtingu, um fjölda sveitarfélaga auk þess sem að málsmeðferðartími er langur.

Tækifærin sem talin eru skapast við það að fara þessa leið eru talin snúa að auknum möguleikum til staðbundinnar orkuafhendingar á Suðausturlandi, og aukinnar orkunotkunar á Austurlandi. Eins mun þessi tvöfalda tenging á milli landshluta leiða til aukinna tækifæra í orkustýringu landsins.

Valkostur E.1 - 10 ára áætlun

Valkostur E.1 – Styrkingar meginflutningskerfis 2020-2029

Valkostur E.1 er lagður fram í þeim tilgangi að leggja mat á hversu vel þær styrkingar sem fyrirhugaðar eru á tímabilinu 2020-2029 standast kröfur út tímabil Raforkuspár þ.e. til ársins 2050.

4-21.png

Mynd 4-21: Valkostur E.1

Markmið raforkulaga

Framkvæmt er mat á því hvernig valkostur E.1 uppfyllir þau markmið sem sett eru fram í raforkulögum. Töflur með niðurstöðu matsins má finna í kafla 7.

Niðurstaða mats á uppfyllingu markmiða

Öll fimm markmið eru teiknuð inn á sama graf. Staðsetning punkta er ákvörðuð eftir skurðpunkti grunnástands og áhrifa valkostsins á viðkomandi markmið.

4-22.png
Mynd 4-22: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost E.1 og sviðsmyndina Hægar framfarir
4-23.png
Mynd 4-23: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost E.1 og sviðsmyndina Raforkuspá
4-24.png
Mynd 4-24: Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost E.1 og sviðsmyndina Græn framtíð
4-25.png

Mynd 4-25 : Mat á markmiðum raforkulaga fyrir valkost E.1 og sviðsmyndina Aukin stórnotkun

Mynd 4-22 til 4-25 sýna hvernig 10 ára framkvæmdaáætlun Landsnets uppfyllir markmið raforkulaga. Eins og gefur að skilja er niðurstaðan sú að engar styrkingar umfram 10 ára framkvæmdaáætlun hefur engin jákvæð áhrif á tæknilegu markmiðin öryggi, áreiðanleika afhendingar og gæði raforku né skilvirknimarkmiðið. Áhrif á hagkvæmni eru jákvæð sökum þess að endurgreiðslutími framkvæmda lengist ekki og tekjur af álagsaukningu sviðsmynda halda áfram að borga niður þær framkvæmdir sem á undan eru gengnar. Auk þess er heldur kerfið áfram að njóta góðs af þeirri hlutfallslegu afhendingargetu sem til kemur vegna styrkinga næstu 10 ára og álagsforsendur sviðsmyndanna draga ekki meira en svo úr henni.

Niðurstaða SVÓT greiningar Hagsmunaráðs á 10 ára áætlun

Styrkleikar sem voru nefndir voru að hægt væri að tryggja orku fyrir verksmiðjur á Austurlandi, aukið afhendingaröryggi ásamt aukinni rýmd í kerfinu fyrir bæði framleiðslu og notendur á byggðalínusvæðinu. Einnig var nefnt að hægt væri að ná fram betri nýtingu á núverandi virkjunum og mæta betur sveiflum á orkuþörf á Landsvísu.

Þegar horft er til hvaða núverandi veikleikar það eru sem geta virkað hamlandi fyrir því að þessi leið verði farsæl var andstaða við uppbygginguna vegna umhverfissjónarmiða nefnd. Sömuleiðis var nefnt að fjármögnun uppbyggingar í gegnum hækkandi flutningsgjaldskrár gæti virkað hamlandi. Annar veikleiki sem nefndur var er að með valkostinum er eingöngu um einfalda tenginga á milli landshluta að ræða, sem getur virkað hamlandi sérstaklega fyrir norðaustur og austurland. Á sama hátt vantar sterkari tengingu við Þjórsár- og Tungnaársvæðið. Að lokum var rætt um að skipulagsmál og hagsmunir sveitarfélaga og landeiganda gætu verið veikleikar sem hefðu áhrif á þessa leið til uppbyggingar.

Það sem helst var talið ógna því að leiðin verði árangursrík er m.a. umhverfissjónarmið og þá andstaða við loftlínur en verulegar tæknilegar takmarkanir við lagningu jarðstrengja eru til staðar. Einnig er möguleg hækkun flutningskostnaðar hjá notendum talin geta ógnað uppbyggingaráformum og eins hætta á að um offjárfestingu sé að ræða. Flókin stjórnsýsla er talin geta ógnað áformum, en hafa þarf samráð við mörg sveitarfélög og semja þarf við marga landeigendur. Skipulagsmál geta verið flókin og málsmeðferðartími langur.

Margvísleg tækifæri eru þó talin skapast með uppbyggingarleiðinni, bæði fyrir notendur og eins framleiðendur á áhrifasvæði línanna. Þær munu auka orkuframboð á Norðurlandi og Austurlandi og geta þannig virkað atvinnuskapandi á svæðinu. Hún er talin styðja við orkuskipti á landsvísu og einnig að auðvelda aðgengi fleiri og fjölbreyttari orkuframleiðslukosta að kerfinu.

Samantekt valkostagreiningar

Það sem má lesa út úr ofangreindri valkostagreiningu er að miðað við núverandi forsendur er ekki ástæða til að leggja til að farið verði tafarlaust í frekari styrkingar á meginflutningskerfinu í samræmi við einn tiltekinn valkost. Annað hvort þurfa að koma til breyttar álagsforsendur sem gera kröfur um meiri styrkingar eða að beðið verði með áframhaldandi styrkingar um sinn eftir 2029. Þó má benda á að ef stærri sviðsmyndirnar rætast, þ.e. Græn framtíð eða Aukin stórnotkun, stytta þær endurgreiðslutíma framkvæmda umtalsvert auk þess að efla þörf fyrir auknar styrkingar. Miðað við að Hægar framfarir rætist eru ekki engar forsendur til að fara í styrkingar umfram 10 ára áætlunina séð út frá hagkvæmni. Hins vegar má sjá að hægt er að auka öryggi kerfisins til muna með því að leggja jafnstraumstengingu yfir hálendið. Sá valkostur kemur mun betur í hagkvæmni þegar horft er til stærri sviðsmynda en endurgreiðslutími valkosts með jafnstraumstengingu er yfir 100 ár ef Hægar framfarir rætast sem er meira en tvöfaldur líftími slíks mannvirkis.

4-26.png

Mynd 4-26: Raforkuspá – 2029

4-27.png

Mynd 4-27: Aukin stórnotkun - 2029

Á myndum 4-26 og 4-27 má sjá tiltæka afhendingargetu árið 2029 fyrir Raforkuspá og Aukna stórnotkun. Árið 2029 er yfir 300 MW munur í álagi á þessum tveimur sviðsmyndum. Þarna má sjá að framkvæmdir næstu 10 ára veita nokkuð rými í kerfinu en sjá má að fljótt getur gengið á það ef álagsaukning er með mesta móti. Ef álagsaukning verður í samræmi við Aukna stórnotkun gæti farið að myndast þrýstingur á frekari styrkingar m.v. útlitið á mynd 4-25 en Landsnet mun endurmeta stöðuna með reglulegu móti. Þangað til verður róið öllum árum að því að koma 10 ára áætlun fyrirtækisins til framkvæmda þar sem stigið verður stórt skref í styrkingu kerfisins með tengingu milli landshluta.

Mögulegar jarðstrengslagnir í línuleiðum valkosta

Tæknilegar takmarkanir eru á hlutfalli jarðstrengja í flutningskerfinu. Jarðstrengir framleiða launafl sem getur valdið spennuhækkun í kerfinu og þar með vandræðum við rekstur þess og því er takmarkað hversu hátt hlutfall af raflínum er hægt að leggja sem jarðstrengi. Þetta hlutfall er m.a. háð rekstrarspennu línunnar, því hærra spennustig því meiri er launaflsframleiðsla jarðstrengja sem hefur þá takmarkandi áhrif á mögulegt hlutfall jarðstrengja. Styrkur kerfisins, þ.e. skammhlaupsafl, á viðkomandi svæði er einnig afgerandi þáttur. Því hærra sem skammhlaupsaflið er, þeim mun betur er kerfið búið undir það að halda aftur af spennuhækkuninni sem launaflsinnspýting jarðstrengja getur valdið. Ólíkur styrkur kerfisins milli landsvæða er meginástæða þess að svigrúm til jarðstrengslagna er mismunandi. Þar sem kerfið er sterkt er meira rými til þess heldur en þar sem styrkurinn er lítill.

Í stefnu stjórnvalda um lagningu raflína segir að meginreglan í meginflutningskerfi raforku sé að notast við loftlínur, nema annað sé talið hagkvæmara eða æskilegra m.a. frá tæknilegum atriðum eða umhverfis- eða öryggissjónarmiðum. Með tilliti til umhverfis- og öryggissjónarmiða skuli í hverju tilviki fyrir sig meta hvort rétt sé að nota jarðstrengi á viðkomandi línuleið eða afmörkuðum köflum hennar á grundvelli viðmiða sem tíunduð eru í stefnunni.

Kaflar 4.8.1 – 4.8.4. fjalla um niðurstöður rannsókna Landsnets á umfangi mögulegra jarðstrengslagna og í kafla 4.8.5 verður stuttlega fjallað um niðurstöður óháðrar skýrslu um sama viðfangsefni sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið.

Umfang jarðstrengslagna í meginflutningskerfinu á Norðurlandi

Landsnet hefur unnið greiningu á mögulegri lengd jarðstrengja í nýju meginflutningskerfi á Norðurlandi [10]. Í greiningunum var miðað við að flutningsgeta jarðstrengskaflanna væri sambærileg við flutningsgetu loftlínuhlutanna, eða 550 MVA. Niðurstaða þeirrar greiningar er að hámarkslengd jarðstrengs í Blöndulínu 3 sé um 10 km, fyrir Hólasandslínu 3 væri um að ræða 12 km og u.þ.b. 15 km á Kröflulínu 3. Vert er að hafa í huga að lengd jarðstrengs í einni línu í samtengdu kerfi fyrirhugaðra 220 kV lína meginflutningskerfisins hefur áhrif á mögulegar jarðstrengslagnir í hinum línunum og lagning strengs á einum stað getur takmarkað lengd strengkafla innan annarra lína. Auk þessa eru samverkandi áhrif milli spennustiga og milli flutnings- og dreifikerfa. Þetta þýðir að jarðstrengslagnir á einu spennustigi hafa áhrif á mögulegar strenglagnir á öðrum spennustigum. Til að mynda hafa jarðstrengslagnir í flutningskerfinu áhrif á það hversu mikið er hægt að leggja af jarðstrengjum í undirliggjandi dreifikerfi. Þetta gildir einnig í hina áttina.

Í skilgreindum aðalvalkosti vegna Kröflulínu 3 er um að ræða loftlínu alla leið, en framlagður aðalvalkostur Hólasandslínu 3 gerir ráð fyrir um 10 km löngum jarðstreng í Eyjafirði. í ljósi þessa er hámarkslengd mögulegs jarðstreng í Blöndulínu 3 á milli 3 og 5 km.

Jarðstrengir í núverandi 132 kV kerfi

Eins og fram kemur hér að framan hafa jarðstrengslagnir á mismunandi spennustigum innan sama svæðis áhrif hver á aðra. Jarðstrengslagnir í meginflutningskerfinu, með 220 kV rekstrarspennu, hafa bein áhrif á hversu langar vegalengdir má leggja af nálægu 132 kV kerfi í jörðu og jarðstrengir í 132 kV kerfi hafa að sama skapi áhrif á mögulegar jarðstrengslagnir í 220 kV kerfi. Landsnet hefur unnið að greiningum á möguleikum á því að leggja núverandi 132 kV flutningskerfi á Norðurlandi í jörðu. Niðurstöður þeirrar greiningar eru þær að óháð því hvort og hversu mikið af fyrirhuguðu 220 kV flutningskerfi verður sett í jörðu á Norðurlandi eru ákveðnar takmarkanir á möguleikum til að setja 132 kV kerfið í jörðu. Svigrúmið er mest ef nýtt 220 kV kerfi er byggt sem loftlínukerfi.

Umfang jarðstrengslagna á Suðvesturlandi

Sterkasti hluti flutningskerfisins er á suðvesturhorninu, þ.e. svæðinu frá Þjórsár-/Tungnaársvæðinu að höfuðborgarsvæðinu (Geitháls og Hamranes) og Brennimel í Hvalfirði. Skammhlaupsaflið á Geithálsi er til að mynda fjórfalt hærra en í Blöndu og um sexfalt hærra en á Rangárvöllum á Akureyri. Kerfið á suðvesturhorninu er því betur í stakk búið til þess að taka við jarðstrengslögnum á hárri spennu en kerfið á Norðurlandi.

Greiningar hafa farið fram á mögulegum jarðstrengslögnum í 220 kV kerfinu á Suðvesturlandi. Þær greiningar benda til þess að möguleg lengd nýrra jarðstrengslagna á 220 kV spennu sé á bilinu 70 – 100 km innan þess hluta kerfisins sem afmarkast af 220 kV (nýju) tengivirki á Njarðvíkurheiði, Brennimel og Kolviðarhól (Hellisheiði). Í þessu samhengi er einkum horft til Suðurnesjalínu 2, Lyklafellslínu 1 og Brennimelslínu 2.

Ef lengdir 220 kV jarðstrengja innan þessa svæðis fara yfir þessi mörk, hefur það í för með sér hækkun á rekstrarspennu í kerfinu og aukna hættu á því að nálægar vinnslueiningar í kerfinu fari yfir rekstrarmörk m.t.t. undirsegulmögnunar.

Hámarkslengdir jarðstrengja í valkostum langtímaáætlunar

Unnið hefur verið að mati á því hverjar eru hámarkslengdir jarðstrengja í þeim valkostum sem lagðir eru fram í langtímaáætlun kerfisáætlunar. Niðurstöður þess mats eru birtar í kortum af meginvalkostunum þar sem hámarkslengdir hverrar línu eru merktar inn á kortið.

4-28.png

Mynd 4-28 : Hámarkslengdir jarðstrengja í A-valkostum

Mynd 4-28 sýnir hámarksvegalengdir jarðstrengja sem talið er tæknilega mögulegt að leggja í þeim línum sem tilheyra A-valkostum, hverri fyrir sig. Ákveðið hefur verið að Kröflulína 3 verði lögð sem loftlína alla leið og að tæplega 10 km hluti af Hólasandslínu 3 verði lögð sem jarðstrengur. Í ljósi þess er mögulegt svigrúm fyrir jarðstreng í Blöndulínu 3 um 3 km. Hámarkslengd jarðstrengja í hálendislínu er um 50 km en ef lagður yrði jafnstraumsstrengur væri um jarðstreng að ræða alla leið.

Á suðvestur horninu, á svæði sem afmarkast af 220 kV (nýju) tengivirki á Njarðvíkurheiði, Brennimel og Kolviðarhól, er hámarkssvigrúm til jarðstrengslagna (á 220 kV) u.þ.b. 70-80 km.

Á sama hátt hafa verið metnar þær hámarkslengdir jarðstrengja í línulögnum sem tilheyra B-valkostum.


4-29.png

Mynd 4-29 : Hámarkslengdir jarðstrengja í B-valkostum

Mynd 4-29 sýnir hámarkslengdir jarðstrengja á þeim línuleiðum sem B-valkostir innihalda. Á tveimur stöðum á hringnum stendur valið á milli tveggja línuleiða, sem er breytilegt eftir valkostum en hefur þó ekki áhrif á mögulegar jarðstrengslengdir. Varðandi vesturhlutann, þ.e. Brennimelur – Blanda, er möguleg hámarkslengd jarðstrengs um 30 km.

Suðurvængurinn, Sigalda – Fljótsdalur, er löng leið. Greiningar sýna að alger hámarkslengd jarðstrengs á þessari leið er 30 km út frá Sigöldu. Afgangurinn af línuleiðinni þarf að vera í lofti og að auki verður línan að koma við á Hólum, þ.e. þar þarf að vera tengivirki. Þessi 30 km kafli styttist ef annar hluti línunnar yrði fyrir valinu en sá út frá Sigöldu. Möguleikar til strenglagningar í vesturátt út frá Hólum eru um 5 km.

Jarðstrengslagnir í jafnstraumskerfi

Í ljósi umræðu um lagningu jafnstraumstrengs yfir hálendið hefur komið upp sú umræða hvort ekki sé mögulegt að nýta jafnstraumslausnir á fleiri línuleiðum þar sem tæknilegir annmarkar eru á hámarkslengd hefðbundinna riðstraumsjarðstrengja. Tæknilega er slíkt mögulegt en sé litið til kostnaðar eru slíkar lausnir metnar óraunhæfar.
Jafnstraumssamband samanstendur að jafnaði af flutningsrás sem getur ýmist verið loftlína, jarðstrengur, sæstrengur eða blanda af þessu þrennu, og endabúnaði, svokallaðar umriðilsstöðvar, á sitthvorum enda. Í umriðilsstöðvunum er riðstraum breytt í jafnstraum öðrum megin og jafnstraum aftur í riðstraum hinum megin. Hægt er að stjórna flutningi á raforku í hvora átt sem er og því hve mikið er flutt með því að stýra umriðilsstöðvunum, ólíkt því sem hægt er að gera við riðstraumstengingar.

Helstu kostir jafnstraumssambanda í raforkukerfum eru þeir að flutningsgeta loftlína er 30-40% meiri með jafnstraum en riðstraum, miðað við sömu gerð leiðara. Þegar flytja þarf mikið magn raforku meira en 6-700 km er jafnstraumstæknin yfirleitt hagkvæmari en riðstraumslausn. Jafnstraumssambönd má nota til að deyfa aflsveiflur í flutningskerfinu og bæta þar með rekstrarástand kerfisins og auka raforkugæðin.

Meginókostur jafnstraumssambanda er afar hár kostnaður við umriðilsstöðvarnar, sem er óháður vegalengd línulagnarinnar og eins er minni áreiðanleiki jafnstraumstenginga en riðstraumstenginga einnig ókostur. Meginástæðan fyrir minni áreiðanleika er flókinn búnaður í umriðilsstöðvum og meiri viðhaldsþörf. Jafnstraumssamband hefur heldur ekki áhrif á styrk (þ.e. skammhlaupsafl) kerfisins í tengipunktum. Þetta er neikvætt ef skammhlaupsafl er almennt lágt (t.d. ef tengja á saman veikan og sterkan hluta kerfisins).

Með vaxandi orkuflutningi milli landa og landsvæða hefur áhugi á flutningi með jafnstraum aukist. Á alheimsvísu skiptist notkunin í nokkra meginflokka:

 • Flutningur á miklu afli yfir langar vegalengdir. Hér er átt við aflflutning yfir 1.000 MW um nokkur hundruð kílómetra leið. Í slíkum tilfellum er oft hagstæðara að flytja orkuna með jafnstraum heldur en riðstraum, þrátt fyrir háan kostnað við umriðlastöðvar, sökum þess að jafnstraumslínurnar eru einfaldari og ódýrari en tilsvarandi riðstraumslínur.
 • Tengingar með sæstrengjum. Í slíkum tilvikum koma riðstraumsloftlínur auðsjáanlega ekki til greina og tæknilegar takmarkanir eru fyrir því hvað hægt er að leggja langan riðstraumsstreng. Því er jafnstraumstenging oft eini möguleikinn.
 • Tenging vindmyllugarða á hafi úti við flutningskerfið. Þessi tilvik eru sértilfelli af því síðasta.
 • Samtenging raforkukerfa með ólíka eiginleika („back-to-back“ tengingar). Hér getur verið um að ræða tengingu tveggja kerfa sem ekki eru í fasa, stundum með hvor sinn kerfisstjórann, og hugsanlega rekin á hvor sinni tíðninni.

Það tilvik sem hefur verið litið til hérlendis sem möguleg jafnstraumstenging er tenging milli Suður- og Norðurlands yfir hálendið. Slíka tengingu má að einhverju leyti líta á sem tengingu milli svæða. Galli við slíka tengingu er að hún er háð upprunalegum endastöðvum og ekki er hægt að bæta við nýjum afhendingarstöðum á tenginguna eins og raunin er með riðstraumstengingar. Ef slík tenging væri t.d. á milli Blöndu og Rangárvalla væri ekki hægt að bæta Varmahlíð við sem afhendingarstað síðar meir. Kostnaður í jafnstraumssamböndum einkennist af háum kostnaði við umriðilsstöðvar í báðum endum, en lægri kostnaði á hvern km í línum miðað við riðstraum. Ef litið er til aðstæðna hérlendis varðandi meginflutningskerfið er ljóst að flutningur raforku með jafnstraum keppir ekki við riðstraumslausnir kostnaðarlega , til þess eru fjarlægðir að jafnaði einfaldlega of litlar.

Skýrsla stjórnvalda um jarðstrengi í flutningskerfi raforku

Landsnet hefur um nokkurra ára skeið lagt töluverða vinnu í að greina tæknilegar forsendur varðandi möguleika á lagningu jarðstrengja í flutningskerfinu. Meginniðurstöður úr þeirri vinnu eru þær að töluverðar takmarkanir eru á lagningu jarðstrengja, einkum á hærri spennustigum (132 kV og 220 kV). Takmarkanirnar eru mismiklar eftir landsvæðum og spilar þar helst inn í kerfisstyrkurinn á viðkomandi svæðum. Kerfisstyrkurinn ræðst af nálægð og fjölda orkuvinnslueininga (þ.e. virkjana) og því hversu möskvað flutningskerfið er.

Niðurstöðum þessara greininga Landsnets hafa verið gerð skil í nokkrum skýrslum á undanförnum árum . Enn fremur hefur verið leitað fanga hjá erlendum flutningsfyrirtækjum (t.d. EirGrid og Energinet) sem hafa unnið hliðstæðar athuganir á takmörkunum jarðstrengslagna í flutningskerfum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er kveðið á um nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð í landinu. Í þeim tilgangi þurfi að treysta betur flutnings- og dreifikerfi raforku í landinu, tengja betur lykilsvæði og tryggja afhendingaröryggi raforku um land allt. Skoða eigi að hve miklu leyti nýta megi jarðstrengi í þessar tengingar með hagkvæmum hætti. Á þessu er skerpt í þingsályktun nr. 26/148 frá 2018 þar sem lagt er upp með að gerð verði greining (tæknileg, umhverfisleg og þjóðhagsleg) á áhrifum jarðstrengslagna á uppbyggingu flutningskerfis raforku hér á landi. Sú greining verði síðan lögð til grundvallar breytingum á viðmiðum stjórnvalda varðandi jarðstrengslagnir.

Í desember síðastliðnum birtist í samráðsgátt stjórnvalda skýrsla sem dr. Hjörtur Jóhannsson vann um þessi mál að beiðni ráðuneyta Atvinnuvega- og nýsköpunarmála og Umhverfis- og auðlindamála. Meginniðurstöður í þessari skýrslu eru í fullu samræmi við það sem Landsnet hefur margoft bent á, þ.e. að svigrúm til jarðstrengslagna í fyrirhuguðu 220 kV meginflutningskerfi hringinn í kringum landið er afar lítið. Kerfisaðstæður á hverjum stað (þ.e. kerfisstyrkur) hefur grundvallaráhrif á möguleika til jarðstrengslagna, sérstaklega á hæstu spennustigum flutningskerfisins (132 kV og 220 kV). Sé kerfið ekki í stakk búið til þess að taka við strengnum er tómt mál að tala um strenglagnir þar. Þess vegna er nauðsynlegt að greina hvert tilvik vandlega. Undir þetta er tekið í skýrslunni á fleiri en einum stað, t.a.m. „Umfjöllun um kosti og ókosti nýtingar jarðstrengja til styrkingar flutningskerfi raforku er gagnleg ef hún er sett fram í samhengi við tæknilegar hámarkslengdir jarðstrengja. Verkefni þar sem fjallað væri um hve neikvæð eða jákvæð áhrif það hefði á raforkuverð, afhendingaröryggi eða umhverfiskostnað ef allt flutningskerfi raforku væri lagt í jörðu hefði mjög takmarkað gildi ef ekki væri tæknilega mögulegt að leggja nema takmarkaðan hluta kerfisins í jörðu“.

Niðurstöður skýrslunnar koma ekki á óvart. Raunar má segja að þær staðfesti að það svigrúm sem þó er til staðar til strenglagna á 220 kV eigi fyrst og fremst að nýta til þess að fullnægja skilyrðum sem stefna stjórnvalda um lagningu raflína setur.

Hagrænt mat á valkostum

Samkvæmt raforkulögum er Landsnet ábyrgt fyrir því að reka hagkvæmt og skilvirkt flutningskerfi. Erfitt er að meta þessi hugtök af nákvæmni því ávinningurinn af skilvirku flutningskerfi kemur fram hjá öllum raforkunotendum landsins, bæði fyrirtækjum og heimilum. Ávinningur þessi er mismikill eftir eðli notkunar en er langt umfram það sem notendur greiða fyrir flutninginn. Enn fremur eru tekjur Landsnets reglaðar sem flækir fyrir mati á ávinningi því það er ekkert jafnvægisverð á markaði. Til að meta ávinninginn þarf því að beita óbeinum aðferðum.

Enn fremur þarf að spá fyrir um þróun raforkueftirspurnar áratugi fram í tímann þar sem líftími flutningsmannvirkja getur vel farið yfir 50 ár. Þannig þarf að meta hvenær er orðið nauðsynlegt að ráðast í styrkingar á kerfinu svo ekki sé ráðist of snemma í að styrkja kerfið með óþarfa kostnaði fyrir notendur kerfisins.
Ávinningur af fjárfestingum í kerfinu skilar sér bæði í tekjum af auknum orkuflutningum og tilheyrandi atvinnustarfsemi en einnig í lækkun ýmiss konar kostnaðar sem fellur til vegna takmarkana í flutningskerfinu. Þar vega þyngst minni flutningstakmarkanir og bætt nýting virkjana. Í þessum kafla verður fjallað um aðferðina sem beitt var við þetta þjóðhagslega mat, forsendur og sviðsmyndir.

Þjóðhagslegur ávinningur af starfsemi flutningskerfisins hefur áður verið metinn, sjá t.d. skýrslu Landsnets frá árinu 2013 sem nefnist Þjóðhagslegt gildi uppbyggingar flutningskerfis Landsnets [9] og í kerfisáætlunum undanfarinna ára. Áfram er byggt á sömu grunnaðferð en nýjum aðferðum bætt við og öðrum breytt. Forsendur hafa verið uppfærðar í samræmi við Raforkuspá og þá valkosti til uppbyggingar sem kynntir eru í kerfisáætlun.

Þær forsendubreytingar frá fyrra ári sem mestu máli skipta eru:

 • Nýjar valkostagreiningar um uppbyggingu kerfisins.
 • Uppfærðar sviðsmyndir um raforkunotkun.
 • Breytt olíuverð.
 • Breytingar á kostnaði við flutningstöp.

Nýjar valkostagreiningar hafa verið lagðar fram og þar er skýrasti munurinn frá síðasta ári að svokallaður c-valkostur sem gerði ekki ráð fyrir samtengingu frá Hvalfirði til Austurlands hefur verið felldur út enda var hann lakastur allra kosta, bæði tæknilega og þjóðhagslega. Þess í stað er nú unnið með þrjá valkosti í samtals fjórum útfærslum. Sá fyrsti er styrking frá Hvalfirði til Austurlands en sú styrking er sameiginleg öllum valkostum. Í honum er hvorki gert ráð fyrir tengingu yfir miðhálendið né styrkingu hringsins sunnan Vatnajökuls. Annar valkostur er útfærður með tveimur misdýrum lausnum á hálendistengingu til viðbótar við styrkingu frá Hvalfirði til Austurlands. Þriðji valkosturinn gerir ráð fyrir styrkingu á byggðalínunni sunnan Vatnajökuls til viðbótar við styrkingu frá Hvalfirði til Austurlands.

Lagt hefur verið hagrænt mat á þessa valkosti. Hver valkostur er metinn út frá fjórum sviðsmyndum Raforkuspár fram til ársins 2050. Matið sem fram kemur í eftirfarandi töflum byggist á núvirtum kostnaði á tímabilinu m.v. 5,32% reiknivexti.

Líftími rekstrareininga í flutningskerfinu er ýmist 40 eða 50 ár sem er vel umfram það tímabil sem Raforkuspá tekur til, sérstaklega ef litið er til þess að hér er verið að greina fjárfestingar sem munu koma til að nálægt 10 árum liðnum. Til að meta endurgreiðslutíma þeirra fjárfestinga sem hafa ekki borgað sig á þeim tíma er því miðað við óbreytt ástand í raforkumálum eftir árið 2050. En ár eftir 2050 eru ekki tekin með í reikninginn þegar borinn er saman kostnaður og ábati í valkostagreiningu, einungis við mat á endurgreiðslutíma.

Hvers kyns vandkvæði á raforkuflutningi mynda bæði beinan og óbeinan kostnað fyrir samfélagið. Í því mati sem hér er lagt fram er litið til eftirfarandi kostnaðar- og ábataliða:

 • Kostnaður við flutningstöp.
 • Kostnaður við flutningstakmarkanir í meginflutningskerfinu.
 • Kostnaður við rekstrartruflanir.
 • Ábati af bættri nýtingu virkjana.

Fyrrnefndir kostnaðarliðir hafa verið metnir fyrir óbreytt kerfi (svokallaðan núllkost) og alla valkosti í öllum sviðsmyndum. Matið er byggt á tæknilegum eiginleikum flutningskerfisins og út frá þeim er kostnaðurinn metinn. Kostnaður í valkostunum er borinn saman við núllkost skv. sviðsmynd um raforkunotkun.

Forsendur útreikninga eru byggðar nýjustu endurskoðun á sviðsmyndum um raforkunotkun 2017-2050 sem þróaðar voru af Raforkuhópi orkuspárnefndar og gefnar út í desember 2017 [3]. Grunnsviðsmyndin er Raforkuspá 2017 [3] en við hana bætast þrjár sviðsmyndir. Sviðsmyndirnar nefnast Hægar framfarir, Græn framtíð og Aukin stórnotkun. Lýsingu á sviðsmyndum má finna í kafla 1.3 en fyrir ítarlegar upplýsingar er vísað á skýrslu Raforkuhóps orkuspárnefndar sem vísað er til í textanum hér að ofan.
Í sviðsmyndinni Hægar framfarir vex raforkunotkun hægar en í Raforkuspá á meðan hún eykst hraðar í sviðsmyndinni Græn framtíð, m.a. vegna orkuskipta í samgöngum. Aukning umfram Raforkuspá kemur þá í gegnum dreifiveitur. Sviðsmyndin Aukin stórnotkun gerir hins vegar ráð fyrir að notkun almennings fylgi Raforkuspá en að notkun stórnotenda aukist einnig yfir tímabilið.

Mikilvægt er fyrir lesendur að hafa í huga að sviðsmyndir um raforkunotkun eru ekki ætlaðar til að lýsa framtíðarsýn Landsnets heldur til þess að ramma inn mögulega framtíðarþróun og gera mat á mismunandi valkostum mögulegt. Með ólíkum sviðsmyndum um bæði þróun raforkunotkunar og uppbyggingu kerfisins er lesanda auðveldað að skilja samhengi uppbyggingar kerfisins, raforkunotkunar og arðsemi, ásamt mögulegum áhrifum á gjaldskrá Landsnets.

Ávinningur valkosta er settur fram bæði í krónum og sem mat á endurgreiðslutíma valkostanna, þ.e. hversu mörg ár ávinningurinn er að borga fjárfestinguna til baka. Ávinningur valkostanna er að einhverju leyti háður tæknilegum eiginleikum þeirra en meira máli skiptir hvernig þróun raforkuflutnings verður. Hagkvæmni allra valkosta vex með auknum flutningi eins og sjá má í töflu 4-19 um endurgreiðslutíma valkosta eftir sviðsmyndum. En umtalsverður munur getur þó verið á ábata og endurgreiðslutíma valkosta innan hverrar sviðsmyndar.

Fyrir hverja sviðsmynd er kostnaður við hvern valkost borinn saman við sambærilegan kostnað við núllkostinn, óbreytt flutningskerfi. Ávinningur birtist í lækkuðum þjóðhagslegum kostnaði sem bætt flutningskerfi raforku stuðlar að.

Núvirtur kostnaður við uppbyggingu valkosta breytist ekki milli sviðsmynda þar sem verið er að bera ákveðnar lausnir saman við ólíkar sviðsmyndir. Aðrir þættir breytast hins vegar milli sviðsmynda, bæði munur á þjóðhagslegum kostnaði og endurgreiðslutími.

Ávinningurinn er í framhaldinu borinn saman við núvirtan kostnað framkvæmdaáætlunar til að ákvarða endurgreiðslutíma valkostanna.
Hér verður fjallað um hverja sviðsmynd fyrir sig og svo niðurstöður dregnar saman í kafla 4.9.5.

Raforkuspá

Í töflu 4-11 má sjá niðurstöður fyrir sviðsmyndina Raforkuspá. Án styrkinga á kerfinu væri samanlagður þjóðhagslegur kostnaður rúmir 63 milljarðar króna á tímabilinu. Til samanburðar yrði heildarkostnaður við valkostina á bilinu 36-49 milljarðar króna. Ávinningur valkosta er svipaður, á bilinu 30-31 milljaður króna og mesti ávinningurinn í valkosti B. Ávinningurinn umfram hina valkostina er þó ekki mikill og metinn endurgreiðslutími er lengri fyrir þennan valkost en fyrir bæði 10 ára áætlun og H.1. Lengsti endurgreiðslutíminn er svo í valkosti H.2, 46 ár.

Mesti ávinningurinn fæst með bættri nýtingu virkjana sem gert er ráð fyrir að skili tæpum 17 milljörðum króna á tímabilinu. Einnig munar talsvert um minni kostnað flutningstakmarkanir sem lækkar um sem nemur 7 milljörðum króna. Sá ábati er jafn í öllum valkostum enda fæst hann með styrkingum sem eru sameiginlegar þeim öllum. Rekstrartruflanir lækka einnig um en gera má ráð fyrir því að kostnaður við þær lækki um 3,9-4,6 milljarða, mest í valkosti B en minnst í 10 ára áætlun.

Kostnaðarhlutfall valkosta m.v. núllkost er á bilinu 50,7-52,7% og endurgreiðslutími 37-46 ár.

T 4-11.png

Tafla 4-11 : Samanburður á núvirtum þjóðhagslegum kostnaði vegna þeirra þátta sem metnir hafa verið frá 2020-2050 fyrir valkosti og raforkuspá ef viðkomandi valkostur væri þróaður á tímabilinu í samræmi við framkvæmdaáætlun

Núvirtur kostnaður við uppbyggingu valkosta breytist ekki milli sviðsmynda þar sem verið er að bera ákveðnar lausnir saman við ólíkar sviðsmyndir. Aðrir þættir breytast hins vegar milli sviðsmynda, bæði munur á þjóðhagslegum kostnaði og endurgreiðslutími.

Endurgreiðslutími valkosta ef miðað er við Raforkuspá er metinn á bilinu 37-46 ár, stystur í fyrstu tveimur valkostunum en lengstur í valkostinum H.2 sem er dýrari útfærsla af H.1. Nettóábati er hins vegar mestur í fyrsta valkosti þar sem hann er ódýrastur og munar þar meiru en á ábata við aðra valkosti.


T 4-12.png

Tafla 4-12 : Núvirtur kostnaður við uppbyggingu valkostanna (makr.) og endurgreiðslutími í árum í raforkuspá.

Tafla 4-12 sýnir heildarávinning valkosta fram til ársins 2050, núvirtan kostnað við uppbyggingu valkostanna og þann þjóðhagslega kostnað sem sparast samanborið við núllkostinn. Eins og sést í töflunni er heildarávinningur vegna allra valkosta lægri fram til ársins 2050 en núvirtur kostnaður uppbyggingar. Þetta þýðir að valkostir verða ekki búnir að borga sig upp árið 2050. Þeir munu þó halda áfram að skila ávinningi eftir þann tíma. Miðað við þessa sviðsmynd mun t.d. 10 ára áætlun vera búinn að borga sig upp að 37 árum liðnum og skila hreinum ábata eftir það.

Sé miðað við 50 ára afskriftatíma loftlína gefur mat á endurgreiðslutíma því til kynna að allir valkostirnir séu hagkvæmir en meðalendurgreiðsutími valkosta miðað við Raforkuspá er er 40,8 ár.

Hægar framfarir

Í töflu 4-13 má sjá niðurstöður fyrir sviðsmyndina Hægar framfarir. Heildarkostnaður við núllkostinn er metinn nærri 54 milljörðum króna. Til samanburðar er fjárfestingakostnaður við valkostina 36-49 milljarðar.

Sparnaður sem næst fram með valkostunum er um 22-24 milljarðar þar en þar munar mikið um að kostnaður við flutningstakmarkanir er einungis um 573 milljónir í núllkosti ef þessi sviðsmynd rætist. Kostnaður við takmarkanir í hinum valkostunum er 165 og munurinn því einungis 408 milljónir. Munur á kostnaði við flutningstöp er á bilinu 1-1,7 milljarður en stærsti ábataliðurinn er bætt nýting virkjana sem skilar 17 milljörðum. Næst stærsti ábataliðurinn er minni rekstrartruflanir. Virði minni rekstrartruflana er metið á bilinu 3,9-4,6 milljarðar króna.

Munurinn á núllkosti og valkostunum er því frekar lítill ef bætt nýting virkjana er undanskilin.

T 4-13.png

Tafla 4-13 : Samanburður á núvirtum þjóðhagslegum kostnaði vegna þeirra þátta sem metnir hafa verið frá 2020-2050 fyrir valkosti og Hægar framfarir ef viðkomandi valkostur væri þróaður á tímabilinu í samræmi við framkvæmdaáætlun

Tafla 4-14 sýnir kostnað og endurgreiðslutíma fyrir valkosti í Hægum framförum. Núvirtur kostnaður við uppbyggingu valkosta er eins og áður á bilinu 36-49 milljarðar króna. Þjóðhagslegur sparnaður fram til ársins 2050 miðað við núllkost er á bilinu 22-24 milljarðar sem þýðir að endurgreiðslutími í þessari sviðsmynd er á bilinu 57-117 ár eða 76 ár að meðaltali. Með öðrum orðum væru þessir valkostir ekki þjóðhagslega hagkvæmir ef sviðsmyndin um Hægar framfarir myndi raungerast.


T 4-14.png

Tafla 4-14 : Núvirtur kostnaður við uppbyggingu valkostanna (mkr.) og endurgreiðslutími í árum í Hægum framförum

Græn framtíð

Í Grænni framtíð er raforkunotkun í gegnum dreifiveitur meiri en í Raforkuspá sem gerir fjárfestingar í kerfinu ábatasamari. Kostnaður við núllkostinn hækkar með stórauknum kostnaði við flutningstakmarkanir. Ávinningurinn af því að komast hjá flutningstakmörkunum er metinn um 32,6 milljarðar króna á tímabilinu og er jafn í öllum valkostum. 

Flutningstöp aukast einnig verulega í núllkosti og ávinningur við minnkun þeirra er um 2,7-3,4 milljarðar króna sem er á bilinu 36-42% meira en í Raforkuspá. Kostnaður við rekstrartruflanir hækka um rúm 4% frá Raforkuspá og er á bilinu 4,2-5 milljarðar króna. Þá er bætt nýting virkjana metin á tæpa 17 milljarða króna.

T 4-15.png

Tafla 4-15 : Samanburður á núvirtum þjóðhagslegum kostnaði vegna þeirra þátta sem metnir hafa verið frá 2018-2050 fyrir valkosti og Græna framtíð ef viðkomandi valkostur væri þróaður á tímabilinu í samræmi við framkvæmdaáætlun

Mismunur á núllkosti og valkosti er mestur í B þar sem munar 57,9 milljörðum en minnstu munar á 10 ára áætlunar og núllkosti, 56,5 milljörðum.

Hærri ávinningur valkostanna í þessari sviðsmynd leiðir af sér að endurgreiðslutími valkostanna er styttri, þ.e. 24-28 ár, stystur í 10 ára áætlun og H.1 en lengstur í H.2 og B. Meðalendurgreiðslutími valkosts í þessari sviðsmynd er 26 ár, rétt rúmlega hálfur afskriftartími loftlínu.


T 4-16.png

Tafla 4-16 : Núvirtur kostnaður við uppbyggingu valkostanna (mkr.) og endurgreiðslutími í árum í Grænni framtíð

Aukin stórnotkun

Í Aukinni stórnotkun er raforkunotkun þó nokkuð meiri en í Raforkuspá og Grænni framtíð. Kostnaður við flutningstakmarkanir í núllkosti er orðinn mun meiri en í öðrum sviðsmyndum. Sérstaklega verður hann hár undir lok tímabilsins, allt að 15 milljarðar króna árið 2050. Að núvirði er samanlagður kostnaður yfir tímabilið 39,9 milljarðar króna í núllkosti en sá kostnaður fellur í 762 milljónir í öllum valkostum. Ábatinn við að sleppa við þessar flutningstakmarkanir er því rúmir 39 milljarðar króna á tímabilinu.

Flutningstöp í núllkosti vaxa einnig verulega í þessari sviðsmynd og verða um 48 milljarðar, 15 milljörðum hærri en í Raforkuspá. Ábatinn við takmörkun flutningstapa í hverjum valkosti eykst í beinu samhengi og verður á bilinu 8-10 milljarðar.

Kostnaður við rekstrartruflanir lækkar um 4,8-5,7 milljarða, mest í valkosti B og minnst í 10 ára áætlun. Bætt nýting virkjana skilar svo tæpum 17 milljörðum króna ábata.

T 4-17.png

Tafla 4-17 : Samanburður á núvirtum þjóðhagslegum kostnaði vegna þeirra þátta sem metnir hafa verið frá 2020-2050 fyrir alla valkosti og Aukna stórnotkun ef viðkomandi valkostur væri þróaður á tímablinu í samræmi við framkvæmdaáætlun

Samtals er mismunur á valkostum og núllkosti á bilinu 69-72 milljarðar króna, mestur í valkosti mestur í B en minnstur í 10 ára áætlun.

Stóraukinn ábati styttir endurgreiðslutímann enn frekar og er nú 21-27 ár, stystur í valkostum 10 ára áætlun og H.1 en lengstur í H.2. Meðaltal endurgreiðslutíma í þessari sviðsmynd er 23,3 ár.


T 4-18.png

Tafla 4-18 : Núvirtur kostnaður við uppbyggingu valkostanna (mkr.) og endurgreiðslutími í árum í Aukinni stórnotkun

Samantekt á niðurstöðum

Niðurstöðurnar í ár sýna að líkt og undanfarin ár ræðst þjóðhagsleg arðsemi meira af sviðsmyndum um raforkunotkun en þeim valkostum sem eru til skoðunar um styrkingu flutningskerfisins. Ef sviðsmyndin Hægar framfarir raungerist munu fyrirætlaðar framkvæmdir ekki borga sig en Landsnet mun haga uppbyggingu sinni í samræmi við langtímavæntingar um raforkueftirspurn. Verði þróun raforkunotkunar í samræmi við Raforkuspá mun það borga sig að klára tengingu frá Hvalfirði til Austurlands með eða án T-tengingar yfir hálendið. Þá mun einnig borga sig að klára hringinn, valkost B, en sá valkostur hefur lengri endurgreiðslutíma eða 44 ár. Í hinum tveimur sviðsmyndunum, Græn framtíð og Aukin stórnotkun, munu allir valkostir borga sig langt áður en líftíma þeirra líkur. 10 ára áætlun mun greiðast upp á 21-24 árum í þeim sviðsmyndum sem er innan við helmingur af afskriftartíma háspennulínu. Tafla 4-19 sýnir endurgreiðslutíma valkosta eftir sviðsmyndum. Greinilega má sjá ráðandi áhrif sviðsmyndarinnar á endurgreiðslutíma í dálknum meðaltal.

 

T 4-19.png

Tafla 4-19: Endurgreiðslutími valkosta eftir sviðsmyndum

Líkt og með endurgreiðslutímann má sá heildarávinningur valkosta ræðst fyrst og fremst af sviðsmyndum um raforkunotkun. Eins og sjá má í dálknum Meðaltal þá er munurinn á ávinningi margfaldur milli sviðsmynda. Til dæmis er ávinningur valkosta að jafnaði 71 milljarður í Aukinni stórnotkun en 31 í Raforkuspá, hlutfallslegur aukning um 131%. Til samanburðar er meðalávinningur valkosta á bilinu 44,5-46,2 milljarðar eða 4%.


T 4-20.png

Tafla 4-20: Heildarávinningur valkosta eftir sviðsmyndum

Tafla 4-19 og 4-20 sýna nokkuð skýrt að þeir valkostir sem lagðir eru fram í þessari kerfisáætlun geta allir verið þjóðhagslega hagkvæmir ef þróun raforkunotkunar fer fram í samræmi við sviðsmyndirnar Græn framtíð og Aukin stórnotkun. Engin þeirra virðist hins vegar hagkvæm ef sviðsmyndin Hægar framfarir rætist. Sé litið til Raforkuspár eru valkostirnir 10 ára áætlun og H.1 hagkvæmastir. Landsnet mun eftir sem áður halda áfram að fylgjast með þróun raforkunotkunar og haga uppbyggingu sinni þannig að kröfur um þjóðhagslega arðsemi sé uppfyllt.

Umhverfismat valkosta

Til samanburðar á valkostum er mat á umhverfisáhrifum allra valkosta sem eru til umfjöllunar í langtímaáætlun tekið saman í eina töflu:

T 4-21.png

Tafla 4-21 : Umhverfismat valkosta á langtímaáætlun

Tafla 4-21 sýnir helstu niðurstöður umhverfismats kerfisáætlunar 2020-2029. Áætlun næstu 10 ára og valkostir um framtíðarþróun flutningskerfisins munu hafa neikvæð og/eða mikil neikvæð áhrif á einhvern þeirra umhverfisþátta sem var til skoðunar. Áhrif eru líkleg til að vera óveruleg á loftslag, heilsu og skipulagsáætlanir og eignarhald. Óvissa er um áhrif valkosta á menningarminjar.

Ef horft er til valkosta um framtíðarþróun flutningskerfisins til næstu 30 ára felst megin munur áhrifa í því hvort flutningsleið fari um hálendið (H kostir) eða fari meðfram núverandi byggðalínu (B kostur)

 • Helstu umhverfisáhrif H | Hálendisleiðar felast í framkvæmdum á hálendinu og breytingum á ásýnd og víðernum. Valkostir fela báðir í sér jarðstrengi að hluta eða alla leið sem dregur úr áhrifum.
 • Helstu umhverfisáhrif B | Byggðalínuleiðar felast í að hún fer um mörg náttúruverndarsvæði og hefur áhrif á fleiri umhverfisþætti en H kostir.

Rétt er að geta þess að með styrkingu á meginflutningskerfinu geta skapast aðstæður til þess að taka niður aðrar línur. Niðurrif þeirra lína minnkar ekki neikvæð áhrif af nýrri línu og því ekki bein mótvægisaðgerð, en hefur óbein jákvæð áhrif þar sem línan er tekin niður. Nýjar línur þurfa því ekki að leiða til aukningar á heildarlengd loftlína á svæðisvísu.

Matsvinnan leiðir fram mun á milli valkosta og tillögur að mótvægisaðgerðum og áhersluþáttum sem þarf að taka tillit til við hönnun og undirbúning einstakra framkvæmda sem geta nýst til að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif.