Samantekt

Samkvæmt raforkulögum nr. 65/2003 [1] er það m.a. skylda flutningsfyrirtækis raforku að leggja fram áætlun um uppbyggingu flutningskerfisins. Með lögum nr. 26/2015, sem öðluðust gildi 6. júní 2015, var ákvæðum raforkulaga breytt og innleidd ákvæði 22. gr. þriðju raforkutilskipunar Evrópusambandsins nr. 2009/72/EB um kerfisáætlanir. Í raforkulögum er flutningsfyrirtækinu gert að leggja árlega fyrir Orkustofnun til samþykktar kerfisáætlun um uppbyggingu flutningskerfisins sem feli í sér annars vegar 10 ára langtímaáætlun og hins vegar framkvæmdaáætlun til næstu þriggja ára. Í raforkulögum eru einnig ýmis ákvæði tengd kerfisáætlun, s.s. um undirbúning, málsmeðferð, eftirlit og stöðu kerfisáætlunar gagnvart skipulagi sveitarfélaga. Kerfisáætlun markar þannig stefnu um leyfisveitingar til framkvæmda sem tilgreindar eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Kerfisáætlanir flutningsfyrirtækisins falla þannig undir lög um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006. Efnistök kerfisáætlunar eru nánar tilgreind í reglugerð um kerfisáætlun fyrir uppbyggingu flutningskerfis raforku, nr. 870/2016 [6], sem inniheldur kröfur um vinnslu, samþykktir og innihald kerfisáætlunar.

Forsendur

Sem grunnforsenda við áætlun á flutningsþörf til framtíðar er notuð Raforkuspá 2019-2050 [3], ásamt sviðsmyndum um raforkunotkun [3] frá Raforkuhópi orkuspárnefndar. Raforkuspá 2019-2050 er endurreikningur á spá frá 2015 og kom út í ágúst 2019. Sviðsmyndir um raforkunotkun 2019-2050 eru hluti af Raforkuspá 2019-2050 og er þeim ætlað að sýna óvissubilið í raforkunotkun sem leiðir af þeim breytileika sem getur verið í þeim þáttum sem ganga inn í spána.

10 ára áætlun um þróun meginflutningskerfisins

Í samræmi við raforkulög er lögð fram áætlun um uppbyggingu meginflutningskerfisins næstu 10 árin.

Á áætluninni er að finna uppfærslur og nýbyggingar á 220 kV línulögnum sem ná samfellt frá Suðurnesjum til Höfuðborgarsvæðis, til Hvalfjarðar og þaðan um Vesturland, Norðurland og austur að Fljótsdalsstöð. Einnig eru á áætlun frekari styrkingar við höfuðborgina ásamt 220 kV fæðingu inn á Austurlandið á Hryggstekk.  

Þær línur sem um ræðir eru Kröflulína 3 á milli Kröflu og Fljótsdals, en framkvæmdir við hana eru þegar hafnar, Hólasandslína 3 á milli Akureyrar og Kröflu og Blöndulína 3 á milli Blöndu og Akureyrar. Þessu til viðbótar koma tvær línur sem enn hafa ekki fengið nafn, þ.e. ný 220 kV lína frá Hvalfirði í Hrútafjörð og 220 kV lína á milli Hrútafjarðar og Blöndu. Á suðvesturhorninu þarf að byggja Lyklafellslínu 1 og Suðurnesjalínu 2. Einnig er fyrirsjáanlegt að auka þurfi flutningsgetu á milli höfuðborgarsvæðis og Vesturlands, annað hvort með uppfærslu á Brennimelslínu 1 eða með byggingu nýrrar línu þar á milli. Það sama gildir um tengingu á milli Hellisheiðar og höfuðborgarsvæðis en kerfisrannsóknir sýna að þar muni fljótlega myndast flöskuháls í fæðingu höfuðborgarinnar. Þessu til viðbótar eru þrjú ný tengivirki á áætlun, eitt á Suðurnesjum, Njarðvíkurheiði, sem mun gera það kleift að reka Suðurnesjalínu 2 á 220 kV spennu, 220 kV tengivirki á Klafastöðum í Hvalfirði sem mun auka afhendingaröryggi í Hvalfirði til muna, ásamt því að verða tengipunktur fyrir nýja línu norður í land. Að lokum er ráðgert að koma á 220 kV tengingu á Austurlandskerfið, með því að byggja nýtt tengivirki á Hryggstekk og tengja það inn á Fljótsdalslínu 3 eða 4.

Framkvæmdar voru kerfisrannsóknir í þeim tilgangi að leggja mat á aflgetu afhendingarstaða í lok tímabils áætlunarinnar eftir að lokið hefur verið við þær framkvæmdir taldar eru upp hér að ofan. Miðað er við Raforkuspá og horft til stöðunnar eins og hún verður í lok árs 2029 samkvæmt spánni og er niðurstaðan eftirfarandi ásamt núverandi stöðu til samanburðar.

Valkostagreining

Allir valkostir eru metnir m.t.t. til ólíkra sviðsmynda og bornir saman á grundvelli markmiða sem getið er í raforkulögum nr. 65/2003, 9. gr. Þau eru:

  • Hagkvæmni
  • Öryggi
  • Skilvirkni
  • Áreiðanleiki afhendingar
  • Gæði raforku
  • Jafnframt skal horfa til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku

Niðurstaða mats á því hvernig framlagðir valkostir uppfylla ofangreind markmið er birt í vægisgrafi sem sýnir bæði grunnstöðu og áhrif viðkomandi valkosts á ofangreind markmið.

Frekari þróun flutningskerfis

Lagðir eru fram fjórir valkostir til frekari þróunar flutningskerfinu eftir að 10 ára áætlun Landsnets hefur verið hrundið í framkvæmd. Þeir eru greindir fyrir allar sviðsmyndir eftir árið 2029 til þess að varpa ljósi á hvort og hvenær þörf sé á frekari styrkingum fyrir mismunandi sviðsmyndir. Valkostina má sjá í eftirfarandi töflu.

Niðurstöður valkostagreiningar gáfu ekki tilefni til að leggja til að ráðast strax í frekari styrkingar eftir að 10 ára framkvæmdaáætlun hefur verið komið til framkvæmda. Sterkar vísbendingar eru þó um að þörf gæti verið fyrir frekari styrkingar nokkrum árum síðar ef álagsþyngri sviðsmyndir rætast frekar en þær sem gera ráð fyrir minni vexti. Þó er undirstrikað mikilvægi þess að 10 ára framkvæmdaáætlunin nái fram að ganga.

Hagræn áhrif uppbyggingar

Mikið er lagt upp úr því að meta hagræn áhrif þeirrar uppbyggingar í flutningskerfinu sem kynnt er í kerfisáætlun. Mat á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að byggja upp flutningskerfið hefur verið uppfært í takt við nýjar forsendur kerfisáætlunar. Sjóndeildarhringur matsins er sá hinn sami og sjóndeildarhringur sviðsmynda Raforkuhóps orkuspárnefndar eða fram til ársins 2050.
Niðurstaða matsins sýnir að fyrirætlaðar fjárfestingar eru hagkvæmar miðað við flestar forsendur um uppbyggingarvalkosti og orkunotkunarsviðsmyndir. Mikið þarf til að koma svo að verði ekki og ef sviðsmynd um aukna stórnotkun raungerist munu fjárfestingar borga sig á 21-24 árum, minna en hálfum afskriftartíma háspennulínu.
Til að meta áhrif kerfisáætlunar á gjaldskrá er unnin greining á því hvaða áhrif boðaðar fjárfestingar í flutningskerfinu gætu haft á gjaldskrá. Horft er til fjárfestinga í meginflutningskerfinu og eins til fjárfestinga í svæðisbundnu flutningskerfunum og er sjóndeildarhringurinn 10 ár. Við matið er horft til mismunandi sviðsmynda raforkuspár og hvaða áhrif þær hafa á gjaldskrá.
Langtímamarkmið Landsnets frá árinu 2016 um að halda gjaldskrá stöðugri mun ekki nást fyrir dreifiveitur vegna mikilla fjárfestinga í bæði aukinni afhendingargetu og -öryggi. Gjaldskrá stórnotenda mun ná langtímajafnvægi eftir tímabundna hækkun á næstu 4-6 árum. Hún mun þó haldast lægri en hún var árin áður en gjaldskrármarkmið Landsnets var sett árið 2016

Framkvæmdaáætlun

Framkvæmdaáætlun nær yfir framkvæmdaverk Landsnets næstu þrjú árin auk þess sem gerð er grein fyrir verkefnum á yfirstandandi ári. Með öllum verkefnum á framkvæmdaáætlun fylgja ítarlegar lýsingar á umfangi verkefnis og háspennubúnaði framlagðs aðalvalkosts. Fyrir öll ný verkefni á framkvæmdaáætlun hefur verið framkvæmd ítarleg valkostagreining sem byggir á þeim markmiðum sem getið er í raforkulögum og viðmiðum í stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku og lagningu raflína. Það er nálgun Landsnets í kerfisáætlun að leggja fram sem aðalvalkost verkefna á framkvæmdaáætlun þann valkost sem best uppfyllir þessi markmið og er í samræmi við stefnu stjórnvalda. Ef niðurstaða umhverfismats einstakra framkvæmda skilar annarri niðurstöðu en fæst með valkostagreiningu í framkvæmdaáætlun mun það verða afgreitt í öðru ferli en kerfisáætlun.

Hagsmunaráð Landsnets

Hagsmunaráð Landsnets var stofnað í ágúst árið 2018 að tillögu ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur. Megintilgangur ráðsins er að skapa vettvang umræðna milli hagaðila í samfélaginu um uppbyggingu raforkukerfisins. Í hagsmunaráðinu sitja fulltrúar mismunandi hagsmuna, sem tengjast megin flutningskerfi raforku. Ráðið fær upplýsingar um framtíðaráætlanir Landsnets og þriggja ára framkvæmdaáætlun, helstu áherslur Landsnets og ágreiningsmál sem upp hafa komið. Ráðið ræðir og skiptist á skoðunum um áætlanir og viðfangsefnin með það að leiðarljósi að draga fram helstu hagsmuni sem felast í áætlunum. Landsnet nýtir umræðu og ábendingar í ráðinu til að leggja fram heildstæða kerfisáætlun, dregur fram áherslur, vandamál og áskoranir við mótun og framkvæmd áætlunarinnar.