Inngangur og samantekt niðurstaða

Landsnet hefur að undanförnu unnið að mótun kerfisáætlunar 2020-2029. Í henni er að finna yfirlit yfir áætlaða þróun notkunar og framleiðslu raforku tengdri flutningskerfinu, auk þeirrar uppbyggingar sem ráðgerð er á flutningskerfinu til næstu 10 ára og framkvæmdaáætlun fyrir næstu 3 ár.
Umhverfisskýrslan er unnin í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Efnistök skýrslunnar eru samkvæmt 6. grein laganna.

Megintilgangur matsvinnunnar er að tryggja að tekið verði tillit til umhverfissjónarmiða við ákvarðanir um kerfisáætlunina, draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif og upplýsa um hugsanlegar afleiðingar af framkvæmd kerfisáætlunar á umhverfið.

Viðfangsefni kerfisáætlunar má skipta í þrennt (Mynd 1.1). Í langtímaáætlun er annars vegar gerð grein fyrir 10 ára áætlun Landsnets um uppfærslu meginflutningskerfisins og hins vegar hvaða valkostir eru til skoðunar um framtíðarþróun flutningskerfisins til 30 ára. Í framkvæmdaáætlun verður gerð grein fyrir hvaða framkvæmdir eru fyrirhugaðar á næstu þremur árum, 2021-2023, auk þess sem gert verður grein fyrir þeim verkefnum sem ætlunin er að hefjist á yfirstandandi ári, 2020. Matsvinna kerfisáætlunar miðar að því að bera saman helstu áhrif valkosta kerfisáætlunar á þá umhverfisþætti sem voru skilgreindir í matslýsingu (Landsnet, 2019).

Mynd 1.1 Viðfangsefni í valkostagreiningu Kerfisáætlunar 2020-2029.

Í Kerfisáætlun 2019 – 2028 var bætt við nýrri línulögn inn á langtímaáætlun, sem nær frá Hvalfirði í Hrútafjörð, eftir að kynningartíma lauk, en áður en áætlunin var send til afgreiðslu Orkustofnunar. Ástæðan er að kerfisgreiningar sýna að flæði um línuleiðina muni fara hratt vaxandi, auk þess sem viðbótin kemur til móts við hugmyndir um uppbyggingu vindorkukosta á Vesturlandi.
Valkostir um framtíðarþróun meginflutningskerfisins, þ.e. næstu 30 árin, voru endurskoðaðir og eru nú í kerfisáæltun meginvalkostirnir annars vegar H | Hálendisleið og hins vegar B | Byggðalínuleið. Valkostirnir byggja að hluta á fyrri valkostum og fela innbyrðis í sér mismunandi útfærslur. Gundvallarmunur valkosta felst í leiðarvali, hvort um er að ræða jarðstrengi, blandaðar leiðir eða endurbyggingu núverandi loftlína.

Upplýsingar og gögn í umhverfisskýrslu

Umhverfismatið fyrir Kerfisáætlun 2020-2029 byggir á fyrri umhverfisskýrslum kerfisáætlunar fyrirliggjandi gögnum og ábendingum sem komu fram við mótun síðustu áætlana, samráði og matslýsingu kerfisáætlunar 2020-2029.

Samantekt um niðurstöður umhverfismats langtímaáætlunar

Lagt var mat á áhrif lykilfjárfestinga næstu 10 ára og valkosta um framtíðarþróun á eftirfarandi umhverfisþætti:

Náttúrufar og auðlindir Samfélag
• Landslag og ásýnd • Heilsa
• Jarðminjar • Atvinnuuppbygging, önnur en ferðaþjónusta
• Vatnafar og vatnsvernd • Ferðaþjónusta sem atvinnugrein
• Lífríki • Skipulagsáætlanir og eignarhald
• Menningarminjar • Náttúruvá
• Loftslag
• Landnýting

Áætlun næstu 10 ára og valkostir um framtíðarþróun flutningskerfisins munu hafa neikvæð og/eða mikil neikvæð áhrif á einhvern þeirra umhverfisþátta sem var til skoðunar. Áhrif eru líkleg til að vera óveruleg á loftslag, heilsu og skipulagsáætlanir og eignarhald. Óvissa er um áhrif valkosta á menningarminjar.
Ef horft er til valkosta um framtíðarþróun flutningskerfisins til næstu 30 ára felst megin munur áhrifa í því hvort flutningsleið fari um hálendið (H kostir) eða fari meðfram núverandi byggðalínu (B kostur)

  • Helstu umhverfisáhrif H | Hálendisleiðar felast í framkvæmdum á hálendinu og breytingum á ásýnd og víðernum. Valkostir fela báðir í sér jarðstrengi að hluta eða alla leið sem dregur úr áhrifum.
  • Helstu umhverfisáhrif B | Byggðalínuleiðar felast í að hún fer um mörg náttúruverndarsvæði og hefur áhrif á fleiri umhverfisþætti en H kostir.

Rétt er að geta þess að með styrkingu á meginflutningskerfinu geta skapast aðstæður til þess að taka niður aðrar línur. Niðurrif þeirra lína minnkar ekki neikvæð áhrif af nýrri línu og því ekki bein mótvægisaðgerð, en hefur óbein jákvæð áhrif þar sem línan er tekin niður. Nýjar línur þurfa því ekki að leiða til aukningar á heildarlengd loftlína á svæðisvísu.
Matsvinnan leiðir fram mun á milli valkosta og tillögur að mótvægisaðgerðum og áhersluþáttum sem þarf að taka tillit til við hönnun og undirbúning einstakra framkvæmda sem geta nýst til að draga úr eða koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif.

tafla1-1.png

Tafla 1.1 Samantekt um helstu niðurstöður mats á áhrifum 10 ára áætlunar og valkosti um framtíðaruppbyggingu meginflutningskerfisin