Langtímaáætlun 2020-2029

Í eftirfarandi köflum er gerð grein fyrir valkostum í styrkingu meginflutningskerfisins og helstu áhrifaþáttum sem fylgja uppbyggingu meginflutningskerfisins. Ítarlegri umfjöllun er í kerfisáætluninni sjálfri.

Í Kerfisáætlun 2019 – 2028 var bætt við nýrri línulögn inn á langtímaáætlun, sem nær frá Hvalfirði í Hrútafjörð, eftir að kynningartíma lauk, en áður en áætlunin var send til afgreiðslu Orkustofnunar. Ástæðan er að kerfisgreiningar sýna að flæði um línuleiðina muni fara hratt vaxandi, auk þess sem viðbótin kemur til móts við hugmyndir um uppbyggingu vindorkukosta á Vesturlandi. Í langtímaáætlun Kerfisáætlunar 2020-2029 er áætlun um framkvæmdir milli Brennimel að Austurlandi ásamt uppbyggingu milli Höfuborgarsvæðis og Suðurnesja annars vegar og Vesturlands hins vegar.

Endurskoðun valkosta um framtíðaruppbyggingu flutningskerfisins

Þeir valkostir sem eru til skoðunar í Kerfisáætlun 2020-2029, þegar horft er til langtímaþróunar næstu 30 ára, eru Hálendisleið eða Byggðalínuleið (Tafla 3.1 og Mynd 3.1). Valkostir byggja á valkostum fyrri kerfisáætlana.

Jarðstrengir í umhverfismati kerfisáætlunar

Í kerfisáætlun er ávallt lagt mat á jarðstrengsvalkosti í samræmi við stefnu stjórnvalda um lagningu raflína og á svæðum innan miðhálendisins í samræmi við landsskipulagsstefnu. Jafnframt er lagt mat á jarðstrengsvalkosti í samræmi við kerfislega greiningu á því hvað tæknilega megi leggja langa jarðstrengi á milli tveggja tengipunkta (Landsnet, 2017). Nú liggur fyrir að Kröflulína 3 er loftlína alla leið, og framlagður aðalvalkostur Hólasandslínu 3 gerir ráð fyrir um 10 km löngum jarðstreng í Eyjafirði.
Niðurstöður greininga á hámarkslengd jarðstrengs í nýju meginflutningskerfi á Norðurlandi (Landsnet, Efla & ARA Engineering, 2017) sýna að hámarkslengd mögulegs jarðstreng í Blöndulínu 3 á milli 3 og 5 km. Skýrsla sem unnin var að beiðni ráðuneyta Atvinnuvega- og nýsköpunarmála og Umhverfis- og auðlindamála um jarðstrengslagnir í meginflutningskerfinu á Norðurlandi (Hjörtur Jóhannsson, 2019) staðfestir þá niðurstöðu. Svigrúm til jarðstrengslagna í nýrri 220 kV byggðalínu sé það takmarkað að það eigi fyrst og fremst að nýta til þess að uppfylla stefnu stjórnvalda um raflínulagnir.
Framangreindar greiningar sýna að í riðstraumskerfi (AC) eru takmarkanir á því hversu langa jarðstrengskafla er hægt að leggja. Því hefur komið upp umræða þar sem því er velt upp hvort mögulegt sé að leggja hluta af kerfinu sem jafnstraumskerfi (DC), þar sem í slíku kerfi eru ekki sömu tæknilegu takmarkar á lagningu jarðstrengja og í riðstraumskerfi. Þetta er vissulega tæknilega mögulegt, þ.e.a.s slíkt kerfi myndi virka og geta haft ákveðinn ávinning, en hefur jafnframt ýmsa annmarka.
Skoðaður er sá möguleiki hafa jafnstraumstengingu milli Suður- og Norðurlands yfir hálendið. Galli við slíka tengingu er að hún er háð upprunalegum endastöðvum og ekki er hægt að bæta við nýjum afhendingarstöðum á tenginguna eins og raunin er með riðstraumstengingar. Því býður kerfið ekki upp á þann sama sveigjanleika og riðstraumskerfið hefur og nauðsynlegt að sé til staðar á byggðalínunni.

tafla3-1.jpg
19386_3_1.png
Mynd 3.1 Tíu ára áætlun Landsnets ásamt þeim valkostum sem koma til greina um áframhaldandi uppbyggingu kerfisins, Hálendisleið og Byggðalínuleið