Matsvinna kerfisáætlunar

Nálgun matsvinnunnar byggir á þeim markmiðum sem ná á fram með umhverfismati áætlana, sem eru að:
• Skilgreina líkleg og mikil áhrif á umhverfið.
• Bera saman umhverfisáhrif valkosta.
• Veita heildarsýn á umhverfisáhrif vegna kerfisáætlunar.
• Taka tillit til umhverfisjónarmiða við mótun kerfisáætlunar og draga þannig úr eða koma í veg fyrir neikvæð umhverfisáhrif.
• Skilgreina vöktun og mótvægisaðgerðir þar sem það á við.
• Skjalfesta matsvinnu.
• Stuðla að samræmi áætlana og greina frá tengslum kerfisáætlunar við aðrar áætlanir og alþjóðlega samninga.
• Kynna helstu umhverfisáhrif kerfisáætlunar.
Vinna við umhverfismatið hófst með gerð matslýsingar, sem kynnt var í nóvember til desember 2019. Þar var m.a. gerð grein fyrir verklagi matsvinnu, gagnaöflun, áherslum, valkostum og matsspurningum. Matsvinna kerfisáætlunar hefur fylgt þeirri nálgun sem kom fram í matslýsingu, ásamt því að tekið hefur verið tillit til þeirra athugasemda sem bárust við matslýsingu, sem voru minniháttar. Nálgast má svör við athugasemdum á heimasíðu Landsnets.
Umhverfismat kerfisáætlunar er ætlað að fjalla um ólíka kosti sem koma til greina um uppbyggingu flutningskerfisins og er matið unnið samhliða mótun kerfisáætlunar til að tryggja að umhverfissjónarmið liggi ávallt fyrir við ákvörðun um útfærslu í flutningskerfinu.
Umhverfismatið byggir á því að skoða helstu áhrifaþætti sem felast í framkvæmd áætlunarinnar, leggja mat á umfang og vægi umhverfisáhrifa, og tilgreina mótvægisaðgerðir til að draga úr eða koma í veg fyrir umhverfisáhrif þar sem það á við. Við mat á umhverfisáhrifum eru lög, stefnur og áætlanir stjórnvalda hluti þess sem lagt er til grundvallar.
Grundvöllur matsvinnunnar er samanburður valkosta, sem er forsenda fyrir því að geta metið möguleg og líkleg umhverfisáhrif. Valkostirnir ná til mismunandi þátta s.s. legu, spennustigs, endurbyggingu eldri mannvirkja eða bygging nýrra, hvort um er að ræða loftlínu eða jarðstreng og gerð jarðstrengs (riðstraumur eða jafnstraumur).
Valkostagreining á áætlunarstigi er alltaf háð þeim fyrirvara að ekki er lokið vinnu við umhverfismat einstaka framkvæmda á grundvelli laga um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda nr. 106/2000. Umhverfismat áætlana er meðal fyrstu skrefa í undibúningi framkvæmda og eftir því sem nær dregur framkvæmdir verða gögn ítarlegri og mat á áhrifum nákvæmara (Mynd 2.1).
Vinna við Kerfisáætlun 2020-2029 og umhverfisskýrslu hennar byggir að stórum hluta á Kerfisáætlun 2019-2028.
mynd2-1.png

Mynd 2.1 Áherslur í umhverfismati frá kerfisáætlun að umsókn um framkvæmdaleyfi.