Velkomin á rafrænan fund Landsnets um framtíð flutningskerfisins 

 

Hér munum við leggja línurnar fyrir framtíðina með fróðlegum erindum og umræðum sem þú getur kynnt þér hvar og hvenær sem þér hentar.

Það er af mörgu að taka. Við munum til dæmis tala aðeins um veðrið og hvernig það hefur áhrif á orkuflutninga okkar Íslendinga. Þá verður ljósi varpað á það af hverju rafmagn skiptir miklu máli þegar kemur að því að skapa græna og betri framtíð. Við eigum alls konar áskoranir í vændum en í þeim felast líka verðmæt tækifæri sem hægt er að nýta okkur öllum til góða.


Óveður og orkuöryggi

 

„Síðasti vetur var mjög óvenjulegur. Í desember fáum við tilkynningu frá okkar veðurfræðingi um að það sé á leiðinni óveður sem er líklega eitt það versta sem komið hefur síðustu 60 eða 65 ár.“ Þorvaldur Jacobsen, framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs Landsnets.

 Óveðrið sem skall á landinu í desember 2019 og svo aftur í janúar 2020 hafði gríðarleg áhrif á flutningskerfi raforku og þar með líf fólks á svæðunum sem lentu verst úti. Í þessu myndbandi er fjallað um aðdraganda stormsins og undirbúninginn fyrir hann auk þess sem sýndar eru svipmyndir frá ofsaveðrinu víða um land.


Hringborðsumræður um orkuöryggi og græna framtíð


„Innviðirnir eru það sem við sjáum ekki en skipta samt svo miklu máli. Það minnir mig á góðan stjórnmálamann sem sagði einu sinni við mig að það hefur enginn kosið stjórnmálamann fyrir að byggja upp innviði en hinsvegar hafa stjórnmálamenn oft ekki verið kosnir af því að þeir byggðu ekki upp innviði.“ Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

 

 

Hér ræða Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs og Sigrún Jakobsdóttir, stjórnarformaður Landsnets um það hvernig læra má af reynslunni eftir slíkt ofsaveður og búa í haginn til framtíðar. Afhendingaröryggi er mikilvægur þáttur í því að tryggja orkuöryggi á landinu öllu. Þá er einnig fjallað um það af hverju endurreisn ferðamannaiðnaðarins eftir covid-faraldurinn verður að vera græn, orkuskipti í samgöngum og mikilvægi innviðauppbyggingar.


Örskýringar

 

 

Öll gerum við ráð fyrir því að húsin okkar hafi rafmagn en hvernig kemst það þangað? Sérfræðingar okkar útskýra í stuttu máli fyrir okkur hvernig flutningskerfi rafmagns virkar.

 

Til þess að ráðast í svo viðamikið verkefni að byggja upp flutningskerfi fyrir rafmagn þarf kerfisáætlun að liggja fyrir. En hvað er kerfisáætlun og hvernig og hvers vegna er hún mikilvæg? Sérfræðingar okkar útskýra í stuttu máli fyrir okkur kerfisáætlun og hlutverk hennar.


Innviðauppbygging

 

„Við hjá Landsneti erum stöðugt að leita leiða til að styrkja flutningskerfið og auka afhendingaröryggi raforku til landsmanna.“ Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.

 

 

Flutningskerfi rafmagns er sá hluti innviða sem sér öllum landsfjórðungum fyrir rafmagni. Uppbygging þess krefst mikillar skipulagningar, samræmingar og vandvirkni auk þess sem leitast er við að þróa kerfið áfram á eins hagkvæman hátt og mögulegt er. Í þessu myndbandi er farið yfir nokkur af þeim fjölmörgu verkefnum sem Landsnet vinnur nú að til að styrkja flutningkerfið.


Hringborðsumræður um innviðauppbyggingu og áskoranir

 

„Við erum löngu búin að taka ákvörðun um það í löggjöf að það ríki samkeppni á ákveðnum sviðum eins og í raforkuframleiðslu og sölu þrátt fyrir að flutningskerfi og dreifikerfi sé sérleyfiskyld starfsemi þannig að það er af ótrúlega miklu að taka í þessum málaflokki. Margt af þessu eru áskoranir sem við þurfum að bregðast við.“ Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

 

 

Allir landsmenn eiga rétt á því að hafa aðgang að öruggu raforkukerfi óháð því hvar þeir búa á landinu. Hér ræða Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, um ólíkar áskoranir sem blasa við í starfsemi Landsnets eftir mismunandi landshlutum. Þá er ljósi varpað á mikilvægi þess að byggja hratt og örugglega upp raforkukerfi til þess að tryggja lífsgæði þjóðarinnar.


Takk fyrir komuna, takk fyrir að horfa.

Við minnum á að upplýsingar um innviðauppbyggingu og aðrar framkvæmdir má finna á síðunni okkar. Hægt er að senda fyrirspurnir á landsnet@landsnet.is.

Við hjá Landsneti leggjum mikla áherslu á samtal og samvinnu hvort sem það er hér á síðunni eða á samfélagsmiðlum þar sem við hvetjum þig til að taka umræðuna með okkur.

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?