Framkvæmd

Forsaga málsins er sú að þann 12. september 2012 bilaði VM2, annar tveggja sæstrengja sem sér Vestmannaeyingum fyrir raforku. Í kjölfar viðgerðar varð ljóst að ekki væri hægt að treysta á tiltæki VM2 til langframa. Í ágúst 2012 var ákveðið að fara af stað með undirbúning fyrir innkaup og lagningu nýs sæstrengs VM3 en eftir bilunina var ákveðið að flýta verkefninu eins og mögulegt væri og allt kapp lagt á að hægt væri að spennusetja hann haustið 2013.

Þrír aðilar buðu í verkið, ABB AB, NKT-Cables og Prysmian. Eftir opnun var ljóst að tilboð ABB AB var hagstæðast og því gengið til samninga við þá, með það fyrir augum að tryggja lagningu strengsins næsta sumar.

Hvað hönnunarforsendur sæstrengs varðar, þá var gengið út frá fyrirhugaðri spennuhækkun í Vestmannaeyjum úr 33 kV í 66 kV. Flutningsgeta strengsins skyldi því vera 60 MVA fyrir tengingu á 66 kV, til að mæta fyrirhugaðri álagsaukningu í Vestmannaeyjum. Fyrst um sinn mun hinn nýi strengur þó verða tengdur á 33 kV, eins og núverandi sæstrengir VM1 og VM2. Núverandi sæstrengir eru með kopar leiðara, en hinn nýi strengur mun verða 400 mm2 Al solid core.

Hinn nýi strengur á milli lands og eyja, mun tengjast frá spennistöðinni Rimakoti með 3,5 km jarðstreng að Landeyjafjöru. Í Landeyjafjöru verður samtengi jarðstrengs og sæstrengs. Frá Landeyjafjöru verður lagður 12,7 km sæstrengur upp í Gjábakkafjöru í Heimaey, hvar hann tengist við 1 km langan jarðstreng, að tengivirki Landsnets í Vestmannaeyjum. 

ABB er þaulreyndur framleiðandi strengja, og framleiðir bæði land og sæstrengi fyrir öll spennustig flutnings- og dreifikerfa. Fyrir þetta verk, framleiðir ABB bæði jarðstrengi og sæstreng í verksmiðju sinni í Karlskrona. Lagningu strengsins er hinsvegar í höndum undirverktaka, Baltic Offshore.
Nýr innkaupastjóri Landsnets, Helgi Bogason, leiddi samningaviðræðurnar af hálfu Landsnets, þar sem Landsnet naut m.a. aðstoðar sérfræðinga frá Statnett í Noregi. Í samningalotunni á milli Landsnets og ABB kom fram að ef vel tekst til og strengurinn lagður næsta sumar, þá er um heimsmet að ræða. Aldrei hefur sæstrengur verið lagður við þessar aðstæður, þar sem svo skammur tími líður frá upphafi undirbúnings þar til framkvæmd lýkur. Með undirritun samnings við ABB, hefur Landsnet tryggt sér pláss í framleiðslulínu ABB á vormánuðum 2013 og líkur á því að heimsmet verði slegið stórauknar. 

Myndir:

Frá undirritun samnings um framleiðslu og lagningu sæstrengs til Vestmannaeyja. Nils-Erik Lindberg sölustjóri ABB og Þórður Guðmundsson forstjóri Landsnets. 

Verksmiðja ABB í Karlskrona þar sem sæstrengurinn verður framleiddur.

CS Pleijel, Skip Baltic Offshore sem sér un lagningu sæstrengsins. 

Aftur í allar fréttir