Sæstrengurinn til Vestmannaeyja bilaður
Bilanagreining á Vestmannaeyjastreng 3 hefur leitt í ljós að bilunin er ekki á landi eins og fyrstu greiningar bentu til heldur í sjó, um 1 km frá Landeyjasandi. Ljóst er að fram undan er umfangsmikil, flókin og tímafrek viðgerð.
Á meðan á viðgerðatíma stendur mun Vestmannaeyjastrengur 1, ásamt varaafli, sjá Vestmannaeyjum fyrir rafmagni til að samfélagið í Eyjum gangi sem skyldi á meðan á viðgerð stendur. Til öryggis munum við hjá Landsneti flytja auka varaaflsvélar til Vestmannaeyja til að tryggja að til staðar sé aukið rafmagn ef eitthvað kemur upp á.
Umfangsmikil viðgerð fram undan
Unnið er í nánu samstarfi við bæjaryfirvöld og almannavarnir í Vestmannaeyjum og höfum við nú þegar virkjað viðbragðsáætlanir og undirbúningur fyrir viðgerð er hafinn. Ekki er vitað á þessu stigi hvað olli því að strengurinn bilaði né hvað viðgerðin mun taka langan tíma en við viðgerð eins og þessa þarf að fá sérhæft viðgerðaskip ásamt sérfræðingum til landsins. Auk þess þurfa veðurskilyrði að vera hagstæð til að hægt sé að fara í viðgerðina.
Strengurinn var lagður árið 2013, framleiddur í verksmiðju ABB í Svíþjóð og prófaður samkvæmt stífustu kröfum að framleiðslu lokinni í verksmiðju, m.a. með háspennuprófi.