Lagning Blöndulínu 3 er mikilvægur hlekkur í endurnýjun á núverandi byggðalínu og verður línan hluti af nýrri kynslóð byggðalínu. En nú þegar höfum við hjá Landsneti tekið í notkun tvær línur sem tilheyra þeirri kynslóð, Kröflulínu 3 og Hólasandslínu 3. Markmið þessara lína er að auka afhendingaröryggi og afhendingargetu og tryggja að flutningskerfið standi ekki í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu og eðlilegri þróun byggðar.
Ítarlegt umhverfismat
Blöndulína er 100 km loftlína sem felur óhjákvæmilega í sér margvísleg áhrif á umhverfið líkt og Landsnet greinir frá í umhverfismatsskýrslu sinni sem hægt er að nálgast hér. Til grundvallar umhverfismatinu liggja fjöldi rannsókna utanaðkomandi sérfræðinga og telur Skipulagsstofnun í áliti sínu að Landsnet hafi að mörgu leyti aflað ítarlegra upplýsinga um grunnástand umhverfisþátta og matið byggi að stærstum hluta á vönduðum gögnum. Hér er hægt að nálgast álitið.
Skipulagsstofnun telur tiltekna annmarka á aðferðarfræðinni
Í umhverfismati síðustu verkefna höfum við lagt á áherslu á að sýna með hvaða hætti er unnið með þau viðmið sem lögð eru til grundvallar umhverfismatinu og nálgast það með myndrænum hætti. Aðferðin hefur verið unnin með aðkomu fjölda utan að komandi aðila, með hliðsjón af aðferðafræði norsku Vegagerðarinnar, er í sífelldri þróun og munum við halda þeirri þróun áfram m.a. í samvinnu við Skipulagsstofnun. Það er réttmæt ábending í áliti Skipulagsstofnunar að aðferðarfræðin nái stundum illa að fanga staðbundin áhrif lýst með einni vægiseinkunn. Hins vegar er alltaf tekið fram í texta í umhverfismatsskýrslunni ef staðbundin áhrif innan tiltekins valkostar eru meiri eða minni en af heildaráhrif sem geta hlotist af öllum valkostinum. Með því að greina frá þessum staðbundnu áhrifum er lagðar fram upplýsingar sem nýtast til að skoða mögulegar mótvægisaðgerðir og verklag sem vinna má áfram með í framhaldinu, sem við mun gera m.a. þær sem Skipulagsstofnun leggur til vegna lagningar línu um Kiðaskarð.
Niðurrif Rangárvallalínu hefur jákvæð áhrif
Í áliti Skipulagsstofnunar segir að stofnunin meti það sem svo að lagður hafi verið fram rökstuðningur fyrir því að ný byggðalína þurfi að vera 220 kV lína með 550 MVA flutningsgetu og gerð hafi verið grein fyrir þeim takmörkunum sem snýr að lengd jarðstrengja á línuleiðinni. Skipulagsstofnun segir, líkt og við í umhverfismatsskýrslunni, að þeir jarðstrengskostir sem metnir hafi verið á afmörkuðum köflum línuleiðarinnar hafi staðbundin jákvæð áhrif á ákveðna umhverfisþætti, meðal annars með tilliti til sjónrænna áhrifa. Skipulagsstofnun segir hins vegar að þegar litið sé til heildaráhrifa loftlínu aðalvalkostar á þessa ákveðnu umhverfisþætti, þá sé ljóst að þessir stuttu jarðstrengskaflar breyti litlu um umfang neikvæðra áhrifa. Þá gerir Skipulagsstofnun að umtalsefni að fyrirhugað niðurrif Rangárvallínu 1 munu hafa jákvæð áhrif.
Mótvægisaðgerðir og endurheimt
Í áliti Skipulagsstofnunar eru lagðar til ýmsar tillögur að skilyrðum um verklag, efnistöku, vöktun og mótvægisaðgerðir, sem við munum vinna áfram með viðkomandi sérfræðingum og sveitarfélögum á línuleiðinni.
Samtal og samráð fram undan
Við hjá Landsneti fáum ekki séð að álit Skipulagsstofnunar breyti niðurstöðu fyrirtækisins um ákvörðun um aðalvalkost. Strax á nýju ári verður farið yfir álitið með verkefnaráði, landeigendum og sveitarstjórnum og unnið að næstu skrefum.