Framkvæmd

Í síðustu viku var raforkunotkun í landinu í sögulegu hámarki en alla vikuna var óvenju mikið álag á raforkukerfið. Álagið náði hámarki í óveðrinu rétt fyrir hádegi miðvikudaginn 6. mars en þá mældist 5 mínútna afltoppur 2.222 MW og er það í fyrsta skipti sem afltoppur í flutningskerfinu mælist yfir 2.200 MW.

Algengast er að álagstoppur hvers árs sé á köldum degi, seint í desember, þegar raflýsing er í hámarki og mikil umsvif eru í verslun og þjónustu. Undanfarið hefur álag á kerfið hins vegar haldið áfram að aukast frá áramótum og náði hámarki sem fyrr segir um miðja síðustu viku þegar það mældist um 40 MW hærra en í desember síðast liðnum en þá hafði ekki áður mælst meira álag á kerfið.

Skýring á miklu álagi í síðustu viku má að hluta rekja til mikilla kulda á öllu landinu en einnig notuðu fiskvinnslufyrirtæki á Austurlandi óvenju mikla raforku þar sem loðnubræðslur hafa verið í fullum rekstri. Álagstoppum sem þessum geta fylgt miklir orkuflutningar á milli landssvæða en það skapar aukna áhættu fyrir raforkukerfið og dregur úr afhendingaröryggi. Þannig þurfti að grípa til tímabundinna skömmtuna á skerðanlegu afli á Austurlandi um miðja síðustu viku þegar syðri hluti byggðalínunnar varð straumlaus vegna samsláttar á línum. Ætla má að afltoppurinn síðast liðinn miðvikudag hefði jafnvel orðið enn hærri ef ekki hefðu komið til takmarkanir í flutningskerfinu. Þrátt fyrir þessar erfiðu aðstæður hefur rekstur flutningskerfisins gengið vonum framar. Hins vegar er erfitt að spá fyrir um áhrif truflana þegar álagið á kerfið er jafn mikið og raun ber vitni en álagstoppar undanfarið hafa komist mjög nærri vinnslugetu kerfisins.

Aftur í allar fréttir