Landsnet hefur í dag leitað eftir heimild atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra til að taka tiltekin landsréttindi á Reykjanesskaga eignarnámi til að geta hafið framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2, háspennulínu milli Hafnarfjarðar og Grindavíkurbæjar. Samningar hafa tekist við fjóra af hverjum fimm landeigendum um 62% lands á leið væntanlegrar línu en ítrekaðar samningsumleitanir við aðra landeigendur reyndust árangurslausar.

Unnið hefur verið að undirbúningi verkefnisins í sjö ár í samstarfi við viðkomandi sveitarfélög. Umhverfisáhrif Suðurnesjalínu 2 voru metin og framkvæmdin er á aðalskipulagi allra sveitarfélaganna.

Suðurnesjalína 2 verður hluti af almennu raforkuflutningskerfi Landsnets Áætlaður framkvæmdakostnaður er um 2,2 milljarðar króna og áætlaður framkvæmdatími hálft annað ár, frá júlí 2013 til ársloka 2014. Mannaflaþörf verkefnisins er 42 ársverk og gert ráð fyrir að allt að 50 manns vinni að því þegar umsvifin verða hvað mest, síðsumars 2014.

Núverandi Suðurnesjalína 1 er eina tenging Reykjanesskaga við meginflutningskerfi Landsnets og hafa bilanir á henni oft valdið straumleysi og vandkvæðum. Flutningsgeta línunnar, sem rekin er á 132 kV spennu, er fullnýtt. Mikið álag veldur enn frekari hættu á truflunum á raforkuflutningum, sem valdið getur verulegu tjóni hjá notendum. Það er því brýnt hagsmunamál íbúa og atvinnulífs á Reykjanesi að flutningskerfi raforku verði styrkt sem fyrst.
Suðurnesjalína 2 er þannig nauðsynleg framkvæmd í almannaþágu og þolir ekki frekari bið, enda hvílir sú lagaskylda á Landsneti að tryggja öryggi og rekstur flutningskerfis raforku. Tvær háspennulínur í stað einnar munu auka verulega rekstraröryggi raforkukerfis á svæðinu.

Suðurnesjalína 2 mun liggja um eignarlönd 20 jarða, þar af hafa samningar tekist við eigendur 11 jarða og viðræður standa yfir við eigendur tveggja jarða til viðbótar. Eigendur Vatnsleysu og Landakots hafna samningum og sömuleiðis eigendur þriggja annarra jarða að hluta: Knarrarness, Ásláksstaðahverfis og heiðarlands Vogajarða.

Landsnet kynnti öllum landeigendum framkvæmdaáform sín vorið 2011 og síðan þá hafa verið margir samningafundir og mikil samskipti átt sér stað milli Landsnets og landeigenda.

Nánar um mat á umhverfisáhrifum, samningsumleitanir og eignarnám

Suðurnesjalína 2 er hluti af verkefninu Suðvesturlínur sem Landsnet hóf að undirbúa árið 2005 með það að markmiði að byggja upp raforkuflutningskerfi til framtíðar á Suðvesturlandi, allt frá Hellisheiði út á Reykjanes.

Umhverfismat vegna framkvæmdanna var samþykkt með skilyrðum árið 2009 og í ársbyrjun 2011 hófst undirbúningur að sjálfri framkvæmdinni. Þá var ákveðið að byrja á að styrkja raforkuflutningskerfið á Suðurnesjum þar sem þörfin er brýnust, bæði með tilliti til flutningsgetu og afhendingaröryggis, með því að reisa 220 kV háspennulína meðfram núverandi Suðurnesjalínu 1. Síðar er gert ráð fyrir því að rífa Suðurnesjalínu 1 og reisa aðra 220 kV línu í hennar stað.

Suðurnesjalína 2 mun að miklu leyti fylgja núverandi Suðurnesjalínu 1 frá tengivirkinu í Hamranesi í Hafnarfirði að tengivirki við Rauðamel norðan Svartsengis í Reykjanesbæ, nema austast á svæðinu þar sem gert er ráð fyrir að hún liggi í nýju línubelti töluvert fjær núverandi byggð í Hafnarfirði.
 
Landraski er haldið í lágmarki og jafnframt orðið við tilmælum sveitarfélaga á svæðinu og helstu fagstofnana um að nýja línan verði reist í núverandi mannvirkjabelti, þar sem fyrir eru Suðurnesjalína 1 og Reykjanesbraut.

Landsnet hefur reynt til þrautar að ná samningum við alla landeigendur sem málið varðar en nokkrir landeigendur hafa þegar hafnað samningum. Landsnet telur því nauðsynlegt að leita eftir formlegri eignarnámsheimild, enda gera raforkulög ráð fyrir að ágreiningur við einstaka landeigendur, sem eru eindregið andvígir framkvæmdum sem teljast samfélagslega nauðsynlegar, sé leystur með þeim hætti, sbr. og 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár Íslands, nr. 33/1944.

Landsnet telur að ráðherra beri að heimila eignarnám vegna framkvæmdarinnar í þágu almannahagsmuna þótt slík ráðstöfun kunni að rekast á við einkahagsmuni landeigenda.

Aftur í allar fréttir