Rafvædd framtíð í sátt við samfélagið og umhverfið er kjarninn í starfsemi okkar hjá Landsneti. Framundan eru stór og mikilvæg skref í að draga úr kolefnisspori fyrirtækisins með því að skipta úr SF6 gasi í það sem kallað er grænt gas. Nýtt yfirbyggt tengivirki okkar við Korpu í Reykjavík verður fyrsta tengivirkið okkar þar sem rofabúnaður er einangraður með grænu gasi.
Grænt gas í stað SF6
Gengið hefur verið frá samningum við GE um kaup á búnaðinum. Um er að ræða svokallaðan GIS-búnað, þ.e. rofabúnað sem einangraður er með gasi. Hingað til hefur verið notað SF6-gas í slíkan búnað en í búnaðinum í nýja tengivirkinu við Korpu verður notað grænt gas, Novec 4710. Kolefnisspor þess gass er um 1% af kolefnisspori SF6.
Kolefnisfótspor SF6-gass er afar mikið, eða 23500 kg CO2-ígildi/kg gass. Það hefur verið okkur hjá Landsneti mikið kappsmál að draga sem mest úr losun á gasi sem kemur til við viðhald og eða leka í búnaði.
Nýtt tengivirkri við Korpu hefur minnsta kolefnissporið
Verkfræðistofan Efla gerði greiningu á kolefnisspori fjögurra gerða tengivirkja. Greiningin náði bæði til sjálfs rafbúnaðarins og hússins utan um hann. Niðurstöður greiningarinnar leiða í ljós að tengivirki, eins og Landsnet hyggst reisa við Korpu, hefur minnsta kolefnissporið af þeim virkjum sem skoðuð voru. Það má því segja að með að Landsnet hafi stigið stórt og mikilvægt skref fram á við í því að draga úr kolefnisspori í starfsemi fyrirtækisins með kaupum á þessum nýja rafbúnaði.
Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við nýja tengivirkið í haust.
Nánar:
Ljósmynd - Gamla tengivirkið okkar í Korpu.