Innviðauppbygging SUN-03
Um verkefnið
Megintilgangur verkefnisins er að auka afhendingaröryggi á raforku á Suðurnesjum. Gert er ráð fyrir tengingu milli tengivirkjanna í Hamranesi í Hafnarfirði og Rauðamel í Grindavík.
Hlutverk okkar samkvæmt raforkulögum er að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Við undirbúning á verkefni eins og þessu þarf m.a. að taka tillit til þróunar á flutningsþörf, áætlunum um atvinnuuppbyggingu, hagkvæmni uppbyggingar, áhrifa á landeigendur, rekstraröryggi notenda og gæði raforku.
Þá er mikilvægur hluti undirbúnings að meta umhverfisáhrif framkvæmdanna, með það að markmiði að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og stuðla að samvinnu hagsmunaðila og annarra er láta sig málið varða.
Undirbúningur vegna Suðurnesjalínu 2 hefur staðið lengi yfir.
Verkefnið var á sínum tíma hluti af mun umfangsmeira umhverfismati Suðvesturlína, en nú afmarkast matið eingöngu við Suðurnesjalínu 2. Í kjölfar dóma um ógildingu á heimild til eignarnáms og leyfi Orkustofnunar fyrir Suðurnesjalínu 2, ásamt ógildingu á framkvæmdaleyfi Sveitarfélagsins Voga, hefur Landsnet ákveðið að gera nýtt umhverfismat sem mun m.a. meta umhverfisáhrif valkosta sem fela í sér jarðstrengi.