B.7 Skilmálar um mæligögn, notkunarferla og notkunarferlauppgjör
Útgáfa 4.0 gefin út 01.01.2023
1. Inngangur
1.1 Í skilmálum þessum eru settar fram reglur fyrir aðila á raforkumarkaði sem lýsa öflun, úrvinnslu og miðlun mæligagna sem nauðsynleg eru til að reka opinn raforkumarkað á Íslandi innan þess ramma sem lög og reglugerðir kveða á um.
1.2 Skilmálar þessir styðjast við sænskar uppgjörsreglur um framkvæmd notkunarferlauppgjörs sem hlutaðeigandi aðilar á markaði hafa orðið ásáttir um að nota.
1.3 Landsneti, dreifiveitum og sölufyrirtækjum ber að aðlaga og samræma eigin verklag að ákvæðum skilmála þessara.
1.4 Þessir skilmálar eru settir á grundvelli 6. mgr. 9. gr. raforkulaga með síðari breytingum (hér eftir nefnd raforkulög) og í samræmi við reglugerð nr. 1150/2019 um raforkuviðskipti og mælingar með síðari breytingum og reglugerð nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga með síðari breytingum.
1.5 Skilmálar þessir eru staðfestir af Orkustofnun sbr. 6. mgr. 9. gr. raforkulaga.
2. Skilgreiningar
Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir reglur þessar:
2.1 Auðkenni mælistaðar er samsett úr auðkenni notkunarferilssvæðis og kennitölu mælistaðar.
2.2 Auðkenni notkunarferilssvæðis er þriggja tölustafa kóði sem Landsnet úthlutar dreifiveitum til skilgreiningar á notkunarferilssvæðum.
2.3 Álestrarlota er tímabil milli tveggja álestra ýmist lotubundið eða óreglulegt.
2.4 Áætluð hlutfallstala er áætlaður hlutur hvers sölufyrirtækis og jöfnunarábyrgðaraðila í notkunarferil hvers notkunarferilssvæðis, reiknaður út frá áætlaðri ársnotkun á mælistöðum sem sölufyrirtæki/jöfnunarábyrgur ber ábyrgð á sölu til.
2.5 Áætluð nettöp er áætlun um nettöp á notkunarferilssvæði notuð í jöfnunarorkuuppgjöri.
2.6 Áætluð tímaröð er tímaröð þar sem gildi hafa verið áætluð (staða gilda = 6, sjá Tilvísun 9) þar sem mæliröð er ekki tiltæk.
2.7 Ediel auðkenni eru auðkenni aðila í aðilaskrá Landsnets í samskiptum með Ediel skeyti.
2.8 Endanleg hlutfallstala er hlutur (kWh) hvers sölufyrirtækis eða jöfnunarábyrgðaraðila í notkunarferil hvers notkunarferilssvæðis, reiknaður út frá mældri (álesinni) lotudreifðri notkun í mælistöðum sem sölufyrirtæki/jöfnunarábyrgur ber ábyrgð á sölu til.
2.9 Endanleg nettöp er mismunur orku notkunarferils í afhendingarmánuði og lotudreifðri álesinni notkun sama mánaðar, notað í notkunarferlauppgjöri.
2.10 Leiðrétt tímaröð er tiltæk tímaröð sem er uppfærð með leiðréttum gildum_._
2.11 Lotudreifing er skipting álesinnar notkunar í mánaðarnotkun hvers mánaðar til síðasta álesturs á undan.
2.12 Mæliröð er tímaröð mæligilda úr raforkumæli.
2.13 Neysluveita: Raflögn og rafbúnaður innan við stofnkassa eða búnað, sem gegnir hlutverki stofnkassa. Á einni heimtaug geta verið fleiri en ein neysluveita.
2.14 Notkunarferill er mismunur heildarorkuúttektar á notkunarferilssvæði á klukkustund annars vegar og tímamældrar notkunar einstakra notenda og ómældrar þekktrar notkunar hins vegar. Töp í raforkukerfinu teljast hluti af notkunarferli.
2.15 Notkunarferlauppgjör er mánaðarlegt uppgjör Landsnets á notkunarferilsafhendingu jöfnunarábyrgra 15 mánuðum eftir afhendingarmánuð.
2.16 Ómæld þekkt notkun er raforka þar sem uppsett afl og nýtingartími er notað til útreiknings á raforkunotkun og mælingu verður ekki komið við af tæknilegum ástæðum eða vegna kostnaðar.
2.17 Reiknuð tímaröð er tímaröð af gildum sem reiknuð eru út frá mæliröðum/tímaröðum oftast summur nokkurra mæliraða/tímaraða.
2.18 Stöðukóði segir til um uppruna og gæði mæligilda í mæliröð.
2.19 Tiltæk tímaröð er þegar búið er að ná í mæliröð. Staða gilda er handvirk (0) eða eðlileg (2), sjá Tilvísun 9.
2.20 Tímaröð er röð af gildum sem skráð eru fyrir hverja tímaeiningu, upplausn mælinga skal vera a.m.k. ein klukkustund.
2.21 Tímamæling er mæling tímaraða hjá notanda neysluveitu.
2.22 Nettöp (töp í raforkukerfinu) er mæld innmötuð orka að frádreginni mældri orku út af notkunarferilssvæði og ómældri þekktri notkun á því svæði.
2.23 Uppgjörsorka notkunarferils er mismunur endanlegrar og áætlaðrar notkunarferils-afhendingar.
2.24 Uppgjörsorkuverð notkunarferla er meðalverð jöfnunarorku í þeim mánuði sem til uppgjörs er reiknað og útgefið af Landsneti.
2.25 Útflutningsauðkenni eru auðkenni mælistaða notuð við útflutning á mæligögnum.
2.26 Viðbótarauðkenni mælaraða er þriggja tölustafa kóði til auðkenningar á mæliröðum þar sem fleiri en ein mæliröð á uppruna sinn á sama mælistað.
2.27 Þjónustuaðili dreifiveitna: Aðili sem sér um miðlæg samskipti aðila á raforkumarkaði fyrir hönd dreifiveitna (Netorka).
3. Forsendur
3.1 Aðilum raforkumarkaðar er heimilt að fela öðrum (Þjónustuaðili dreifveitna) framkvæmd og umsjón með einstökum atriðum varðandi samskipti samkvæmt skilmálum þessum að því gefnu að viðkomandi undirgangist skuldbindingu um trúnað. Slíkt leysir aðila raforkumarkaðar þó ekki undan ábyrgð sinni og skyldum samkvæmt reglum þessum.
3.2 Dreifiveitu ber að miðla til sölufyrirtækja og jöfnunarábyrgðaraðila mæli- og uppgjörsgögnum fyrir hvert notkunarferilssvæði á dreifiveitusvæði sínu er varðar þeirra notendur.
3.3 Dreifiveita skal skilgreina notkunarferilssvæði og fá þau samþykkt hjá Landsneti.
3.4 Dreifiveita og Landsnet senda mæligögn samkvæmt skilmála þessum til aðila á raforkumarkaði í samræmi við aðilaskrá þegar við á.
3.5 Dreifiveita ákveður hvort einstaka neysluveitur með 3 x 63A mælivör eða minni séu tímamældar eða ekki. Hafi dreifiveita ákveðið að tiltekin neysluveita skuli ekki tímamæld á notandi viðkomandi neysluveitu engu að síður kost á að krefjast tímamælingar, gegn greiðslu viðbótarkostnaðar sem af því hlýst sé neysluveitan 3 x 63A eða minni.
3.6 Sölufyrirtæki notenda með neysluveitu með 3 x 63A mælivör eða minni getur óskað eftir því við dreifiveitu að neysluveitan verði tímamæld. Notandi, eða sölufyrirtæki í hans umboði, gerir samning við dreifiveitu um uppsetningu tímamælingar. Notandi greiðir viðbótarkostnað af uppsetningu tímamælingarinnar.
3.7 Mælaálestra álesinna veitna skal senda sem skrár með MSCONS sniði milli aðila.
3.8 Mæliraðir og reiknaðar tímaraðir skal senda sem skrár með MSCONS eða SVEFXX sniði milli aðila.
3.9 Hlutfallstölur skulu sendar með Ediel skeyti af gerðinni DELFOR, geti móttakandi tekið við slíku skeyti en annars sem Excel skýrsla.
3.10 Nettöp í notkunarferilssvæði eru gefin upp sem hlutfallstala viðeigandi notkunarferla.
4. Auðkenni mælistaða og mæli- og uppgjörsgagna
4.1 Við miðlun mæli- og uppgjörsgagna, sem lýst er í þessum skilmálum, skulu fylgja upplýsingar um uppruna mælingar s.s. notkunarferilssvæði mælistaðar, kennitölu mælistaðar, viðbótarauðkenni mæliraða, reikniverkskóða, stöðukóða og tegundarkóða.
4.2 Álestrar
Auðkenni mælistaðar byrjar á kóða viðkomandi notkunarferilssvæðis mælistaðar að viðbættri kennitölu mælistaðar úr lista yfir kennitölur mælistaða dreifiveitu sem byrjar á 10000000 sjá tilvísun.
Álestra skal auðkenna á eftirfarandi hátt:
a. Við miðlun álestra í skeytum milli mæligagnakerfa skal nota kennitölu mælistaðar, án kóða notkunarferilssvæðis, í útflutningsauðkenni mæligagna.
b. Með reikniverkskóða mælistaðar sem vísar til tímaramma mælingar í mælistað. Sé fleiri en einn teljari á mæli (reikniverk), fær hver þeirra kóða sem lýsir lotuskiptingu mælingarinnar.
c. Með tegundarkóða sem lýsir tegund notkunar sem mæld er í mælistað.
4.3 Mæliraðir
Auðkenni mæliraðar byrjar á kóða viðkomandi notkunarferilssvæðis mælistaðar eða kóða fyrir flutningskerfi Landsnets að viðbættri kennitölu mælistaðar úr lista yfir kennitölur mælistaða viðkomandi aðila sem byrjar á 10000000 auk viðbótarauðkennis mæliraðar sé safnað fleiri en einni mæliröð frá mælistaðnum.
Mæliraðir skulu auðkenndar á eftirfarandi hátt:
a. Við miðlun mæliraða í skeytum milli mæligagnakerfa skal nota kennitölu mælistaðar, án kóða notkunarferilssvæðis, auk viðbótarauðkennis mæliraðar, sé það notað, í útflutningsauðkenni mæliraða.
b. Með viðbótarauðkenni mæliraðar sem lýsir númeri teljaraverks: tegund mælingar, hvort um raun- eða launaflsmælingu sé að ræða og hvort flæði orkunnar sé út eða inn af kerfi þess sem ber ábyrgð á mælingunni.
c. Með tegundarkóða sem lýsir tegund notkunar, miðlunar eða raforkuvinnslu sem mæld er í mælistað.
d. Með stöðukóða gilda í tímaröðum sem lýsir stöðu mæligildis í mæliröð.
4.4 Reiknaðar tímaraðir
Auðkenni reiknaðrar tímaraðar byrjar á kóða viðkomandi notkunarferilssvæðis mælistaðar eða kóða fyrir flutningskerfi Landsnets að viðbættri kennitölu úr kennitöluröð dreifiveitu eða Landsnets, sem byrjar á 20000000.
Reiknaðar tímaraðir skulu auðkenndar á eftirfarandi hátt:
a. Við miðlun reiknaðra tímaraða í skeytum milli mæligagnakerfa skal nota kennitölu , án kóða notkunarferilssvæðis, í útflutningsauðkenni tímaraða eða önnur þau auðkenni sem aðilar sem eiga í samskiptum koma sér saman um.
b. Viðbótarauðkenni tímaraðar er sleppt.
c. Með tegundarkóða sem lýsir tegund upplýsinga í tímaröð.
4.5 Einstök gildi í tímaröðum sem aðilar skiptast á skulu stimpluð með tímagildi í lok mælitímabils
5. Skyldur dreifiveitu
5.1 Álestrar
a. Dreifiveita útvegar álestra á mæla í mælistöðum sem gerðir eru upp samkvæmt notkunarferli með 12 mánaða álestrarlotu.
b. Dreifiveita býr til áætlunarálestra þar sem ekki næst álestur vegna útreiknings nettapa í notkunarferlauppgjöri.
c. Dreifiveita lotudreifir álestrum aftur til síðasta álesturs.
d. Dreifiveita áætlar ársnotkun í kjölfar álestrar.
e. Dreifiveita útvegar álestur mæla vegna:
1) Upphafs viðskipta.
2) Skipta á sölufyrirtæki.
3) Notendaskipta - rétthafabreytinga.
4) Reglubundinna uppgjöra.
5) Mælaskipta.
6) Loka viðskipta (niðurtöku mælis).
Álestur vegna skipta á sölufyrirtæki og notandaskipta skal fara fram á skiptadegi eða innan 5 daga fyrir eða eftir skiptadag. Nota skal álestur sem ekki er tekinn á skiptadegi til útreikninga á álestri sem skrá skal á skiptadag. Ef álestur næst ekki skal dreifiveita áætla álestur í samráði við viðkomandi sölufyrirtæki. Reynist áætlun röng er dreifiveitu heimilt að leiðrétta álesturinn.
f. Dreifiveita tryggir að mælaálestrar séu réttir.
5.2 Tímamælingar
a. Dreifiveita setur upp tímamælingar í samræmi við kafla 3.5. og 3.6.:
1) Fyrir þær neysluveitur sem henni ber skylda til að tímamæla
2) Fyrir þær neysluveitur sem hún ákveður að tímamæla
3) Hjá notendum sem óska eftir tímamælingu.
b. Dreifiveita safnar daglega mæliröðum úr tímamældum mælistöðum sem eru gerðir upp fyrir hverja klukkustund.
c. Dreifiveita aflar mæliraða og leiðréttir mæliraðir á rekjanlegan hátt ef mælir getur ekki skilað réttum mæligildum.
5.3 Ómæld þekkt notkun
a. Dreifiveita útbýr tímaraðir fyrir ómælda en þekkta notkun þar sem hámarksafl er hærra en 100 kW.
b. Dreifiveita leggur fram skýrslu um verklag við gerð tímaraða og áætlunar ársnotkunar úr ómældri þekktri notkun leiti notandi, sölufyrirtæki, jöfnunarábyrgur eða Landsnet eftir því.
5.4 Áætlaðar hlutfallstölur notkunar og nettapa
a. Dreifiveita reiknar áætlaðar hlutfallstölur notkunar og nettapa í kWh og prósentum og miðast prósentur við notkunarferil sama mánaðar síðasta árs.
b. Dreifiveita sendir viðeigandi sölufyrirtæki, jöfnunarábyrgum og Landsneti hlutfallstölur áætlaðra nettapa.
c. Dreifiveita sendir viðeigandi sölufyrirtæki áætlaðar hlutfallstölur og fjölda mælistaða í hlutfallstölum.
d. Dreifiveita sendir viðeigandi jöfnunarábyrgum áætlaðar hlutfallstölur, þeirra sölufyrirtækja sem hann ber ábyrgð á jöfnun fyrir ásamt summu áætlaðra hlutfallstalna jöfnunarábyrgs á notkunarferilssvæðinu.
e. Dreifiveita sendir Landsneti áætlaðar hlutfallstölur jöfnunarábyrgra.
f. Dreifiveita framkvæmir framangreint 15. dag hvers mánaðar fyrir næsta mánuð og aðgreint fyrir sérhvert notkunarferilssvæði.
5.5 Endanlegar hlutfallstölur notkunar og nettapa
a. Dreifiveita reiknar endanlegar hlutfallstölur og endanleg nettöp, í einingunni kWh.
b. Dreifiveita sendir viðeigandi sölufyrirtæki, jöfnunarábyrgum og Landsneti endanlega hlutfallstölu nettapa í notkunarferlauppgjöri.
c. Dreifiveita sendir viðeigandi sölufyrirtæki endanlega hlutfallstölu og fjölda mælistaða notaða við útreikning hlutfallstölu.
d. Dreifiveita sendir viðeigandi jöfnunarábyrgum endanlega hlutfallstölu fyrir sérhvert sölufyrirtæki sem hann ber ábyrgð á jöfnun fyrir ásamt summu endanlegra hlutfallstalna jöfnunarábyrgs á notkunarferilssvæðinu.
e. Dreifiveita sendir Landsneti endanlegar hlutfallstölur fyrir jöfnunarábyrgðaraðila á notkunarferilssvæðinu.
f. Dreifiveita framkvæmir framangreint síðasta virka dag 15. mánaðar frá afhendingarmánuði fyrir sérhvert notkunarferilssvæði.
5.6 Miðlun álestra mælistaða á notkunarferilssvæði
a. Dreifiveita sendir sölufyrirtæki staðfesta lotubundna álestra innan mánaðar frá álestri.
b. Dreifiveita sendir sölufyrirtæki einstaka álestra vegna skipta á sölufyrirtæki, notendaskipta-rétthafabreytinga, upphafs og loka viðskipta, mælaskipta og reglubundinna uppgjöra.
c. Dreifiveita sendir notanda álestra með uppgjörsreikningi.
5.7 Miðlun tímaraða notkunar og vinnslu á notkunarferilssvæði
a. Dreifiveita sendir Landsneti summuraðir fyrir hvern jöfnunarábyrgðaraðila, ásamt mæliröðum fyrir ótrygga orku og orkuvinnslu á hverju notkunarferilssvæði samkvæmt tímasetningum í e) og f).
b. Dreifiveita sendir jöfnunarábyrgum summuraðir fyrir hvert sölufyrirtæki, mæliraðir ótryggrar orku og orkuvinnslu, sem hann er jöfnunarábyrgur fyrir, ásamt summuröðum notkunar samkvæmt tímasetningum í e) og f).
c. Dreifiveita sendir sölufyrirtækjum mæliraðir fyrir hvern mælistað þar sem sölufyrirtækið afhendir raforku eða móttekur raforku á notkunarferilssvæðinu, ásamt summuröðum notkunar samkvæmt tímasetningum í e) og f) .
d. Dreifiveita sendir tengdri dreifiveitu tímaraðir innmötunar eða útmötunar í afhendingarstað samkvæmt tímasetningum í e) og f) .
e. Þegar neysluveita er með stærri mælivör en 3 x 63 A, sendir dreifiveita Landsneti, jöfnunarábyrgum, sölufyrirtækjum og tengdri dreifiveitu (auk vinnslufyrirtækis þegar við á):
1) Daglega tiltækar og áætlaðar tímaraðir síðasta sólarhrings, með stöðukóða, fyrir klukkan 10:00 daginn eftir mælidag.
2) Tiltækar, áætlaðar og leiðréttar mæliraðir dreifiveitu innan 5 daga frá mælidegi.
3) Viðeigandi staðfestar tímaraðir í síðasta lagi 5. virka dag næsta mánaðar. Mæliraðir síðasta mánaðar skulu staðfestar réttar. Eftir það er mæliröðum ekki breytt nema með sérstakri skýrslu sem send er ofangreindum aðilum en heimilt er að leiðrétta mæliraðir innan 6 mánaða frá mælidegi.
f. Þegar neysluveita er með 3 x 63 A mælivör eða minni, sendir dreifiveita Landsneti, jöfnunarábyrgum, sölufyrirtæki og tengdri dreifiveitu (auk vinnslufyrirtækis þegar við á):
1) Daglega tiltækar og áætlaðar tímaraðir síðasta sólarhrings, með stöðukóða, fyrir klukkan 10:00 daginn eftir mælidag.
2) Tiltækar, áætlaðar og leiðréttar mæliraðir dreifiveitu innan 90 daga frá mælidegi. Mæliraðir eldri en 90 daga skulu staðfestar réttar. Eftir 90 daga er mæliröðum ekki breytt nema með sérstakri skýrslu sem send er ofangreindum aðilum en heimilt er að leiðrétta mæliraðir innan 12 mánaða frá mælidegi.
3) Dreifiveitu ber að hafa viðkomandi mæliraðir aðgengilegar viðskiptavinum/notanda.
5.8 Miðlun tímaraða notkunarferils
a. Dreifiveita sendir Landsneti og jöfnunarábyrgum óstaðfestan notkunarferil síðasta sólarhrings fyrir kl. 10:00 daginn eftir mælidag.
b. Dreifiveita sendir Landsneti og jöfnunarábyrgum notkunarferil notkunarferilssvæðis byggðan á tiltækum, áætluðum og leiðréttum mæliröðum innan 90 daga frá mælidegi. Mæliraðir eldri en 90 daga skulu staðfestar réttar.
c. Dreifiveita sendir Landsneti og jöfnunarábyrgum leiðréttan notkunarferil notkunarferilssvæðis þegar leiðrétting hefur átt sér stað og í síðasta lagi 12 mánuðum eftir mælidag.
6. Skyldur Landsnets
6.1 Tímamælingar
a. Landsnet safnar mæliröðum úr tímamældum afhendingarstöðum Landsnets.
b. Landsnet tryggir að tímamælingar afhendingastaða séu réttar.
c. Landsnet aflar mæliraða og leiðréttir mæliraðir á rekjanlegan hátt ef mælir getur ekki skilað réttum mæligildum.
6.2 Miðlun tímaraða
Landsnet miðlar til dreifiveitu, tímaröðum inn- og útmötunar flutningskerfis til notkunarferilssvæðis:
a. Tiltækum tímaröðum fyrir kl. 9:00 daginn eftir mælidag.
b. Tiltækum og leiðréttum tímaröðum 5 dögum eftir mælidag.
c. Staðfestum tímaröðum í síðasta lagi 5. virka dag mánaðar fyrir mánuðinn á undan.
6.3 Miðlun uppgjörsgagna
Landsnet miðlar jöfnunarábyrgðaraðilum öllum þeim gögnum sem Landsnet notar til uppgjörs eftir beiðni frá viðkomandi jöfnunarábyrgðaraðilum, sölufyrirtækjum og vinnsluaðilum.
6.4 Birting notkunarferla
Landsnet birtir notkunarferil hvers notkunarferilssvæðis svo hagsmunaaðilar geti nálgast hann.
a. Landsnet birtir óstaðfestan notkunarferil kl. 10:30 fimm dögum eftir mælidag.
b. Landsnet birtir staðfestan notkunarferil 90 dögum eftir mælidag.
c. Landsnet birtir leiðréttan notkunarferil eftir að leiðréttingar mæligagna sem hann byggir á hafa verið gerðar, í síðasta lagi eftir 12 mánuði frá afhendingarmánuði.
6.5 Áætluð notkunarferilsafhending
a. Landsnet reiknar tímaröð áætlaðrar notkunarferilsafhendingar jöfnunarábyrgðaraðila fyrir hvert notkunarferilssvæði 5. virka dag mánaðarins eftir afhendingarmánuð.
b. Landsnet leggur saman tímaraðir áætlaðrar notkunarferilsafhendingar hvers jöfnunarábyrgðaraðila fyrir öll notkunarferilssvæði í landinu og notar við uppgjör jöfnunarorku.
6.6 Endanleg notkunarferilsafhending
a. Landsnet leggur saman endanlegar hlutfallstölur jöfnunarábyrgðaraðila á öllum notkunarferilssvæðum 16 mánuðum eftir afhendingarmánuð.
b. Landsnet reiknar uppgjörsorku notkunarferils sem mismun á áætlaðri og endanlegri notkunarferilsafhendingu hvers jöfnunarábyrgðaraðila fyrir afhendingarmánuð.
c. Landsnet notar áætlaða notkunarferilsafhendingu í endanlegu notkunarferlauppgjöri hafi endanlegar hlutfallstölur notkunarferilssvæðis ekki borist fyrir upphaf 16. mánaðar frá afhendingarmánuði, við útreikning uppgjörsorku notkunarferils.
6.7 Verð uppgjörsorku notkunarferla
Landsnet reiknar verð uppgjörsorku notkunarferla sem meðalverð jöfnunarorku í afhendingarmánuði.Landsnet birtir verð uppgjörsorku notkunarferla.
6.8 Notkunarferlauppgjör er framkvæmt eftir 15. mánuð frá afhendingarmánuði
a. Landsnet reiknar uppgjörsorku notkunarferla fyrir hvern jöfnunarábyrgðaraðila sem mismun endanlegrar og áætlaðrar notkunarferilsafhendingar.
b. Landsnet reiknar inneign eða skuld hvers jöfnunarábyrgðaraðila miðað við verð uppgjörsorku notkunarferla í afhendingarmánuði.
c. Landsnet jafnar inneign og greiðsluskyldu hvers jöfnunarábyrgðaraðila vegna notkunarferlauppgjörs samhliða jöfnunarorkuuppgjöri síðasta mánaðar.
6.9 Miðlun upplýsinga úr notkunarferlauppgjöri
a. Landsnet sendir jöfnunarábyrgðaraðilum upplýsingar um áætlaða notkunarferilsafhendingu sína.
b. Landsnet sendir samanlagða notkunarferilsafhendingu í notkunarferlauppgjöri til jöfnunarábyrgðaraðila 5. virka dag mánaðar
7. Trúnaður
7.1 Þeir sem fá upplýsingar í hendur á grundvelli skilmála þessara eru bundnir trúnaði um þær upplýsingar. Þeim er óheimilt að miðla upplýsingum til annarra en þeirra sem rétt hafa á að fá upplýsingarnar á grundvelli þessara skilmála. Vísast í því sambandi m.a. til 8. mgr. 9. gr. og 7. tl. 3. mgr. 16. gr. og raforkulaga nr. 65/2003.
8. Bótaskylda og óviðráðanleg öfl
8.1 Ákvæði 9. greinar Almennra skilmála Landsnets um flutning rafmagns og kerfisstjórnun varðandi ábyrgð gildir um bótaábyrgð aðila á grundvelli þessara skilmála.
8.2 Ákvæði 10. greinar Almennra skilmála um flutning rafmagns og kerfisstjórnun varðandi óviðráðanleg öfl gildir um samskipti aðila á grundvelli þessara skilmála.
9. Eftirlit og úrræði
9.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki starfi samkvæmt lögum nr. 65/2003 og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og reglum þessum.
9.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða þessara reglna skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Úrskurði úrskurðarnefndar má vísa til dómstóla skv. 30 gr. VII. kafla raforkulaga.
9.3 Heyri úrlausn ágreinings ekki undir Orkustofnun má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.
10. Tilvísanir
Eftirfarandi tilvísanir sem tilheyra þessu skjali eru vistaðar á heimasíðu Landsnets, www.landsnet.is.
- Aðilaskrá raforkumarkaðar
- Notkunarferilssvæði.
- Auðkenni notkunarferilssvæðis
- Kennitala mælistaðar.
- Kennitöluröð dreifiveitu og Landsnets.
- Tegundarkóðar.
- Reikniverkskóðar og lotuskipting.
- Viðbótarauðkenni mæliraða.
- Stöðukóði gilda í tímaröðum
- Ediel auðkenni.
- Yfirlit yfir miðlun mæligagna.
- Miðlun hlutfallstalna, álestra og tímaraða.
- Miðlun uppgjörsgagna notkunarferlauppgjörs.
- Útreikningur hlutfallstalna.
- Útreikningur hlutfallstalna í október 2009 - dæmi.
- Útreikningur hlutfallstalna - tímasetningar.
- Samhengi jöfnunarorku- og notkunarferlauppgjörs
Tilvísun 1
Aðilaskrá raforkumarkaðar
Tilvísun 2
Notkunarferilssvæði
Dreifiveita hefur heimild til að skipta dreifiveitusvæði sínu í fleiri en eitt notkunarferilssvæði í samræmi við 2. mgr. 46 gr. reglugerðar um raforkuviðskipti og mælingar.
Dreifiveita skal skila Landsneti lýsingu á sérhverju notkunarferilssvæði þar sem auðkenni þeirra tímamældu mælistaða sem afmarka notkunarferilssvæði kemur fram ásamt nafni og því auðkenni notkunarferilssvæðis sem dreifiveita kýs.
Landsnet viðheldur skrá með lýsingum notkunarferilssvæða og mælistaða sem afmarka þau ásamt númerum þeirra.
Meðfylgjandi tafla sýnir skiptingu dreifiveitusvæða í notkunarferilssvæði og kóða þeirra.
Tilvísun 3
Auðkenni notkunarferils
Eftirfarandi tafla sýnir þau númer sem Landsnet hefur úthlutað dreifiveitum til að auðkenna notkunarferilssvæði sín.
RARIK | 100-199 |
Veitur | 200-299 |
HS Veitur | 300-399 |
Orkubú Vestfjarða | 400-499 |
Norðurorka | 500-599 |
Orkuveita Húsavíkur **) | 600-699 |
Landsvirkjun | 700-799 |
Rafveita Reyðarfjarðar **) | 800-810 |
Landsnet *) | 900-999 |
*) Er notað til að auðkenna upplýsingar hjá Landsneti.
**) Notkunarferilssvæði viðkomandi dreifiveitu hefur verið lagt niður
Tilvísun 4
Kennitala mælistaðar
Í eftirfarandi töflu er úthlutun Samorku á kennitölum fyrir mælistaði í kerfum dreifiveitna og Landsnets:
Landsvirkjun | 10000001 til 10005000 |
Landsnet | 10010001 til 10015000 |
Orkuveita Húsavíkur *) | 10020001 til 10040000 |
Norðurorka | 10050001 til 10100000 |
Orkubú Vestfjarða | 10200001 til 10250000 |
Rafveita Reyðarfjarðar *) | 10270001 til 10290000 |
RARIK | 10300001 til 10500000 |
Veitur | 10600001 til 10800000 |
HS Veitur | 10900001 til 10999999 |
*) Notkunarferilssvæði viðkomandi dreifiveitu hefur verið lagt niður
Skýringardæmi
Tveir mælar sem mæla raunafl frá sama afhendingarstað fá hvor sína kennitöluna.
Einn mælir sem mælir raunafl inn og annar sem mælir raunafl út skulu fá sömu kennitölu mælistaðar en mæliraðir þeirra ætti að auðkenna með viðbótarauðkenni mæliraða.
Tilvísun 5
Kennitöluröð dreifiveitu og Landsnets
Landsnet hefur úthlutað dreifiveitum kennitölum sem er röð af átta stafa númerum sem byrjar á 20. Kennitölurnar eru til að merkja reiknaðar tímaraðir (summuraðir) og aðrar upplýsingar sem þörf er að merkja með einkvæmum hætti vegna samskipta aðila með mæli- og uppgjörsgögn.
Úthlutaðar kennitölur eru samkvæmt meðfylgjandi töflu:
Landsvirkjun | 20000001 til 20005000 |
Landsnet | 20010001 til 20015000 |
Orkuveita Húsavíkur *) | 20020001 til 20040000 |
Norðurorka | 20050001 til 20100000 |
Orkubú Vestfjarða | 20200001 til 20250000 |
Rafveita Reyðarfjarðar *) | 20270001 til 20290000 |
RARIK | 20300001 til 20500000 |
Veitur | 20600001 til 20800000 |
HS Veitur | 20900001 til 20999999 |
*) Notkunarferilssvæði viðkomandi dreifiveitu hefur verið lagt niður
Tilvísun 6
Tegundarkóðar
Landsnet gefur út tegundarkóða til notkunar í samskiptum með mæli-, og uppgjörsgögn í samræmi við Netmála B6 og B7.
Tegundarkóðarnir eru að stofni til þeir sömu og notaðir eru í Ediel samskiptum á sænska raforkumarkaðnum. Ekki er þó teknir upp allir tegundakóðar af lista „Produktkodlista” Svenska Kraftnet, heldur einungis þeir sem þörf er á að nota á Íslandi.
Þeir sem telja sig þurfa að nota aðra tegundarkóða en birtir eru í neðangreindri töflu geta leitað eftir nýjum kóðum hjá Landsneti. Stuðst verður við „Produktkodlista” Svenska Kraftnet við ákvörðun kóðanna.
Birting á tegundarkóðalista er á vef Landsnets.
Eftirfarandi tafla sýnir þá tegundarkóða sem notaðir verða í samskiptum fyrirtækja á raforkumarkaði.
Dreifiveitur munu senda frá sér uppgjörsgögn vegna notkunarferilsuppgjörs með viðeigandi tegundarkóðum. Þessir kóðar verða færðir inn í framangreinda töflu þegar ljóst er hvaða kóðar verða notaðir til að lýsa þeim uppgjörsgögnum sem send verða milli fyrir
Tilvísun 7
Reikniverkskóðar og lotuskipting
Listi yfir reikniverkskóða vísar til þeirra upplýsinga sem tilgreindar eru í svæðinu „Tímarammi mælingar” (e. Meter time frame) í Ediel skeytunum PRODAT og MSCONS.
Tilgangur samræmdra reikniverkskóða er að tryggja að við sendingar mæligagna skilji móttakandi gögnin á sama hátt og sendandinn ætlast til.
Að baki hverjum reikniverkskóða er lotuskipting sem lýst er í meðfylgjandi töflu. Lotuskiptingin ber einnig kóða. Lotuskiptingar bera kóða og er einn þeirra samhljóða reikniverkskóða.
Þeir sem þurfa á reikniverkskóða og lotuskiptingu að halda til að skiptast á mæligögnum geta leitað til Landsnets sem úthlutar nýjum kóða og hindrar þannig notkun á sama reikniverkskóða og lotuskiptingu í mismunandi tilgangi.
Reikniverkskóðar eru notaðir til að lýsa hvernig mælingum í mælistað er skipt milli háálagstíma (HL) og lágálagstíma (LL).
Tilvísun 8
Viðbótarauðkenni mæliraða
Auðkenna má mæliröð með því að bæta viðbótarauðkenni mæliraðar aftan við kennitölu mælistaðarins sem mæliröð tilheyrir.
Viðbótarauðkennið er 3 stafa auðkenni sem segir til um eðli hennar, þ.e. flæðistefnu, aðgreinir raunafl og launafl og greinir á milli reikniverka í sama mæli.
Flæðistefna er miðuð við það fyrirtæki sem ber ábyrgð á mælingu í mælistað. Flæði frá Landsneti til dreifiveitu fær því mismunandi flæðistefnu eftir því hvort það er mælt í mælistað dreifiveitu eða Landsnets.
Nota skal eftirfarandi auðkenni á forminu 9mn þar sem m segir til um flæðistefnu og raunafl/launafl, sjá eftirfarandi töflu, en n greinir á milli mismunandi reikniverka (mæliraða) sama mælis, eða:
Dæmi:
901 = Raunafl út frá veitu sem ber ábyrgð á mælingu
911 = Raunafl inn til veitu sem ber ábyrgð á mælingu
921 = Launafl út frá veitu sem ber ábyrgð á mælingu
931 = Launafl inn til veitu sem ber ábyrgð á mælingu
Séu teknar fleiri en ein mæliröð sömu gerðar í sömu stefnu úr sama mælistað er síðasti stafur (n) notaður sem raðnúmer á bilinu 1 – 9 eða t.d.
901 = Raunafl út frá veitu, mælistaður dreifiveitu söfnun dreifiveitu
902 = Raunafl út frá veitu, mælistaður dreifiveitu söfnun Landsnets úr mæli dreifiveitu.
Þegar mæliröð með viðbótarauðkenni er send milli fyrirtækja skal útflutningsauðkenni hennar vera samsett bæði úr kennitölu mælistaðar og viðbótarauðkenni, sjá eftirfarandi dæmi um útflutningsauðkenni:
10300001901
sem er þá raunafl til notanda (901) tengdum kerfi RARIK með kennitölu mælistaðar úr kennitöluröð RARIK (10300001).
Eftirfarandi eru skýringarmyndir sem lýsa framangreindu á myndrænan hátt.
Tilvísun 9
Stöðukóði gilda í tímaröðum
Í samskiptum með mæligildi í tímaröð skal stimpla hvert gildi með stöðukóða (status code) eins og hér segir.
Tilvísun 10
Ediel auðkenni
Í samskiptum með Ediel skeyti og til að merkja ákveðnum aðilum ákveðnar keyrslur í kerfum er notað svokallað Ediel auðkenni. Landsnet úthlutar Ediel auðkennum og skráir í Aðilaskrá raforkumarkaðar.
Ediel auðkenni samanstendur af 5 tölustöfum, þar sem fyrstu tveir segja til um tegund aðila og næstu þrír er hlaupandi númer fyrir hvern aðila viðkomandi gerðar.
Tilvísun 11
Yfirlit yfir miðlun mæligagna
Helstu straumar mæligagna frá notkunarferilssvæðum til aðila á raforkumarkaði eru:
1) Dreifiveita sendir mæliraðir hvers notanda til sölufyrirtækis.
2) Dreifiveita sendir summuraðir hvers sölufyrirtækis til sölufyrirtækis og jöfnunarábyrgs.
3) Dreifiveita sendir Landsneti og jöfnunarábyrgum summuraðir hvers jöfnunarábyrgs.
4) Dreifiveita sendir Landsneti og jöfnunarábyrgum tímaröð fyrir ótímamælda notkun (Notkunarferil) hvers notkunarferilssvæðis.
5) Dreifiveita sendir sölufyrirtæki álestra allra álesinna mælistaða á notkunarferilssvæði.
6) Landsnet birtir notkunarferil og sendir jöfnunarábyrgum upplýsingar um hlutdeild þeirra í notkunarferlum.
Tilvísun 12
Miðlun hlutfallstalna, álestra og tímarað
Fyrir hvert notkunarferilssvæði skal dreifiveita koma viðeigandi mæligögnum til skila til Landsnets, jöfnunarábyrgs (JÁ) og sölufyrirtækis (SF).
Miðað er við að Landsnet geri samkomulag við jöfnunarábyrgðaraðila um að láta þeim í té þær hlutfallstölur sem notaðar eru í áætluðu og endanlegu uppgjöri notkunarferlanna.
Miðað er við að jöfnunarábyrgir láti sölufyrirtækjum í té þær hlutfallstölur sem notaðar eru í uppgjöri jöfnunarábyrgðarinnar.
1) Sending hlutfallstalna milli aðila
2) Miðlun mælaálestra milli aðila
3) Miðlun tímamælinga milli aðila
Tilvísun 13
Miðlun uppgjörsgagn notkunarferlauppgjörs
Við uppgjör notkunarferla leggur Landsnet ákveðin uppgjörsgögn til grundvallar. Þessi gögn gerir Landsnet aðgengileg fyrir jöfnunarábyrgðaraðila. Eftirfarandi mynd sýnir hver þessi gögn eru.
Tilvísun 14
Útreikningur hlutfallstalna
Hlutfallstölur eru reiknaðar fyrir hvern notkunarferil um sig fyrir einn í mánuð í senn.
Áætluð hlutfallstala er reiknuð fyrir næstkomandi mánuð en endanleg hlutfallstala fyrir 15. mánuð á undan þeim mánuði sem útreikningur fer fram í. Hlutfallstölur eru reiknaðar fyrir hvert sölufyrirtæki og hvern jöfnunarábyrgðaraðila. Áætluð hlutfallstala er reiknuð út frá áætlaðri ársnotkun dreifiveitu í hverjum mælistað sem ekki er tímamældur og áætlun dreifiveitu um árleg nettöp.
Endanleg hlutfallstala er reiknuð út frá álesinni orkunotkun sem lotudreift hefur verið aftur til síðasta álestrar samkvæmt notkunarferli. Lotudreifing felst í að skipta álesinni notkun upp í mánaðarnotkun í sömu hlutföllum og notkunarferill hefur skipst á sömu mánuðum miðað við heildarorku notkunarferils sömu mánaða.
a) Áætluð hlutfallstala
Við útreikning áætlaðrar hlutfallstölu er fyrst reiknaður hlutfallsstuðull þess mánaðar sem reikna á áætlaða hlutfallstölu fyrir. Hlutfallsstuðull lýsir hve stórt hlutfall af áætlaðri ársnotkun fellur innan ákveðins mánaðar miðað við notkunarferil síðustu 12 mánaða. Næst er reiknuð samanlögð áætluð ársnotkun söluaðila eða jöfnunarábyrgðaraðila sem reikna á hlutfallstölu fyrir sem summa áætlaðrar ársnotkunar allra álesinna mælistaða á ábyrgð viðkomandi. Að lokum er áætluð hlutfallstala söluaðila og jöfnunarábyrgs reiknuð sem margfeldi hlutfallsstuðuls og áætlaðrar ársnotkunar allra álesinna mælistaða viðkomandi aðila innan notkunarferilssvæðis.
b) Endanleg hlutfallstala
Eftir álestur í mælistað er reiknuð notkun hvers mánaðar í álestrarlotunni (lotudreifing álestrar). Við útreikninginn er notaður notkunarferillinn (NF) sem tilgreinir hve mikil orka fellur til í hverjum almanaksmánuði.
Áætluð (lotudreifð) mánaðarafhending er geymd fyrir hvern mælistað. Vegna álestra s.s. við söluaðilaskipti og flutninga verður álestrarlota viðkomandi mælistaða styttri en eitt ár. Þegar eitt ár er liðið eiga allir mælistaðir á notkunarferilssvæði að vera álesnir. Sú orka sem eftir stendur í notkunarferli þess mánaðar sem til uppgjörs er eiga einvörðungu að vera nettöp notkunarferilssvæðisins eða sá hluti notkunarferils sem dreifiveita ber ábyrgð á. Við útreikning endanlegrar hlutfallstölu er ómæld þekkt notkun sem ekki er gerð upp sem tímaröð meðhöndluð á sama hátt og álesnir mælistaðir.
Fyrir mælistaði í notkunarferlauppgjöri með tíðari álestra/mæligildi en einn mánuð, til dæmis tímaröð, sem gerð er upp í notkunarferil, á að reikna notkun í þeim almanaksmánuði sem til uppgjörs er.
Dreifiveita reiknar endanlega hlutfallstölu þannig:
a. Endanleg hlutfallstala notkunar jöfnunarábyrgðaraðila eða söluaðila er reiknuð sem samanlögð lotudreifð orka allra mælistaða viðkomandi aðila í afhendingarmánuðinum.
b. Endanleg hlutfallstala nettapa er reiknuð sem sú orka sem eftir er í notkunarferli þegar endanlegar hlutfallstölur notkunar hafa verið dregnar frá notkunarferli afhendingarmánaðar.
Tilvísun 15
Útreikningur hlutfallstalna í október 2009 – dæmi
a. Reiknar hlutfallsstuðul (HS)[1] fyrir sama mánuð ársins á undan (f. nóvember 2008). Hlutfallsstuðull segir til um hlutfall viðkomandi mánaðar í heildarorku notkunarferils fyrir heilt ár.
Reiknar áætlaða hlutfallstölu fyrir nóvember 2009 með margföldun hlutfallsstuðuls fyrir nóvember 2008 með samanlagðri áætlaðri ársnotkun álesinna mælistaða sölufyrirtækis fyrir nóvember 2009.
Lotudreifir álestrum þeirra mælistaða sem komið hafa inn frá síðustu lotudreifingu. Lotudreifing felst í að dreifa notkun í mælistað á þá mánuði sem liðið hafa frá síðasta álestri samkvæmt notkunarferli (NF).
Reiknar endanlega hlutfallstölu fyrir júlí 2008 sem samanlagða lotudreifða notkun álesinna mælistaða sölufyrirtækis skipt á jöfnunarábyrgðaraðila.
Les af mælum sem á eftir að lesa af vegna útreiknings endanlegra hlutfallstalna fyrir ágúst 2008.
Meðfylgjandi mynd sýnir samhengi framangreindra verkefna.
[1] Hlutfallsstuðull segir til um hve stórt hlutfall af áætlaðri ársnotkun fellur til í viðkomandi mánuði.
Tilvísun 16
Útreikningur hlutfallstalna - tímasetningar
Meðfylgjandi mynd sýnir tímasetningar fyrir skýrslugjöf dreifiveitu vegna útreiknings hlutfallstalna.
Tilvísun 17
Samhengi jöfnunarorku- og notkunarferlauppgjörs
Eftirfarandi myndir og skýringartextar þeim tengdum lýsa samhengi jöfnunarorku- og notkunarferlauppgjörs. Númer á myndum vísa til skýringatexta og myndin er lesin frá hægri til vinstri.
Jöfnunarorkuuppgjör:
- Landsnet reiknar jöfnunarorku hvers jöfnunarábyrgs sem mismun á innsendum áætlunum/orkusölusamningum jöfnunarábyrgra og summu afhentrar orku fyrir hverja klukkustund. Margfeldi jöfnunarorku og jöfnunarorkuverðs fyrir hvern jöfnunarábyrgan á hverri klukkustund myndar inneign eða greiðsluskyldu hjá jöfnunarábyrgum gagnvart jöfnunarorkupottinum. Mánaðarlega er mismunur inneignar og greiðsluskyldu jafnaður og reikningur sendur fyrir jöfnunarorkunotkun.
- Summa orkusölusamninga jöfnunarábyrgs er reiknuð út frá innsendum upplýsingum jöfnunarábyrgra til Landsnets um samninga þeirra vegna sölu, kaupa og eigin vinnslu á raforku.
- Afhent orka jöfnunarábyrgra er reiknuð sem summa tímaraða tímamældrar afhendingar annars vegar og áætlaðrar notkunarferilsafhendingar hins vegar.
- Landsnets reiknar tímaröð áætlaðrar notkunarferilsafhendingar jöfnunarábyrgs sem summu tímaraða áætlaðrar notkunarferilsafhendingar jöfnunarábyrgs á þeim notkunarferilssvæðum sem hann starfar á.
- Landsnet reiknar summu tímaraða á ábyrgð viðkomandi jöfnunarábyrgs á notkunarferilssvæðum og flutningskerfi Landsnets.
- Dreifiveita sendir Landsneti summu mæliraða notkunar og vinnslu sem gera skal upp fyrir hverja klukkustund á notkunarferilssvæði. Tímaraðir í summunni eiga uppruna sinn hjá Landsneti eða berast frá dreifiveitu.
- Ótímamæld notkun (notkunarferill) er mismunur heildarinnmötunar í notkunarferilssvæði og tímamældrar notkunar auk miðlunar til tengds notkunarferilssvæðis. Heildarinnmötun í notkunarferilssvæði samanstendur af innmötun úr kerfi Landsnets, vinnslu innan notkunarferilssvæðis og miðlunar til eða frá viðkomandi notkunarferilssvæði til annars notkunarferilssvæðis.
- Tímaraðir Landsnets vegna inn- og útmötunar í flutningskerfi eru notaðar hjá dreifiveitu til ákvörðunar ótímamældrar notkunar og jafnframt hjá Landsneti til útreiknings á notkunarferil og summu afhentrar orku í kerfi Landsnets.
- Landsnet sendir dreifiveitu tímaröð sem inniheldur mismun á heildarinnmötun Landsnets í notkunarferilssvæði og summu tímamældrar framleiðslu ásamt notkun á svæðinu og ótímamældri notkun.
- Notkunarferill er mismunur heildarorkuúttektar á notkunarferilssvæði á klukkustund annars vegar og tímamældrar notkunar einstakra notenda og ómældrar þekktrar notkunar hins vegar sem er hið sama og tímaröð ótímamældrar notkunar sem dreifiveita sendir Landsneti. Landsnet birtir notkunarferil hvers notkunarferilssvæðis á 5. virka degi eftir lok afhendingarmánaðar. Notkunarferill getur breyst í allt að 12 mánuði samhliða leiðréttingum á mæliröðum.
Uppgjör notkunarferla:
- Notkunarferlauppgjör er sú aðgerð þegar Landsnet reiknar uppgjörsorku notkunarferils fyrir jöfnunarábyrgðaraðila í 16. mánuði eftir afhendingarmánuð. Uppgjörsorkan, sem getur verið inneign eða greiðsluskylda, er innheimt á sama reikningi og jöfnunarorka síðasta afhendingarmánaðar. Uppgjörsorka notkunarferils er mismunur á endanlegri notkunarferilsafhendingu og áætlaðri notkunarferilsafhendingu hvers jöfnunarábyrgs. Landsnet sendir sérstak fylgiskjal með reikning um uppgjörsorku notkunarferla í hverjum mánuði. Verð uppgjörsorku notkunarferils er meðalverð jöfnunarorku afhendingarmánaðar.
- Landsnet reiknar áætlaða notkunarferilsafhendingu jöfnunarábyrgs sem mánaðarsummu tímaraða áætlaðra notkunarferilsafhendinga á öllum notkunarferilssvæðum sem jöfnunarábyrgur starfar á.
- Landsnet reiknar tímaröð áætlaðrar notkunarferilsafhendingar sem margfeldi hlutfalls jöfnunarábyrgs í hverjum notkunarferli og birts notkunarferils afhendingarmánaðar.
- Landsnet reiknar hlutfall jöfnunarábyrgs í hverjum notkunarferli (í %) sem summu áætlaðrar hlutfallstölu notkunar og nettapa sem deilt er með mánaðarsummu notkunar sama mánaðar síðasta árs.
- Fyrir hvert notkunarferilssvæði reiknar Landsnet summu áætlaðrar hlutfallstölu notkunar og nettapa fyrir hvert notkunarferilssvæði til útreiknings á hlutfalli jöfnunarábyrgs í hverjum notkunarferli.
- Dreifiveita sendir Landsneti áætluð nettöp fyrir hvert notkunarferilssvæði 15. hvers mánaðar fyrir næsta mánuð.
- Dreifiveita sendir Landsneti áætlaðar hlutfallstölur hvers jöfnunarábyrgs fyrir hvert notkunarferilssvæði 15. hvers mánaðar fyrir næstkomandi mánuð.
- Landsnet stemmir af upplýsingar sem berast frá dreifiveitu með því að reikna mismun á birtum notkunarferli og summu innsendra nettapa og hlutfallstalna allra jöfnunarábyrgra fyrir hvert notkunarferilssvæði.
- Landsnet reiknar endanlega notkunarferilsafhendingu jöfnunarábyrgs í endanlegu notkunarferlauppgjöri sem summu endanlegrar notkunarferilsafhendingar jöfnunarábyrgs allra notkunarferilssvæða sem hann starfar á.
- Landsnet reiknar endanlega notkunarferilsafhendingu á notkunarferilssvæði sem summu endanlegra hlutfallstalna notkunar og nettapa á einu notkunarferilssvæði.
- Dreifiveita sendir Landsneti endanlega hlutfallstölu nettapa í kWh síðasta virka dag mánaðar fyrir afhendingarmánuð 15 mánuðum fyrr.
- Dreifiveita sendir Landsneti endanlega hlutfallstölu notkunar í kWh síðasta virka dag mánaðar fyrir afhendingarmánuð 15 mánuðum fyrr.
- Landsnet sendir dreifiveitu mismun mánaðarsummu birts notkunarferils afhendingarmánaðar og summu endanlegra hlutfallstalna notkunar og nettapa