Þróunarverkefni

Nýr netmáli um kerfisframlag tók gildi þann 1.7.2018. Hann fjallar um kerfisframlag virkjana og stórnotenda sem tengjast flutningskerfi Landsnets. Hægt er að skoða hvernig þróun verkefnisins var háttað hér.

Fylgiskjöl

Skilmálar um kerfisframlag (D3)

_____________________

D3 Skilmálar um kerfisframlag

Útgáfa 1.0 gefin út 01.07.2018

1. Inngangur

1.1 Skilmálar þessir eru settir á grundvelli raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum og reglugerð nr. 1040/2005 um framkvæmd raforkulaga, með síðari breytingum.1.2 Skilmálar þessir fjalla um hvernig staðið skuli að útreikningi á kerfisframlagi vegna nýrrar tengingar eða styrkingar á flutningskerfi.
1.3 Almennir skilmálar um flutning rafmagns og kerfisstjórnun (A1) eiga jafnframt við um skilmála þessa, sem og aðrir skilmálar sem við á.
1.4 Skilmálar þessir hafa verið staðfestir af ráðherra sbr. 6 mgr. 9. gr raforkulaga.

2. Skilgreiningar

Eftirfarandi skilgreiningar gilda fyrir skilmála þessa:

2.1 Kerfisframlag er hlutdeild viðskiptavinar í fjárfestingu vegna nýrrar tengingar eða styrkingar á flutningskerfi.

2.2 Virkjun er mannvirki sem notað er til vinnslu raforku. Tvær eða fleiri einingar sem mynda eðlilega heild og tengjast flutningskerfinu eða dreifikerfi gegnum sameiginleg tengivirki teljast ein virkjun.

2.3 Flutningskerfi eru raflínur og mannvirki þeim tengd sem eru nauðsynleg til að flytja raforku frá virkjunum til stórnotanda. Skil milli virkjunar og flutningsfyrirtækis eru við innkomandi rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækisins. Vinnslufyrirtæki á því vélaspenni, eldingavarna og tengingu við tengivirki. Með sama hætti eru skil milli flutningsfyrirtækis annars vegar og stórnotenda hins vegar við útgangandi rofareit í tengivirki flutningsfyrirtækisins.

2.4 Sérleyfishluti fjárfestinga heyrir undir þær fjárfestingar sem teljast til flutningskerfis skv. gr. 2.3 og grundvallast af ákvörðun til tekjumarka skv. 12. gr. raforkulaga 65/2003 með síðari breytingum.

2.5 Stórnotandi er notandi eins og hann er skilgreindur í raforkulögum nr. 65/2003 með síðari breytingum.

2.6 Tekjumörk eru hámark leyfilegra árlegra tekna flutningsfyrirtækis og dreifiveitna til að mæta kostnaði.

2.7 Viðskiptavinur er sá sem hefur gert samning við Landsnet um afhendingu rafmagns.

2.8 Nýtt svæði er þar sem tenging viðskiptavinar er sú fyrsta á skilgreindu svæði fyrir fleiri en einn aðila, að uppfylltum skilyrðum gr. 5.1.2.

3. Almennt

3.1 Skilmálar þessir gilda fyrir virkjanir og stórnotendur vegna nýrrar tengingar eða styrkingar á flutningskerfi Landsnets.

3.2 Skilmálar þessir eru settir til að tryggja skýrar og gagnsæjar reglur og til að Landsnet mismuni ekki virkjunaraðilum eða stórnotendum.

3.3 Gjaldskrá Landsnets tekur ekki á kerfisframlagi vegna nýrra viðskiptavina.

3.4 Tenging nýrra viðskiptavina má ekki leiða til verulegra breytinga á kostnaði vegna raforkuflutnings hjá núverandi viðskiptavinum skv. 10. mgr. 12. gr. a. í raforkulögum 65/2003, sbr. 16. gr. a í reglugerð 1040/2005.

4. Kerfisframlag

4.1 Kerfisframlag er reiknað af Landsneti en útreikningar sendir Orkustofnun í tengslum við málsmeðferð skv. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 með síðari breytingum.

4.2 Þegar viðskiptavinur óskar eftir tengingu við flutningskerfið og grunn upplýsingar liggja fyrir fer Landsnet í hagræna frumgreiningu þar sem kerfisframlag er reiknað gróflega út með kostnaðartölum úr verðbanka Landsnets. Kerfisframlag er endurreiknað þegar formlegar samningaviðræður hefjast.

4.3 Miðað er við að afhenda viðskiptavini niðurstöður útreikninga á kerfisframlagi 3 mánuðum eftir að allar upplýsingar og forsendur hafa verið afhentar Landsneti.

4.4 Þegar samningur er kominn á gildir útreikningur kerfisframlags yfir samningstímann.

4.5 Þegar nýr búnaður er tengdur og spennusettur við meginflutningskerfið verður fjárfestingin hluti af eignastofni Landsnets skv. gildandi verklagi á hverjum tíma sem ákvarðar tekjumörk Landsnets.

4.6 Ákvörðun kerfisframlags hlýst af því hvort sjóðsstreymi, sem er ákveðið hlutfall framtíðartekna að frádregnum rekstrarkostnaði, sem Landsnet hefur af nýrri virkjun eða nýjum stórnotanda standi undir viðbótar fjárfestingarkostnaði á samnings- eða afskriftartíma fjárfestingar.

4.7 Aðferðafræði við ákvörðun kerfisframlags er núvirðing (NV) sjóðsstreymis og fjárfestingar yfir samnings- eða afskriftartíma fjárfestingar og framkvæmdatímabil hjá viðkomandi viðskiptavin fyrir tilheyrandi fjárfestingu.
Kerfisframlag = -NV(Fjárfesting) + NV(Sjóðsstreymi)
NV(Sjóðsstreymi) = NV(Tekjur·Hlutfall tekna (Ht) - rekstrarkostnaður)
Arðsemiskrafa Landsnets er veginn fjármagnskostnaður, WACC, eða það prósentuhlutfall sem er ákvarðað af Orkustofnun á grundvelli tillögu nefndar sérfræðinga sem nánar er kveðið á um í 12 gr. raforkulaga og reglugerð nr. 192/2016 um mat á vegnum fjármagnskostnaði sem viðmið um leyfða arðsemi við ákvörðun tekjumarka sérleyfisfyrirtækja í flutningi og dreifingu á raforku.
Forsendur til útreikninga á kerfisframlagi eru skv. köflum 4.8 – 4.12 í þessum netmála ásamt 16. gr. b. í reglugerð nr. 1040/2005.

4.8 Fjárfesting er allur sá tilkostnaður sem fellur til við að tengja nýja virkjun eða notanda við flutningskerfið og tilheyrir sérleyfishluta fjárfestinga í flutningskerfinu. Það er kostnaður á nýjum búnaði og framkvæmd við að tengja nýan aðila við kerfið svo Landsnet geti uppfyllt sínar skyldur varðandi afhendingaröryggi og gæðakröfur. Fjárfestingin miðast við tilgreinda spennu í tilheyrandi afhendingarstað Landsnets. Framkvæmdaáætlun verkefnis og tímalengd hefur áhrif á heildarkostnað fjárfestingarinnar við núvirðis- og arðsemisútreikninga.

4.9 Tekjur Landsnets eru reiknaðar skv. gildandi gjaldskrá Landsnets hverju sinni. Fyrir virkjanir er gert ráð fyrir að orkuflutningur skiptist milli almennra notenda og stórnotenda, því er reiknað skv. dreifiveitu- og stórnotenda gjaldskrá og er skipt eftir innkomuhlutfalli Landsnets hverju sinni, sjá viðauka 1. Fyrir stórnotendur er reiknað skv. stórnotendagjaldskrá.

4.10 Hlutfall tekna, til útreikninga á framtíðar sjóðsstreymi, ræðst af því hvort um virkjun eða stórnotanda er að ræða. Hlutfall tekna ræðst af hlutfalli fjárfestinga fyrir annað hvort virkjanir eða stórnotanda í eignastofni Landsnets til tekjumarka, sem ákvarðar hversu stórt hlutfall framtíðartekna frá nýjum viðskiptavin er metið upp í fjárfestinguna. Hlutföll tekna má sjá í viðauka 1.

4.11 Notast er við gengisútreikninga og árafjölda núvirðingar svo sem kveðið er á um í reglugerð 1040/2005, með síðari breytingum, sbr. 2. og 3. tölulið 16. gr. b.

4.12 Rekstrarkostnaður fjárfestingar er ákvarðaður af Orkustofnun og er sýndur í viðauka 1.

5. Kerfisframlag, heimild Landsnets á skilgreindum nýjum svæðum

5.1 Landsneti er heimilt að hækka hlutfall tekna (Ht) í samræmi við viðauka 1 að uppfylltum skilyrðum í liðum 5.1.1 – 5.1.3. Hærra hlutfall tekna er því notað til útreikninga á kerfisframlagi á skilgreindum nýjum svæðum. Það veitir Landsneti möguleika á að stuðla að uppbyggingu flutningskerfisins fyrir næstu viðskiptavini sem tengjast með því að koma til móts við háan stofnkostnað fyrsta aðila sem tengist á nýju svæði. Kerfisframlag er undanskilið nýju svæði meðan fyllt er upp í það afl sem skilgreint hefur verið fyrir nýja svæðið í samræmi við uppbyggingu og fjárfestingar.

    5.1.1 Viðskiptavinur óskar eftir tengingu. Tvenns konar greiningar eiga sér stað:
        a) Hagræn frumgreining. Kerfisframlag er reiknað skv. aðferðafræði 4. kafla þessa skilmála og skila niðurstöður því að kerfisframlag sé nauðsynlegt eða ekki. Ef niðurstaða bendir til að kerfisframlag sé nauðsynlegt, þá er gerð frekari greining sem lýst er í 5.1.1 b)
        b) Frekari hagræn greining með heimildum Landsnets um hærra hlutfall tekna (Ht). Kerfisframlag er reiknað skv. aðferðafræði 4. kafla þessa skilmála með hærra hlutfalli tekna, sbr. töflu 2 í viðauka 1. Ef greining skilar þeim niðurstöðum að ekki falli til kerfisframlag eru skipulagsforsendur og kröfur um nýtt svæði greindar.

    5.1.2 a) Tenging stórnotanda er sú fyrsta á umræddu nýju svæði og er það svæði skilgreint sem iðnaðarsvæði fyrir fleiri en einn aðila á Aðalskipulagi. Þá verður að liggja fyrir stefnumótun stjórnvalda í Byggðaáætlun um stuðning vegna viðkomandi iðnaðarsvæðis. Loks þurfa línuleiðir og aðrir innviðir að vera inni á gildandi svæðisskipulagi.
    b) Tenging vinnsluaðila er sú fyrsta á umræddu nýju svæði og er það svæði skilgreint sem virkjanaklasi fyrir fleiri en einn virkjunarkost í Rammaáætlun. Virkjunarkostur skal vera í nýtingar- eða biðflokki og skal vera tengiskyld flutningskerfinu skv. ákvæðum raforkulaga nr. 65/2003.
    5.1.3 Landsnet greinir hvort tengingin er fýsileg, rekstrarlega, tæknilega og fjárhagslega.
    Tekið er tillit til:
        a) framleiðslu og notkun á svæðinu,
        b) núverandi flutningsgetu og m.t.t. áætlaðrar framkvæmda á svæðinu,
        c) rekstrarreynslu af núverandi ástandi á svæðinu,
        d) að afhendingaröryggi til núverandi viðskiptavina skal ekki raskast,
        e) fjárfesting má ekki valda verulegum breytingum á kostnaði hjá núverandi viðskiptavinum sbr. grein 3.4 í þessum netmála.

5.1.4 Ferli fyrir aukna heimild á hlutfalli tekna vegna fjárfestinga á nýju svæði.
6. Uppgjör

6.1 Kerfisframlag skal reiknað og gert upp í samsvarandi mynt og eignastofn Landsnets hverju sinni.

6.2 Kerfisframlag skal greiðast fyrir gangsetningu og haga skal greiðslum í takt við framvindu framkvæmda.

7. Ábyrgð

7.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi ábyrgð skulu einnig gilda um kerfisframlag.

8. Óviðráðanleg atvik

8.1 Ákvæði almennra skilmála um flutning raforku og kerfisstjórnun (nr. A.1) varðandi óviðráðanleg öfl skulu einnig gilda um kerfisframlag.

9. Brot á skilmálum

9.1 Heimilt er að óska eftir því að Orkustofnun aðhafist á grundvelli VII. og VIII. kafla raforkulaga ef brotið er gegn skilmálum þessum.

10. Eftirlit og úrræði

10.1 Orkustofnun hefur eftirlit með því að fyrirtæki starfi samkvæmt raforkulögum og fullnægi þeim skilyrðum sem um starfsemina gilda samkvæmt lögum, reglugerðum og skilmálum þessum.

10.2 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnets skulu aðilar leitast við að leysa þann ágreining.

10.3 Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða túlkun ákvæða skilmála Landsnets skal í þeim tilvikum þar sem Orkustofnun hefur úrskurðarvald á grundvelli VII. kafla raforkulaga leita úrlausnar stofnunarinnar og úrskurðarnefndar raforkumála þar sem það á við. Úrskurði úrskurðarnefndar má vísa til dómstóla skv. 30 gr. VII. kafla raforkulaga.

10.4 Heyri úrlausn ágreinings ekki undir Orkustofnun má vísa málinu til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur.

11. Tilvísanir

11.1 Almennir skilmálar A.1 um flutning rafmagns og kerfisstjórnun.

11.2 Viðauki 1: Hlutfall af tekjum til útreikninga á framtíðar sjóðsstreymi og fleira

11.3 Viðauki 2: Sýnidæmi

Viðauki 1

Hlutfall af tekjum til útreikninga á framtíðar sjóðsstreymi og fleira

Tekjumörk Landsnets eru meðal annars grundvölluð á eignastofni fyrirtækisins sem er samþykktur af Orkustofnun. Eignastofninn skiptist í innmötunar-, megin- og úttektarkerfi flutningskerfisins, bæði fyrir stórnotendur og almenning.
Hlutfall af tekjum sem notað er til útreikninga á framtíðar tekjum Landsnets vegna nýs aðila er byggt á skiptingu eignastofns Landsnets sem er uppfærð á fimm ára fresti að kröfu Orkustofnunar. Hlutfall tekna í töflu 1 og 2 er uppfærð í samræmi.
Núverandi hlutfall sem er notað af tekjum nýs viðskiptavinar til útreikninga af framtíðar sjóðsstreymi til ákvörðunar á kerfisframlagi er í eftirfarandi töflu:

 

Fyrir nýtt svæði hefur Landsnet reiknað út svigrúm til að leggja fram auka fjármuni í tengingu fyrsta viðskiptavinar á nýju svæði án þess að valda verulegum breytingum á gjaldi núverandi viðskiptavina. Með því styrkir og/eða stækkar Landsnet flutningskerfið þar sem gert er ráð fyrir því að fleiri en einn viðskiptavinur nýti sér uppbygginguna á svæðinu í framtíðinni. Því er þess krafist að skilyrði skv. 5. kafla þessa skilmála sé uppfyllt.

Núverandi hlutfall sem notast af tekjum nýs viðskiptavinar til útreikninga af framtíðar sjóðsstreymi til ákvörðunar á kerfisframlagi fyrir nýtt svæði er í eftirfarandi töflu:

Rekstrarkostnaður fjárfestingar

 Rekstrarkostnaður af fjárfestingu Landsnets er ákvarðaður af Orkustofnun hverju sinni. Hlutfall rekstrarkostnaðar af fjárfestingu er 2,0%.

Hlutfallsskipting tekna fyrir virkjanir

 Fyrir virkjanir er gert ráð fyrir að tekjur komi frá dreifiveitum og stórnotendum. Skipting tekna skal samsvara hlutfallsskiptingu skv. nýjasta ársreikningi Landsnets hverju sinni. Horft er til orkuflutnings til dreifiveitna annars vegar og stórnotenda hins vegar. Ekki er horft til annarra tekjuliða.

Viðauki 2

Markmið sýnidæma er að fara í gegnum aðferðafræðina í 4. og 5. kafla netmálans og til að aðstoða við að stilla upp formúlum og reikna út kerfisframlag.

Forsendur sem gefnar eru upp í viðauka 2 sem tilheyra sýnidæmum, endurspegla á engan hátt raunverulegar forsendur sem eru í gildi hverju sinni. Því getur t.d. WACC og rekstrarkostnaður í sýnidæmum verið annað en það sem er í gildi hverju sinni.

Sýnidæmin endurspegla á engan hátt raunverulegan stórnotanda eða virkjunaraðila, eingöngu er um tilbúin dæmi að ræða.

Forsendur miðast við að útreikningar eru gerðir í mars 2017.
Í sýnidæmunum hér að neðan er notast við eftirfarandi forsendur. Aðrar forsendur til útreikninga á kerfisframlagi eru gefnar upp í hverju sýnidæmi fyrir sig.
Gjaldskrá Landsnets nr. 25 sem gildir frá 1. ágúst 2017.
Rekstrarkostnað 2%.
Hlutfallsskipting tekna fyrir virkjanir miðast við tekjur vegna orkuflutnings sem skilgreindar eru í ársreikningi Landsnets 2016. Það gefur eftirfarandi skiptingu: 33% skv. gjaldskrá dreifiveitna og 67% skv. gjaldskrá stórnotenda.
WACC fyrir stórnotendur 5,46% og fyrir dreifiveitur 5,92% eftir skatt.
6 mánaða meðaltalsmiðgengi Seðlabanka Íslands frá feb 2017 – júl 2017, USD 106,76
Uppgjör er gert upp í USD.


Sýnidæmi 1

Fyrirhugað er að tengja stórnotanda við flutningskerfið og athuga þarf hvort tengingin uppfylli skilyrði fyrir skilgreiningu á nýju svæði. Farið er í frumgreiningu skv. gr. 5.1.1 til að athuga hvort heimild er til að hefja vinnu við greiningu á skipulagsforsendum.

Eftirfarandi forsendur eru gefnar: Afl 20 MW, nýtingartími 8700 klst, fjárfesting 4 MUSD., Hlutfall tekna (Ht) 27%, samningstími 40 ár.

Hagræn frumgreining skv. gr. 5.1.1. a) er gerð :
Gert er ráð fyrir því að fjárfesting komi til á ári 0 og er því ekki þörf á núvirðingu.Kerfisframlag að upphæð 1,4 MUSD fellur á hlut stórnotandans þar sem sjóðsstreymi Landsnets af tengingu stórnotandans stendur ekki undir fjárfestingunni. Vikmörk á ytri skilyrði eru 1,5% sem gefur Ht=28,5%. Útreikningar á því gildi gefa einnig þá niðurstöðu að kerfisframlag fellur á hlut stórnotandans og því falla útreikningar ekki innan vikmarka. Ef ekki væri verið að horfa á nýtt svæði, þá væri þetta niðurstaða frumútreikninga á kerfisframlagi. Niðurstaða hagrænnar frumgreiningar er sú að kerfisframlag er nauðsynlegt. Farið er því í frekari hagræna frumgreiningu til að endurreikna arðsemi fjárfestingarinnar með fleiri en einum væntanlegum stórnotanda og hærra hlutfalli tekna (Ht).

Frekari hagræn frumgreining skv. gr. 5.1.1. er gerð:

Útreikningar að ofan eru endurreiknaðir með Ht = 40,5% sbr. töflu 2 í viðauka 1.
Kerfisframlag fellur ekki til þar sem endurreiknað sjóðsstreymi stendur undir fjárfestingunni.

Niðurstöður hagrænna greininga / útreikninga gefa því að þetta verkefni er talið nægilega arðbært til að Landsnet geti tryggt óbreytt gjald fyrir núverandi viðskiptavini. Því fellur þetta verkefni innan skilgreinds svigrúms sem Landsnet hefur til þátttöku á nýju svæði.

Verkefnið í sýnidæmi 1 uppfyllir skilyrði í gr. 5.1.1. a) og b) og er því heimild til að hefja vinnu við greiningu á skipulagsforsendum og athugun hvort verkefnið uppfylli tilskilin skilyrði skv. gr. 5.1.2. a).


Sýnidæmi 2

Fyrirhugað er að tengja virkjun við flutningskerfið og athuga þarf hvort tengingin uppfylli skilyrði fyrir skilgreiningu á nýju svæði. Farið er í frumgreiningu skv. gr. 5.1.1 til að athuga hvort heimild er til að hefja vinnu við greiningu á skipulagsforsendum .

Eftirfarandi forsendur eru gefnar: Afl 30 MW, nýtingartími 5300 klst, fjárfesting 4 MUSD., hlutfall tekna (Ht) 12%, afskriftartími 40 ár. Hlutfallsskipting tekna frá virkjun er skv. 33% gjaldskrá vegna dreifiveitna og 67% gjaldskrá vegna stórnotenda.

Hagræn frumgreining skv. gr. 5.1.1. a) er gerð :
Gert er ráð fyrir því að fjárfesting komi til á ári 0 og er því ekki þörf á núvirðingu.Kerfisframlag að upphæð 2,15 MUSD fellur á hlut virkjunaraðilans þar sem sjóðsstreymi Landsnets af tengingu virkjunarinnar stendur ekki undir fjárfestingunni. Vikmörk á ytri skilyrði eru 1,5% sem gefur Ht=13,5%. Útreikningar á því gildi gefa einnig þá niðurstöðu að kerfisframlag fellur á hlut stórnotandans og því falla útreikningar ekki innan vikmarka. Ef ekki væri verið að horfa á nýtt svæði, þá væri þetta niðurstaða frumútreikninga á kerfisframlagi. Niðurstaða hagrænnar frumgreiningar er sú að kerfisframlag er nauðsynlegt. Farið er í frekari hagræna frumgreiningu til að endurreikna arðsemi fjárfestingarinnar með fleiri en einni væntanlegri virkjun og hærra hlutfalli tekna (Ht).

Frekari hagræn frumgreining skv. gr. 5.1.1. er gerð:

Útreikningar að ofan eru endurreiknaðir með Ht = 18% sbr. töflu 2 í viðauka 1 og öðrum forsendum sem koma til með að breytast vegna skoðunar á nýju svæði.
Kerfisframlag fellur til þar sem endurreiknað sjóðsstreymi Landsnets af tengingu stendur ekki undir fjárfestingunni.

Niðurstöður hagrænna greininga / útreikninga gefa því að þetta verkefni er ekki talið nægilega arðbært til að Landsnet geti tryggt óbreytt gjald fyrir núverandi viðskiptavini. Því fellur þetta verkefni ekki innan skilgreinds svigrúms sem Landsnet hefur til þáttöku á nýju svæði.

Verkefnið í sýnidæmi 2 uppfyllir ekki skilyrði í gr. 5.1.1. a) og b) og er því ekki farið í frekari greiningar og athugun á því hvort verkefnið uppfylli tilskilin skilyrði skv. gr. 5.1.2. b).
11.5

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?