Þróun á heildsölumarkaði raforku á Íslandi

 

Á undanförnum árum hefur vinna átt sér stað hjá ýmsum aðilum sem varpa ljósi á þær áskoranir sem íslenski raforkumarkaðurinn stendur frammi fyrir og styðja þær, á einhvern hátt, við þá vegferð að auka virkni íslenska raforkumarkaðarins. Má þar nefna skýrslu MIT og IIT Comilla sem unnin var með Orkustofnun, Landsvirkjun og Landsneti, greiningu Copenhagen Economics fyrir Landsvirkjun ásamt skýrslu HHÍ sem unnin var fyrir starfshóp um orkuöryggi á heildsölumarkaði fyrir raforku sem skipaður var af atvinnuvegaráðherra.

Við teljum nauðsynlegt að halda áfram vinnu við athugun og þróun á heildsölumarkaði raforku á Íslandi og höfum við því farið af stað með verkefni því tengdu. Áhersla er lögð á gott samstarf með hagsmunaaðilum tengdum raforkuviðskiptum á Íslandi.

Markmiðið er að ná fram sjálfbæru og öruggu raforkuframboði með langtímahagsmuni neytenda í huga.

Mikilvægt er að þær tillögur sem horft verður til varðandi þróun á virkari markaðsvettvangi falli að núverandi og framtíðarþörfum íslensks raforkumarkaðs og að horft sé til þátta eins og gagnsæis í raforkuverði og verðmyndun, hagkvæmni markaðslausna, samkeppnisstöðu Íslands bæði innanlands og utan, loftslagsmála, nýtni auðlinda og innviða okkar ásamt orkuöryggis heimila og iðnaðar í landinu.

 

Við fengum til liðs við okkur ráðgjafa frá Copenhagen Economics (CE) á miðju ári 2018 til að svara því hvaða áskoranir íslenski raforkumarkaðurinn stendur frammi fyrir í dag og í nákominni framtíð og hvaða möguleikar standa til boða á markaðslausnum til að takast á við þessar áskoranir.

Helsta niðurstaða þeirrar vinnu var sú að núverandi raforkumarkaður hentar ekki vel fyrir þær áskoranir sem framundan eru. Óbreytt fyrirkomulag var ekki kynnt sem raunhæfur langtíma valmöguleiki til að taka á framtíðar áskorunum.

Í framhaldi af ofangreindri vinnu var áfram unnið með CE með áherslu á samtal við hagaðila til að ná yfir helstu áskoranir og væntingar þeirra til þróunar á virkari heildsölumarkaði á raforku á Íslandi. CE er að ljúka við að draga það saman í skýrslu sem og nánari tillögur að markaðslausnum og hvernig þær geta, á misjafnan hátt, tekið á þeim áskorunum sem staðið er frammi fyrir.

 

Haustið 2019 fengum við til liðs við okkur ráðgjafa frá ráðgjafafyrirtækinu Market Reform til að vinna að tillögu að "high-level" hönnun að heildsölumarkaði raforku á Íslandi ásamt áætlun að innleiðingu. Ráðgjafar Market Reform búa yfir umfangsmikilli reynslu og víðtækri þekkingu á hönnun, undirbúningi og innleiðingu raforkumarkaða um allan heim.

Líkleg áfangaskipti verkefnisins

Áfangi 0: Var unninn sumar og haust 2018 og er lokið

Áfangi 1: Var unninn haust 2018 fram á haust 2019 og er að ljúka

Áfangi 2: hófst haustið 2019

Áfangi 3: verður ákveðið síðar

 

Hafðu samband

Ef einhverjar spurningar vakna endilega hafið samband við Svandísi Hlín Karlsdóttur, forstöðumann viðskiptaþróunar, eða með því að senda á netfangið vidskipti@landsnet.is

Fannst þér efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Landsnets. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?