Hjá okkur er framtíðin ljós !

Við færum þér rafmagnaða framtíð

Rafvædd framtíð er kjarninn í framtíðarsýn okkar. Nútímasamfélög treysta á áreiðanlega raforku. Flutningskerfið er þannig lykilinnviður íslensks samfélags og þarf að vera bæði áreiðanlegt og traust. Á sama tíma þarf það að vera byggt upp með nútímalegum hætti og um það þarf að ríkja eins breið sátt og mögulegt er. Þær leiðir sem farnar verða þurfa að taka tillit til þarfa samfélagsins ásamt því að sýna ábyrgð í umgengni við náttúruna.

Við erum Landsnet

Við erum lykilinnviður þjóðarinnar og því fylgir mikil ábyrgð. Örugg afhending orku er mikilvægasta viðfangsefnið okkar en samhliða því þarf ákvarðanataka að vera gagnsæ og byggja á öflugri upplýsingagjöf, samtali og samvinnu.

Allar okkar áherslur miða að því að skapa samfélaginu, viðskiptavinum og eigendum okkar virði með tryggu afhendingaröryggi, hagkvæmum rekstri flutningskerfisins og hámörkun nýtingar á raforku. Til þess að styðja við það leggjum við megináherslu á þróun raforkumarkaðar, framsýna og skilvirka uppbyggingu raforkukerfisins og samfélagslega ábyrgð þar sem kolefnishlutleysi og lágmörkun umhverfisáhrifa er í fyrirrúmi. Við sýnum vilja í verki með því að þróa lausna- og árangursmiðaða menningu.

Við störfum í umhverfi þar sem kröfur eru sífellt að aukast og tæknin að breytast. Við þurfum að vera tilbúin til að mæta þeim tæknibreytingum sem eru framundan. Það gerum við m.a. með aukinni sjálfvirknivæðingu og stafrænum lausnum. Við treystum á grundvöll ákvarðana með sífellt betri innsýn og greiningargetu. Sveigjanleiki notkunar og nýsköpun á raforkumarkaði verða í lykilhlutverki til að gera okkur kleift að mæta áskorunum framtíðarinnar.

Eftirsóknarverður vinnustaður

Við erum framfaramiðað þekkingarfyrirtæki og leggjum áherslu á að þróa hæfileika og hæfni starfsfólks. Við stuðlum að því að allt starfsfólk eigi möguleika að þróast í starfi með nýjum áskorunum, aukinni ábyrgð og/eða krefjandi verkefnum. Við leggjum áherslu á að starfsfólk sýni frumkvæði og hafi metnað til að þróast í starfi og að það miðli og deili þekkingu og upplýsingum milli sín og til hagaðila. Við höfum gildin okkar, Ábyrgð, Samvinna og Virðing að  leiðarljósi við alla okkar vinnu og við beitum framsæknum lausnum og reynum stöðugt að bæta okkur.

Hjá okkur starfar úrvalshópur fólks, um það bil 150 manns, með fjölbreyttan bakgrunn og menntun sem vinnur að áhugaverðum verkefnum sem lúta að uppbyggingu, þróun og rekstri raforkukerfisins. Við bjóðum upp á faglegt umhverfi með stórum hópi sérfræðinga og fyrirmyndaraðstöðu. Við leggjum áherslu á þjálfun og þróun starfsfólks og teljum að samræming einkalífs og vinnu skipti miklu máli.

Er þín framtíð ljós?

Við erum að leita að klárum háskólanemum í ýmis sumarstörf sem tengjast m.a. fjármálum, kerfisstjórnun, upplýsingatækni og verkfræðitengdum verkefnum. Starfstímabil háskólanema er um 3 mánuðir eða samkvæmt frekara samkomulagi. Þetta er frábært tækifæri til að öðlast dýrmæta og einstaka starfsreynslu hjá góðu fyrirtæki.

Sótt er um sumarstarf hér.

Lokaverkefni
Háskólanemar sem vilja vinna lokaverkefni sín í samstarfi við Landsnet geta sent fyrirspurnir á mannaudur@landsnet.is eða sent inn umsókn hér

Sögur sumarstarfsfólks

Hér eru nokkrar skemmtilegar sögur af verkefnum sl. sumars:

Ottó, Leó  og Svala í miklu stuði í tengivirki
Vettvangsferð í tengivirki

Leó Steinn Larsen: Sumarstarfsmaður hjá Þórarni Bjarnasyni í Eignum og rekstrii

Helstu verkefnin sumarsins voru

  • Fyrstu drög af ársáætlun verkefna fyrir netþjónustu.
  • Viðtökuprófanir í Lækjartúni sem er áætlað að verða spennusett í næstu viku.
  • Stofna verkbeðnir og fleiri verkefni í Landsstjóranum.
  • Aðstoð við ýmiskonar aðkallandi verkefni.

Þetta sumar er búið að vera fróðlegt og lærdómsríkt, ég hef fengið ómetanlega reynslu og þekkingu um háspennu og rafmagn. Starfsfólk FR er frábært í alla staði og hefur verið ætíð tilbúið kenna og aðstoða. Reynslan sem ég hef fengið í þessu sumarstarfi mun nýtast mér vel á komandi skólaári og á vinnumarkaði í framtíðinni. Ég vil nota tækifærið til þess að þakka starfsfólki LN fyrir sumarið. Andrúmsloftið í gylfaflöt er frábært, stafsandinn er góður og maturinn æðislegur.

Takk fyrir mig!

Valgerður og Ottó:

Góðan daginn 😊
Við erum Valgerður og Ottó og við höfum verið sumarstarfsmenn í Stjórnstöðinni í sumar. Störfum okkar hér fer senn að ljúka og viljum við þakka fyrir góðar móttökur á þessum skemmtilega vinnustað.
Verkefnin uppi í Stjórnstöð hafa verið fjölbreytt og mörg haft eitthvað að gera með PowerFactory. Þar höfum við m.a. gert kerfisgreiningar á Landskerfinu, skoðað áhrif stýringa á flutningsmörk ýmissa sniða og lagt grunn að kröfulýsingum fyrir stýringar sem hafa það að markmiði að bæta flutningsmörk. Eftir því sem við lærðum meira á PowerFactory útbjuggum við notkunarleiðbeiningar fyrir aðra sem eru að stíga sín fyrstu skref við að nota forritið. Þar að auki lagfærðum við ýmsa þætti í grunnkerfinu, bættum við og uppfærðum upplýsingar um línur og smávirkjanir. Ýmis fleiri verkefni hafa ratað á okkar borð, eins og að aðstoða í truflanaskráningu, útbúa PowerBI skýrslur og gerast Instagram-stjörnur.
Við höfum því haft nóg að gera og erum reynslunni ríkari eftir þetta viðburðaríka sumar hér hjá Landsneti.

Takk fyrir okkur!

Valgerður og Ottó léku listir sínar inni í Stjórnstöð

Jóna og Davíð:

Góðan daginn!
Við heitum Jóna og Davíð og við höfum starfað á Upplýsingatæknideildinni í sumar. Við erum að klára síðustu vikuna okkar hjá LN (í bili) og viljum segja örlítið frá okkar störfum.
Okkar helsta verkefni var að þjónusta starfsmönnum Landsnets í hinum ýmsu tæknimálum. Verkefnin voru lítil sem stór, allt frá því að skipta um HDMI snúrur í að koma Geithálsi Suður í lag 2 mín fyrir fund. Starfið er mjög fjölbreytt og enginn dagur er eins!
Við lærðum helling af starfinu en hann Gummi G tók okkur sérstaklega á netnámskeið og fræddi okkur um netkerfi Landsnets. Einnig voru allir á UT deildinni alltaf til í að svara spurningum okkar um hin ýmsu tölvu- og kerfismál.

Takk fyrir okkur og þetta skemmtilega sumar!

Jóna Karen og Davíð í UT höfðu í nógu að snúast
Viðar og Kári í gagnateyminu

Viðar og Kári:
Sæl og blessuð,
Ég skrifa þetta innlegg fyrir hönd mína og Kára, þar sem við kynnum framlag okkar til Landsnets þetta sumarið en kveðjum í senn fyrirtækið og frábæra starfsfólk þess.
Þetta sumar höfum við Kári lagt hönd á plóg í Gagnateyminu, sem samanstendur af þeim indælu mönnum Brynjari og Samuel. Verkefni sumarsins voru margvísleg bæði í stærð og gerð. Kjötið á beinunum í vinnunni okkar þetta sumarið hefur verið að lagfæra ýmis konar tengingar, bæði í skýrslum og gagnavöruhúsi. Önnur spennandi verkefni sem við unnum að þetta sumarið voru m.a. að sækja ýmis gögn fyrir Landsnets bílaflotann með Python, og að uppfæra og sjálfvirknivæða Frammistöðuskýrsluna þannig að ekki þurfi að gera hana upp á nýtt ár hvert (Frammistöðuskýrslan mun innan tíðar vera aðgengileg á vef Landsnets).
Við teljum okkur mjög heppna að hafa unnið svo náið með þeim Brynjari og Sam, þar sem við lærum stöðugt eitthvað nýtt af þeim á hverjum degi. Við höfum fengið ómetanlega innsýn inn í meðhöndlun gagna og við höfum bætt miklu við þekkingu okkar á forritunartungumálunum SQL og Python þetta sumarið.
Við viljum þakka öllu starfsfólki Landsnets fyrir að taka hlýlega á móti okkur og að gera fyrirtækið að notalegum og skemmtilegum vinnustað.

Vettvangsferð í tengivirkin
Teddi bauð háskólanemunum okkar í smá vettvangsferð að skoða tengivirkin í Geithálsi, Kolviðarhóli, Hveragerði og Lækjartúni. Einstaklega vel heppnuð ferð þar sem Teddi fræddi okkur um tengivirkin og þróun þeirra. Magnað að sjá áhrif stafrænu tækninnar og hversu mikið henni hefur fleygt fram.

Dagurinn hófst með öryggisnámskeiði til að tryggja að engin slys yrðu í ferðinni, en það getur verið hættusamt að ferðast um á háspennusvæðum eins og tengivirkjum.

Byrjað var á að fara í Geitháls sem er útitengivirki og stærsta tengivirki Landsnets. Þaðan lá leiðin í Kolviðarhól þar sem við fengum að sjá glímu Landsnets við náttúruöflin og brennisteininn á svæðinu. Þegar stoppað var í Hveragerði til að fá okkur að borða, þá skoðuðum við lítið tengivirki þar í leiðinni. Að lokum fórum við í tengivirkið Lækjartún sem er stafrænt tengivirki útbúið nýjust tækni og þekkingu. Þar sást, með berum augum, jákvæð áhrifin stafrænna lausna. Bæði er tengivirkið minna sökum meiri afkastagetu en einnig öruggari fyrir fólk að vinna í þeim.

Einstaklega skemmtileg ferð.

Takk fyrir okkur!

Vettvangsferð þar sem þróun tengivirkja Landsnets var skoðuð

Taktu þátt í leiknum okkar hér og eigðu möguleika á að vinna gjafabréf frá Óskaskrín. Þrír heppnir aðilar verða dregnir út í næstu viku.