Samskiptin, samtalið og umræðan

Ársskýrsla

Við vorum í víðtæku samráði á árinu við hagaðila sem og samfélagið í heild sinni. Starfandi eru sex verkefnaráð í svæðisbundnum verkefnum, Kröflulínu 3, Hólasandslínu 3, Suðurnesjalínu 2, Blöndulínu 3, Lyklafellslínu 1 og vegna nýs tengipunkts í Ísafjarðardjúpi. Í verkefnaráðunum koma helstu hagsmunaaðilar fyrir utan landeigendur saman með reglulegu millibili. Vinnan í ráðunum hefur gengið vel, fundað er reglulega og almennt hefur verið góð stemning og andi á þessum vettvangi. Haldnir eru upplýsinga- og kynningarfundir með landeigendum vegna þeirra verkefna sem nefnd eru hér að ofan, bæði heima í héraði og á höfuðborgarsvæðinu. Fjölmargir samráðs- og upplýsingafundir voru haldnir með sveitarstjórnum víðs vegar um land, fagnefndum á þeirra vegum, auk funda með fjölda samtaka og hópum.

Hagsmunaráð Landsnets er á sínu þriðja starfsári en megintilgangur þess er að skapa vettvang umræðna milli hagaðila í samfélaginu um uppbyggingu raforkukerfisins. 

Miðlun upplýsinga vegna samráðs hefur verið með margvíslegum hætti. Við erum ötul á Facebook og Instagram og á vefsíðu Landsnets er upplýsingum miðlað í gegnum sérstök svæði hvers verkefnis sem og upplýsingum um starfsemi hagsmunaráðs.

Almennt hafa verkefni sem snúa að samráði gengið vel og því hefur verið fagnað að við höfum frumkvæði að því að skapa vettvang fyrir opnar hreinskiptnar umræður sem einkennast af víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja.

Samfélagsmiðlar skipuðu stærra hlutverk en áður hefur verið þegar kom að upplýsingagjöf út á við og við notuðum tækifærið til að efla miðlana okkar og fjölga notendum á Landsnetsappinu. Allir þessir miðlar skiptu sköpum í upplýsingagjöfinni í óveðrunum sem gengu yfir landið í byrjun árs.

Áfram var haldið með að skilgreina og bæta upplýsingagjöfina okkar, viðbrögð í neyðartilvikum og með hvað hætti við gætum komið fréttum af okkur á framfæri.

Fyrsti þátturinn í nýju hlaðvarpi Landsnets fór í loftið í lok árs 2019 og var haldið áfram að þróa og framleiða þætti, en á árinu voru gerðir 11 þættir sem allir fengu ágætishlustun. Hugmyndin með Landsnetshlaðvarpinu er að fjalla um allt á milli himins og jarðar sem viðkemur flutningskerfinu. Þetta verða rafmagnaðir þættir þar sem við munum einnig fjalla um þau mál sem eru í brennidepli í orkugeiranum hverju sinni. 

Landsnet var mjög mikið í fréttum á árinu og hefur jákvæðum fréttum af fyrirtækinu fjölgað mikið á milli ára og neikvæðum fréttum fækkað.

Leggjum línurnar fyrir framtíðina

Í desember buðum við til rafræns fundar um framtíð flutningskerfisins þar sem við lögðum línurnar fyrir framtíðina með fróðlegum erindum og umræðum sem fólk gat kynnt sér hvar og hvenær sem var. Við töluðum um veðrið og hvernig það hefur áhrif á orkuflutninga okkar Íslendinga og tókum umræðuna með þeim Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, Halldóri Þorgeirssyni, formanni Loftslagsráðs, og Sigrúnu Jakobsdóttur, stjórnarformanni Landsnets, um það hvernig læra má af reynslunni eftir slíkt ofsaveður og búa í haginn til framtíðar.

Við ræddum líka framkvæmdir og fórum yfir stöðuna með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Aldísi Hafsteinsdóttur, formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Guðmundi Inga Ásmundssyni, forstjóra Landsnets, um ólíkar áskoranir sem blasa við í starfsemi Landsnets eftir landshlutum. 

Fundinn er hægt að nálgast hér.