Tíðnistýring og spennugæði

Frammistöðuskýrsla

Tíðnistýring

Samkvæmt IV. kafla reglugerðar um gæði raforku og afhendingaröryggi gilda eftirfarandi gæðakröfur um frávik rekstrartíðni frá máltíðni (50 Hz) í raforkukerfinu:

Kerfistíðni skal vera 50 Hz. Við eðlileg rekstrarskilyrði á meðalgildi rekstrartíðni, mæld yfir 10 sekúndur, að vera innan eftirfarandi marka:

 • 50 Hz ± 1% (þ.e. 49,5–50,5 Hz) 99,5% tímans
 • 50 Hz + 4/-6% (þ.e. 47–52 Hz) 100% tímans

Við höfum sett okkur mánaðarleg innri markmið um meðalgildi rekstrartíðni, mælt yfir 10 sekúndur, en hún skal vera innan eftirfarandi marka:

 • 50 Hz ± 0,2 Hz % (þ.e. 49,8–50,2 Hz) 99,5% tímans

Tíðni- og spennugæði eru vöktuð allan ársins hring í orkustjórnkerfinu, þar sem tíðnigildi eru skráð sjálfvirkt á tveggja sekúndna fresti.

Tíðnigæði 2021

Niðurstöður mælinga úr stjórnstöð Landsnets hafa verið teknar saman og graf 20 sýnir dreifingu 10 sekúndna meðaltalsmæligilda fyrir árið 2021. Fjöldi mæligilda er 3.153.600, meðalgildi tíðni er 50,00059 Hz og staðalfrávik mæligilda er 0,0458. 

Graf 20:  Tíðnidreifing 2021. 

Í ár var meðalkerfistíðni innan 1% markanna 99,99% tímans og innan +4/-6% markanna 100% tímans. Gæðakröfur reglugerðarinnar um tíðnibreytingar voru því uppfylltar árið 2021 líkt og fyrri ár. Heildartími, þar sem tíðni fór út fyrir 1% mörkin, árið 2021 var eftirfarandi:

 • Yfir 50,5 Hz:  13,7 mín. (0,0026% af tímanum)
 • Undir 49,5 Hz: 6 mín. (0,0014% af tímanum)

Innri tíðnimarkmið stóðust árið 2021, þ.e. 10 sekúndna meðalmæligildi tíðni var milli 49,8 Hz og 50,2 Hz meira en 99,5% tímans alla mánuði ársins. Að meðaltali var tíðnin innan þessara marka 99,83% af tíma hvers mánaðar.

Spennugæði 

Samkvæmt IV. kafla reglugerðar um gæði raforku og afhendingaröryggi gilda eftirfarandi gæðakröfur um vikmörk afhendingarspennu:

Afhendingarspenna skal vera innan skilgreindra vikmarka en getur verið háð staðbundnum aðstæðum.

 • Vikmörk: +10/-10%
 • Meiri kröfur hafa verið gerðar til afhendingarspennu hjá stórnotendum og þar hafa vikmörk afhendingarspennu verið skilgreind +5%/-9%. Miðað er við þau mörk þegar 220 kV flutningskerfið er skoðað.

Samkvæmt reglugerð um gæði raforku og afhendingaröryggi nr. 1048/2004 eiga raforkufyrirtækin að mæla eiginleika spennu í samræmi við spennustaðalinn ÍST EN 50160.

Úrtaksmælingar í aðveitustöðvum

Okkur ber að taka úrtaksmælingar á a.m.k. sex afhendingarstöðum árlega. Á hverju ári eru teknar sérstakar úrtaksmælingar með nákvæmum gæðamælitækjum og eru staðirnir sem verða fyrir valinu valdir af handahófi. Eftirfarandi sex afhendingarstaðir voru mældir á þessu ári:

 • Hrútatunga 132 kV
 • Vatnshamrar 66 kV
 • Rimakot 66 kV
 • Hvolsvöllur 66 kV
 • Aðveitustöð 12 132 kV
 • Aðveitustöð 7 132 kV

Spennugæði voru uppfyllt á öllum stöðunum.