Góð þjónusta

Ársskýrsla

Viðskiptaumhverfið

Á árinu bættist við einn nýr raforkumiðlari, Straumlind, í viðskiptavinahópinn. Viðskiptavinir okkar eru samtals 23, þar af eru fimm dreifiveitur, tíu stórnotendur og átta raforkusalar. Af raforkusölum eru fimm raforkuframleiðendur og þrír raforkumiðlarar.

Tekin var ný nálgun með viðskiptavinum okkar á árinu 2021 þar sem áhersla var lögð á einstaklingsmiðaða þjónustu og samtal við hvern og einn viðskiptavin. Það var gert þar sem viðskiptavinahópur okkar er fjölbreyttari en áður og þarfir því mismunandi. Við leggjum einnig áherslu á upplýsingagjöf og gagnsæi í gegnum viðskiptaráð Landsnets. Miklu máli skiptir að við öðlumst skilning á þörfum okkar viðskiptavina og hagaðila og einnig að þeir skilji okkar umhverfi til að við getum náð sífellt betri árangri saman.

Fjölbreyttur iðnaður hefur verið að leita til okkar varðandi tengingu við flutningskerfið á undanförnum misserum. Þá er eingöngu verið að horfa til notenda sem uppfylla stórnotendaviðmið raforkulaga um raforkunotkun upp á 80 GWst á ári, sem er um 10 MW með fullum afköstum allan sólarhringinn.

Við höfum séð áform og áhuga í matvælaframleiðslu eins og þörungaræktun, líftækni og fiskeldi og í grænni sementsframleiðslu. Einnig sjáum við áform varðandi vetnisframleiðslu og ný gagnaver. Til viðbótar er vaxandi áhugi og áform hjá núverandi viðskiptavinum eins og gagnaverum og álverum. Stærð einstaka notenda er a bilinu 10–500 MW.

Áhugi er á að tengjast við flutningskerfið um allt land. Á Suðurlandi má sérstaklega nefna Þorlákshöfn og við nýtt tengivirki okkar í Lækjartúni. Einnig er áhugi á að tengjast á Reykjanesi, Grundartanga, Blönduósi, Akureyri, Húsavík og Reyðarfirði.

Um 80% allra fyrirspurna koma frá notendum og um 20% frá raforkuframleiðendum. Hjá raforkuframleiðendum er áhugi á og áform hjá núverandi framleiðendum um að stækka ásamt vindlundum og smávirkjunum að tengjast flutningskerfinu.

DreifiveiturFramleiðeindurStórnotendur
RARIKLandsvirkjunADC
HS VeiturONVerne 
NorðurorkaHS OrkaTDK Foil Iceland
VeiturOrkusalanISAL
Orkubú VestfjarðaFallorkaAlcoa
N1 rafmagnElkem
Orka HeimilannaNorðurál
StraumlindPCC
Etix
RDC

Þróun

Við vinnum að því að þróa viðskiptaumhverfið okkar með breytingu á netmála okkar, gjaldskrá og þróun á heildsölumarkaði raforku. Samráð er haft við viðskiptavini okkar í öllum verkefnum og væntanlega viðskiptavini eftir þörfum. Samráðið fer fram í gegnum viðskiptaráð Landsnets og sérstaka vinnuhópa. 

Haldnir voru fjórir fundir á árinu 2021 tengt þróunarverkefnum á viðskiptaumhverfinu okkar. Þrír fundir voru haldnir í viðskiptaráðinu þar sem farið var yfir kynningar á breytingum á einstaka skilmálum ásamt því að taka fund með hverjum viðskiptavin í lok árs til að ræða framtíðaráherslur tengt viðskiptaþróun aðila á raforkumarkaði. Kynningar voru á breytingum tengdum aukinni áherslu á neytendavernd og samkeppni, breytingu á innmötunargjaldi virkjana í flutningsgjaldskránni og breytingu vegna snjallmælavæðingar dreifiveitna hjá almenningi.

Snjallmælavæðing dreifiveitna hjá almenningi

Vinna er í gangi hjá dreifiveitum við að setja upp snjallmæla á heimilum. Allar veitur eru byrjaðar að undirbúa þessi skipti og gera áætlanir ráð fyrir að það klárist að skipta út öllum mælum á næstu árum. Snjallmælarnir hafa þau áhrif að mælingar frá þeim berast rafrænt og reglulega og ekki er því þörf fyrir að áætla notkun fram í tímann eins mikið og gert hefur verið og notendur fá nákvæmari mánaðarlega reikninga. Þessi breyting hefur áhrif á mæligögn, notkunarferla og notkunarferlauppgjör hjá Landsneti þar sem meiri og betri gögn berast á styttri tíma. Á sama tíma fór því af stað vinna í að samræma og uppfæra netmálann okkar. Markmið með endurskoðuninni á netmálanum er að auðvelda sendingu, úrvinnslu og meðhöndlun á gögnum og uppgjöri úr tímamældum almennum mælum. Netmálinn var sendur í umsagnarferli til viðskiptavina í desember 2021 og í framhaldi til Orkustofnunar í samþykktarferli. Áætlað er að ný útgáfa að netmálanum taki gildi þann 1. apríl 2022.

Skilyrði vinnslueininga til að tengjast flutningskerfinu

Vegna fjölda fyrirspurna um tengingar vindlunda við flutningskerfið og þeirra áskorana sem við stöndum frammi fyrir varðandi takmarkanir í flutningskerfinu höfum við verið að undirbúa nýjan skilmála. Skilmálinn skilgreinir þær forsendur sem þurfa að vera til staðar til að gerður verði tengisamningur við framleiðanda raforku. Einnig skilgreinir skilmálinn hvaða viðmið beri að leggja til grundvallar undantekningarákvæðum í raforkulögum sem fela í sér heimild til þess að synja nýjum aðilum um aðgang að flutningskerfi Landsnets. Drögin voru kynnt viðskiptavinum okkar og væntanlegum orkuframleiðendum sumarið 2020 og fóru í framhaldi í umsagnarferli. Við höfum svarað öllum athugasemdum og uppfært skilmálann eftir þörfum. Skilmálinn var sendur til samþykktar til Orkustofnunar í desember 2020. Beðið er samþykktar Orkustofnunar og mun skilmálinn taka gildi í beinu framhaldi

Tæknilegar kröfur um aflstuðul vindlunda

Eðli orkulunda (vindlunda) er annað en virkjana sem við þekkjum á Íslandi í dag og hafa flutningsfyrirtæki víða sett kröfur á tæknilega eiginleika þeirra. Þörf er á að skilgreina tæknilegar kröfur um aflstuðul orkulunda á Íslandi og var það gert með uppfærslu á skilmála um tæknilegar kröfur til vinnslueininga á árinu 2020. Markmiðið með uppfærslunni er að setja kröfur til orkulunda um aflstuðul til samræmis við kröfur annarra flutningsfyrirtækja og reglugerðar ESB. Skilmálinn var sendur í umsagnarferli til viðskiptavina okkar í október 2020 og sendur til samþykktar til Orkustofnunar í desember sama ár og áætluð gildistaka í framhaldi. Skilmálinn var dreginn til baka úr samþykkt hjá Orkustofnun vegna samræmingar á kröfum til vinnsluaðila með dreifiveitum. Dreifiveitur vinna nú að sameiginlegum skilmála og verða breytingar kynntar viðskiptavinum þegar drögin liggja fyrir hjá þeim

Aukin neytendavernd og samkeppni á raforkumarkaði

Auknar áherslur hafa verið á neytendavernd á raforkumarkaði og efla þær samkeppni á raforkumarkaði með hagsmuni neytenda að leiðarljósi. Í desember var gefin út ný reglugerð, nr. 1150/2019, um raforkuviðskipti og mælingar, en hún er endurspegluð í skilmála okkar um samskipti aðila á raforkumarkaði með gögn. Því var skilmálinn endurskoðaður, drög að nýrri útgáfu send í umsagnarferli til viðskiptavina í október og skilmálinn sendur til samþykktar til Orkustofnunar í desember. Ný útgáfa af skilmálanum öðlaðist gildi 8. apríl 2021.

Gjaldskrá

Í nóvember 2020 kynntum við viðskiptavinum áform okkar um breytingu á innmötunargjaldi. Breytingin felur í sér að færa hluta úttektargjalda yfir á innmötunargjöld ásamt því að setja á aflgjald sem innheimt verður í USD (75%) og íslenskum krónum (25%). Árlegt afhendingargjald verður fellt niður. Breytingin hefur ekki áhrif á heildartekjur okkar, eingöngu er um tilfærslu gjalda á milli notenda og virkjana að ræða. Úttektargjöld lækka því að sama skapi. Breyting á innmötunargjaldi var send í umsagnarferli til viðskiptavina í maí 2021. Öllum athugasemdum var svarað, breytingatillögur endurskoðaðar eftir þörfum og gögnin birt á heimasíðu okkar. Um haustið var breyting á flutningsgjaldskrá send til Orkustofnunar. Orkustofnun féllst á fyrirhugaðar breytingar í desember 2021 með þremur skilyrðum. Í fyrsta lagi að breyting á innmötunargjaldi tæki gildi 1. apríl 2022. Í öðru lagi að skilmáli D3 um kerfisframlag yrði aðlagaður í samræmi við breytingu á innmötunargjaldi. Í þriðja lagi að Landsnet innleiddi í gjaldskrá sína ákvæði sem tæki tillit til afhendingaröryggis við gjaldtöku við úttekt á einstaka afhendingarstöðum og hefði við það samráð við dreifiveitur. Breyting á innmötunargjaldi í flutningsgjaldskrá Landsnets mun öðlast gildi þann 1. apríl 2022.

Breytingar á flutningsgjaldskrá

Á árinu voru gerðar breytingar á flutningsgjaldskrá til dreifiveitna og stórnotenda. Gjaldskrá til stórnotenda var hækkuð þann 1. janúar um 5,5% en sú gjaldskrá hefur áður eingöngu lækkað frá árinu 2013. Við höfum frá því um vorið 2020 rætt um möguleika á því að fá meira svigrúm til innheimtu tekna með það að markmiði að auka stöðugleika þeirra og draga úr hækkunarþörf á gjaldskrám sem er annars m.a. tilkomin vegna mikilla framkvæmda í kerfinu, framkvæmda sem öllum er ljóst að eru mjög brýnar fyrir almenning og fyrirtæki í landinu. Því miður náðist ekki niðurstaða hjá stjórnvöldum í tæka tíð og því sá fyrirtækið ekki annan kost en að hækka gjaldskrá um áramótin. Gjaldskrá til dreifiveitna hækkaði þann 1. janúar um 9,9%.

 

Breytingar á gjaldskrá vegna flutningstapa

Okkur er skylt samkvæmt raforkulögum að kaupa þá raforku sem tapast í flutningskerfinu, flutningstöp. Flutningstöp vegna raforkuflutnings eru boðin út að meðaltali fjórum sinnum á ári. Gjaldskrá vegna flutningstapa endurspeglar kostnað hvers ársfjórðungs og breytist hún í takt við hvert útboð. Gjaldskrá vegna flutningstapa er eins fyrir dreifiveitur og stórnotendur og er hún birt í íslenskum krónum. Vegna áhrifa faraldurs á notkun rafmagns og mikils flutnings eftir byggðalínu gekk erfiðlega að spá fyrir um hversu mikla raforku Landsnet þyrfti að kaupa vegna flutningstapa. Það olli því að félagið bauð út orku aukalega við skipulögð ársfjórðungsleg útboð. Útboðin voru sjö árið 2021, fjögur hefðbundin ársfjórðungsleg útboð og þrjú viðbótarútboð, sem endurspeglaðist í þremur breytingum á gjaldskrá vegna flutningstapa.

 

Breytingar á gjaldskrá vegna kerfisþjónustu

Gjaldskrá vegna kerfisþjónustu hækkaði um 2,57% þann 1. janúar 2021 og var það til þess að mæta kaupum okkar á reglunaraflstryggingu fyrir árið 2021. Kerfisþjónusta er sú þjónusta sem við veitum til að viðhalda rekstraröryggi og jafnvægi í framboði og eftirspurn raforku á hverjum tíma. Undir kerfisþjónustu fellur reglunaraflstrygging sem tryggir lágmarksframboð á reglunaraflsmarkaði, útvegun reiðuafls ásamt varaafli sem er tengt kerfinu og tiltækt án fyrirvara.

Raforkumarkaðurinn

Eitt af markmiðum okkar er að koma á laggirnar raforkumarkaði til að ná fram sjálfbæru og öruggu raforkuframboði með langtímahagsmuni neytenda í huga. Unnið hefur verið með hagsmunaaðilum frá haustinu 2018 til að meta áskoranir og væntingar á þróun virkari heildsölumarkaðar raforku á Íslandi. Á árinu 2021 gengu til liðs við okkur ráðgjafar frá ráðgjafafyrirtækinu Nord Pool Consulting til að vinna að high-level hönnun á heildsölumarkaði raforku á Íslandi.

Upprunaábyrgðir raforku

Útgáfa upprunaábyrgða jókst á milli ára og hefur verið að aukast síðan 2017. Þó er nokkur stöðugleiki kominn í útgáfuna og ekki miklar sveiflur eru á milli ára. Seinustu fimm ár hafa verið gefin út skírteini fyrir nær alla framleiðslu vottaðra virkjana. Afskráning upprunaábyrgða vegna notkunar innanlands er líka komin í nokkurn stöðugleika eftir að hafa vaxið nokkuð frá 2016 og nú er svo komið að öll orka seld í heildsölu er vottuð.

Áhættustjórnun

Áhættustjórnun er hluti af stjórnkerfi okkar í þeim tilgangi að tryggja árangursríkan, ábyrgan og samfelldan rekstur. Áhersla er lögð á að tryggja sem best öryggi í rekstri, uppbyggingu og við kerfisstjórn á raforkuflutningskerfi landsins. Þá er áhersla lögð á að fjárhagsleg staða fyrirtækisins sé ávallt traust.

Stjórnendur og lykilstarfsmenn auðkenna áhættu fyrirtækisins, fjárhagslega og ófjárhagslega, og leggja mat á mikilvægi hennar. Í framhaldi af auðkenningu er áhætta flokkuð, metin og meðhöndluð. Yfirflokkar áhættu eru:

  • Rekstraráhætta
  • Stjórnunaráhætta
  • Fjárhagsáhætta
  • Vááhætta


Til staðar eru viðbragðs- og endurreisnaráætlanir allra sviða fyrirtækisins til þess að tryggja samfelldan rekstur. Í rekstri raforkukerfisins eru til staðar viðbragðsáætlanir vegna stærri atburða sem geta sett rekstur félagsins í hættu, s.s. vá vegna óveðurs, jarðskjálfta, eldgosa, heimsfaraldurs, netárása, truflana o.s.frv.

Framkvæmd áhættustjórnunar tekur mið af meginreglum og leiðbeiningum alþjóðlegra staðla. Áhersla er lögð á að áhættustjórnun sé hluti af menningu fyrirtækisins, að starfsmenn þekki fyrirkomulag áhættustjórnunar og vinni samkvæmt því.

Fjárstýring og fjármögnun

Hlutverk fjárstýringar er að tryggja að fyrirtækið hafi ávallt aðgengi að nægjanlegu lausu fé til þess að standa við skuldbindingar sínar. Eins er hlutverk fjárstýringar að lágmarka fjármagnskostnað og hámarka vaxtatekjur að teknu tilliti til áhættuvilja félagsins.

Á árinu var skrifað undir lánasamning við Norræna fjárfestingabankann að fjárhæð 50 milljónir USD. Bankinn gerir ríkar kröfur til þeirra verkefna sem hann fjármagnar. Tilgangur lánsins var fjármögnun framkvæmda við Kröflulínu 3 og Hólasandslínu 3, sem eru hluti af nýrri kynslóð byggðalínu. Verkefnin falla að öllu leyti undir viðmið Norræna fjárfestingabankans um mótvægisaðgerðir við loftslagsbreytingum. Við nutum einnig aðgengis að lánsfjármögnun hjá Landsbankanum. Bankinn hefur veitt Landsneti sjálfbærnimerki bankans vegna flutnings á rafmagni með lágu kolefnisspori. Starfsemi félagsins fellur undir viðmið Landsbankans um sjálfbæra innviði og stenst kröfur hans um umhverfisvæn verkefni.