Í kjölfar rafvæðingar fiskimjölsverksmiðja á Austurlandi jókst álag á flutningskerfið þar mikið og til að bregðast við því og auka flutningsgetu hafa línur og tengivirki í svæðisbundna flutningskerfinu á Austfjörðum, frá Hryggstekk um Stuðla í Reyðarfirði og að Eyvindará um Eskifjörð, verið spennuhækkuð úr 66 kV upp í 132 kV.
Fyrri áfangi þessa verkefnis var spennuhækkun Stuðlalínu 2, frá Hryggstekk í Skriðdal að Stuðlum í Reyðarfirði, ásamt því að bæta 132 kV spennustig við tengivirkið þar og var sá áfangi tekinn í notkun í ársbyrjun 2014. Þá var 66 kV strengendum skipt út fyrir 132 kV strengi í Stuðlalínu 2 og Eskifjarðarlínu 1 á árinu 2016.
Seinni áfangi verkefnisins var spennuhækkun frá Stuðlum að Eyvindará við Egilsstaði sem kallaði á byggingu nýs yfirbyggðs tengivirkis á Eskifirði með fjórum 132 kV reitum og tveim 50 MVA spennum, byggingu nýs yfirbyggðs tengivirkis á Eyvindará með þremur 132 kV reitum sem og breytingar á tengivirki á Stuðlum. Þá var Eskifjarðarlína 1 lögð í jarðstreng á tæplega 2 km löngum kafla við tengivirkið á Eyvindará. Framkvæmdum við seinni áfangann lauk sumarið 2021.