Leiðbeiningar um tengingu vinnsluaðila við flutningskerfið
Forathugun um tengimöguleika við flutningskerfið – fyrirspurn
Forathugun er fyrsta greining á tengimöguleikum vinnsluaðila við flutningskerfi raforku. Greiningunni er ætlað að gefa vinnsluaðilum hugmynd um umfang mögulegrar tengingar. Ekki er um bindandi niðurstöður að ræða og verði framhald á verkefninu er frekari greininga þörf á síðari stigum.
Hvort sem um er að ræða stækkun eða nýja vinnslu ber væntanlegum vinnsluaðila að láta Landsneti í té upplýsingar og gögn sem tilgreind eru í sniðmáti á heimasíðu Landsnets, til að mynda:
- Afl (MW) og Nýtingartími (klst/ári)
- Staðsetning virkjunar/safnpunkt.
- Einföld eða tvöföld tenging (krafa um afhendingaröryggi)
- Tegund orkuvinnslu
- Áætluð spennusetning (mánuður og ár)
- Uppkeyrsluáætlun
- Staða undirbúnings og leyfisveitinga
- Hvað er tilbúið t.d. mælingar og umhverfismat
- Hvað er í ferli - Annað sem viðskiptavinur vill koma á framfæri
Eftir að fyrirspurn er móttekin með öllum nauðsynlegum gögnum, á réttu formi, fer beiðnin til kerfisþróunar Landsnets sem greinir mögulegar tímalínur, núverandi flutningsgetu og metur möguleika til tengingar, nauðsynlegar styrkingar flutningskerfisins til að af tengingu geti orðið og tengikostnað. Greiningarnar miða við stöðuna á þeim tíma sem þær eru gerðar. Greiningar geta tekið allt að 8 vikur, eftir að fullnægjandi gögn berast.
Að greiningum loknum skilar Landsnet til umsækjanda m.a. upplýsingum um mögulega tengipunkta, afhendingarspennu, flutningsgetu og áætlaðar dagsetningar tengingar. Einnig er tengikostnaður og kerfisframlag áætlað.
Breytist forsendur eftir að kerfisþróun hefur skilað niðurstöðum skal upplýsa Landsnet um breytingarnar. Landsnet metur hvort þörf sé á nýrri fyrirspurn.
Telji framkvæmdaraðili verkefnið fýsilegt að fengnum niðurstöðum úr forathugun Landsnets og stefni hann á tengingu við flutningskerfið getur hann óskað eftir því að hefja formlegar samningaviðræður. Umsókn um formlegar samningaviðræður þarf að berast viðskiptastjóra Landsnets með skriflegum hætti og með vísan til niðurstöðu forathugunar. Ákvörðun um að hefja formlegar samningaviðræður liggur hjá Landsneti sem tekur ákvörðun út frá aðstæðum hverju sinni, einkum með vísan til þeirra lögbundnu skyldna sem á fyrirtækinu hvíla sem rekstraraðila flutningskerfisins.
Formlegar samningaviðræður
A. Samningur um tengigjald
Með samningi um tengigjald er átt við samning um greiðslu undirbúningskostnaðar og greiðsluábyrgð. Leiða má af ákvæðum raforkulaga að Landsneti beri að gæta jafnræðis í starfsemi sinni, þ.m.t. gagnvart viðskiptavinum sínum, sem felur m.a. í sér að fyrirtækinu ber að gera sambærilegar kröfur um ábyrgðir og tryggingar vegna undirbúnings nýrra tenginga og væntanlegra viðskiptavina. Almennt skulu ábyrgðir vera á formi bankaábyrgðar (sjálfskuldarábyrgð), útgefnar af viðurkenndum fjármálastofnunum sem Landsnet samþykkir og skulu gilda út þann tíma sem þörf er á. Ábyrgðir þarf að leggja fram samhliða undirritun aðila á samningi um tengigjald svo Landsnet geti skuldbundið sig fyrir umsömdum verkþáttum.
Formlegar samningaviðræður hefjast á því að Landsnet og væntanlegur vinnsluaðili setja niður tímalínu samningaviðræðna og gera með sér samning um að vinnsluaðili skuldbindi sig til að greiða Landsneti þann kostnað sem fyrirtækið verður fyrir vegna undirbúningsvinnu við fyrirhugaða tengingu. Undirbúningur felur m.a. í sér gerð áreiðanleikakönnunar, viðskipta- og kerfisgreiningar ásamt skjalagerð. Hægt er að gera viðauka við samning, um greiðslu undirbúningskostnaðar og greiðsluábyrgð, óski viðskiptavinur eftir því að LN annist um frekari verkþætti en þá sem upphaflega var samið um í tengslum við fyrirhugaða tengingu.
Í tilvikum þar sem ekki er gerður tengisamningur milli aðila mun viðskiptavinur ekki fá endurgreiddan þann hluta undirbúningskostnaðar sem þegar hefur verið greiddur til Landsnets á grundvelli samningsins og eftir atvikum viðaukum við hann.
Sniðmát að samningi um tengigjald er að finna á heimasíðu Landsnets.
Áreiðanleikakönnun
Þegar samið hefur verið um greiðslu undirbúningskostnaðar er framkvæmd áreiðanleikakönnun á vinnsluaðila. Væntanlegur vinnsluaðili ber ábyrgð á að afhenda öll umbeðin gögn fyrir áreiðanleikakönnun og ekki er haldið áfram með samningaviðræður fyrr en henni er lokið.
Viðskipta- og kerfisgreiningar
Viðskipta- og kerfisgreiningar eru unnar þegar áreiðanleikakönnun er lokið. Viðskipta- og kerfisgreiningar byggja á fyrirliggjandi gögnum sem afhent voru við forathugun og eftir atvikum uppfærðum upplýsingum. Umsækjandi ber ábyrgð á að skila inn umbeðnum upplýsingum um fyrirhugað verkefni ásamt því að upplýsa um breytingar sem kunna að verða.
Umsækjandi þarf að sýna fram á að verkefnið uppfylli tæknilegar kröfur sem gerðar eru til vinnsluaðila og er að finna í skilmála D1. Í því felst m.a. að vinnsluaðila ber að gera tæknilega greiningu (hermanir) á eiginleikum virkjunar og sýna fram á að hún uppfylli kröfur í skilmála D1. Áður en þessi greining fer fram skal vinnsluaðili leggja hermilíkanið af virkjuninni fyrir Landsnet til samþykktar. Landsnet veitir síðan nauðsynlegar upplýsingar svo hægt sé að ljúka við greiningu, t.d. upplýsingar um skammhlaupsafl og jafngildisimpedans í tengipunkti virkjunar við flutningskerfið. Að þessum greiningum loknum afhendir vinnsluaðili Landsneti líkanið af vinnslueiningunum svo Landsnet geti sett það inn í kerfislíkan sitt.
Í kjölfar þessara greininga, og að fengnum fullnægjandi gögnum frá vinnsluaðila, mun Landsnet afhenda vinnsluaðila eftirfarandi:
- Áætluð spennusetning (mánuður og ár)
- Aflgeta og uppkeyrsluáætlun
- Einföld eða tvöföld tenging (afhendingaröryggi)
- Áætlaður kostnaður sem lendir á viðskiptavini (m.a. kerfisframlag)
- Aðrar kröfur (t.d. um sveigjanleika)
Athygli er vakin á því að fyrirhugaðar framkvæmdir fara í kerfisáætlun Landsnets sem er háð samþykki Raforkueftirlits Orkustofnunar.
B. Tengisamningur
Vinna við tengisamning er samvinna Landsnets og umsækjanda. Í tengisamningi er m.a. fjallað um hlutverk og skyldur aðila, afhendingarstað, kostnaðarliði, niðurstöðu á útreikningi kerfisframlags, greiðslufyrirkomulag, sem og ábyrgðir. Hvorki undirbúningur né tenging nýrra viðskiptavina við flutningskerfið má leiða til verulegra breytinga á kostnaði vegna raforkuflutnings hjá núverandi viðskiptavinum m.a. samkvæmt 10. mgr. 12. gr. a. í raforkulögum, 65/2003, sbr. 16. gr. a í reglugerð 1040/2005. Almennt skulu ábyrgðir vera á formi bankaábyrgðar (sjálfskuldarábyrgð), útgefnar af viðurkenndum fjármálastofnunum sem Landsnet samþykkir og skulu gilda út þann tíma sem þörf er á m.t.t. fyrirliggjandi samninga. Ábyrgðir þarf að leggja fram samhliða undirritun aðila á samningi svo Landsnet geti skuldbundið sig fyrir umsömdum verkþáttum.
Netmáli Landsnets er órjúfanlegur hluti tengisamnings og er umsækjendum bent á að kynna sér hann.
Sniðmát að tengisamningi er að finna á heimasíðu Landsnets.
Hönnun og undirbúningur
Ekki er farið í hönnun og undirbúning fyrr en ábyrgð fyrir þeim kostnaðarliðum er tryggð af hendi vinnsluaðila í tengisamningi eða eftir atvikum ábyrgðarsamningi. Landsnet framkvæmir greiningu á mögulegum útfærslum tengingar, þ.e.a.s valkostagreiningu þar sem gerð og umfang mannvirkja og búnaðar, nákvæmar staðsetningar og tenging við flutningskerfi er ákvörðuð. Hagkvæmasti kostur tengingar er valinn, þar sem horft er til kostnaðar, öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og eftir atvikum fleiri þátta.
Verkefni þarf formlegt samþykki hjá Landsneti áður en lengra er haldið.
Útboð og framkvæmd
Ekki er farið í hönnun og framkvæmdir fyrr en ábyrgð fyrir þeim kostnaðarliðum er tryggð af hendi vinnsluaðila í tengisamningi eða eftir atvikum ábyrgðarsamningi. Hér er um að ræða öll útboð og framkvæmdir sem snúa að tengingu vinnslueininga.
Ekki er farið í útboð og famkvæmdir fyrr en formlegt samþykki hefur fengist hjá Landsneti.
Landsnet vinnur ávallt að því að halda þeim tímalínum sem fyrirtækið gefur út hverju sinni. Aðilar þurfa að hafa í huga að pöntunarstaða framleiðenda rafbúnaðar, verkefnastaða verktaka, leyfisveitingaferli framkvæmda og fleira getur haft mikil áhrif á tímalínur og þannig valdið seinkunum á verkefnum. Landsnet getur ekki verið skaðabótaskylt vegna þessa en leitast við að upplýsa viðskiptavini um mögulegar breytingar eftir því sem aðstæður leyfa.
Landsnet vekur sérstaka athygli á því að umsækjandi ber ábyrgð á að upplýsa Landsnet svo fljótt sem verða má um allar breytingar sem geta varðað framgang verkefnis og verkefnaþroska. Þetta á við á öllum stigum málsins, allt frá því að forathugun hefst og þar til ferli framkvæmda er lokið.
FLÝTILEIÐIR
FLÝTILEIÐIR