Um verkefnið
Framkvæmdin sem hér um ræðir felst í nýbyggingu 220 kV raflínu, Hólsandslínu 3 frá Akureyri að Hólasandi. Markmið framkvæmdarinnar er bætt orkunýting, aukin flutningsgeta og að tryggja stöðugleika raforkukerfisins á Norður- og Austurlandi. Framkvæmdin er einnig mikilvæg fyrir flutningskerfi landsins í heild þar sem um er að ræða mikilvægan hlekk í styrkingu tengsla milli sterkari hluta kerfisins á suðvesturhorninu og veikari hluta þess á Austurlandi.
Línuleiðin er innan fjögurra sveitarfélaga: Akureyrarkaupstaðar, Eyjafjarðarsveitar, Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps.
Hólasandslína 3 skiptist í 62 km loftlínuhluta og 10 km jarðstrengshluta. Auk línunnar eru byggð ný 220 kV tengivirki á Hólasandi og á Rangárvöllum við Akureyri.
Undirbúningur línunnar hefur staðið í um áratug, en mati á umhverfisáhrifum lauk árið 2019. Framkvæmdir hófust sumarið 2020 og gert er ráð fyrir að þeim ljúki á árinu 2022. Spennusetning línunnar er áætluð í ágúst 2022.
Í loftlínuhluta Hólasandslínu 3 verða 185 stálröramöstur, flest stöguð. Línuleiðin fylgir línuleið núverandi Byggðalínu að mestu, en frá Laxárdalsheiði að Hólasandi er línuleiðin ný. Línan verður strengd yfir Laxárdal í um 1 km löngu hafi til þess að lágmarka umhverfisáhrif. Laxárlína 1, sem er 66 kV loftlína frá Laxárvirkjun til Akureyrar, verður rifin sem mótvægisaðgerð vegna Hólasandslínu 3.
Fyrstu 10 km Hólasandslínu 3 frá Rangárvöllum á Akureyri verða lagðir með jarðstreng, en hann endar landi Kaupangs í Eyjafjarðarsveit. Lögð eru tvö sett 1600 mm2 strengja. Ný strengjabrú yfir Glerá er reist vegna strengjanna og nýtist hún sem reiðbrú.
Tengivirkin á Hólasandi og Rangárvöllum verða yfirbyggð tengivirki með gaseinangruðum rafbúnaði (GIS) og af nýrri kynslóð stafrænna tengivirkja.