Framkvæmd

Verkefnið felst í styrkingu flutningskerfis raforku á Reykjanesi með byggingu  Suðurnesjalínu 2 frá Hamranesi í Hafnarfirði að nýrri spennistöð á Njarðvíkurheiði ásamt byggingu Reykjaneslínu 1 frá Njarðvíkurheiði að Rauðamel til tengingar við Reykjanesvirkjun. Suðurnesjalína 1 verður lögð í streng frá Njarðvíkurheiði að Fitjum og núverandi loftlínur á sama kafla, Fitjalína 1 og Suðurnesjalína 1 nýttar sem tenging milli Njarðvíkurheiðar og Fitja. Við það fæst tvöföld tenging frá Reykjanesi og Svartsengi til Fitja.  Tengivirkið á Fitjum verður endurnýjað og stækkað.

Með tilkomu Suðurnesjalínu 2, Reykjaneslínu 1 og spennistöðvar á Njarðvíkurheiði verður flutningskerfið sveigjanlegra í rekstri og afhendingaröryggi á Suðurnesjum eykst til muna. Nægjanleg flutningsgeta verður til ráðstöfunar sem getur mætt stærri frávikum þegar stórar framleiðslueiningar eða stærri notendur aftengjast kerfinu skyndilega eða til lengri tíma t.d. vegna viðhalds.

Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 hófust í mars 2016 en voru stöðvaðar í maí 2016 í kjölfar þess að Hæstiréttur féllst ekki á eignanám vegna lagningu línunnar. Í framhaldi voru framkvæmdaleyfi felld úr gildi. Niðurstaðan var að fara í nýtt mat á umhverfisáhrifum sem var unnið árin 2018 og 2019. Í mati á umhverfisáhrifum var loftlína lögð sem aðalvalkostur með jarðstreng á 1,5 km kafla næst Hamranesi.

Skipulagsstofnun birti álit sitt um mat umhverfisáhrifum Suðurnesjalínu 2 þann 22. apríl 2020. Niðurstaða álitsins er skýr að jarðstrengskostur meðfram Reykjanesbraut, hafi minnstu umhverfisáhrifin í för með sér. Í niðurstöðu matsskýrslu Landsnets er munur á umhverfisáhrifum valkosta ekki mikill. Í áliti Skipulagsstofnunar kemur fram að dregið sé úr áhrifum þriggja umhverfisþátta með jarðstreng meðfram Reykjanesbraut. Að mati Landsnets breytir það ekki því að munur á heildaráhrifum valkosta er ekki mikill. Eftir yfirferð á áliti Skipulagsstofnunar og í ljósi nýlegra jarðhræringa á svæðinu telur Landsnet að forsendur, sem fyrirtækið lagði fram við ákvörðun um valkost framkvæmdar, séu óbreyttar. Rökstuðningur Landsnets stendur óbreyttur fyrir því að loftlína sé sá kostur sem falli best að meginþáttum sem þarf að líta til þegar tekin er ákvörðun um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

Framkvæmdin er á aðalskipulagi allra sveitarfélaga á leiðinni ásamt svæðisskipulagi og hafa þrjú af fjórum framkvæmdaleyfum verið gefin út. Ákveðið hefur verið að ráðast í þær framkvæmdir sem ekki er óvissa með í leyfismálum, þ.e. spennistöðin á  Njarðvíkurheiði, tengivirkið á Fitjum, tvöföldun tenginga milli Fitja og Rauðamels.

 

Samráðsferli

Það er mikilvægt að vinna að undirbúningi verkefnisins í sem bestu samráði og samvinnu við samfélagið í heild sinni. Í því markmiði höfum við sett af stað verkefnaráð, samráðsvettvang þar sem helstu hagsmunaðaðilar fyrir utan landeigendur koma saman með reglulegu millibili. Samráð við landeigendur verður með svipuðum hætti, í formi reglulegra kynninga- og samráðsfunda auk annara samskiptaleiða sem best henta hverju sinni. Auk þessa verða haldnir opnir kynningar- og upplýsingfundir fyrir íbúa og alla þá sem áhuga hafa á málinu. Markmiðið með stofnun þessar vettvanga er að tryggja virkara samtal, skilning og betra upplýsingaflæði milli hagsmunaaðila í aðdraganda ákvarðana um framkvæmdir á okkar vegum.

Við hvetjum alla aðila til að fylgjast með hér á heimasíðunni þar sem upplýsingar um framvindu verkefnsins verða settar inn sem og fundargerðir og annað sem viðkemur verkefninu. Hægt er senda inn fyrirspurnir og ábendingar undir „senda ábendingar“ og verður því svarað eins og fljótt og við verður komið. Eins er áhugavert að fylgjast með fésbókarsíðunni okkar en þar eru nýjustu fréttir er varða starfsemi fyrirtækisins uppfærðar daglega.

Suðurnesjalína 2

Tengiliðir

Elín Sigríður Óladóttir
Samráðsstjóri
563 9429
Pétur Örn Magnússon
Verkefnastjóri
892 8303
Daníel Sch. Hallgrímsson
Verkefnastjóri
563 9338
Bjarni Jónsson
Verkefnastjóri
563 9351