Framkvæmd

Hafnarfjörður - Suðurnes

Verkefnið felst í styrkingu flutningskerfis raforku á Reykjanesi með byggingu  Suðurnesjalínu 2 frá Hamranesi í Hafnarfirði að nýrri spennistöð á Njarðvíkurheiði ásamt byggingu Reykjaneslínu 1 frá Njarðvíkurheiði að Rauðamel til tengingar við Reykjanesvirkjun. Suðurnesjalína 1 verður lögð í streng frá Njarðvíkurheiði að Fitjum og núverandi loftlínur á sama kafla, Fitjalína 1 og Suðurnesjalína 1 nýttar sem tenging milli Njarðvíkurheiðar og Fitja. Við það fæst tvöföld tenging frá Reykjanesi og Svartsengi til Fitja.  Tengivirkið á Fitjum verður endurnýjað og stækkað.

Með tilkomu Suðurnesjalínu 2, Reykjaneslínu 1 og spennistöðvar á Njarðvíkurheiði verður flutningskerfið sveigjanlegra í rekstri og afhendingaröryggi á Suðurnesjum eykst til muna. Nægjanleg flutningsgeta verður til ráðstöfunar sem getur mætt stærri frávikum þegar stórar framleiðslueiningar eða stærri notendur aftengjast kerfinu skyndilega eða til lengri tíma t.d. vegna viðhalds.

Framkvæmdir við Suðurnesjalínu 2 hófust í mars 2016 en voru stöðvaðar í maí 2016 í kjölfar þess að Hæstiréttur féllst ekki á eignanám vegna lagningu línunnar. Í framhaldi voru framkvæmdaleyfi felld úr gildi. Niðurstaðan var að fara í nýtt mat á umhverfisáhrifum sem var unnið árin 2018 og 2019. Í mati á umhverfisáhrifum var loftlína lögð sem aðalvalkostur með jarðstreng á 1,5 km kafla næst Hamranesi.

Framkvæmdin er á aðalskipulagi allra sveitarfélaga á leiðinni ásamt svæðisskipulagi og hafa öll fjögur sveitarfélögin á línuleiðinni samþykkt framkvæmdaleyfi. Samningum við landeigendur er lokið að mestu, en ósamið er við hluta landeigenda á 4 jörðum. Framkvæmdir eru þegar hafnar á þeim verkþáttum þar sem ekki er óvissa í samningum við landeigendur, þ.e. spennistöðin á  Njarðvíkurheiði, tengivirkið á Fitjum, tvöföldun tenginga milli Fitja og Rauðamels (Reykjaneslína 1 og jarðstrengur mill Njarðvíkurheiðar og Fitja). 

Kort Hafnarfjörður - Suðurnes með skýringu

Kort Hafnarfjörður - Suðurnes

Suðurnesjalína 2

 

Tengiliðir

Elín Sigríður Óladóttir
Samráðsstjóri
696 9930
Pétur Örn Magnússon
Verkefnastjóri
892 8303
Daníel Sch. Hallgrímsson
Verkefnastjóri
563 9338
Bjarni Jónsson
Verkefnastjóri
563 9351