Landsnet og Reykjavík DC hafa skrifað undir flutningssamning vegna raforkuafhendingar fyrir gagnaver við Korputorg.
Svandís Hlín Karlsdóttir forstöðumaður viðskiptaþjónustu- og þróunar segir að Reykjavík DC sé fjórða gagnaverið sem Landsnet skrifar undir flutningssamning við .
"Það er ánægjulegt að taka þetta skref með Reykjavík DC en gagnaverið þeirra er fyrsta gagnaverið á höfuðborgarsvæðinu og um leið eru þau tíundi stórnotandinn sem tengist við kerfið hjá okkur. Framtíðin er spennandi og við bjóðum þau velkomin í hópinn og vonumst til að eiga gott áframhaldandi samstarf."
Reykjavík DC er hátæknigagnaver í eigu í eigu Opinna Kerfa, Sýnar, Reiknistofu Bankanna og Korputorgs.
„Samningur Reykjavík DC við Landsnet er lokahnykkurinn á þeirri vegferð að gagnaverið á Korputorgi geti tekið til starfa í næsta mánuði eins og stefnt hefur verið að,“ er haft eftir Sævari Þór Ólafssyni stjórnarmanni í Reykjavík DC.
Ljósmynd: Helga Melkorka Óttarsdóttir lögfræðingur, Svandís Hlín Karlsdóttir forstöðumaður viðskiptaþjónustu og þróunar hjá Landsneti, Guðmundur Ingi Ásmundsson forstjóri, Sævar Þór Ólafsson stjórnarmaður hjá Reykjavik DC, Einar S. Einarsson framkvæmdastjóri Stjórnunarsviðs og Bjarki Diego lögfræðingur.