Samtal og samráð í verkefnum skipta okkur miklu máli


04.10.2023

Framkvæmd

Mynd: Skessuhorn

Samtal og samráð í verkefnum skipta okkur miklu máli

Í gær áttum við fundi með verkefnaráði Holtavörðuheiðarlínu 1 og landeigendum á svæðinu, þar sem við ræddum m.a. um nýjan valkost sem bættist við til umhverfismats. Hallarmúlaleið er nýr valkostur, sem var bætt við eftir samtal og samráð við hagsmunaaðila á línuleiðinni, en áður höfðu ellefu valkostir verið kynntir. Við kynntum valkostinn fyrir landeigendum ásamt því að kynna lagalegan ramma og fyrirkomulag landeigendasamninga og eignarnámsbóta. Á báðum fundum var gott samtal eftir kynningar, sem er okkur mikils virði í ábendingum sem við getum tekið með okkur til að vinna úr.

Takk öll sem mættuð á fundina með okkur, takk fyrir spjallið, spurningarnar og ábendingarnar. Næsta skerf hjá okkur er að klára matið á umhverfisáhrifum og verður það kynnt fyrir hópunum í ársbyrjun 2024.

Hugsað til framtíðar

Raforkuspá Landsnets gerir ráð fyrir að raforkuþörf mun tvöfaldast til ársins 2050 og verða 42,4 terawattsstundir. Rúmlega 71% af aukningunni er vegna orkuskipta á landi, hafi og í flugi.

Holtavörðuheiðarlína 1 er framtíðarlína í þeirri merkingu að hún er byggð fyrir orkuskiptin og er henni ætlað að auka mæta aukningu í raforkuþörf vegna orkuskipta ásamt því að nýta fjárfestingar í orkukerfinu með því að hámarka nýtingu virkjana og vatnasvæða sem nú þegar eru til staðar.

Markmiðið með línunni er einnig að bæta afhendingaröryggi á byggðalínusvæðinu með styrkingu tenginga við afhendingarstaði á meginflutningskerfinu sem einnig eru tengipunktar við svæðisbundnu flutningskerfin. Við það eykst afhendingargeta á öllum afhendingarstöðum á landinu.

Hér er hægt að nálgast upplýsingar um verkefnið.

Aftur í allar fréttir