Varaaflsstöð Landsnets í Bolungarvík er nú óðum að taka á sig mynd. Díselvélarnar sex, sem þar verða til taks frá og með haustinu, komu til landsins í byrjun mánaðarins. Vinnu við að hífa þær á sinn stað í vélahúsinu er nú lokið og hægt að hefjast handa við uppsetningu þeirra og frágang.
Dísilvélarnar eru engin smásmíði, hver þeirra vegur um 17 tonn og hverri vél fylgir spennir sem vegur um fimm tonn, þannig að samtals vega þessar sex vélar og spennar ekki undir 132 tonnum! Hver vél getur framleitt 1,8 megavatt (MW) og verður samanlögð framleiðslugeta nýju varaaflsstöðvarinnar í Bolungarvík því tæplega 11 MW þegar hún verður komin í gagnið, en áætlað er að verði í lok október eða byrjun nóvember á þessu ári.Dísilvélarnar voru framleiddar hjá fyrirtækinu Attacus Power AB í Svíþjóð og bar það ábyrgð á innsetningu vélanna og spennana. Gengu framkvæmdirnar vel og hnökralaust. Heimamenn í Bolungarvík önnuðust hífingar og tilfærslur en Eimskip flutti vélarnar til landsins og keyrði þær á verkstað.
Framundan er uppsetning og allur frágangur á búnaði tengdum vélunum. Þá er að hefjast uppsetning á öllum rafbúnaði, bæði fyrir Landsnet og Orkubú Vestfjarða, en samhliða byggingu varaaflsstöðvarinnar er einnig verið að reisa á svæðinu nýtt tengivirki sem leysir af hólmi eldra virki í Bolungarvík og er á snjóflóðahættusvæði. Steypuvinnu við bygginguna sjálfa er að mestur lokið og framundan er frágangsvinna, bæði innan- og utanhúss sem á að vera lokið í september. Vinna við breytingar á Bolungarvíkurlínum 1 og 2, með lagningu 66 kV og 11 kV jarðstrengjum, lýkur í sumar.
Varaaflsstöðin á að tryggja orkuafhendingu á norðanverðum Vestfjörðum og er heildarkostnaður við verkið áætlaður um hálfur annar milljarður króna.
Myndatexti:
Góð mynd er komin á nýja varaaflsstöð Landsnets á Vestfjöðrum sem staðsett er sunnan þéttbýlisins í Bolunarvík. Dísilvélarnar sex, sem þar verða til taks frá og með haustinu, eru engin smásmíð en þær voru hífðar inn í húsið á dögunum.