Ársskýrsluvefurinn kominn í loftið


26.03.2020

Framkvæmd

Árið 2019 var fyrir margar sakir áhugavert ár, þetta var ár spennandi verkefna. Við lögðum áherslu á undirbúning og greiningar fyrir áskoranir framtíðarinnar.

Á næstu misserum munum við sjá miklar breytingar á raforkumarkaðinum og áfram munum við byggja upp nýja kynslóð raforkuflutningskerfis.

Í lok ársins gekk yfir landið óveður sem hafði víðtæk áhrif á rekstur flutningskerfisins með tilheyrandi straumleysi og viðgerðarkostnaði. Þó að langt sé síðan sambærilegt óveður gekk yfir landið reyndist viðbúnaður Landsnets vel og þjálfun starfsmanna fyrirtækisins góð. Við blasir að háspennulínur úr timbri og óyfirbyggð tengivirki þarf að endurnýja með öflugri mannvirkjum auk fjölgunar hringtenginga í kerfinu.

Þrátt fyrir áföll tengd óveðrinu gekk rekstur félagsins vel og fjárhagsleg staða þess var stöðug líkt og síðustu ár. Þetta er gríðarlega mikilvægt í ljósi þess að stærsta viðfangsefni okkar er orkuöryggi þjóðarinnar og viðskiptavina. Óveðrið minnti okkur svo um munaði á mikilvægi orkuöryggis á tímum þar sem allt þjóðfélagið er háð rafmagni í meira mæli en áður og krafan um öruggt rafmagn er meiri. Á þessu ári verður tekin ákvörðun um tekjuramma Landsnets til næstu fimm ára. Að okkar mati er afar mikilvægt að sú ákvörðun sé tekin af yfirvegun með hliðsjón af hlutverki fyrirtækisins.

Við höfum lengi talað fyrir mikilvægi þess að styrkja raforkuflutningskerfið eins og áherslur og umbætur í kerfisáætlun sýna. Flókið og óskilvirkt leyfisveitingaferli hefur hins vegar tafið framkvæmdir. Í því ljósi höfum við lagt áherslu á að einfalda leyfisveitingaferlið og auka skilvirkni þess. Að okkar mati er mögulegt að gera það án þess að slaka á kröfum til framkvæmdanna.

Landsnet vann að nýrri stefnu á árinu með yfirskriftinni spennandi framtíð, þar sem áhersla er lögð á að við séum snjöll, skilvirk, ábyrg og metnaðarfull. Rafvædd framtíð í takt við samfélagið er sem fyrr kjarninn í framtíðarsýninni okkar. Nútímasamfélög treysta í vaxandi mæli á áreiðanlega raforku. Flutningskerfi Landsnets er lykilinnviður íslensks samfélags og þarf að vera bæði áreiðanlegt og traust. Á sama tíma þarf flutningskerfið að vera byggt upp með nútímalegum hætti og um það þarf að ríkja breið sátt. Þær leiðir sem farnar verða þurfa í senn að taka tillit til þarfa samfélagsins á hverjum tíma ásamt því að sýna ábyrgð í umgengni við náttúru.

Framundan er eitt mesta framkvæmdaár í sögu Landsnets. Þessar framkvæmdir ásamt nútímalegri viðskiptaháttum með raforku munu skila auknu öryggi til framtíðar.

Guðmundir Ingi Ásmundsson
forstjóri Landsnets

Hér er hægt að komast á ársskýrsluvefinn þar sem hægt er að lesa allt um árið 2019.

Aftur í allar fréttir