Gætum við hugsað okkur lífið án rafmagns? Alls ekki, enda teljum við sjálfsagt í dag að hafa gott aðgengi að rafmagni hvar sem við erum stödd á landinu, hvort sem það er í atvinnurekstri eða til að hlaða síma, tölvur og bíla.
Orkunotkunin vex stöðugt en raforkuflutningskerfið okkar er komið að þolmörkum vegna takmarkana í flutningsgetu og veikra tenginga milli landsvæða.
Hér er hægt að nálgast frammistöðuskýrslu fyrir árið 2017
Markmið okkar hjá Landsneti er að tryggja 99,99 % afhendingaröryggi raforku, eins og væntingar eru um í nútímasamfélagi, og við erum stolt yfir að hafa staðist þetta markmið á síðasta rekstrarári, þótt naumlega væri.
Þetta tókst af því að við skerðum í síauknum mæli rafmagn til notenda sem eru á svokölluðum skerðanlegum flutningi, oft með sjálfvirkum hætti. Afhendingaröryggi þessara notenda fer því dvínandi en þetta eru að stærstum hluta iðnfyrirtæki á sviði matvælaframleiðslu, fiskvinnslu og ýmis konar þjónustu auk hitaveitna á köldum svæðum. Starfsemi þeirra leggst nánast niður þegar raforka er skert, framleiðsla stöðvast og jafnvel skemmist. Sum þessara fyrirtækja hafa aðgang að varaafli og nota þá óumhverfisvæna orkugjafa eins og olíu í umtalsverðu magni þar til raforkuflutningar komast í lag aftur.
5.600 hringferðir um landið á rafmagnsbíl og 2.000 ferðir í kringum jörðina
Fjöldi rekstrartruflana á síðasta ári var svipaður og árið á undan, alls 74 truflanir. Þar af leiddu 39 truflanir til rafmagnsleysis hjá notendum, sem er töluvert hærra hlutfall en gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Skerðing á orkuafhendingu til forgangsnotenda, vegna fyrirvaralausra rekstrartruflana í flutningskerfinu, nam samtals 1.495 megavattstundum (MWst) í fyrra. Sú orka hefði nægt til að keyra rafmagnsbíl 5.600 ferðir í kringum landið. Rafmagnsleysi hjá notendum á skerðanlegum flutningi var margfalt meiri eða samtals 16.281 MWst. Sú raforka myndi nægja til að keyra rafmagnsbíl 2.000 ferðir í kringum jörðina ef til staðar væri hringvegur um miðbaug. Varaaflsstöðvar sem Landsnet hefur aðgang að framleiddu samtals 312 MWst í truflunum árið 2017.
Nokkrar truflanir í fyrra voru á rauðu alvarleikastigi og höfðu mikil áhrif á notendur víða um land. Upp úr miðjum janúar urðu mikil frávik í spennugæðum, einkum á Norður- og Austurlandi og varð umtalsvert straumleysi víða á svæðinu. Margir muna eflaust líka eftir því þegar neyðarstöðvun hjá Norðuráli í maí hratt af stað keðjuverkandi atburðarrás sem endaði með algeru straumleysi frá Sigöldu austur í Fljótsdal og tilheyrandi skemmdum á búnaði hjá almenningi og fyrirtækjum. Bilun í Vestmannaeyjastreng í byrjun apríl hafði umtalsverð áhrif á afhendingu í Vestmannaeyjum. Viðgerð á sjó var flókin og tók rúma 2 mánuði þar til hann kom í rekstur á ný.
Kostnaður við straumleysi hleypur á milljörðum árlega
Í samanburði við flutningsfyrirtæki í Evrópu, einkum þó á Norðurlöndunum, kemur í ljós að búnaður okkar stenst vel samanburð hvað varðar bilanatíðni. Hins vegar valda hlutfallslega fleiri bilanir í íslenska flutningskerfinu meiri skerðingum og straumleysi hjá notendum en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Við erum því að dragast aftur úr í samanburði við önnur Norðurlönd hvað afhendingaröryggið varðar því vegna færri og veikari tenginga stendur flutningskerfið hér á landi verr af sér truflanir.
Áætlaður þjóðhagslegur kostnaður af straumleysi og skerðingum vegna truflana í flutningskerfinu var yfir 14 milljarðar króna árið 2017, sem er óvenjuhátt, en meðaltal síðustu 5 ára er rétt undir 5 milljörðum króna, samkvæmt tölum Starfshóps um rekstrartruflanir, sem samanstendur af fulltrúum rafveitufyrirtækja í landinu og Orkustofnun.
Verðum að styrkja byggðalínuna til að tryggja samkeppnishæfni
Í Frammistöðuskýrslu Landsnets, sem nú er komin út á vef okkar, eru nú í fyrsta sinn birtar niðurstöður greiningar þar sem áhrif veikrar byggðalínu og takmarkana í flutningsgetu milli landshluta eru skoðuð m.t.t. afhendingaröryggis. Það vekur athygli að bilanir sem orsakast af veikri byggðalínu valda nærri þriðjungi af öllu straumleysi ársins. Ef litið er til síðustu 10 ára er niðurstaðan sú sama, bilanir sem orsakast af veikri byggðalínu leiða til mun meira straumleysis en aðrar bilanir í kerfinu. Það er því til mikils að vinna ef hægt er að styrkja tengingar milli landshluta og draga þannig úr rafmagnsleysi og truflunum.
Verkefni á Vestfjörðum skila árangri
Nú hefur varaaflsstöðin í Bolungavík og snjallnetið á Vestfjörðum verið í rekstri þrjú heil rekstrarár og ágæt reynsla komin á kerfið. Árangurinn af þeim verkefnum hefur ekki látið á sér standa og er komin til að vera. Straumleysi á Vestfjörðum í fyrra var bara einn tíundi hluti af meðaltalsstraumleysi sl. 5 ára og er nú í takt við straumleysi í flestum öðrum landshlutum. Skerðingartilfelli eru þó tíðari í þessum landshluta samanborið við aðra en snjallnet og sjálfvirkni hefur skilað sér í margfalt styttra og minna straumleysi í hvert skipti.
Framtíðin er rafmögnuð
Raforkunotkun á Íslandi fer sívaxandi. Á tímum stafrænnar byltingar og orkuskipta í samgöngum og iðnaði mun rafmagnið spila enn mikilvægara hlutverk í framtíðinni og því er nauðsynlegt að huga vel að bæði afhendingaröryggi raforku og samkeppni á markaði.
Markmið Landsnets er að starfa í sátt við þjóðfélagið og standa við loforðið um öruggt rafmagn og jafnan aðgang allra landsmanna að raforku. Frammistöðuskýrslan okkar fjallar einmitt um þetta loforð. Þar er að finna upplýsingar og mælikvarða sem notaðir eru til að meta hvernig okkur tekst að efna þetta loforð til samfélagsins og farið yfir nýliðið rekstrarár, m.t.t. afhendingaröryggis og rafmagnsgæða. Við hvetjum sem flesta til þess að kynna sér skýrsluna og þau verkefni sem við vinnum að til að tryggja afhendingaröryggi raforku í dag - og til framtíðar.
Höfundur:
Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs Landsnets