Kerfisáætlun 2025 – 2034 er nú komin til Raforkueftirlitsins til yfirferðar og samþykktar. Það alltaf stór áfangi en fram undan eru spennandi og krefjandi tímar þegar kemur að uppbyggingu flutningskerfisins.
„Mikilvægasta markmið þessarar Kerfisáætlunar er að klára sterkari tengingu milli landshluta og tryggja að flutningskerfið standi undir þeim kröfum sem framtíðin ber með sér. Við hjá Landsneti munum áfram forgangsraða með ábyrgð, leita hagkvæmustu lausna og lengja líftíma kerfisins þar sem það er unnt – með það að markmiði að tryggja öruggan, áreiðanlegan og sjálfbæran burðarás samfélagsins um land allt,“ segir Ragna Árnadóttir, forstjóri Landsnets.
Raforkueftirlitið mun nú fara yfir áætlunina. Viðskiptavinum og væntanlegum viðskiptavinum okkar mun gefast færi á að senda inn skriflegar athugasemdir. Við munum síðan svara spurningum og athugasemdum og gera eftir atvikum breytingar á þeim skjölum sem nú hafa verið send inn. Að lokum samþykkir Raforkueftirlitið Kerfisáætlun eða synjar henni, í síðasta lagi 15. desember.
Drög að Kerfisáætlun og mati á umhverfisáhrifum voru kynnt á skipulagsgátt Skipulagsstofnunar frá 9. apríl til 31. maí 2025. Á kynningartímanum héldum við sjö opna fundi víðs vegar um landið, kynntum áætlunina þeim sveitarstjórnum sem um það báðu, auglýstum í fjölmiðlum og skrifuðum öllum helstu hagaðilum um kynninguna. 45 umsagnir bárust, fleiri en nokkru sinni áður.
Hægt að nálgast allar upplýsingar um áætlunina á vefsvæði Kerfisáætlunar.