Skipulagsstofnun hefur skilað áliti sínu á umhverfismati Holtavörðuheiðarlínu 3, sem er ný loftlína á milli nýs tengivirkis Landsnets á Holtavörðuheiði og Blönduvirkjunar. Í matinu voru bornar saman nokkrar mögulegar línuleiðir, þar sem tvær eru taldar líklegastar – annars vegar leið í byggð og hins vegar yfir heiðar. Leiðirnar eru ólíkar, þær hafa mismunandi umhverfisáhrif og þar af leiðandi eru ólík sjónarmið umsagnaraðila og þeirra sem hafa tekið þátt í samráði.
> Álitið er aðgengilegt á Skipulagsgáttinni <
Álit Skipulagsstofnunar er ekki lokaákvörðun, heldur mikilvægt innlegg í áframhaldandi vinnu Landsnets við að velja endanlega línuleið. Við ákvörðun verður tekið mið af umhverfissjónarmiðum, samfélagsþáttum, raforkulögum og stefnu stjórnvalda.
Landsnet mun á næstu vikum vinna áfram með öll fyrirliggjandi gögn, álit og umsagnir – og taka ákvörðun byggða á þeim. Gert er ráð fyrir að ákvörðun liggi fyrir í haust.
Þegar ákvörðunin liggur fyrir mun í framhaldinu verða skýrara hvaða efnistökusvæði mun þurfa að nýta og þá verður ráðist í frekari skoðun þeirra og þau hljóta viðeigandi málsmeðferð m.t.t. skipulags og leyfisveitinga. Þá hefur Landsnet verið meðvitað um að frekar þurfi að vinna áhrifamat m.t.t. vatnshlota áður en sótt verður um leyfi til framkvæmda, en leiðbeiningar um gerð slíks mats lágu ekki fyrir þegar umhverfismatið var í vinnslu.
Við hvetjum öll sem hafa áhuga til að fylgjast með framhaldinu á vefsíðu verkefnisins map.is/hh3 og heimasíðu Landsnets.