Viðgerðum er lokið, en unnið er að úrvinnslu upplýsinga um óveðrið og þá áraun sem flutningskerfið varð fyrir á svæðinu. Upplýsingarnar verða nýttar til að kanna með úrbætur, sem gætu leitt til aukinnar afhendingar raforku.

 

MYND

 

Geiradalslína 1 (GE1) frá Glerárskógum til Geiradals
Tvær stæður brotnuðu innst í Sælingsdal. Unnið var við nokkuð erfiðar aðstæður yfir áramót. Viðgerð lauk að kvöldi nýársdags 1. janúar 2013.

Mjólkárlína 1 (MJ1) frá Geiradal til Mjólkár
Við skoðun á línunni þann 30. desember 2012 kom í ljós að leiðarar milli stæðu 29 og 30 hjá bænum Kambi við Króksfjörð lágu á kafi í snjó vegna mikillar ísingar. Einnig var mikil ísing á aðliggjandi staurabilum. Strax var hafist handa við að brjóta ís af línunni og lauk viðgerð að kvöldi 30. desember 2012. Síðar kom í ljós, að einn staur í stæðu nr. 29 var brotinn og var gert við hann 3. janúar 2013.

Breiðadalslína 1 (BD1) frá Mjólká til Breiðadals
Vegna veðurfars og snjóflóðahættu var ekki hægt að hefja skoðun á línunni fyrr en á gamlársdag. Í ljós kom að bugtarupphengja hafði losnað í fastmastri á Flatsfjalli. Starfsmenn OV fóru til viðgerða daginn eftir og lauk verkinu seinnipart nýársdags.

Ólafsvíkurlína 1 (OL1) frá Vegamótum til Ólafsvíkur
Miklar skemmdir urðu á línunni í óveðrinu. Alls brotnuðu 42 staurar og 53 þverslár skemmdust. Mestar voru skemmdirnar í Bláfeldarhrauni, sem liggur milli bæjanna Lýsuhóls og Kálfárvalla og við fjallið Miðhyrnu. Strax var hafist handa við að flytja mannskap og varaefni á staðinn og hófust viðgerðir þann 30. desember 2012. Unnið var að viðgerðum linnulaust fram til 5. janúar 2013 og var línan tekin í rekstur um kl. 21:00 þann dag. Á sunnudeginum var síðan unnið að flutningum á mannskap og búnaði af vettvangi.

Tálknafjarðarlína 1 (TA1) frá Mjólká til Keldeyrar
Um kl. 18:00 þann 29. desember 2012 var TA1 tekin úr rekstri vegna bilunar. Vegna veðurs var erfitt að bilanagreina og staðsetja bilun. Vísbendingar voru um að bilunin væri nálægt Mjólkárstöð en menn komust ekki með línunni fyrr en 1. janúar 2013. Við skoðun á línunni kom í ljós slitinn leiðari. Viðgerð lauk sama dag eða þann 1. janúar 2013.
Truflun varð síðan aftur á linunni þann 2. janúar 2013 vegna ísingar, en engar skemmdir.

MYND

Til viðbótar má geta þess, að truflun varð einnig á flutningi raforku á Norðurlandi í sama óveðri, þegar bilun varð í Laxárlínu 1.

Laxárlína 1 (LA1) frá Rangárvöllum til Laxár
Við skoðun á línunni eftir óveðrið þann 29. desember 2012 kom í ljós slitinn leiðari á tveimur stöðum. Strax var hafist handa við lagfæringar og lauk verkinu þann 29. desember 2012. Línan var tekin í rekstur um kl. 17:00 þann dag. Línan bilaði aftur um kvöldið og var gert við hana snemma daginn eftir. Viðgerð var lokið kl. 17:00 þann 30. desember 2012 
 

 

 


 

 

 

 

 

 

 

 

Aftur í allar fréttir