Lág vatnsstaða í lónum stærstu vatnsaflsvirkjananna fyrir norðan og austan er ástæða þess að nær allir notendur skerðanlegrar raforku á Norður- og Austurlandi hafa frá aðfararnótt síðastliðins mánudags, 6. maí, þurft að sætta sig við skerðingu á afhendingu rafmagns. Áfram er búist við lélegum vatnsbúskap í þessum landshlutum þar sem ekki er útlit fyrir leysingu og snjóbráðnun að nokkru marki á næstunni.  Því gerir Landsnet áfram ráð fyrir skerðingum á næstu vikum til kaupenda á skerðanlegrum flutningi raforku.

Helstu notendur skerðanlegs flutnings eru rafhitaveitur og iðnfyrirtæki.  Stærsti hluti iðnfyrirtækja eru fiskvinnslufyrirtæki en raforkunotkun þeirra hefur aukist verulega á síðustu misserum vegna frekari rafvæðingar en verksmiðjurnar hafa unnið að því að hætta að mestu notkun olíu.  Frá aðfaranótt mánudags hefur samanlögð aflskerðing á Norður- og Austurlandi verið allt að 60 MW, mestmegnis á Austurlandi, en það er u.þ.b. þriðjungur af heildaraflþörf dreifiveitna á þessum svæðum. Fyrirséð er að raforkunotkun fiskvinnslufyrirtækja muni aukast enn frekar til lengri tíma litið en erfitt verður á næstu árum að anna þeirri notkun á mestu álagstímum og/eða þegar flytja þarf mikið rafmagns milli landshluta. 

Til að anna afhendingu forgangsorku fyrir norðan og austan er flutningsgeta Byggðalínunnar nýtt til fulls.  Jafnframt hefur Landsnet gripið til þess ráðs að fresta tímabundið öllum viðhaldsverkefnum sem fyrirhuguð voru á raforkukerfinu í þessum mánuði, til að tryggja full afköst kerfisins og þar með afhendingaröryggi forgangsorku á þessum landsvæðum. Vegna mjög takmarkaðrar flutningsgetu Byggðalínunnar er hins vegar lítið svigrúm til að bregðast við með umfangsmiklum raforkuflutningum milli landshluta þótt orkan sé vissulega til staðar.  Landsnet hefur undanfarin ár unnið að undirbúningi styrkingar flutningskerfisins en slíkt tekur langan tíma.  Staðan sem nú hefur komið upp sýnir vel hve mikilvægt er að hraða slíkum aðgerðum eins og kostur er.

Um raforkunotkun á Íslandi
Raforkunotkun á Íslandi skiptist á milli stórnotkunar (80%) og  almennrar notkunar (20%).  Hluti notkunar er skerðanleg en það þýðir að Landsnet hefur heimild til að skerða þá notkun að fullu, til dæmis ef erfiðleikar koma upp vegna flutningstakmarkana í flutnings­ eða dreifikerfum raforku. 


Aftur í allar fréttir