Dagana 23.–27. júní 2025 vorum við gestgjafar fyrir fund vinnuhóps 10 innan IEC TC57, sem vinnur að þróun alþjóðlega staðalsins IEC 61850 – lykilstaðals í stafrænum tengivirkjum og snjallnetsvirkni í raforkukerfum.
Fundurinn fór fram á Gylfaflötinni og sóttu hann nær 50 sérfræðingar víðsvegar að úr heiminum. Áhersla fundarins var á áframhaldandi betrumbætur og framþróun staðalsins sem er meðal mikilvægari drifkrafta í stafrænni umbreytingu orkuiðnaðarins á heimsvísu.
„IEC 61850 er ekki aðeins tæknilegur staðall heldur líka hugmyndafræði um stafræna, sveigjanlega og sjálfvirka orkuinnviði framtíðarinnar. Landsnet nýtir staðalinn í öllum nýjum stafrænum tengivirkjum og er stolt af því að vera meðal þeirra fremstu á heimsvísu í innleiðingu hans. Það er því mikill heiður að fá að bjóða öllum þessum sérfræðinga hingað til Íslands til að vinna saman að framtíðarþróun“ segir Birkir Heimisson, sérfræðingur stafrænna kerfa hjá Landsneti.
Um IEC 61850
IEC 61850 er alþjóðlegur staðall frá International Electrotechnical Commission (IEC) sem býr til sameiginlegt “tungumál” fyrir stafrænan samskiptabúnað í raforkukerfinu, þannig að tæki frá mismunandi framleiðendum geti talað saman sjálfvirkt og áreiðanlega. Með því að skilgreina stöðluð gagnamódel og skjótar samskiptastaðla verða orkukerfi betri, öruggari og sveigjanlegri.