Stjórn Landsnets hefur samþykkt að Holtavörðuheiðarlína 3 verði lögð um svokallaða byggðaleið.
Ákvörðunin byggir á ítarlegri greiningu á öryggi, hagkvæmni, umhverfisáhrifum og samfélagslegum þáttum, auk umsagna á umhverfismatsskýrslu og niðurstaðna úr áliti Skipulagsstofnunar sem birt var 26. ágúst síðastliðinn.
Byggðaleiðin fellur að stefnumörkun stjórnvalda um lagningu raflína þar sem hún nýtir núverandi línugötu og liggur utan marka miðhálendis. Þá er leiðin talin skapa fleiri tækifæri fyrir nærliggjandi byggðir vegna nálægðar við samfélögin.

Línan verður byggð í áföngum. Fyrsti áfanginn nær frá Blöndu að tengivirkinu við Laxárvatn og verður tekinn í rekstur þegar hann er tilbúinn. Í framhaldinu verður línan byggð áfram að tengivirki á Holtavörðuheiði.
Í kjölfar ákvörðunarinnar verður haft samband við sveitarfélög og landeigendur á svæðinu um næstu skref verkefnisins.
Holtavörðuheiðarlína 3 er hluti af nýrri kynslóð flutningslína sem mun styrkja raforkukerfið á Norðurlandi, auka afhendingaröryggi og tengja landshluta betur saman í þágu samfélags og atvinnulífs.
Nánari upplýsingar um framkvæmdina er að finna á framkvæmdasíðu verkefnisins.