Byggðaleiðin: Ákvörðun sem mótar framtíðina


22.01.2026

Framkvæmd

Flutningskerfi raforku heldur samfélaginu gangandi. Það tryggir að heimili, fyrirtæki og stofnanir um allt land hafi öruggt aðgengi að rafmagni og þess vegna skiptir miklu máli að byggja kerfið upp og þróa áfram; það snýst um bæði orkuöryggi og öryggi þjóðarinnar. Núverandi byggðalína er komin til ára sinna og er flutningur raforku um hana háður miklum takmörkunum. Svigrúm til tengingar nýrra notenda eða framleiðslueininga er nánast ekkert.

Holtavörðuheiðarlína 3, sem mun liggja á milli Holtavörðuheiðar og Blöndustöðvar, er hluti af nýrri kynslóð byggðalínu. Hún mun auka öryggi og afhendingargetu rafmagns á svæðinu og opna á tækifæri til nýrrar atvinnuuppbyggingar sem reiðir sig á raforku. Þá mun línan tryggja sterkari samtengingu milli landshluta og skilvirkari nýtingu orkuauðlinda.

Hverju þurfum við að fylgja þegar leið er valin?

Ákvörðun um hvaða leið skuli velja fyrir línuna byggir á fjölmörgum þáttum þar sem takast á tæknileg og rekstrarleg sjónarmið, áhrif á umhverfi og samfélag, landnotkun, kostnaður og öryggi. Að auki spilar afstaða Skipulagsstofnunar á áliti á umhverfismati, leyfisveitingar, umsagnir, stefna stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfsins og ábatagreiningar inn í ákvörðunartökuna.

Umhverfismat fyrir framkvæmdina hefur farið fram þar sem lagðar voru til tvær leiðir: byggðaleið og heiðarleið. Niðurstöður umhverfismats sýna að byggðaleiðin kemur betur út, einkum þegar litið er til gróðurs, vistgerða, víðerna og náttúruverndar.

Í ljósi niðurstaðna umhverfismats ásamt greiningum á þeim þáttum sem taldir eru upp hér ofar, þá er það ákvörðun Landsnets að fara byggðaleiðina.

Landsnet starfar samkvæmt raforkulögum en einnig er horft til stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis og lagningu raflína. Þar kemur meðal annars fram að:

  • Leitast skal við að halda línugötum í lágmarki,
  • Ekki skuli leggja háspennulínur yfir hálendið,
  • Byggja skuli flutningskerfið upp með hagkvæmum hætti,
  • Forðast skuli rask á svæðum sem njóta sérstakrar verndar.

     

Aukin tækifæri fyrir svæðið

Með því að staðsetja nýja byggðalínu meðfram núverandi línu og þéttbýli á svæðinu er verið að tryggja að nauðsynlegir orkuinnviðir séu til staðar sem styðja við áframhaldandi uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu til lengri tíma.

Ákveðið hefur verið að skipta byggingu Holtavörðuheiðarlínu 3 upp í tvo áfanga. Byrjað verður á að tengja Blöndustöð við tengivirki við Laxárvatn í Húnabyggð og eykst með því geta okkar til að afhenda raforku um allt Norðurland vestra, þ.e. í Húnaþing vestra, Húnabyggð, Sveitarfélagið Skagaströnd og Skagafjörð. Þetta mun fjölga tækifærum til atvinnuuppbyggingar sem reiðir sig á raforku. Fullur ávinningur næst þó ekki fyrr en síðari hluti línunnar verður einnig kominn í rekstur.

Núverandi byggðalína mun halda áfram að gegna lykilhlutverki fyrir afhendingaröryggi og tvítengingu Norðurlands vestra við Blöndusvæðið.

Hvers vegna að skipta línunni upp í áfanga?

Í umhverfismati kemur fram að stofnkostnaður vegna byggðaleiðar sé hærri en vegna heiðarleiðar. Rekstrarhagkvæmni sem felst í því að áfangaskipta byggðaleiðinni vegur þó upp þann mun og samræmist þar stefnu stjórnvalda um hagkvæma uppbyggingu flutningskerfisins.

Helstu kostir áfangaskiptingar eru þeir að:

  • Tækifæri til atvinnuuppbyggingar á Norðurlandi vestra aukast strax með fyrsta áfanga en fullur ábati næst þegar línan er öll tilbúin.
  • Flutningur orku eykst strax með tengingu Blöndustöðvar og Laxárvatns, sem dregur úr gjaldskrárhækkunum.
  • Minni líkur eru á skerðingum raforku sem hefur jákvæðar fjárhagslegar forsendur fyrir Landsnet og fyrirtæki.
  • Hluti línunnar verður eignfærður fyrr, sem stuðlar að stöðugri gjaldskrá.

 

Hvað er fram undan?

Við hjá Landsneti höfum lagt mikla áherslu á samtal við hagaðila á öllum stigum málsins og átt gott samtal við sveitarfélögin og nærsamfélagið frá því að verkefnið hófst. Það samtal heldur áfram í tengslum við þau verkefni sem fram undan eru, s.s. skipulagsvinnu og vegna framkvæmdaleyfis.

Í kjölfar þess að ákvörðun er tekin um línuleið hefst samtal við hvern og einn landeiganda um það hvernig framkvæmdin muni snerta viðkomandi jörð. Í þeim samtölum fást oft gagnlegar upplýsingar og ábendingar um t.d. legu vinnuslóða sem leggja þarf meðfram háspennulínum. Í framhaldinu hefjast svo samningaviðræður um landbætur.

Af hverju færist Holtavörðuheiðarlína 1 aftar í forgangsröð?

Í nýrri framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar 2026–2028 hefur forgangsröðun framkvæmda verið breytt. Þar er gert ráð fyrir að við byggjum ekki fleiri en eina stóra flutningslínu í einu, meðal annars til að draga úr áhrifum umfangsmikilla framkvæmda á gjaldskrá raforkuflutnings. Helsta breytingin er sú að farið verður í uppbyggingu Holtavörðuheiðarlína 3 á undan Holtavörðuheiðarlínu 1. Holtavörðuheiðarlína 3 er sett í forgang vegna þess að línan leysir stærstu takmarkanirnar í flutningskerfinu í dag sem hafa áhrif á afhendingargetu kerfisins inn á Norðurland vestra, Vestfirði en einnig inn á Austurland.

Hér geturðu skoðað vefsjá Holtavörðuheiðarlínu 3.

 

 

Anna Sigga Lúðvíksdóttir, Guðrún Margrét Jónsdóttir og Valgerður Freyja Ágústsdóttir
Verkefnastjórar og sérfræðingar hjá Landsneti

Aftur í allar fréttir