Framkvæmd

Landsnet og SNERPA Power skrifuðu á dögunum undir viljayfirlýsingu um að fara í tilraunaverkefni sem  miðar að því auka aðgengi stórnotenda að reglunaraflsmarkaði Landsnets og auðvelda þátttöku þeirra á markaði. SNERPA Power er að þróa hugbúnaðarlausn sem tengir stórnotendur með sjálfvirkum hætti við markaðinn í gegnum gagnatorg Landsnets og sjálfvirknivæðir ferla fyrir álagsáætlanir og tilboðsgerð.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir verkefnið spennandi og falli vel að stefnu Landsnets um þróun á virkum raforkumarkaði. 

„Við hjá Landsneti erum spennt fyrir samstarfinu við SNERPA Power. Allar okkar áherslur hjá Landsneti miða að því að skapa samfélaginu, viðskiptavinum og eigendum okkar virði með tryggu afhendingaröryggi, hagkvæmum rekstri flutningskerfisins og bestun nýtingar á raforku.  Samstarfsverkefnið með SNERPA Power fellur vel að þessum áherslum og býður upp á möguleika að nýta betur raforkuauðlindirnar okkar og um leiða að auka samkeppni á markaði.“

Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri SNERPA Power, segir að Landsnet sé afar mikilvægur samstarfsaðili í þróun og rekstri hugbúnaðarins.

„Við hlökkum til samstarfsins við Landsnet en það er okkur mjög mikilvægt á þessu stigi verkefnis til að eyða áhættum og leita lausna í upphafi sem má heimfæra fyrir fleiri en einn stórnotanda. Örugg tenging við markað Landsnets er lykilþáttur í að raungera áætlanir SNERPA Power og mikilvæg forsenda bættrar nýtingar raforkuauðlinda og samkeppnishæfni raforkumarkaðar á Íslandi. Við viljum með þessu virkja stórnotendur til þátttöku á markaði og stuðla að grænu hagkerfi.“

Nánari upplýsingar um SNERPA Power má finna hér www.snerpapower.com  

Nánari upplýsingar um samstarfið gefa Þorvaldur Jacobsen framkvæmdastjóri kerfisstjórnunarsviðs Landsnets í síma 686 9111 , thorvaldur@landsnet.is og Íris Baldursdóttir, framkvæmdastjóri SNERPA Power í síma 856 9312, iris@snerpapower.com.

Aftur í allar fréttir