Síðasti fundurinn í fundaröð Landsnets um flutningskerfi framtíðarinnar fór fram í morgun í Vox Club á Hilton Reykjavík Nordica.
Áhersla fundarins var skýr: Sterkt flutningskerfi er forsenda þess að Ísland geti nýtt þau tækifæri sem felast í orkuskiptum, nýsköpun og atvinnuuppbyggingu – og komist hjá því að missa af dýrmætum fjárfestingum og þróun vegna takmarkaðrar flutningsgetu.
120 milljarðar og skýr framtíðarsýn
Kerfisáætlunin gerir ráð fyrir 120 milljarða fjárfestingum næstu þrjú ár. Um er að ræða þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir sem snerta afhendingaröryggi, tvítengingu afhendingarstaða og stuðning við nýja stórnotendur og græna orkuvinnslu.
Ný raforkuspá Landsnets bendir til þess að raforkunotkun á Íslandi gæti tvöfaldast fyrir árið 2050. Til að mæta þeirri þróun þarf að ráðast í víðtæka styrkingu flutningskerfisins.
„Ef við bregðumst ekki við með uppbyggingu, eigum við á hættu að glata verðmætum tækifærum – ekki vegna skorts á vilja, heldur vegna skorts á flutningsgetu,“ sagði Svandís Hlín Karlsdóttir, framkvæmdastjóri viðskipta- og kerfisþróunar.
Áætlunin er í kynningu – komið að samfélaginu!
Kerfisáætlun Landsnets 2025–2034 er nú í opinni kynningu á landsnet.is/kerfisaaetlun og í Skipulagsgáttinni. Hvetjum við alla sem láta sig málið varða til að kynna sér efnið og skila inn umsögn fyrir 7. júní.